Ferill 184. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 302  —  184. mál.
Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Diljá Mist Einarsdóttur um meðhöndlun legslímuflakks.


     1.      Hver er meðalbiðtími eftir viðtali við teymi sem sinnir legslímuflakki (endómetríósu) á Landspítala?
    Svör við 1.–3. tölul. eru byggð á ítarlegum svörum frá Kvennadeild Landspítala.
    Meðferð við legslímuflakki fer fram í fyrsta, annars og þriðja stigs þjónustu heilbrigðiskerfisins. Heimilislæknar eru oft fyrsti viðkomustaður, einnig stofur sérfræðilækna. Langflestir sjúklingar þurfa ekki sérhæfða meðferð við legslímuflakki en ef til þess kemur er beiðni send til Kvenlækningadeildar Landspítala. Oftast er fyrsta mat gert hjá lækni á Kvenlækningadeild og frekari úrræði ákveðin í kjölfar þess viðtals. Beiðnum er forgangsraðað eftir bráðleika.
     *      Meðalbiðtími eftir fyrsta viðtali við lækni á Kvenlækningadeild eru sex mánuðir en forgangsraðað er eftir bráðleika vandamálsins. Algengt er að gert sé ráð fyrir tvöföldum göngudeildartíma í fyrsta viðtal. Oft eru vandamálin flókin og margvísleg og ekki alltaf augljóst í upphafi hver meðferðin verður.
     *      Biðtími til sjúkraþjálfara í einstaklingsmeðferð er 6–8 vikur en enginn biðtími er í vatnsleikfimihóp á Grensás. Vatnsleikfimin er sérhæft hópúrræði fyrir konur með langvinna verki í grindarbotni/grindarholi. Hópurinn hittist tvisvar sinnum í viku í 45 mínútur í senn undir handleiðslu sjúkraþjálfara.
     *      Biðtími til félagsráðgjafa er oftast innan við tvær vikur.
     *      Símtölum til hjúkrunarfræðinga er svarað samdægurs alla virka daga.
     *      Biðtími til að komast að í verkjateymi Landspítala er sex mánuðir ef beiðni kemur að utan. Fyrir beiðnir sem koma innan spítala vegna erfiðra vandamála er biðtíminn yfirleitt innan við mánuður.
     *      Ekki er sálfræðingur í teyminu en sálfræðingur verkjateymis hefur sinnt hluta af hópnum.
     *      Á bið eftir framhaldsviðtali eða eftirliti hjá læknum sem sérhæfa sig í legslímuflakki eru 92 einstaklingar en ekki eru allir sjúklingarnir á biðlistanum með legslímuflakk. Eftir fyrsta viðtal er metið hvort viðkomandi þurfi á aðgerð að halda eða ekki. Ef ekki er gerð aðgerð er einstaklingsbundið mat á þörf á endurkomu til læknis eða annarra fagmanna teymisins. Í sumum tilfellum er gert ráð fyrir endurkomu innan mánaðar og hjá öðrum eftir sex mánuði, allt eftir eðli vandamálsins. Algengust er endurkoma eftir þrjá mánuði.
    Á hverjum tíma eru um 60–70 sjúklingar í virkri meðferð vegna legslímuflakks á göngudeildum ólíkra meðferðaraðila. Heildarfjöldi á biðlista eftir fyrsta viðtali í byrjun janúar 2022 eru 49 sjúklingar, þar af 13 sem hafa fengið boð í tíma einu sinni eða oftar en ekki geta þegið tímann.

     2.      Hversu langur er biðtími eftir aðgerð til meðhöndlunar á legslímuflakki eftir viðtal við teymi sem sinnir legslímuflakki á Landspítala?
    Sjúklingar koma í viðtal á göngudeild til sérfræðilæknis sem sérhæfir sig í legslímuflakki. Að þeirri komu lokinni er ákvörðun tekin um hvort þörf sé á aðgerð eða annarri meðferð. Sé þörf metin á aðgerð er sjúklingur settur á aðgerðarbiðlista.
    Aðgerðir vegna legslímuflakks eru mjög mismunandi. Sumar eru greiningarspeglanir sem taka ekki langan tíma en aðrar þurfa aðkomu reyndustu sérfræðinga og jafnvel margra sérgreina. Markmið aðgerða er að fjarlægja allar sýnilegar breytingar sem geta verið legslímuflakk. Í erfiðari tilfellum er oft fengin segulómskoðun og jafnvel ristilspeglun áður en til aðgerðar kemur. Það getur lengt biðtímann því að endanleg ákvörðun um tegund aðgerðar er jafnvel ekki tekin fyrr en niðurstöður þessara rannsókna liggja fyrir.
    Um áramót 2021/2022 eru á aðgerðarbiðlista 21 kona með aðalgreininguna legslímuflakk og ein sem er með legslímuflakk sem aukagreiningu. Samtals 22 konur bíða eftir aðgerð.
    Á tíu mánaða tímabili, frá 1. mars til 19. desember 2021, voru framkvæmdar 30 aðgerðir á Landspítala þar sem ein eða fleiri sjúkdómsgreiningar er vörðuðu legslímuflakk voru skráðar í aðgerðabeiðnina. Af þeim 30 aðgerðum var meðalbiðtími eftir aðgerð hjá sérhæfðum legslímuflakksskurðlækni 112 dagar en 122 dagar hjá öðrum skurðlæknum. Stysta biðin var tveir dagar (bráðaaðgerð) og lengsta biðin var 340 dagar en miðgildi biðtíma var 89 dagar.
    Biðlistar eftir skurðaðgerðum á Landspítala hafa lengst í COVID-19 þar sem aukið álag á gjörgæsludeildum og legudeildum hefur dregið til sín starfsfólk af skurðstofum þegar bylgjur faraldursins hafa verið í hámarki.

     3.      Hver er meðalgreiningartími á legslímuflakki?
    Samkvæmt alþjóðlegum rannsóknum er meðalgreiningartími legslímuflakks langur, allt að 7–9 ár. Nýleg grein í The New England Journal of Medicine staðfestir það þekkta vandamál innan læknisfræðinnar að sjúkdómurinn er erfiður í greiningu. 1
    Ekki eru til nýlegar íslenskar rannsóknir sem svara þessari spurningu.
    Árið 2018 skrifaði Ásdís Kristjánsdóttir BS-ritgerð við Háskóla Íslands um nýgengi, staðsetningu og meðferð legslímuflakks hérlendis á árunum 2001–2015. 2 Þar kemur fram að meðalaldur kvenna við greiningu sjúkdómsins var 34,6 ár, yngsta konan sem greindist með legslímuflakk á þeim tíma var 17 ára og sú elsta var 66 ára. Jafnframt kom fram að meirihluti (69%) þeirra sem sú rannsókn náði til greindist með vægt form sjúkdómsins.
    Kvensjúkdómalæknar hafa verið virkir í fræðslu til að ná fram vitundarvakningu um sjúkdóminn meðal heilbrigðisstarfsmanna. Þar má nefna fræðslu til skólahjúkunarfræðinga, heimilislækna og námslækna í öðrum sérgreinum. Sú fræðsla er mikilvægur liður í að stytta greiningartíma sjúkdómsins.

     4.      Hversu margar konur hér á landi hafa á undanförnum árum leitað út fyrir landsteinana í aðgerð eða meðferð við legslímuflakki?
    Samkvæmt upplýsingum frá Sjúkratryggingum Íslands (SÍ) hefur stofnunin á árunum 2018–2021 samþykkt að greiða fyrir rannsóknir eða meðferðir erlendis vegna legslímuflakks fyrir fimm sjúklinga.

     5.      Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að stytta greiningartíma á legslímuflakki og ef svo er, þá hvernig?
    Eins og fram hefur komið í svörum við fyrri töluliðm fyrirspurnar er greiningartími á legslímuflakki alla jafna langur. Þegar hefur verið kallað eftir upplýsingum frá Landspítala um hvort og þá hvernig megi stytta greiningartíma sjúkdómsins. Sé þess nokkur kostur út frá faglegum sjónarmiðum er það allra hagur að svo sé gert og mun ráðherra beita sér í því út frá ráðleggingum sérfræðinga.

     6.      Hyggst ráðherra beita sér fyrir styttingu biðtíma eftir viðtali, meðhöndlun eða aðgerð til að meðhöndla legslímuflakk og ef svo er, þá hvernig?
    Ráðherra vinnur að styttingu biðtíma innan alls heilbrigðiskerfisins, m.a. með gerð miðlægra biðlista í samræmi við stjórnarsáttmála en miðlægir biðlistar auka yfirsýn yfir bið eftir þjónustu á landsvísu og gera samvinnu mögulega um aukna áherslu á einstaka tegundir meðferða sem bið lengist eftir umfram ásættanlegan biðtíma.
    Landspítali hefur þegar útvistað fjölda aðgerða sem hægt er að gera án sjúkrahússinnlagnar. Nú er til sérstakrar skoðunar innan heilbrigðisráðuneytisins hvernig hægt er að efla þjónustu við þá einstaklinga sem glíma við legslímuflakk og verða tillögur þar að lútandi kynntar þegar þeirri vinnu er lokið.
1     www.nejm.org/doi/pdf/10.1056/NEJMra1810764?articleTools=true
2     skemman.is/bitstream/1946/30216/2/BS_AsdisKristjansdottir.pdf