Ferill 146. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 297  —  146. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Gísla Rafni Ólafssyni um skimun fyrir leghálskrabbameini.


     1.      Hversu margar konur hafa farið í skimun fyrir leghálskrabbameini frá árinu 2015 og þar til nú, sundurliðað eftir ári?
    Myndin hér á eftir sýnir fjölda kvenna sem hafa komið í leghálsskoðun á árunum 2015–2021. Fyrri súlan sýnir fjölda skimunarsýna, þ.e. fjölda kvenna sem hafa komið einkennalausar í skimun, en seinni súlan sýnir eftirlitssýni, þ.e. fjölda kvenna sem koma í leghálsskoðun í tengslum við eftirlit vegna fyrri sögu um frumubreytingar. Rétt er að vekja athygli á því að tölur um fjölda kvenna í leghálsskoðun ná aðeins frá janúar til og með nóvember fyrir árið 2021 og gefa því ekki endanlega mynd af fjölda skoðana á árinu.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Fjöldatölur segja takmarkaða sögu um þátttöku í skimun. Þátttaka er reiknuð sem hlutfall kvenna sem mæta í skimun af þeim fjölda kvenna sem fær boð í skimun. Þetta hlutfall gefur réttari mynd af því hver þátttaka í skimuninni er frekar en hreinar fjöldatölur, sjá mynd hér á eftir. Tölur fyrir árið 2021 eru með þeim fyrirvara að ekki er hægt að reikna út þátttökuhlutfall í skimuninni fyrir 2021 fyrr en að ári loknu, þegar öll gögn liggja fyrir.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



     2.      Hver er áætlaður kostnaður ríkisins við úrvinnslu lífsýna úr leghálsskimun eftir flutning frá Íslandi?
    Í dag er öll úrvinnsla lífsýna úr leghálsskimun framkvæmd í Danmörku, en fyrirhugað er að flytja þær rannsóknir til Íslands á árinu 2022. Kostnaður heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins vegna samnings við danskan rannsóknaraðila er áætlaður um 45 millj. kr. ári 2022 og er fjárheimild fyrir þeim kostnaði í ramma heilsugæslunnar. Ekki liggur fyrir mat á kostnaði Landspítala á árinu 2022 en ráðgert er að rannsaka um helming sýnanna þar og hefur fjármagn til þess verið tryggt, að upphæð 76 millj. kr.

     3.      Hver er biðtími kvenna eftir niðurstöðum úr skimun fyrir leghálskrabbameini, bæði fyrir og eftir áðurnefndan flutning?
    Myndin sýnir meðalsvartíma frá sýnatöku og þar til svar með niðurstöðu er sent. Tekist hefur að stytta verulega þann langa svartíma sem var fram eftir ári 2021. Fyrir sýni sem tekin voru frá og með ágúst 2021 var meðalsvartíminn innan þeirra markmiða sem samhæfingarmiðstöð krabbameinsskimana setur sér. Súluritið sýnir meðalsvartíma en við þetta má bæta að 99% kvenna hafa fengið niðurstöður úr sýnatökum sínum innan 40 daga síðustu mánuði.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


     4.      Eru uppi áform af hálfu ráðherra um flutning úrvinnslu lífsýna aftur til Íslands í samráði við Landspítala?
    Staðið hefur yfir undirbúningur Landspítala við að taka yfir greiningu leghálssýna úr íslenskum konum og mun Landspítali að öllu óbreyttu hefja þessar greiningar í byrjun árs 2022. Gert er ráð fyrir að Landspítali greini u.þ.b. 50% sýna til að byrja með en smám saman muni þetta hlutfall aukast og gert er ráð fyrir að Landspítali taki að fullu við greiningum leghálssýna í síðasta lagi frá og með 1. janúar 2023.