Ferill 233. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 333  —  233. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á skaðabótalögum, nr. 50/1993 (gjafsókn).

Flm.: Helga Vala Helgadóttir, Tómas A. Tómasson, Gísli Rafn Ólafsson, Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, Vilhjálmur Árnason, Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, Bergþór Ólason, Jódís Skúladóttir.


1. gr.

    Við III. kafla laganna bætist ný grein, 27. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Gjafsókn.

    Stefnandi til greiðslu skaða- eða miskabóta vegna brota skv. XXII. kafla almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, sem og 218. gr. b sömu laga, skal hafa gjafsókn í héraði, fyrir Landsrétti og Hæstarétti.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Með frumvarpi þessu er lagt til að veitt verði lögbundin gjafsókn í einkamálum er varða sókn miska- og skaðabóta vegna kynferðisbrota skv. XXII. kafla almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, sem og ofbeldisbrota milli nákominna, sbr. ákvæði 218. gr. b sömu laga.
    Með frumvarpinu er það vilji flutningsmanna að löggjafinn leggi þannig sérstaka áherslu á þolendur kynferðisbrota og þolendur ofbeldisbrota í nánum samböndum með því að beita ívilnandi löggjöf svo að þolendur umræddra brota geti, þrátt fyrir niðurfellingu mála á rannsóknar- og ákærustigi eða sýknu í sakamáli, leitað leiða til að sækja bætur á hendur þeim sem verkið framdi. Flutningsmenn telja eðli þessara brota og alvarleika þeirra réttlæta að lögbundin gjafsókn sé veitt í þessum málum.
    Sönnunarbyrði í málum er mismunandi eftir því hvort um er að ræða sakamál eða einkamál. Sönnun í sakamálum krefst þess að sönnun sé lögfull og að hvers kyns vafi sé túlkaður sakborningi í hag. Gerðar eru þannig ríkari kröfur til sönnunar í sakamálum en einkamálum en fá kynferðisbrotamál enda fyrir dómstólum og enn færri með sakfellingu. Slík sönnunarkrafa er ekki fyrir hendi í einkamálum og því telja flutningsmenn frumvarpsins rétt að liðka til fyrir þolendum ofbeldis að sækja rétt sinn hvað varðar greiðslu skaða- eða miskabóta og fá þannig viðurkenningu á þeim hluta máls. Þrátt fyrir að réttur þeirra til málshöfðunar sé til staðar er afar fátítt að þolendur ofbeldis leiti leiða til að fá staðfestingu á ábyrgð gerenda ofbeldis með þessum hætti og fær því afar lítill hluti brotaþola skaða- eða miskabætur vegna afleiðinga brots sem geta verið langvinnar og víðtækar. Þá er ekki raunhæfur möguleiki fyrir stóran hluta brotaþola að sækja rétt sinn í einkamáli þar sem slíkt getur haft í för með sér mikla fjárhagslega áhættu. Almennt er möguleiki á gjafsókn bundinn við lágar tekjur umsækjanda. Þó eru einnig lögbundin tilvik um gjafsókn sem hefur verið veitt óháð efnahag umsækjanda. Flutningsmenn telja að heimilisofbeldis- og kynferðisbrotamál eigi hiklaust heima í þessum flokki mála sem heimila gjafsókn. Efnahagur fólks eða fjölskyldu á ekki að ráða því hvort hægt sé að sækja sér einkaréttarkröfur í þessum málaflokki.
    Í 1. mgr. 29. gr. samnings Evrópuráðsins um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi gegn konum sem fullgiltur var á Íslandi í apríl árið 2018 er kveðið á um að ríki skuli gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að fullnægjandi einkaréttarleg úrræði séu til staðar fyrir þolendur til að leita réttar síns gegn geranda.
    Með hliðsjón af framangreindu og vegna fjölda mála sem aldrei komast fyrir augu dómara telja flutningsmenn rétt að létta undir með þolendum með veitingu lögbundinnar gjafsóknar í málum til sóknar skaða- eða miskabóta vegna kynferðisbrota og ofbeldisbrota í nánum samböndum.