Ferill 1. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 261  —  1. mál.
3. umræða.Nefndarálit


um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2022.

Frá meiri hluta fjárlaganefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið að nýju eftir 2 umræðu og fengið fulltrúa fjármála- og efnahagsráðuneytisins á sinn fund. Breytingartillögur meiri hlutans eru bæði á tekju- og gjaldahlið frumvarpsins, auk hækkunar á lántökuheimild skv. 5. gr.
    Gerðar eru nokkrar breytingartillögur vegna tilfærslu verkefna á milli ráðuneyta í samræmi við forsetaúrskurð nr. 125/2021 frá 28. nóvember sl. Þar eru gerðar breytingar á 4. gr. fjárlaga sem sundurliðar fjárheimildir eftir málefnasviðum, málaflokkum og ráðuneytum.

Tekjur ríkissjóðs.
    Gerðar eru tvær tillögur á tekjuhlið til samræmis við breytingartillögur sem fram hafa komið frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar við 3. mál, frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna fjárlaga fyrir árið 2022. Annars vegar er 7.200 m.kr. lækkun tekna vegna virðisaukaskatts. Meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar leggur til að framlengja auknar endurgreiðslur virðisaukaskatts vegna vinnu í tengslum við byggingarframkvæmdir o.fl. Fyrirkomulagið hefur verið kallað „Allir vinna“ og var hluti af tímabundnum mótvægisráðstöfunum vegna heimsfaraldurs kórónuveiru. Ekki liggja fyrir gögn um hvaða áhrif endurgreiðslan hefur haft á innheimtu tekjuskatts. Meiri hlutinn leggur til að ráðuneytið vinni að úttekt til að meta þau áhrif.
    Hins vegar er gerð tillaga um 500 m.kr. hækkun tekna af bifreiðagjöldum í samræmi við tillögu meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar um 1.000 kr. hækkun gjaldsins.

Gjöld ríkissjóðs.
    Gerð er ein tillaga á gjaldahlið fjárlaga um 272,4 m.kr. hækkun sóknargjalda, sem leiðir af breytingartillögu meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar við 3. mál, frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna fjárlaga fyrir árið 2022. Forsendur fjárlagafrumvarps miðuðu við að sóknargjaldið yrði 985 kr. á hvern einstakling skráðan í þjóðkirkjuna, 16 ára og eldri. Nú er gert ráð fyrir að gjaldið verði tímabundið miðað við 1.107 kr. á einstakling.

Samningar um skilavegi.
    Í nefndaráliti meiri hlutans við 2. umræðu (þingskjal 210) er að finna umfjöllun um svokallaða „skilavegi“, þ.e. vegi sem færðir voru úr flokki stofnvega í sveitarfélagavegi við gildistöku vegalaga, nr. 80/2007. Með þeirri breytingu var ábyrgð á veghaldi færð frá Vegagerðinni til sveitarfélaga. Árið 2015 var Vegagerðinni veitt heimild til ársloka 2019 til að semja við sveitarfélögin um yfirfærslu veganna. Sá frestur var síðan framlengdur til ársloka 2020 og síðast til ársloka 2021. Deilt hefur verið um hvert ástand vega eigi að vera við skil til sveitarfélaga. Hefur þetta tafið fyrir tilfærslu veganna til sveitarfélaga.
    Nefndinni bárust umsagnir frá Reykjavíkurborg og Sambandi sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu þar sem áréttað var mikilvægi þess að fullnægjandi fjármagn fylgdi við yfirfærslu veganna. Í greinargerð með því frumvarpi umhverfis- og samgöngunefndar sem framlengdi frestinn til ársloka 2021, sbr. lög nr. 139/2020,  kemur fram að með þeirri framlengingu sé gert ráð fyrir að Vegagerðin muni áfram um sinn standa straum af kostnaði við veghald þessara skilavega en þó ekki lengur en til ársloka 2021. Meiri hlutinn áréttar að nýju mikilvægi þess að samningum ljúki um skil þessara vega en bendir jafnframt á að frá og með 1. janúar 2022 er það samkvæmt vegalögum, nr. 80/2007, á ábyrgð sveitarfélaga en ekki Vegagerðarinnar að annast veghald skilavega.

Breytingartillögur vegna skiptingar stjórnarmálefna milli ráðuneyta.
    Í samræmi við forsetaúrskurð nr. 125/2021, um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, færast fjárheimildir milli málaefnasviða og málaflokka í 4. gr. frumvarpsins eins og fram kemur í eftirfarandi töflu:

Málefnasvið, m.kr. 01 Forsætisráðuneyti 02 Mennta- og menningarmála-ráðuneyti 04 Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti 06 Dómsmálaráðuneyti 07 Félagsmálaráðuneyti 10 Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti 14 Umhverfis- og auðlindaráðuneyti
06 Hagskýrslugerð og grunnskrár 391,0 -391,0
    06.10 Hagskýrslugerð, grunnskrár og upplýsingamál 391,0 -391,0
07 Nýsköpun, rannsóknir og þekkingargreinar 685,0 -685,0
    07.20 Nýsköpun, samkeppni og þekkingargreinar 685,0 -685,0
08 Sveitarfélög og byggðamál 316,5 -316,5
    08.10 Framlög til sveitarfélaga 316,5 -316,5
10 Rétt. einstakl., trúmál og stjórnsýsla dómsmála -2.183,4 2.183,4
    10.50 Útlendingamál -2.183,4 2.183,4
15 Orkumál -6.122,6 6.122,6
    15.10 Stjórnun og þróun orkumála -6.122,6 6.122,6
17 Umhverfismál 3.382,1 590,5 -3.972,6
    17.10 Náttúruvernd, skógrækt og landgræðsla 3.382,1 -3.382,1
    17.50 Stjórnsýsla umhverfismála 590,5 -590,5
19 Fjölmiðlun -5.563,1 5.563,1
    19.10 Fjölmiðlun -5.563,1 5.563,1
29 Fjölskyldumál -97,5 97,5
    29.40 Annar stuðningur við fjölskyldur og börn -97 ,5 97,5
31 Húsnæðisstuðningur -10.838,1 10.838,1
    31.10 Húsnæðisstuðningur -10.838,1 10.838,1
32 Lýðheilsa og stjórnsýsla velferðarmála -2.819,8 2.819,8
    32.40 Stjórnsýsla félagsmála -2.819,8 2.819,8
Samtals -97,5 -4.780,6 2.137,6 -2.183,4 -11.474,5 14.955,9 1.442,5
    Fyrir Alþingi liggur þingsályktunartillaga um breytta skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands og stefnt er að því að 1. febrúar taki gildi nýr forsetaúrskurður um skiptingu Stjórnarráðsins í ráðuneyti, með þeim breytingartillögum sem ályktunin felur í sér. Ljóst er því að umfangsmeiri breytingar verða á skiptingu milli ráðuneyta eftir nýjan úrskurð. Gert er ráð fyrir að lagt verði fram frumvarp til fjáraukalaga í ársbyrjun þar sem ný skipting og ný ráðuneyti verði endurspegluð að fullu.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem skýrðar hafa verið og gerð er tillaga um í sérstökum þingskjölum.

Alþingi, 27. desember 2021.

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir,
form., frsm.
Haraldur Benediktsson. Vilhjálmur Árnason.
Sigþrúður Ármann. Stefán Vagn Stefánsson. Ingibjörg Isaksen.