Ferill 135. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 273  —  135. mál.




Svar


umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra við fyrirspurn frá Þorgerði K. Gunnarsdóttur um uppgræðslu á landi.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Mun ráðherra beita sér fyrir aðgerðum til að stöðva jarðvegseyðingu og til að græða upp illa farið land, m.a. vegna ofbeitar búfjár og uppblásturs, og ef svo er, hvernig og í hvaða mæli?

    Umsjón með stöðvun jarðvegseyðingar og uppgræðsla illa farins lands er einkum á hendi Landgræðslunnar í samræmi við lög um landgræðslu, nr. 155/2018, enda hlutverk stofnunarinnar að hafa eftirlit með framkvæmd laganna og annast daglega stjórnsýslu á því sviði sem lögin ná til.
    Framlag á fjárlögum til Landgræðslunnar árið 2021 var um 1.154,6 millj. kr. og því til viðbótar aflar Landgræðslan að jafnaði um 200 millj. kr. í sértekjur. Af heildarútgjöldum stofnunarinnar fara 52% til uppgræðsluaðgerða. Önnur útgjöld eru m.a. rannsóknir og þróun, rekstur fasteigna og skrifstofuhald og varnir gegn landbroti.
    Samkvæmt áætlunum Landgræðslunnar er áhersla á tvö markmið fyrir stöðvun jarðvegseyðingar og endurheimt vistkerfa:
     a.      Að auka endurheimt birkiskóga þannig að árið 2030 verði þekja þeirra 5% af flatarmáli landsins í stað 1,5% nú. Þetta verður gert í samstarfi við Skógræktina, sveitarfélög, fyrirtæki og einstaklinga.
     b.      Að þrefalda umfang árlegrar endurheimtar fyrir árið 2030 miðað við meðaltal áranna 2015.2017 en þá var meðalstærð nýrra endurheimtarsvæða 6.900 ha og umfang alls 16.780 ha.
    Aðgerðaáætlun í loftslagsmálum gerir einnig ráð fyrir að landgræðsla verði efld til að auka bindingu kolefnis úr andrúmslofti, draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá landi og efla á sama tíma lífríki. Sérstök áhersla verður lögð á aðgerðir á landi sem losar kolefni úr jarðvegi.
Áherslur í landgræðslu hafa breyst síðustu ár frá því að vera að stórum hluta notkun grasfræs og tilbúins áburðar yfir í meiri notkun á lífrænum áburði (ýmis lífrænn úrgangur, kjötmjöl, seyra o.fl.) og gróðursetningu birkis. Þetta er í samræmi við áætlun stjórnvalda frá árinu 2019 um bætta landnýtingu í þágu loftslagsmála. Þar er lögð áhersla á að stöðva losun frá landi og að tekið sé mið af lagalega bindandi alþjóðasamningum, svo sem samningi Sameinuðu þjóðanna um vernd líffræðilegrar fjölbreytni.
    Ljóst er að mikil tækifæri liggja í auknu samstarfi við bændur og sveitarfélög um stefnumörkun varðandi endurheimt landgæða. Starf Landgræðslunnar hefur þróast í þessa átt og nú fer stór hluti landgræðslustarfsins fram í samstarfsverkefnum Landgræðslunnar, Bændur græða landið og Landbótasjóði, þar sem einstaklingar, félagasamtök og sveitarfélög eru styrkt til að vinna að landgræðslu. Alls eru um 600 þátttakendur í Bændur græða landið. Á árinu 2021 var úthlutað úr Landbótasjóði rúmlega 90 millj. kr. til 96 verkefna.
    Tæplega 1/ 3 af yfirborði Íslands er með minna en 20% gróðurþekju. Því til viðbótar er talsvert eða mikið rof á ríflega 1/ 3 landsins. Á þessu landi er tækifæri til að bæta ástand vistkerfa, auka kolefnisbindingu og stöðva eyðingu jarðvegs. Mikil tækifæri felast í kolefnisbindingu og stöðvun losunar frá landi með aukinni útbreiðslu birkis og víðikjarrs. Með breytingu á landnýtingu eða landgræðsluaðgerðum sem tryggja að birki og víðir geti sáð sér og breiðst út með sjálfsáningu má þó ná mestum árangri við endurheimt birkiskóga og víðikjarrs og þar með bindingu kolefnis í gróðri og jarðvegi á stórum svæðum.