Ferill 125. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 239  —  125. mál.
Svar


sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við fyrirspurn frá Hönnu Katrínu Friðriksson um eignarhald 20 stærstu útgerðarfélaga landsins í íslensku atvinnulífi.


     1.      Hvað lá að baki þeirri ákvörðun að fella út upplýsingar um fjárfestingar hvers útgerðarfélags og tengdra félaga, sem finna mátti í skýrsludrögum sem ríkisskattstjóri sendi atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu í júlí sl., úr skýrslu um eignarhald 20 stærstu útgerðarfélaga landsins í íslensku atvinnulífi áður en hún var lögð fyrir Alþingi (sbr. 423. mál 151. löggjafarþings)? Hvers vegna skilaði þáverandi ráðherra skýrslunni í þeirri mynd enda þótt í greinargerð skýrslubeiðninnar væri tekið fram að mikilvægt væri að taka saman upplýsingar um eignarhluti 20 stærstu útgerðarfélaganna og tengdra aðila í óskyldum atvinnurekstri með greiningu á fjárfestingum þeirra?
    Skýrslan sem spurt er um var unnin í tíð fyrrverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Af því leiðir að núverandi ráðherra getur ekki svarað fyrir ákvarðanir sem teknar voru um framsetningu svara í skýrslunni.
    Þó má benda á að upplýsingar um fjárfestingar hvers félags og tengdra félaga koma fram í skýrslunni. Þar eru þær teknar saman sem ein stærð í yfirliti yfir hvert félag um sig.

     2.      Á grundvelli hvaða ráðgjafar taldi þáverandi ráðherra sér óheimilt að birta hluta umbeðinna upplýsinga? Er ráðherra sammála því mati?
    Líkt og segir í svari við 1. tölul. fyrirspurnar var skýrslan sem spurt er um unnin í tíð fyrrverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Af því leiðir að núverandi ráðherra getur ekki svarað fyrir ákvarðanir sem teknar voru um framsetningu svara í skýrslunni, líkt og komið hefur fram, en einnig að núverandi ráðherra er ókleift að svara fyrir það á grundvelli hvaða ráðgjafar fyrrverandi ráðherra taldi sér óheimilt að birta hluta umbeðinna upplýsinga. Ráðherra getur þar af leiðandi ekki heldur sagt til um hvort hann sé sammála mati fyrrverandi ráðherra á þessu atriði.
    Í þessu samhengi skiptir máli að nefna að meðal verkefna í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur er að skipuð verði nefnd til að kortleggja áskoranir og tækifæri í sjávarútvegi og tengdum greinum og að sú nefnd skuli einnig fjalla um hvernig hægt sé að auka gegnsæi í rekstri fyrirtækja í sjávarútvegi, þá sérstaklega meðal stærstu fyrirtækja landsins.

     3.      Hvað skýrir hinar miklu tafir sem urðu á birtingu skýrslunnar frá því að samþykkt var að afmarka frekar tímamörk skýrslubeiðninnar?
    Í skýrslunni er gerð grein fyrir tímalínunni við undirbúning hennar. Svo sem þar greinir var Alþingi ritað bréf hinn 23. febrúar sl. og hvatt til þess, með hliðsjón af áliti Skattsins (ársreikningaskrár), að skýrslubeiðni yrði afmörkuð með öðrum hætti. Á það var fallist með bréfi forseta Alþingis til ráðuneytisins, að höfðu samráði við skýrslubeiðendur, dags. 15. mars. sl. Með bréfinu var þannig fallist á að breyta tímaafmörkun athugunar í skýrslunni þannig að hún næði til áranna 2016–2019 í stað þess að ná til næstliðinna tíu ára. Með bréfi dags. 23. mars sl. upplýsti ráðuneytið Alþingi um að Skatturinn hefði fallist á að vinna skýrsluna með þessari breyttu afmörkun og að stefnt væri að því að hún yrði tilbúin í maí. Svo sem síðan segir í skýrslunni hófst í framhaldi vinna við undirbúning skýrslunnar hjá Skattinum (ársreikningaskrá).
    Með bréfi dags. 9. júní sl. var Alþingi upplýst um stöðu vinnunnar við undirbúning skýrslunnar. Skýrslan var svo send Alþingi 13. ágúst 2021.