Ferill 114. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 250  —  114. mál.
Svar


félagsmála- og vinnumarkaðsráðherra við fyrirspurn frá Andrési Inga Jónssyni um búningsaðstöðu og salerni.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hvað líður vinnu við endurskoðun á lögum, reglugerðum og reglum í tengslum við búningsaðstöðu og salerni á vinnustöðum, með tilliti til laga um kynrænt sjálfræði, sem boðuð var í svari við fyrirspurn á 150. löggjafarþingi (þskj. 1422, 729. mál)?

    Hvað varðar lög, reglugerðir og reglur í tengslum við búningsaðstöðu og salerni á vinnustöðum falla reglur nr. 581/1995, um húsnæði vinnustaða, undir málefnasvið félagsmála- og vinnumarkaðsráðherra. Samkvæmt fyrrnefndum reglum skal tryggja lágmarksfjölda salerna og snyrtinga fyrir konur annars vegar og karla hins vegar í þeim tilvikum þegar starfsmannafjöldi er að staðaldri meiri en fimm karlar og fimm konur, sbr. 22. gr. reglnanna.
    Í ljósi gildistöku laga nr. 80/2019, um kynrænt sjálfræði, og í ljósi þeirra breytinga sem orðið hafa á vinnumarkaði frá því að framangreindar reglur um húsnæði vinnustaða tóku gildi er vinna við endurskoðun umræddra reglna í heild sinni þegar hafin. Sú vinna er í samstarfi við Vinnueftirlitið sem annast hefur eftirlit með framkvæmd reglnanna.
    Ráðherra leggur ríka áherslu á að flýta þessari vinnu eins og kostur er og að leitað verði samráðs um breytingar á reglunum, meðal annars við samtök hinsegin fólks. Gert er ráð fyrir að slíkt samráð hefjist strax í upphafi árs 2022.