Ferill 232. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 332  —  232. mál.
Stjórnarfrumvarp.Frumvarp til laga


um styrki til rekstraraðila veitingastaða sem hafa sætt takmörkunum á opnunartíma.

Frá fjármála- og efnahagsráðherra.I. KAFLI
Almenn ákvæði.
1. gr.
Gildissvið.

    Lög þessi gilda um einstaklinga og lögaðila sem stunda tekjuskattsskyldan atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi, hófu starfsemina fyrir 1. desember 2021 og bera ótakmarkaða skattskyldu hér á landi skv. 1. eða 2. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003. Lögin gilda ekki um stofnanir, byggðasamlög eða fyrirtæki í eigu ríkis eða sveitarfélaga.

2. gr.
Markmið.

    Markmið laga þessara er að stuðla að því að rekstraraðilar sem hafa orðið fyrir verulegu tekjufalli sökum takmarkana á opnunartíma veitingastaða vegna heimsfaraldurs kórónuveiru geti viðhaldið nauðsynlegri lágmarksstarfsemi á meðan áhrifa takmarkananna gætir, varðveitt viðskiptasambönd og tryggt viðbúnað þegar úr rætist.

3. gr.
Orðskýringar.

    Í lögum þessum er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
     1.      Atvinnurekstur eða sjálfstæð starfsemi: Starfsemi aðila sem greiðir laun skv. 1. eða 2. tölul. 5. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda, nr. 45/1987, og er skráður á launagreiðendaskrá eða gerði grein fyrir reiknuðu endurgjaldi í síðasta skattframtali sem hann lagði fram, svo og á virðisaukaskattsskrá.
     2.      Launamaður: Launamaður skv. 1. eða 2. tölul. 4. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda, nr. 45/1987.
     3.      Rekstraraðili: Einstaklingur eða lögaðili sem fellur undir gildissvið laga þessara skv. 1. gr.
     4.      Rekstrarkostnaður: Rekstrarkostnaður skv. 1. tölul. 31. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, að frátöldum niðurfærslum og fyrningum eigna.
     5.      Stöðugildi: Starfshlutfall sem jafngildir fullu starfi launamanns í einn mánuð.
     6.      Tekjur: Skattskyldar tekjur skv. B-lið 7. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, að frátöldum hagnaði af sölu varanlegra rekstrarfjármuna.
     7.      Veitingastaður: Veitingastaður í flokki II eða III skv. 4. gr. laga um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, nr. 85/2007.

II. KAFLI
Styrkur.
4. gr.
Skilyrði.

    Rekstraraðili sem uppfyllir öll eftirtalin skilyrði á rétt á styrk úr ríkissjóði vegna hvers almanaksmánaðar frá desember 2021 til og með mars 2022:
     1.      Hann starfrækir veitingastað sem fékk rekstrarleyfi samkvæmt lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald fyrir 1. desember 2021 og sætti takmörkun á opnunartíma í þeim almanaksmánuði sem umsókn varðar vegna opinberra sóttvarnaráðstafana skv. 2. mgr. 12. gr. sóttvarnalaga, nr. 19/1997.
     2.      Tekjur hans af veitingastað eða veitingastöðum sem sættu takmörkun skv. 1. tölul. í þeim almanaksmánuði sem umsókn varðar voru a.m.k. 20% lægri en í sama almanaksmánuði árið 2019 og tekjufallið má rekja til takmörkunar á opnunartíma skv. 1. tölul. Hafi rekstraraðilinn fengið rekstrarleyfi vegna veitingastaðar eftir upphaf sama almanaksmánaðar árið 2019 skal miðað við meðaltekjur hans af veitingastaðnum á jafn mörgum dögum og eru í þeim almanaksmánuði sem umsókn varðar frá þeim degi sem hann fékk rekstrarleyfi til loka nóvember 2021. Við sérstakar aðstæður má nota annað tímabil til viðmiðunar sýni rekstraraðili fram á að það gefi betri mynd af tekjufalli hans en viðmiðunartímabil skv. 1. og 2. málsl. Að jafnaði skal þá miðað við tekjur rekstraraðilans af veitingastöðunum í sama almanaksmánuði 2018. Hafi rekstraraðila verið ákvarðaður lokunar-, tekjufalls- eða viðspyrnustyrkur í þeim almanaksmánuði sem umsókn varðar skal hann ekki talinn til tekna í þeim mánuði við útreikning á tekjufalli samkvæmt þessu ákvæði.
     3.      Tekjur hans af veitingastað eða veitingastöðum sem sættu takmörkun skv. 1. tölul. frá 1. janúar 2021 til loka nóvember 2021 voru a.m.k. 2 millj. kr. Hafi veitingastaður fengið rekstrarleyfi eftir 1. janúar 2021 skal umreikna tekjur frá þeim degi sem hann fékk rekstrarleyfi til loka nóvember 2021 í 334 daga viðmiðunartekjur.
     4.      Hann er ekki í vanskilum með opinber gjöld, skatta og skattsektir sem komnar voru á eindaga fyrir 1. ágúst 2021 og álagðir skattar og gjöld byggjast ekki á áætlunum vegna vanskila á skattframtölum og skýrslum, þ.m.t. staðgreiðsluskilagreinum og virðisaukaskattsskýrslum, til Skattsins síðastliðin þrjú ár áður en umsókn barst eða síðan hann hóf starfsemi ef það var síðar. Að auki skal hann, eftir því sem við á og á sama tímabili, hafa staðið skil á ársreikningum samkvæmt lögum um ársreikninga og upplýst um raunverulega eigendur samkvæmt lögum um skráningu raunverulegra eigenda.
     5.      Bú hans hefur ekki verið tekið til gjaldþrotaskipta. Jafnframt skal hann ekki hafa verið tekinn til slita, nema ef slitin eru liður í samruna, skiptingu eða breytingu á rekstrarformi rekstraraðilans og fyrirhugað er að halda rekstri veitingastaðar eða veitingastaða sem umsókn varðar áfram í lögaðila sem við tekur.

5. gr.
Fjárhæð.

    Fjárhæð styrks skal vera 90% af rekstrarkostnaði rekstraraðila vegna veitingastaðar eða veitingastaða sem sættu takmörkun skv. 1. tölul. 4. gr. þann almanaksmánuð sem umsókn varðar. Styrkur getur þó aldrei numið hærri fjárhæð en sem nemur tekjufalli rekstraraðila skv. 2. tölul. 4. gr. í viðkomandi almanaksmánuði. Styrkur fyrir hvern almanaksmánuð getur jafnframt aldrei orðið hærri en:
     a.      500 þús. kr. fyrir hvert stöðugildi hjá rekstraraðila í mánuðinum hjá veitingastað eða veitingastöðum sem sættu takmörkun skv. 1. tölul. 4. gr. og ekki hærri en 2,5 millj. kr. enda sé tekjufall rekstraraðila skv. 2. tölul. 4. gr. á bilinu 20–60%.
     b.      600 þús. kr. fyrir hvert stöðugildi hjá rekstraraðila í mánuðinum hjá veitingastað eða veitingastöðum sem sættu takmörkun skv. 1. tölul. 4. gr. og ekki hærri en 3 millj. kr. enda sé tekjufall rekstraraðila skv. 2. tölul. 4. gr. meira en 60%.
    Styrkur telst til skattskyldra tekna samkvæmt lögum um tekjuskatt.

6. gr.
Umsókn.

    Umsókn um styrk skal beint til Skattsins fyrir hvern almanaksmánuð og eigi síðar en 30. júní 2022. Umsókn skal vera rafræn en að öðru leyti skal hún vera á því formi sem Skatturinn ákveður og henni skulu fylgja þau gögn sem Skatturinn áskilur.
    Rekstraraðili skal staðfesta við umsókn að hann uppfylli öll skilyrði 4. gr., að upplýsingar sem hann skilar og liggja til grundvallar ákvörðun fjárhæðar skv. 5. gr. séu réttar og að honum sé kunnugt um að það geti varðað álagi, sektum eða fangelsi að veita rangar eða ófullnægjandi upplýsingar.

7. gr.
Ákvörðun.

    Skatturinn skal afgreiða umsókn svo fljótt sem verða má og ekki síðar en tveimur mánuðum eftir að honum berst fullnægjandi umsókn.
    Við afgreiðslu umsóknar og endurskoðun ákvörðunar um styrk getur Skatturinn farið fram á að rekstraraðili sýni með rökstuðningi og gögnum fram á rétt sinn til styrks.
    Skatturinn skal endurákvarða styrk komi í ljósi að rekstraraðili hafi ekki átt rétt á styrknum eða átt rétt á hærri eða lægri styrk en honum var ákvarðaður.
    Að því leyti sem ekki er á annan veg kveðið á um í lögum þessum gilda ákvæði 94.–97. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, eftir því sem við getur átt um afgreiðslu umsókna og endurákvarðanir Skattsins.

8. gr.
Málskot.

    Stjórnvaldsákvarðanir Skattsins samkvæmt lögum þessum sæta kæru til yfirskattanefndar. Um kærufrest og málsmeðferð fer samkvæmt ákvæðum laga um yfirskattanefnd.

9. gr.
Ofgreiðsla.

    Hafi rekstraraðili fengið styrk umfram það sem hann átti rétt á ber honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd var með vöxtum skv. 4. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, frá greiðsludegi. Dráttarvextir skv. 6. gr. sömu laga leggjast á kröfu um endurgreiðslu ef hún er ekki innt af hendi innan mánaðar frá dagsetningu endurákvörðunar Skattsins.
    Hafi rekstraraðili veitt rangar eða ófullnægjandi upplýsingar um rekstrarkostnað eða upplýsingagjöf hans hefur að öðru leyti verið svo áfátt að áhrif hafi haft við ákvörðun um styrk skal Skatturinn gera honum að greiða 50% álag á kröfu um endurgreiðslu. Fella skal álagið niður ef rekstraraðili færir rök fyrir því að óviðráðanleg atvik hafi hamlað því að hann veitti réttar upplýsingar eða kæmi leiðréttingu á framfæri við Skattinn. Telji Skatturinn að háttsemi rekstraraðila geti varðað sektum eða fangelsi skal hann ekki gera honum að greiða álag heldur kæra málið til lögreglu.
    Ákvarðanir Skattsins og úrskurðir yfirskattanefndar um endurgreiðslur ofgreiddra styrkja eru aðfararhæfir. Kæra til yfirskattanefndar eða málshöfðun fyrir dómstólum frestar aðför.

III. KAFLI
Ýmis ákvæði.
10. gr.
Hámarksstuðningur við tengda aðila.

    Heildarfjárhæð stuðnings til tengdra rekstraraðila getur að hámarki numið 330 millj. kr., að meðtöldum stuðningi samkvæmt lögum þessum og lögum um ferðagjöf, lokunarstyrkjum fyrir lokunartímabil eftir 17. september 2020 samkvæmt lögum um fjárstuðning til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru, tekjufallsstyrkjum samkvæmt lögum um tekjufallsstyrki og viðspyrnustyrkjum samkvæmt lögum um viðspyrnustyrki.
    Sé um að ræða fyrirtæki sem töldust í erfiðleikum 31. desember 2019, önnur en lítil fyrirtæki sem ekki hafa hlotið björgunar- eða endurskipulagningaraðstoð, getur heildarfjárhæð styrkja til tengdra rekstraraðila þó að hámarki numið 30 millj. kr. Skal slík aðstoð samrýmast reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 1407/2013 frá 18. desember 2013 um beitingu 107. og 108. gr. sáttmálans um starfshætti Evrópusambandsins gagnvart minniháttaraðstoð eins og hún var tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið.

11. gr.
Birting upplýsinga.

    Skatturinn skal birta opinberlega upplýsingar um hvaða lögaðilum hefur verið ákvarðaður styrkur samkvæmt lögum þessum. Birta skal upplýsingar um alla styrkþega og fjárhæð styrkja nemi þeir jafnvirði 100 þús. evra eða meira.

12. gr.
Viðurlög.

    Einstaklingur eða lögaðili sem brýtur af ásetningi eða stórfelldu gáleysi gegn lögum þessum, svo sem með því að veita rangar eða ófullnægjandi upplýsingar í umsókn um styrk, skal sæta sektum eða fangelsi allt að sex árum nema brot megi teljast minni háttar.

13. gr.
Reglugerðarheimild.

    Ráðherra getur kveðið nánar á um framkvæmd laga þessara í reglugerð.

14. gr.
Gildistaka.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarpið er samið í fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Það er liður í aðgerðum ríkisstjórnarinnar til að draga úr tjóni vegna heimsfaraldurs kórónuveiru og skapa öfluga viðspyrnu í kjölfar hans.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Þær sóttvarnaaðgerðir sem gripið hefur verið til frá miðjum nóvember hafa ekki síst haft áhrif á rekstur veitingaþjónustu. Innlendar takmarkanir leggjast þar við minni eftirspurn af hálfu ferðamanna, en árið 2019 var erlend velta um þriðjungur heildarveltu greiðslukorta hjá fyrirtækjum í veitingarekstri. Frá því að faraldurinn hófst og fram að hausti 2021 hefur velta dregist saman um 45 milljarða kr. hjá fyrirtækjum í veitingarekstri samanborið við sömu mánuði ársins 2019. Samsvarar það nærri 30% samdrætti sem er talsvert meiri en í viðskiptahagkerfinu í heild en nokkuð minni en í menningargreinum og í ferðaþjónustu í heild. Áhrif faraldursins og sóttvarnartakmarkana hafa þó verið mjög ólík eftir tegundum veitingaþjónustu. Ljóst er að áhrifin eru lítil eða jafnvel jákvæð hjá stærri skyndibitastöðum en því mun meiri sem tekjur fyrirtækja byggja á sölu áfengis, ekki síst seint um kvöld og um nætur.
    Úrræði stjórnvalda vegna faraldursins hafa nýst fyrirtækjum í veitingarekstri vel en alls hefur greinin fengið 11 milljarða kr. stuðning frá hinu opinbera til að standa undir rekstrarkostnaði auk þess sem hún hefur nýtt sér ríkistryggð lán og skattfrestanir. Þannig hafa fyrirtæki í greininni fengið tekjufalls- og viðspyrnustyrki fyrir vel yfir 3 milljarða kr. en hægt var að sækja um viðspyrnustyrki til 31. desember 2021 vegna tekjufalls út nóvember. Þau hafa fengið um 5,5 milljarða kr. vegna atvinnuleysisbóta í skertu starfshlutfalli og um 0,6 milljarða kr. í ráðningastyrki. Á tímabili hlutabótaúrræðisins voru að jafnaði 1.250 einstaklingar í atvinnugreininni á hlutabótum í hverjum mánuði eða fimmtungur allra á hlutabótum. Í kjölfarið hafa fyrirtæki í veitingarekstri ráðið 740 einstaklinga af atvinnuleysisskrá með ráðningastyrk. Þar með stendur atvinnugreinin fyrir ríflega 10% allra ráðninga í gegnum átakið Hefjum störf.
    Aðilar í veitingarekstri hafa fengið ríkistryggð lán fyrir ríflega 2 milljarða kr. Þá var helmingi ferðagjafar stjórnvalda varið hjá rekstraraðilum í greininni, eða 1 milljarði kr. Þessir rekstraraðilar hafa einnig nýtt fleiri úrræði, svo sem greiðslu hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti, greiðslu vegna launa einstaklinga sem sæta sóttkví og frestun skattgreiðslna. Í þessum geira hafa aðeins krár og skemmtistaðir átt rétt á lokunarstyrkjum. Lokunarstyrkir til greinarinnar námu 0,6 milljörðum kr. til 57 kráa og skemmtistaða. Samhliða því sem dregið var úr samgöngutakmörkunum og ótti við faraldurinn minnkaði dró úr stuðningi stjórnvalda við greinina enda hófst öflugur efnahagsbati síðasta sumar. Af þessum sökum hafa flest efnahagsúrræði stjórnvalda runnið sitt skeið.
    Hinn 25. júní 2021 kynnti ríkisstjórnin að ákveðið hefði verið að fella úr gildi allar takmarkanir á samkomum innanlands. Í því fólst meðal annars að opnunartími veitingastaða var ekki háður öðrum takmörkunum en almennt giltu áður en heimsfaraldurinn skall á. Í kjölfar mikillar fjölgunar smita var ákveðið að grípa aftur til samkomutakmarkana sem tóku gildi 25. júlí 2021. Opnunartími veitingastaða, þar sem heimilaðar eru áfengisveitingar og rekstur spilasala og spilakassa, var þá skertur á ný. Frá þeim degi máttu umræddir aðilar ekki hleypa inn nýjum viðskiptavinum eftir kl. 23:00 og þeim gert að rýma eigi síðar en á miðnætti. Þá máttu gestir að hámarki vera 100 í rými og vínveitingar skyldu bornar fram til sitjandi gesta. Hámarksfjöldi gesta í rými var hækkaður í 200 manns frá og með 28. ágúst 2021 og aftur í 500 manns frá og með 15. september auk þess sem opnunartíminn var lengdur um klukkustund.
    Slakað var á sóttvarnatakmörkunum hinn 20. október 2021 með því að falla frá sérstökum fjöldatakmörkunum í rými fyrir umrædda aðila og lengja opnunartímann aftur um klukkustund. Aftur var hert á takmörkunum frá og með 10. nóvember 2021, opnunartíminn styttur um tvær klukkustundir og hámarksfjöldi gesta lækkaður í 500 manns. Þremur dögum síðar, 13. nóvember, var opnunartíminn styttur aftur um eina klukkustund. Hert var enn frekar á takmörkunum hinn 23. desember 2021. Almennar fjöldatakmarkanir voru þá 20 manns, börn þar ekki undanskilin, og veitingastöðum og öðrum stöðum þar sem áfengisveitingar eru heimilar gert óheimilt að hleypa inn nýjum viðskiptavinum eftir kl. 21:00 og þeim gert að rýma staðinn hið síðasta kl. 22:00. Heilbrigðisráðherra ákvað þó að veita veitingastöðum tímabundið undanþágu frá fjöldatakmörkunum 23. desember 2021 og máttu þeir þann daginn taka á móti 50 gestum í stað 20. Hinn 14. janúar 2022 birti heilbrigðisráðherra svo reglugerð nr. 16/2022, um takmörkun á samkomum vegna farsóttar, og tók hún gildi 15. janúar 2022. Almennar fjöldatakmarkanir voru lækkaðar í 10 manns og skemmtistöðum og krám gert að loka. Öðrum veitingastöðum þar sem heimilaðar eru áfengisveitingar var heimilt að taka á móti 20 manns í rými og var einungis heimilt að bera vínveitingar fram til sitjandi gesta. Áfram var heimilað að hafa staðina opna til kl. 21.00 og allir viðskiptavinir áttu að hafa yfirgefið staðina kl. 22.00. Umræddar takmarkanir voru enn í gildi þegar frumvarpið var lagt fram.
    Á móti þeim áhrifum á greinina sem stafa af færri ferðamönnum og sóttvarnatakmörkunum vegur að innlend eftirspurn hjá rekstraraðilum í veitingarekstri hefur verið mikil. Á árinu 2021 var eyðsla Íslendinga í veitingar hérlendis nær 10% meiri að raunvirði en árið 2019. Í heild var greiðslukortavelta innlendra og erlendra korta 7% hærri að raunvirði í júlí sl. þegar allar takmarkanir voru felldar úr gildi. Takmarkanir voru síðan hertar og greiðslukortavelta í ágúst var 7% minni en á sama tíma 2019. Veltan var með ágætu móti í september og enn meiri, eða 17% hærri, í október þegar opnunartíminn var lengdur til miðnættis. Samhliða hertum takmörkunum í nóvember sl. varð velta 4% lægri en á sama tíma árið 2019 og 2% lægri í desember. Í raun drógust umsvif mest saman í nóvembermánuði hjá rekstraraðilum í veitingarekstri og menningargreinum ef leiðrétt er fyrir árstíðasveiflu. Af framangreindu má ljóst vera að sóttvarnaaðgerðir síðla árs 2021 hafa haft áhrif á tekjur rekstraraðila í veitingarekstri. Innlend eftirspurn er mikil en vegna takmarkana stjórnvalda á starfsemi aðila í greininni verður tekjuöflun minni, sérstaklega hjá þeim aðilum sem afla gjarnan meginþorra tekna seinna á kvöldin.
    Í fjárlögum fyrir árið 2022 er gert ráð fyrir 1.000 millj. kr. framlagi í styrki til þeirra rekstraraðila í veitingaþjónustu sem orðið hafa fyrir mestum áhrifum af sóttvarnaráðstöfunum. Í áliti meiri hluta fjárlaganefndar við frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2022 (1. mál á 152. löggjafarþingi) kemur fram að umgjörð styrkjanna muni byggjast eftir því sem kostur er á fyrri úrræðum stjórnvalda. Umgjörð styrkjanna er efni þessa frumvarps. Í 6. kafla er fjallað um áhrif þess á ríkissjóð og þar kemur fram að heildaráhrifin geti orðið allt að 3 milljörðum kr.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Með frumvarpinu er lagt til nýtt stuðningsúrræði til að koma til móts við vanda aðila í veitingarekstri sem hafa orðið fyrir verulegu tekjufalli sökum takmarkana á opnunartíma sem gripið var til vegna kórónuveirufaraldursins á síðari hluta ársins 2021 og í ársbyrjun 2022.
Lagt er til að stuðningurinn felist í beinum styrkjum úr ríkissjóði til þeirra rekstraraðila sem hafa veitingaleyfi í flokki II og III skv. 4. gr. laga um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, nr. 85/2007, og sættu takmörkunum á opnunartíma í þeim almanaksmánuði sem umsókn varðar vegna opinberra sóttvarnaráðstafana skv. 2. mgr. 12. gr. sóttvarnalaga, nr. 19/1997.
    Þau skilyrði sem uppfylla þarf að auki er að rekstraraðili hafi orðið fyrir minnst 20% tekjufalli í hverjum almanaksmánuði á tímabilinu frá desember 2021 til og með mars 2022, samanborið við sama almanaksmánuð árið 2019, eða eftir atvikum annað viðmiðunartímabil, vegna takmarkana á opnunartíma. Lagt er til að umsækjendur þurfi að uppfylla skilyrði um skattskyldu á Íslandi, lágmarksstarfsemi, skilvísi á opinberum gjöldum og gögnum til Skattsins og áframhaldandi rekstur. Styrkurinn geti numið allt að 90% af rekstrarkostnaði. Hann geti þó ekki orðið hærri en sem nemur tekjufallinu í viðkomandi mánuði vegna takmarkana á opnunartíma. Hann verði jafnframt ekki hærri en 500 þús. kr. fyrir hvert stöðugildi hjá rekstraraðila og að hámarki 2,5 millj. kr. á mánuði ef tekjufall rekstraraðila var á bilinu 20–60% en 600 þús. kr. fyrir hvert stöðugildi hjá rekstraraðila og að hámarki 3 millj. kr. á mánuði ef tekjufall rekstraraðila var meira en 60%.
    Lagt er til að bæði umsóknar- og ákvörðunarferli vegna styrkjanna verði rafrænt og að framkvæmdin verði falin Skattinum. Sótt verði um styrk fyrir einn mánuð í senn og að allra síðasti umsóknardagur um styrkina verði 30. júní 2022. Jafnframt er lagt til að ákvarðanir Skattsins sæti kæru til yfirskattanefndar.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Frumvarpið er ekki talið gefa tilefni til að kanna samræmi við stjórnarskrá.
    Samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið bannar að meginreglu til ríkisaðstoð sem raskar eða er til þess fallin að raska samkeppni með því að ívilna ákveðnum fyrirtækjum eða framleiðslu ákveðinnar vöru að því leyti sem hún hefur áhrif á viðskipti milli samningsaðila. Sú aðstoð sem frumvarpið gerir ráð fyrir fellur undir tímabundnar heimildir til að veita fyrirtækjum sem lenda í ófyrirséðum lausafjárskorti sökum kórónuveirufaraldursins fjárstuðning. Heimildir sem settar eru fram í kafla 3.1 í orðsendingu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um tímabundinn ramma um ríkisaðstoð til stuðnings hagkerfinu vegna yfirstandandi COVID-19-heimsfaraldurs, frá 19. mars 2020, eins og þeim var breytt með orðsendingu framkvæmdastjórnarinnar frá 18. nóvember 2021, kveða á um að stuðningur geti talist samrýmanlegur EES-samningnum enda nemi hann að hámarki 2,3 millj. evrum fyrir hvern rekstraraðila, sem er rúmlega 330 millj. kr. miðað við gengið eins og það var skráð í byrjun árs 2022. Slíka aðstoð má ekki veita fyrirtækjum sem voru í erfiðleikum (í skilningi EES-reglugerðar um almenna hópundanþágu) hinn 31. desember 2019. Síðarnefnda skilyrðið á þó ekki við um lítil fyrirtæki. Þegar lagt er mat á heildarstuðning og hvort fyrirtæki telst lítið teljast tengdir aðilar til eins og sama rekstraraðilans. Heimilt er að veita aðstoð á grundvelli rammans til 30. júní 2022. Aðstoðarkerfið er háð samþykki Eftirlitsstofnunar EFTA og hefur fjármála- og efnahagsráðuneytið þegar upplýst stofnunina um þau áform sem felast í frumvarpinu.
    Gert er ráð fyrir að fyrirtæki sem teljast í erfiðleikum í skilningi EES-reglna geti notið stuðnings samkvæmt reglum um minniháttaraðstoð en heildarfjárhæð stuðnings samkvæmt þeim reglum til hvers rekstraraðila má ekki á hverju þriggja skattára tímabili fara fram úr fjárhæð að jafngildi 200 þús. evra í íslenskum krónum. Tengdir aðilar eru með sameiginlegt hámark hvað þetta varðar. Í þessu samhengi er rétt að taka fram að upphæð stuðningslána, sem einnig flokkast með minniháttaraðstoð, telst ekki styrkandlagið í þessu samhengi heldur miðast það við muninn á vaxtakjörum stuðningslánsins og markaðsvöxtum.
    Í frumvarpinu er nokkuð byggt á hugtökum sem eiga rætur að rekja til reglna EES-réttar um ríkisaðstoð. Þau helstu eru tíunduð í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögum um breytingu á lögum, nr. 38/2020, um fjárstuðning til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru, nr. 119/2020 (framhald á lokunarstyrkjum) (þskj. 1254, 725. mál á 150. lögþ.).

5. Samráð.
    Við vinnslu frumvarpsins var haft samráð við forsætisráðuneytið, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið, Skattinn og yfirskattanefnd. Við mótun úrræðisins var aflað upplýsinga frá Skattinum, dómsmálaráðuneytinu og Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu. Í aðdraganda vinnslu frumvarpsins átti ráðuneytið tvo upplýsingafundi með Samtökum fyrirtækja á veitingamarkaði (SVEIT).
    Sökum þess hversu áríðandi þótti að leggja frumvarpið fram á Alþingi sem fyrst gafst ekki kostur á að hafa samráð um drög að frumvarpi í samráðsgátt stjórnvalda.

6. Mat á áhrifum.
6.1. Áhrif á rekstraraðila.
    Með upplýsingum frá Skattinum og Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu er hægt að bera kennsl á 796 rekstraraðila sem skila staðgreiðslu og eru með veitingaleyfi í flokki II og III sem heimila vínveitingar. Þar af er 461 aðili skráður í veitingastarfsemi og er úrræðið ætlað þeim rekstraraðilum.
    Samkvæmt gögnum Skattsins var velta veitingaaðila með vínveitingaleyfi á fyrstu 10 mánuðum ársins 2021 52 milljarðar kr. Samkvæmt Hagstofunni var velta í greininni í heild (þ.e. veitingaleyfi I, II og III) 80 milljarðar kr. á sama tímabili. Miðgildi veltu veitingaaðila með vínveitingaleyfi á árinu 2021 var 5,5 millj. kr. á mánuði sem er litlu meira en árið 2019 en þá var miðgildi tekna ríflega 5 millj. kr. á mánuði. Í nóvember 2021 var meiri hluti veitingaaðilanna með 9 launamenn eða færri. Hjá fyrirtækjunum öllum var fjöldi launþega nær 8.770 en samkvæmt Hagstofunni störfuðu 9.830 aðilar í atvinnugreininni allri á þriðja ársfjórðungi 2021 (þ.m.t. veitingaaðilar með veitingaleyfi I).
    Úrræðið sem lagt er til er ætlað veitingaaðilum óháð stærð og rekstrarformi. Það nýtist þó hlutfallslega best minni aðilum því hámark styrkfjárhæðar er 3 millj. kr. í hverjum almanaksmánuði fyrir aðila sem hafa orðið fyrir a.m.k. 60% tekjufalli. Styrkjunum er ætlað að koma til móts við rekstrarkostnað aðila í veitingaþjónustu sem hafa orðið fyrir tekjufalli vegna sóttvarnatakmarkana. Styrknum er þannig ætlað að draga úr líkum á rekstrarerfiðleikum en ekki bæta allt tekjutap rekstraraðila. Styrkjunum er þannig ætlað að styðja rekstraraðila sem verða fyrir miklu tekjufalli vegna opnunartímatakmarkana við að viðhalda nauðsynlegri lágmarksstarfsemi og varðveita viðskiptasambönd svo að mögulegt verði að svara eftirspurn þegar takmörkunum verður aflétt.
    Úrræðið kemur í beinu framhaldi af viðspyrnustyrkjum sem greiddir voru út vegna a.m.k. 40% tekjufalls fram til 31. nóvember 2021. Tekjufallsviðmiðið er lægra í þessu úrræði sem hér er lagt fram og ætti því að nýtast fleiri veitingaaðilum sem hafa orðið fyrir tekjufalli vegna takmarkana á opnunartíma en ella.

6.2. Áhrif á efnahagslífið.
    Efnahagsbatinn var kröftugur á árinu 2021 og ekki er útlit fyrir að batinn sé í hættu þrátt fyrir fjölgun smita. Í baráttunni gegn útbreiðslu veirunnar gripu stjórnvöld til ýmissa sóttvarnaaðgerða innanlands sem hafa heft verulega starfsemi sumra rekstraraðila. Opnunartími veitingastaða þar sem heimilaðar eru áfengisveitingar var skertur í tvígang í nóvember sl. og aftur í desember. Auk þess hefur hámarksfjöldi gesta í rými verið lækkaður í tvígang.
    Veitingastaðir sem afla gjarnan meginþorra tekna sinna seint á kvöldin hafa þannig þurft að skerða starfsemi sína talsvert. Við það dregur úr getu þeirra til tekjuöflunar. Fastur og tregbreytanlegur kostnaður getur leitt til þess að fyrirtækin standi frammi fyrir greiðsluvanda þegar ástand sem þetta dregst á langinn. Á þetta ekki síst við um smærri fyrirtæki sem hafa síður aðgang að fyrirgreiðslu banka en þau stærri. Tímabundinn lausafjárvandi vegna takmarkana stjórnvalda gæti leitt til gjaldþrota lífvænlegra fyrirtækja og óþarfa efnahagslegs taps sem drægi úr styrk viðspyrnunnar þegar sóttvarnaráðstöfunum verður lyft.
    Með því úrræði sem lagt er til í frumvarpi þessu er vonast til að dregið verði úr rekstrarerfiðleikum lífvænlegra rekstraraðila sem verða fyrir miklu tekjutapi vegna takmarkana á opnunartíma. Styrkir til veitingaaðila með vínveitingaleyfi styðja við greiðslu fasts kostnaðar á meðan áhrifa af takmörkununum gætir og dregur úr lausafjárvanda þeirra.
Úrræðið kemur í beinu framhaldi af viðspyrnustyrkjum sem greiddir voru út vegna a.m.k. 40% tekjufalls á tímabilinu 1. nóvember 2020 til 31. nóvember 2021. Þar sem hagkerfið starfar nú nærri fullum afköstum, atvinnuleysi hefur haldist undir 5% sl. þrjá mánuði og verðbólga hefur haldist viðvarandi yfir markmiði er ekki talin ástæða til að framlengja almennan stuðning við atvinnugreinar og fyrirtæki. Slíkur stuðningur gæti hindrað færslu framleiðsluþátta frá fyrirtækjum sem eru í grunninn óarðbær og haldið aftur af framleiðni í hagkerfinu. Af sanngirnisástæðum er þó lagt til að stutt verði við veitingaaðila með vínveitingaleyfi vegna umfangsmikilla takmarkana á starfsemi þeirra. Sértækt úrræði fyrir aðila í veitingarekstri gildir frá 1. desember 2021 til 31. mars 2022. Það stuðlar að því að fyrirtæki sem verða fyrir a.m.k. 20% tekjufalli sem rekja má til takmarkana stjórnvalda geti viðhaldið nauðsynlegri lágmarksstarfsemi á meðan áhrifa af takmörkununum gætir og þau verði þannig í stakk búin til að svara aukinni eftirspurn og veita viðspyrnu þegar sóttvarnatakmörkunum verður aflétt.
    Í von um að tryggja fyrirsjáanleika veitir frumvarpið aðilum í veitingarekstri rétt á styrkjum til greiðslu rekstrarkostnaðar vegna tekjufalls sem gæti orðið vegna takmarkanna í náinni framtíð þ.e. út mars 2022. Þar sem þetta er vitað fyrir fram geta myndast hvatar til að rekstraraðilar aðlagi sínar tekjur eða gjöld til að hámarka styrkfjárhæðina. Sú ráðstöfun að láta úrræðið ekki standa undir nema að hámarki 90% af rekstrarkostnaði er til þess fallin að draga úr kostnaðarhvetjandi áhrifum úrræðisins þar sem rekstraraðili mun alltaf bera hluta kostnaðarins. Hvað varðar skilyrði um tekjufall þá getur það myndað hvata hjá fyrirtækjum til að haga uppgjöri þannig að þau eigi rétt á styrknum. Á móti vegur að þung viðurlög liggja við því að veita rangar upplýsingar.

6.3. Áhrif á stjórnsýslu.
    Með frumvarpinu er lagt til að Skattinum verði falið nýtt verkefni við afgreiðslu umsókna um styrki. Afgreiðsla styrkjanna mun fela í sér nokkuð aukin umsvif og kostnað hjá Skattinum. Þó verður unnt að nýta þann grunn sem þegar hefur verið lagður fyrir umsóknir um tekjufalls- og viðspyrnustyrki sem dregur úr kostnaði við að koma úrræðinu á laggirnar.
Þá er í frumvarpinu gert ráð fyrir að ákvarðanir Skattsins um styrkina verði kæranlegar til yfirskattanefndar. Áhrif á nefndina munu ráðast af fjölda kærumála. Ekki er gert þó ráð fyrir að þau áhrif verði veruleg og málin ekki af þeim toga að þau krefjist mannauðs sem nefndin býr ekki yfir nú þegar.

6.4. Áhrif á ríkissjóð.
    Þar sem úrræðið bætir að hluta tekjufall sem gæti orðið vegna takmarkana í framtíðinni liggur ekki fyrir hvaða rekstraraðilar uppfylla skilyrði um tekjufall á tímabili úrræðisins. Þannig er áhrifamatið eðli máls samkvæmt nokkurri óvissu háð og sem fyrr markað af þróun faraldursins. Því þykir rétt að gæta varúðar og setja fyrirvara um heildarfjárhæðir. Áhrifamatið byggist á upplýsingum frá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu um þá rekstraraðila sem reka veitingastað eða veitingastaði með áfengisleyfi, þ.e. veitingaleyfi í flokki II og flokki III, og hafa sætt takmörkunum á opnunartíma. Auk þess var aflað upplýsinga frá Skattinum um veltu þessara rekstraraðila á hverju virðisaukaskattstímabili áranna 2019–2021, þá starfsemi sem þeir sinna og fjölda launþega í nóvember 2021.
    Í áhrifamati var gert ráð fyrir að rekstraraðilar sem urðu fyrir a.m.k. 20% samdrætti í veltu samkvæmt virðisaukaskattsskýrslum á fjögurra mánaða tímabili, frá janúar til apríl 2021, í samanburði við sama tímabil árið 2019, yrðu líklegri en aðrir rekstraraðilar í greininni til að verða fyrir álíka tekjufalli á tímabili úrræðisins. Með öðrum orðum er rekstur þessara aðila næmur fyrir takmörkunum á opnunartíma og geta þeir því átt rétt á úrræðinu sem lagt er til í frumvarpi þessu. Byggist sú röksemdarfærsla á því að takmarkanir á opnunartíma voru þá þær sömu og tóku gildi 23. desember 2021 og giltu enn þegar frumvarp þetta var lagt fram.
Af þeim rekstraraðilum í veitingarekstri sem sættu takmörkunum á opnunartíma á fyrstu fjórum mánuðum ársins 2021, eru með veitingastarfsemi og uppfylla skilyrði um lágmarksumsvif, gætu 332 aðilar hafa uppfyllt skilyrði um a.m.k. 20% tekjufall. Ekki liggur fyrir fjöldi þeirra sem uppfyllir skilyrði um skilvísi.
    Styrkurinn nemur 90% af rekstrarkostnaði. Þar sem rekstrarkostnaður fyrirtækjanna er óþekktur var fjárhæð styrks til hvers fyrirtækis metin út frá tekjufallsþrepi og fjölda launamanna í nóvember 2021 og endurspeglar þannig hámark styrks til hvers styrkhafa. Þannig má áætla að heildaráhrif úrræðisins á ríkissjóð verði líklega ekki hærri en 3 milljarðar kr. vegna a.m.k. 20% tekjufalls á tímabilinu 1. desember 2021 til 31. mars 2022 sem rekja má til takmarkana á opnunartíma. Gerir matið ráð fyrir því að allir sem eiga rétt á styrk sæki um hann.
    Um er að ræða algjört hámark þar sem útreikningurinn felur líklega í sér ofmat á styrkfjárhæð til hvers rekstraraðila og ofmat á fjölda styrkhafa. Í ljósi þess að rekstrarkostnaður er óþekktur er reiknað hámark styrks út frá fjölda launamanna en líklega nær styrkurinn ekki hámarkinu í öllum tilfellum. Auk þess er notast við fjölda launamanna og því líklegt að fjöldi stöðugilda sé ofmetinn í útreikningnum og því styrkfjárhæðin til hvers rekstraraðila einnig. Enn fremur hefur ekki verið tekið tillit til þess að hámark sé á heildarfjárhæð stuðnings til tengdra aðila eins og tilgreint er í 5. gr. þessa frumvarps og ekki gerður frádráttur vegna þessa. Þá er fjöldi styrkhafa líklega ofmetinn þar sem ólíklegt er að allir sem eigi rétt á styrk sæki í raun um úrræðið og standist skilyrði um skilvísi. Enn fremur hefur talsvert breyst frá ársbyrjun 2021 og ólíklegt að rekstrarvandi fyrirtækja í veitingarekstri sé álíka og þá, sérstaklega í ljósi þess að erlendir ferðamenn í nóvember og desember 2021 voru um 55% af fjölda þeirra á sama tíma árið 2019 en frá janúar til og með apríl 2021 var hlutfallið aðeins 3%. Árið 2019 stóð erlend kortavelta að baki þriðjungi allrar veltu hjá aðilum í veitingarekstri svo ljóst má vera að samdráttur tekna aðila í veitingarekstri verður minni nú en í ársbyrjun 2021 þrátt fyrir álíka takmarkanir á opnunartíma.
    Ef fer sem horfir og leiðrétt er fyrir framangreindum ályktunum má ætla að heildaráhrif úrræðisins verði líklega nær 1,5 milljarði kr. þó hámarkið nemi 3 milljörðum kr. Í þessu sambandi þá var í fjárlögum ársins 2022 gert ráð fyrir 1 milljarði kr. í stuðning við rekstraraðila í veitingaþjónustu og að umgjörð styrkjanna myndi byggjast eftir því sem kostur er á fyrri úrræðum stjórnvalda í þessum efnum. Rétt er að taka fram að þegar sú ákvörðun var tekin þá lá ekki fyrir það áhrifamat sem hér er kynnt. Ef útgjöld úrræðisins verða nær því sem kemur fram í áhrifamatinu þá mun afkoma ríkissjóðs að óbreyttu versna um 0,5–2,0 milljarða kr. á yfirstandandi ári umfram það sem forsendur fjárlaga gerðu ráð fyrir. Verði kostnaðurinn umfram fjárheimild fjárlaga þá kæmi til álita að fjármála- og efnahagsráðherra heimilaði flutning óráðstafaðra fjárveitinga frá árinu 2021 til að mæta umframkostnaðinum.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Lagt er til að aðeins einstaklingar og lögaðilar sem stunda tekjuskattsskyldan atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi, hófu starfsemina fyrir 1. desember 2021 og bera ótakmarkaða skattskyldu hér á landi skv. 1. eða 2. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, geti fengið styrk. Atvinnurekstur og sjálfstæð starfsemi er skilgreind í 1. tölul. 3. gr. frumvarpsins. Ótakmörkuð skattskylda skv. 1. eða 2. gr. laga um tekjuskatt felur að meginreglu til í sér skyldu til að greiða tekjuskatt hér á landi af öllum skattskyldum tekjum einstaklings eða lögaðila. Almennt hvílir ótakmörkuð skattskylda á einstaklingum og lögaðilum sem eru heimilisfastir hér á landi. Aðilar sem eru undanþegnir tekjuskattsskyldu skv. 4. gr. laga um tekjuskatt falla ekki undir frumvarpið. Af því leiðir t.d. að lögaðilar sem verja hagnaði sínum einungis til almenningsheilla og hafa það að einasta markmiði samkvæmt samþykktum sínum falla ekki undir frumvarpið. Frumvarpið áskilur ekki að rekstraraðili sem er lögaðili hafi tiltekið rekstrarform. Hann getur því t.d. bæði verið lögaðili með eða án ótakmarkaðrar ábyrgðar félagsaðila.
    Frumvarpið nær ekki til stofnana, byggðasamlaga eða fyrirtækja í eigu ríkis eða sveitarfélaga. Fyrirtæki telst í eigu ríkis eða sveitarfélaga í skilningi frumvarpsins ef ríki og sveitarfélög eiga samanlagt meira en helming eignarhluta í því. Fyrirtæki sem þrjú sveitarfélög eiga hvert 20% hlut í telst þannig t.d. í eigu sveitarfélaga þótt aðrir en ríki og sveitarfélög eigi þau 40% sem út af standa.
    Í frumvarpinu er vísað til þeirra sem falla undir gildissvið þess sem rekstraraðila, sbr. 3. tölul. 3. gr.

Um 2. gr.

    Stjórnvöld hafa komið af stað ýmsum úrræðum sem styðja við atvinnulífið og fólk á vinnumarkaði til þess að draga úr áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru og aðgerða til að hægja á útbreiðslu hans á efnahagslífið, svo sem með lögum um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar og lögum um Ábyrgðasjóð launa (minnkað starfshlutfall), nr. 23/2020, lögum um breytingu á ýmsum lögum til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru, nr. 25/2020, lögum um fjárstuðning til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru, nr. 38/2020, lögum um tekjufallsstyrki, nr. 118/2020, og lögum um viðspyrnustyrki, nr. 160/2020. Markmið þessa frumvarps er að stuðla að því að fyrirtæki í veitingarekstri sem hafa orðið fyrir verulegu tekjufalli sökum takmarkana á opnunartíma vegna heimsfaraldurs kórónuveiru geti viðhaldið nauðsynlegri lágmarksstarfsemi á meðan áhrifa takmarkananna gætir, varðveitt viðskiptasambönd og tryggt viðbúnað þegar úr rætist.

Um 3. gr.

     Um 1. tölul. Með atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi er átt við starfsemi aðila sem greiða laun skv. 1. eða 2. tölul. 5. gr. um staðgreiðslu opinberra gjalda, nr. 45/1987. Undir það fellur bæði endurgjald fyrir vinnu starfsfólks og reiknað endurgjald vegna vinnu við eigin rekstur. Það er jafnframt skilyrði að launagreiðandi hafi verið skráður á launagreiðendaskrá eða hafi gert grein fyrir reiknuðu endurgjaldi í síðasta skattframtali sem hann lagði fram. Skv. 19. gr., sbr. 5. og 7. gr., laga um staðgreiðslu opinberra gjalda ber hverjum þeim sem greiðir laun í skilningi laganna að tilkynna sig sem launagreiðanda. Heimildinni til að miða frekar við reiknað endurgjald í síðasta skattframtali er ætlað að koma til móts við aðstæður einyrkja sem eru ekki með umfangsmikinn atvinnurekstur og hafa ekki alltaf gætt þess að skrá sig á launagreiðendaskrá. Þá er það skilyrði að viðkomandi sé jafnframt skráður á virðisaukaskattsskrá. Skv. 5. gr. laga um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, ber hverjum þeim sem er skattskyldur samkvæmt þeim lögum að tilkynna ríkisskattstjóra um atvinnurekstur sinn eða starfsemi.
    Um 2. tölul. Launamenn samkvæmt frumvarpinu er fólk sem fær endurgjald fyrir starf sitt hjá rekstraraðila og sjálfstætt starfandi fólk sem reiknar sér endurgjald fyrir vinnu sína í eigin atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi, auk maka og barna sjálfstætt starfandi fólks ef þeim er reiknað endurgjald í atvinnurekstrinum eða starfseminni.
     Um 3. tölul. Rekstraraðilar samkvæmt frumvarpinu eru einstaklingar og lögaðilar sem stunda tekjuskattsskyldan atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi, hófu starfsemina fyrir 1. desember 2021 og bera ótakmarkaða skattskyldu hér á landi, þó ekki stofnanir, byggðasamlög eða fyrirtæki í eigu ríkis eða sveitarfélaga, sbr. 1. gr. frumvarpsins.
     Um 4. tölul. Rekstrarkostnaður er skilgreindur með sama hætti og í 1. tölul. 31. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, að því frátöldu að til rekstrarkostnaðar teljast ekki niðurfærslur og fyrningar eigna. Samkvæmt tilvitnuðu ákvæði tekjuskattslaga má draga frá tekjum af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi rekstrarkostnað, þ.e. þau gjöld sem eiga á árinu að ganga til að afla teknanna, tryggja þær og halda þeim við. Ástæða þess að niðurfærslum og fyrningum eigna er í frumvarpinu haldið utan hugtaksins er að þær fela ekki í sér bein fjárútlát.
     Um 5. tölul. Stöðugildi er skilgreint sem starfshlutfall sem jafngildir fullu starfi launamanns í einn mánuð. Í þessu felst að einn launamaður getur í hæsta lagi jafngilt einu stöðugildi enda starfi hann í fullu starfi hjá rekstraraðila í heilan mánuð. Tveir launamenn í hálfu starfi í einn mánuð jafngilda samtals einu stöðugildi. Að sama skapi jafngildir launamaður sem starfar í heilu starfi hjá rekstraraðila í hálfan mánuð 50% stöðugildi. Ekki verður talið að einn launamaður geti numið meira en einu stöðugildi í skilningi laganna þótt hann vinni í einum mánuði fullt starf auk yfirvinnu.
     Um 6. tölul. Tekjur í skilningi frumvarpsins eru tekjur sem eru skattskyldar skv. B-lið 7. gr. laga um tekjuskatt, þ.e. allar tekjur af atvinnurekstri og sjálfstæðri starfsemi, þ.m.t. endurgjald fyrir selda vöru og þjónustu, umboðslaun, þóknanir, atvinnurekstrarstyrkir, rekstrarstöðvunarbætur og hvers konar tekjur sem upp eru taldar í öðrum liðum greinarinnar og tengdar eru atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi. Hagnaður af sölu varanlegra rekstrarfjármuna telst þó ekki til tekna í skilningi frumvarpsins. Hann getur verið verulegur en er almennt óreglulegur og gefur ekki rétta mynd af þeim tekjum sem rekstraraðili hefur alla jafna.
     Um 7. tölul. Skilgreining frumvarpsins á veitingastað takmarkast við veitingastaði með leyfi til áfengisveitinga sem falla undir flokk II eða III skv. 4. gr. laga um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, nr. 85/2007. Ástæða þess er að takmarkanir á opnunartíma veitingastaða á því tímabili sem frumvarpið á við um hafa aðeins náð til veitingastaða þar sem heimilaðar eru áfengisveitingar. Gististaðir með rekstrarleyfi skv. 3. gr. laga um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald falla ekki undir skilgreininguna þótt þeir hafi heimild til áfengisveitinga.

Um 4. gr.

    Lagt er til að rekstraraðili geti fengið styrk úr ríkissjóði vegna hvers almanaksmánaðar frá og með desember 2021 til og með mars 2022 að uppfylltum fimm skilyrðum.
     Um 1. tölul. Frumvarpinu er ætlað að styðja við rekstraraðila veitingastaða sem hafa sætt takmörkunum á opnunartíma vegna opinberra sóttvarnaráðstafana. Því er skilyrði þess efnis í 1. tölul. 4. gr. frumvarpsins. Í 2. mgr. 12. gr. sóttvarnalaga, nr. 19/1997, kemur fram að ráðherra ákveði, að fenginni tillögu sóttvarnalæknis, hvort grípa skuli til opinberra sóttvarnaráðstafana vegna farsóttar. Sóttvarnalæknir getur einnig beitt slíkum vörnum til bráðabirgða án þess að leita heimildar fyrir fram ef hann telur að hvers konar töf sé hættuleg, en hann skal þá gera ráðherra jafnskjótt kunnar ráðstafanir sínar.
    Ráðherra hefur á þessum grundvelli sett reglugerðir sem hafa takmarkað opnunartíma veitingastaða. Um miðjan nóvember 2021 tók gildi reglugerð um takmörkun á samkomum vegna farsóttar, nr. 1266/2021. Í 1. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar kom fram að veitingastaðir þar sem heimilaðar væru áfengisveitingar, svo sem veitingahús, kaffihús, krár og skemmtistaðir, spilasalir og spilakassar, skyldu ekki hafa opið lengur en til kl. 22.00 alla daga vikunnar. Í því fælist að ekki væri heimilt að hleypa inn nýjum viðskiptavinum eftir kl. 22.00 og skyldu þeir hafa yfirgefið staðinn eigi síðar en kl. 23.00. Reglugerðin var felld úr gildi í desember 2021 með nýrri reglugerð um takmörkun á samkomum vegna farsóttar, nr. 1484/2021. Í 1. mgr. 5. gr. hennar var hliðstæð takmörkun á opnunartíma veitingastaða, utan þess að loka þurfti klukkustund fyrr en samkvæmt eldri reglugerðinni. Sú reglugerð var felld úr gildi í janúar 2022 með annarri reglugerð um takmörkun á samkomum vegna farsóttar, nr. 7/2022. Í 1. mgr. 5. gr. hennar var sams konar takmörkun á opnunartíma og í reglugerð nr. 1484/2021. Sú reglugerð var loks felld úr gildi með reglugerð um takmörkun á samkomum vegna farsóttar, nr. 16/2022. Þar var hliðstæð takmörkun á opnunartíma og í reglugerð nr. 7/2022, utan þess að skemmtistaðir, krár, spilakassar og spilasalir þurftu að loka frekar en að sæta aðeins takmörkun á opnunartíma.
    Rekstraraðili uppfyllir skilyrði 1. tölul. 4. gr. frumvarpsins ef hann starfrækir veitingastað sem sætti takmörkunum á opnunartíma samkvæmt tilvitnuðum reglugerðarákvæðum í almanaksmánuði sem umsókn varðar. Sama gildir um takmarkanir á opnunartíma veitingastaða sem kunna að verða settar á grundvelli 2. mgr. 12. gr. sóttvarnalaga eftir framlagningu frumvarps þessa og fram til loka mars 2022. Veitingastaður verður aðeins talinn hafa sætt takmörkun á opnunartíma í skilningi frumvarpsins ef hann hafði samkvæmt rekstrarleyfi sínu almenna heimild til að hafa opið fram yfir þann tíma sem bar að loka samkvæmt opinberum sóttvarnaráðstöfunum. Veitingastaður sem mátti aðeins hafa opið til kl. 21:00 öll kvöld samkvæmt rekstrarleyfi sínu telst því t.d. ekki hafa sætt takmörkunum á opnunartíma vegna fyrrgreindra opinberra sóttvarnaráðstafana. Veitingastaður sem var skylt að loka sinni starfsemi vegna sóttvarnatilmæla telst ekki hafa sætt takmörkun á opnunartíma í skilningi frumvarpsins. Ekki er því unnt að fá styrk samkvæmt frumvarpinu vegna þeirra daga þegar veitingastað bar að hafa lokað samkvæmt ákvörðun ráðherra eða sóttvarnalæknis á grundvelli 2. mgr. 12. gr. sóttvarnalaga.
     Um 2. tölul. Styrkjum samkvæmt frumvarpinu er ætlað að aðstoða rekstraraðila veitingastaða sem hafa orðið fyrir verulegum tekjumissi vegna takmarkana á opnunartíma við að standa undir rekstrarkostnaði. Því er lagt til að tekjur rekstraraðila af veitingastöðunum þurfi að hafa dregist saman um a.m.k. 20%, samanborið við viðmiðunartímabil, til að hann geti hlotið styrk vegna viðkomandi almanaksmánaðar.
    Aðeins skal taka tillit til tekjufalls sem er að rekja til takmarkana á opnunartíma. Rekstraraðili þarf að skýra tilurð tekjufalls óski Skatturinn eftir því, sbr. 1. mgr. 6. gr. og 2. mgr. 7. gr. frumvarpsins. Eðli máls samkvæmt er útilokað að sýna fram á það með óyggjandi hætti að tekjufall sé að rekja til takmarkana á opnunartíma, en ekki annarra þátta, svo sem fækkunar ferðamanna vegna heimsfaraldurs kórónuveiru. Því verður að nægja að rekstraraðili geti leitt líkur að því að tekjufall sé að rekja til takmarkana á opnunartíma, svo sem með því að sýna fram á að verulegt hlutfall tekna veitingastaðar hafi, þegar slíkar takmarkanir hafa ekki verið við lýði, komið til eftir þann tíma sem skylt var að loka. Ekki er unnt að fá styrk vegna veitingastaðar sem hafði ekki almenna heimild samkvæmt rekstrarleyfi til að hafa opið fram yfir þann tíma sem bar að loka vegna sóttvarnaráðstafana, enda verður slíkur staður ekki talinn hafa sætt takmörkunum á opnunartíma vegna sóttvarnaráðstafana líkt og fyrr greinir.
Við ákvörðun tekjufalls skal almennt bera tekjur rekstraraðila af veitingastöðum í þeim almanaksmánuði sem umsókn varðar saman við tekjur hans af veitingastöðunum í sama mánuði á rekstrarárinu 2019. Sæki rekstraraðili t.d. um styrk vegna desember 2021 skulu tekjur hans af veitingastöðunum þann mánuð bornar saman við tekjur hans af þeim í desember 2019.
    Hafi veitingastaður fengið rekstrarleyfi eftir upphaf viðkomandi almanaksmánaðar árið 2019 þarf að nota aðra aðferð. Sem dæmi má nefna rekstraraðila sem sækir um styrk fyrir desember 2021 vegna veitingastaðar sem fékk ekki rekstrarleyfi fyrr en 1. apríl 2020 sem útilokar að miðað sé við tekjur rekstraraðila af veitingastaðnum í desember 2019. Þá skal þess í stað miðað við meðaltekjur rekstraraðila af veitingastaðnum á jafn mörgum dögum og eru í þeim almanaksmánuði sem umsókn varðar frá 1. apríl 2020 til loka nóvember 2021. Í desember 2021 var 31 dagur og tímabilið frá 1. apríl 2020 til 30. nóvember 2021 var 609 dagar. Því þyrfti að deila í tekjur rekstraraðilans af veitingastaðnum á tímabilinu 1. apríl 2020 til 30. nóvember 2021 með 609 og margfalda svo með 31 til að fá viðmiðunartekjur hans. Hafi tekjur hans af veitingastaðnum á tímabilinu 1. apríl 2020 til 30. nóvember 2021 t.d. verið 10 millj. kr. væru viðmiðunartekjur hans 10 millj. kr. / 609 dagar * 31 dagur = 509.031 kr. Tekjufall vegna takmarkana á opnunartíma veitingastaðarins þyrfti að vera a.m.k. 20% af því, eða 101.806 kr.
    Í sérstökum tilvikum kann almennt viðmiðunartímabil skv. 1. og 2. málsl. 2. tölul. 4. gr. að gefa mjög skakka mynd af tekjufalli rekstraraðila. Það getur t.d. átt við hafi reksturinn legið niðri stóran hluta almenna viðmiðunartímabilsins og tekjurnar því verið mun lægri en þær væru alla jafna. Við þær aðstæður má, ef rekstraraðili óskar eftir því og sýnir fram á að almenna viðmiðunartímabilið gefi mjög skakka mynd af tekjum hans alla jafna, notast við annað viðmiðunartímabil. Að jafnaði skal þá miðað við sama almanaksmánuð 2018. Sem dæmi má nefna rekstraraðila sem sækir um styrk vegna desember 2021. Hafi reksturinn legið niðri í desember 2019 gæti samanburður við þann mánuð gefið mjög skakka mynd af tekjufalli hans. Þá kæmi til greina að miða frekar við tekjur í desember 2018.
    Ef rekstraraðili hafði ekki hafið rekstur veitingastaðar í upphafi viðkomandi almanaksmánaðar 2018, eða ef hann sýnir fram á að sá mánuður gæfi einnig mjög skakka mynd af tekjum hans af veitingastaðnum, mætti notast við annað tímabil sem rekstraraðili tilgreinir og sýnir fram á að gefi betri mynd af tekjum hans alla jafna. Gera verður nokkuð strangar kröfur til þess að rekstraraðili miði þá við tímabil sem endurspeglar tekjur hans alla jafna en að hann velji ekki úr tímabil þegar tekjur voru óvenju miklar. Almennt má ætla að meðaltal tekna yfir löng tímabil gefi betri mynd af tekjum heldur en tekjur á stuttum tímabilum. Skatturinn getur farið fram á að rekstraraðili tilgreini nýtt tímabil telji hann rekstraraðila hafa valið tímabil þegar tekjur voru óvenju miklar.
    Ef rekstraraðili starfrækir fleiri en einn veitingastað sem sætti takmörkun á opnunartíma í þeim almanaksmánuði sem sótt er um styrk fyrir skulu tekjur af þeim lagðar saman við mat á tekjufalli. Starfræki rekstraraðili t.d. tvo slíka veitingastaði nægir ekki að tekjur af öðrum þeirra hafi minnkað um a.m.k. 20% vegna takmarkana á opnunartíma heldur verður samanlagt tekjufall að hafa verið a.m.k. 20%. Að sama skapi kemur það ekki í veg fyrir að rekstraraðilinn fái styrk að tekjur annars veitingastaðarins hafi ekki minnkað um a.m.k. 20% hafi samanlagðar tekjur þeirra minnkað um a.m.k. það hlutfall vegna takmarkana á opnunartíma. Hafi veitingastaðirnir fengið rekstrarleyfi á mismunandi tímum getur þurft að nota mismunandi viðmiðunartímabil til að ákvarða tekjufall þeirra, sbr. það sem fyrr greinir þar um, en tekjufallið skal samt sem áður metið með tilliti til beggja staða.
    Rekstraraðila kann að vera ákvarðaður lokunar-, tekjufalls- eða viðspyrnustyrkur samkvæmt lögum um fjárstuðning til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru, nr. 38/2020, lögum um tekjufallsstyrki, nr. 118/2020, eða lögum um viðspyrnustyrki, nr. 160/2020, í almanaksmánuði sem umsókn um styrk samkvæmt frumvarpinu varðar. Til að koma í veg fyrir að það hafi áhrif á ákvörðun styrksins er tilgreint í 5. málsl. 2. tölul. 4. gr. að ekki skuli telja lokunar-, tekjufalls- eða viðspyrnustyrk í þeim almanaksmánuði sem umsókn varðar til tekna þann mánuð við ákvörðun á tekjufalli rekstraraðila. Það á bæði við þegar ákvarðað er hvort rekstraraðili eigi rétt á styrk skv. 2. tölul. 4. gr. og við ákvörðun hámarks styrks skv. 2. málsl. 1. mgr. 5. gr. Það hnikar því þó ekki að lokunar-, tekjufalls- og viðspyrnustyrkir teljast til tekna í öðru tilliti, svo sem við ákvörðun tekjuskatts, sbr. 8. mgr. 5. gr. laga um fjárstuðning til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru, 5. mgr. 5. gr. laga um tekjufallsstyrki og 7. mgr. 5. gr. laga um viðspyrnustyrki.
    Miða skal við almennar reglur laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, við ákvörðun á því hvenær tekjur hafi orðið til, sbr. einkum 2. mgr. 59. gr. laganna þar sem fram kemur að tekjur skuli að jafnaði telja til tekna þegar þær verða til, þ.e. þegar myndast hefur krafa þeirra vegna á hendur einhverjum, nema um óvissar tekjur sé að ræða.
     Um 3. tölul. Töluliðnum er ætlað að stuðla að því að stuðningi samkvæmt frumvarpinu sé beint til atvinnurekstrar sem einhverju munar um en ekki smávægilegrar hliðarstarfsemi eða starfsemi sem hefur legið niðri. Tekjur rekstraraðila af veitingastað eða veitingastöðum sem sættu takmörkunum á opnunartíma þurfa að hafa verið a.m.k. tvær millj. kr. frá 1. janúar 2021 til loka nóvember 2021 eða ríflega 180 þús. kr. á mánuði að meðaltali. Það er svipað viðmið um lágmarksveltu og er í 3. tölul. 4. gr. laga um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, þar sem fram kemur að þeir sem selja skattskylda vöru eða þjónustu fyrir tvær millj. kr. eða minna á hverju 12 mánaða tímabili frá því að starfsemi hefst séu undanþegnir skyldu til að innheimta virðisaukaskatt og standa skil á honum í ríkissjóð. Hafi veitingastaður fengið rekstrarleyfi eftir 1. janúar 2021 skal umreikna tekjur af veitingastaðnum frá þeim tíma til loka nóvember 2021 í 334 daga viðmiðunartekjur, sem er fjöldi daga frá 1. janúar 2021 til loka nóvember 2021. Hafi veitingastaður t.d. fengið rekstrarleyfi 17. júní 2021 ætti að margfalda tekjur af honum frá þeim degi til loka nóvember með tveimur (334 dagar / 167 dagar) til að kanna hvort skilyrðinu um tveggja millj. kr. tekjur hafi verið fullnægt. Tekjurnar frá 17. júní til loka nóvember 2021 þyrftu því að hafa verið a.m.k. ein millj. kr.
     Um 4. tölul. Ekki er talið eðlilegt að ríkissjóður veiti sérstakan fjárstuðning þeim rekstraraðilum sem voru í vanskilum með opinber gjöld áður en gildandi takmarkana á opnunartíma veitingastaða fór að gæta eða hafa ekki staðið skil á gögnum til Skattsins. Því er það gert að skilyrði fyrir styrk að rekstraraðili sé ekki í vanskilum með opinber gjöld sem voru komin á eindaga í lok 1. ágúst 2021 og hafi staðið skil á skattskýrslum og ársreikningum og upplýst um raunverulega eigendur þegar við á.
     Um 5. tölul. Frumvarpinu er ætlað að styðja við starfandi rekstraraðila. Því er lagt til að rekstraraðili geti ekki fengið styrk ef bú hans hefur verið tekið til gjaldþrotaskipta. Um gjaldþrotaskipti gilda lög um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991. Upphaf gjaldþrotaskipta miðast almennt við úrskurð héraðsdómara um gjaldþrotaskipti.
    Almennt gildir hið sama hafi rekstraraðili verið tekinn til slita. Þó er gert ráð fyrir undantekningu ef slit eru liður í samruna, skiptingu eða breytingu á rekstrarformi rekstraraðila og fyrirhugað er að halda rekstri veitingastaðar eða veitingastaða sem umsókn varðar áfram í lögaðila sem við tekur. Tekur það mið af ábendingu þar um í áliti meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar um frumvarp til laga um viðspyrnustyrki frá 151. löggjafarþingi (þskj. 645, 334. mál).

Um 5. gr.

    Í 1. málsl. 1. mgr. 5. gr. frumvarpsins kemur fram sú meginregla að fjárhæð styrks skuli vera 90% af kostnaði rekstraraðila við rekstur veitingastaðar eða veitingastaða sem sættu takmörkun á opnunartíma þann almanaksmánuð sem styrkumsókn varðar. Líkt og fyrr greinir telst veitingastaður aðeins hafa sætt takmörkun á opnunartíma í skilningi frumvarpsins ef honum var heimilt samkvæmt rekstrarleyfi að hafa opið fram yfir þann tíma sem bar að loka samkvæmt opinberum sóttvarnaráðstöfunum, og því skal ekki taka tillit til rekstrarkostnaðar annarra veitingastaða. Talið er æskilegt að rekstraraðilar þurfi sjálfir að standa undir hluta rekstrarkostnaðarins til að viðhalda hvata til að gæta hófs í kostnaði. Kalli Skatturinn eftir því þarf rekstraraðili að sýna fram á að kostnaður hafi fallið til á viðkomandi mánuði.
    Kostnað sem fellur til á lengra tímabili og er ekki með góðu móti unnt að afmarka hvort falli innan mánaðarins, svo sem iðgjöld vegna vátrygginga, skal hlutfalla. Sem dæmi má nefna að hafi tiltekinn kostnaðarliður rekstraraðila vegna ársins 2021 í heild verið samanlagt 3 millj. kr. gæti styrkur til hans vegna þessa kostnaðar vegna desember 2021 numið allt að tæplega 230 þús. kr. (3 millj. kr. / 365 dagur * 31 dagur * 90%). Með svipuðum hætti getur þurft að hlutfalla rekstrarkostnað hjá rekstraraðila sem ekki er með góðu móti unnt að afmarka hvort tilheyri veitingastöðum sem sættu takmörkunum á opnunartíma. Sem dæmi má nefna skrifstofukostnað hjá rekstraraðila sem starfrækir bæði veitingastað sem sætti takmörkun á opnunartíma og annars konar rekstur. Í slíku tilviki kæmi t.d. til greina að miða við sama hlutfall af skrifstofukostnaðinn og nemur hlutdeild veitingastaðarins í veltu rekstraraðilans.
    Styrkur getur þó ekki orðið hærri en tekjufall rekstraraðila í viðkomandi almanaksmánuði, eins og það er reiknað skv. 2. tölul. 4. gr. Tekjufall sem ekki er að rekja til takmarkana á opnunartíma telst því ekki til hámarksins. Um nánari skýringar vísast til athugasemda við 2. tölul. 4. gr.
    Styrkur getur jafnframt ekki orðið hærri en 500 þús. kr. fyrir hvert stöðugildi hjá rekstraraðila hjá veitingastað eða veitingastöðum sem sættu takmörkunum og að hámarki 2,5 millj. kr. ef tekjufall skv. 2. tölul. 4. gr. var á bilinu 20–60% eða 600 þús. kr. fyrir hvert stöðugildi og að hámarki 3 millj. kr. ef tekjufallið var meira en 60%. Rekstraraðili með hálft stöðugildi í slíkri starfsemi þann almanaksmánuð sem umsókn varðar gæti því t.d. að hámarki fengið 250 þús. kr. styrk fyrir þann mánuð ef tekjufall hans skv. 2. tölul. 4. gr. í mánuðinum var á bilinu 20–60% eða 300 þús. kr. ef tekjufallið var meira en 60%. Rekstraraðili með þrjú stöðugildi í slíkri starfsemi gæti að hámarki fengið 1,5 millj. kr. styrk ef tekjufallið var á bilinu 20–60% eða 1,8 millj. kr. ef tekjufallið var meira en 60%. Rekstraraðili með fimm stöðugildi í slíkri starfsemi gæti að hámarki fengið 2,5 millj. kr. styrk ef tekjufallið var á bilinu 20–60% eða 3 millj. kr. ef tekjufallið var meira en 60%. Ekki er unnt að fá hærri styrk en 2,5 millj. kr. ef tekjufall var á bilinu 20–60% eða 3 millj. kr. ef tekjufall var meira en 60% vegna stakra almanaksmánaða þótt stöðugildi hafi verið fleiri en fimm. Skatturinn getur kallað eftir gögnum og skýringum til að kanna hvort stöðugildi sem greint er frá séu raunveruleg, sbr. 1. mgr. 6. gr. og 2. mgr. 7. gr. frumvarpsins. Það getur t.d. átt við hafi stöðugildum fjölgað í þeim almanaksmánuðum sem sótt er um styrki vegna þótt tekjur hafi dregist saman.
    Í 2. mgr. kemur fram að styrkur myndi skattstofn samkvæmt lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003. Hann telst þó ekki til skattskyldrar veltu samkvæmt lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988.

Um 6. gr.

    Gert er ráð fyrir að komið verði á fót rafrænni gátt fyrir umsóknir en að umsókn og umsóknarferli verði að öðru leyti á formi sem Skatturinn ákveður. Skattinum er heimilt að áskilja að með umsókn fylgi upplýsingar um rekstrarkostnað eða fylgiskjöl sem sannreyna tilvist hans, svo sem hreyfingalistar úr bókhaldi og reikningar vegna útlagðs kostnaðar, og önnur gögn sem hann telur nauðsynleg til að staðreyna rétt rekstraraðila til styrks. Styrk samkvæmt frumvarpinu er ætlað að mæta tímabundnu tekjufalli og því er lagt til að umsóknum skuli skila eigi síðar en 30. júní 2022. Sú dagsetning tekur einnig mið af gildandi ríkisstyrkjaramma samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. 4. kafla í greinargerð.
    Óhjákvæmilegt getur verið að styðjast að einhverju leyti við upplýsingar sem rekstraraðili leggur til við umsókn um styrk en einnig er gert ráð fyrir eftirliti eftir á. Því er lagt til í 2. mgr. að umsækjandi skuli staðfesta við umsókn að hann uppfylli skilyrði 4. gr., að upplýsingar sem hann skilar og liggja til grundvallar ákvörðun fjárhæðar skv. 5. gr. séu réttar og að honum sé kunnugt um að það geti varðað álagi, sektum eða fangelsi að veita rangar eða ófullnægjandi upplýsingar.

Um 7. gr.

    Í 1. mgr. er lagt til að Skatturinn fari yfir umsóknir um styrki og greiði út styrki til þeirra sem eiga rétt á þeim. Skatturinn skal afgreiða umsókn svo fljótt sem verða má og ekki síðar en tveimur mánuðum eftir að honum berst fullnægjandi umsókn.
    Skatturinn getur kallað eftir rökstuðningi og gögnum ef þess þarf við afgreiðslu umsóknar eða við endurskoðun á ákvörðun eftir á, eftir atvikum í reglubundnu eftirliti.
    Í 3. mgr. er lagt til að komi í ljós eftir ákvörðun styrks að skilyrði fyrir greiðslu hans voru ekki uppfyllt skuli Skatturinn með endurákvörðun fella hann niður. Þá skal hann endurákvarða styrkfjárhæð, eftir atvikum til lækkunar eða hækkunar, ef síðar kemur í ljós að rekstraraðili átti rétt á hærri eða lægri styrk en honum var ákvarðaður. Um endurgreiðslu ofgreidds styrks fer skv. 9. gr.
    Í 4. mgr. er gert ráð fyrir að almennar reglur 94.–97. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, um heimild skattyfirvalda til upplýsingaöflunar og málsmeðferð gildi um ákvarðanir Skattsins, að því leyti sem ekki er sérstaklega kveðið á um annað. Þetta hefur meðal annars þá þýðingu að heimild til endurákvörðunar takmarkast almennt við sex rekstrarár á undan því ári þegar endurákvörðun fer fram.

Um 8. gr.

    Stjórnvaldsákvarðanir Skattsins sæta almennt kæru til yfirskattanefndar og lagt er til að hið sama gildi um stjórnvaldsákvarðanir samkvæmt lögum þessum, nái frumvarp þetta fram að ganga, þar á meðal um það hvort aðili eigi rétt á styrk. Um kærufrest og meðferð mála, þar á meðal form kæru, gagnaöflun, málflutning og lok meðferðar, gilda lög um yfirskattanefnd, nr. 30/1992.

Um 9. gr.

    Lagt er til að hafi aðili fengið styrk umfram það sem hann átti rétt á, hvort sem hann átti ekki rétt á neinum styrk eða fékk hærri styrk en hann átti rétt á, beri honum að endurgreiða í ríkissjóð þá fjárhæð sem ofgreidd var. Krafan ber útlánavexti skv. 4. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, frá þeim degi sem ofgreitt var og þar til greitt er. Dráttarvextir skv. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu leggjast þó á standi rekstraraðili ekki skil á endurgreiðslu innan mánaðar frá dagsetningu endurákvörðunar Skattsins um að fella niður eða lækka styrk.
    Hafi rekstraraðili fengið ofgreiddan styrk með því að veita rangar eða ófullnægjandi upplýsingar er lagt til að Skatturinn skuli almennt gera honum að greiða 50% álag. Álagið leggst á endurgreiðslukröfuna eins og hún er með áföllnum vöxtum og eftir atvikum dráttarvöxtum á greiðsludegi. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur talið það geta verið andstætt mannréttindasáttmála Evrópu að gera sama manni að greiða álag á skatta og sæta í framhaldinu höfðun sakamáls vegna sama brots. Með tilliti til þeirra sjónarmiða er lagt til að Skatturinn geri aðila ekki að greiða álag ef Skatturinn telur háttsemi hans geta varðað sektum eða fangelsi heldur vísi málinu til rannsóknar lögreglu. Rekstraraðila bæri eftir sem áður að greiða áfallna vexti og eftir atvikum dráttarvexti af ofgreiddum styrk.
    Í 3. mgr. er lagt til að gera megi aðför til fullnustu ákvarðana Skattsins og úrskurða yfirskattanefndar um endurgreiðslur ofgreiddra styrkja án undangengins dóms, sbr. 5. tölul. 1. mgr. 1. gr. laga um aðför, nr. 90/1989. Um framkvæmd fullnustunnar fer samkvæmt lögum um aðför. Ekki má þó gera aðför á meðan endurgreiðslukrafa er til meðferðar hjá yfirskattanefnd eða dómstólum. Réttmæt endurgreiðslukrafa ber þó áfram vexti eða dráttarvexti meðan á slíkri meðferð stendur.

Um 10. gr.

    Heildarfjárhæð stuðnings til tengdra rekstraraðila getur ekki numið hærri fjárhæð en 330 millj. kr. Stuðningur samkvæmt lögum um ferðagjöf, stuðningur í tengslum við framhald lokunarstyrkja og tekjufalls- og viðspyrnustyrkir skulu teknir með í reikninginn. Ef um er að ræða fyrirtæki sem taldist í erfiðleikum 31. desember 2019 getur heildarfjárhæð stuðnings þó að hámarki numið 30 millj. kr., nema ef um er að ræða lítið fyrirtæki sem ekki hefur hlotið björgunar- eða endurskipulagningaraðstoð. Ákvæðið er hliðstætt 2. efnismgr. 4. gr. laga um breytingu á lögum um fjárstuðning til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru, (framhald á lokunarstyrkjum), nr. 119/2020. Hámarksfjárhæð styrkja til tengdra rekstraraðila er þó hærri til samræmis við þær breytingar sem gerðar hafa verið á tímabundnum ramma framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um ríkisaðstoð til stuðnings hagkerfisins vegna yfirstandandi COVID-19-heimsfaraldurs. Um útskýringar á hugtökunum tengdir rekstraraðilar, fyrirtæki í erfiðleikum, lítið fyrirtæki, björgunaraðstoð og endurskipulagningaraðstoð vísast til skýringa í 4. kafla greinargerðar með frumvarpi til þeirra laga.

Um 11. gr.

    Með hliðsjón af rétti almennings til aðgangs að upplýsingum um ráðstöfun opinbers fjár er lagt til að Skattinum verði skylt að birta opinberlega upplýsingar um hvaða lögaðilum hefur verið ákvarðaður styrkur samkvæmt frumvarpinu. Ákvæðið á fyrirmyndir í 11. gr. laga um tekjufallsstyrki, nr. 118/2020, og 11. gr. laga um viðspyrnustyrki, nr. 160/2020. Lagt er til að ákvæðið taki að meginreglu einungis til lögaðila en ekki einstaklinga og ekki verði birtar upplýsingar um fjárhæð styrks. Nemi styrkur jafnvirði 100 þús. evra eða meira verði þó ávallt birtar fjárhæðir og nöfn styrkþega í samræmi við tilmæli framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um viðmið ríkisaðstoðar vegna heimsfaraldurs kórónuveiru. Við umreikning í íslenskar krónur ber að miða við opinbert viðmiðunargengi evru eins og það er skráð hverju sinni.

Um 12. gr.

    Lagt er til að það varði sektum eða fangelsi allt að sex árum að brjóta gegn ákvæðum laganna, verði frumvarp þetta óbreytt að lögum, af ásetningi eða stórfelldu gáleysi. Í dæmaskyni er nefnd sú háttsemi að veita rangar eða ófullnægjandi upplýsingar í umsókn. Það á bæði við um þær upplýsingar sem veittar eru í rafrænu umsóknarferli vegna styrkja og þær upplýsingar sem umsækjandi kann að afhenda, eða vera krafinn um, í umsóknarferlinu. Brot sem telja má minni háttar varðar ekki refsingu samkvæmt greininni en getur orðið til þess að rekstraraðila beri að greiða álag skv. 2. mgr. 9. gr.

Um 13. gr.

    Lagt er til að ráðherra verði heimilað að setja reglugerð þar sem útfæra megi nánar framkvæmd laganna, nái frumvarp þetta fram að ganga.

Um 14. gr.

    Lagt er til að lögin taki þegar gildi enda eru þau ívilnandi og ætlað að mæta brýnni þörf.