Ferill 247. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Prentað upp.

Þingskjal 347  —  247. mál.
Leiðréttur texti.




Frumvarp til laga


um breytingu á sóttvarnalögum, nr. 19/1997 (upplýsingagjöf til Alþingis).

Flm.: Bryndís Haraldsdóttir, Ásmundur Friðriksson, Berglind Ósk Guðmundsdóttir, Birgir Þórarinsson, Diljá Mist Einarsdóttir, Guðrún Hafsteinsdóttir, Haraldur Benediktsson, Hildur Sverrisdóttir, Njáll Trausti Friðbertsson, Óli Björn Kárason, Vilhjálmur Árnason.


1. gr.

    Við 13. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Ráðherra skal kynna ákvörðun um setningu reglna skv. 12. gr. og ákvæði þessu í velferðarnefnd Alþingis áður en þær taka gildi eða svo fljótt sem verða má verði því ekki komið við. Ef reglur eru settar samkvæmt ákvæði þessu skal ráðherra skila Alþingi skýrslu svo fljótt sem verða má, þar sem m.a. komi fram ítarleg rök fyrir nauðsyn þeirra.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Allt frá því að kórónuveirufaraldurinn hófst á hér á landi snemma árs 2020 hafa íslensk stjórnvöld, rétt eins og önnur ríki heims, gripið til ýmiss konar aðgerða til að stemma stigu við útbreiðslu veirunnar og hafa þær skilað miklum árangri. Á síðastliðnum tveimur árum hafa heilbrigðisráðherrar sett og í kjölfarið margsinnis breytt reglugerðum sem kveða á um ýmiss konar sóttvarnaráðstafanir sem hafa eðli máls samkvæmt takmarkað frelsi einstaklinga. Þrátt fyrir nauðsyn sóttvarnaráðstafana verður ekki fram hjá því litið að þær geta í sumum tilvikum verið mjög íþyngjandi og staðið yfir í langan tíma eins og raunin hefur verið hér á landi og hefur í kjölfarið fjöldi landsmanna og heilu starfsgreinarnar beðið gríðarlegt tjón af þeim. Þá hafa margir misst lífsviðurværi sitt í kjölfar sóttvarnaráðstafana. Jafnframt geta harðar samkomutakmarkanir og einangrun haft djúpstæð og neikvæð áhrif á andlega líðan landsmanna.
    Þrátt fyrir að sóttvarnaaðgerðir þurfi vissulega ávallt að vera byggðar á læknisfræðilegu mati og slík sjónarmið vegi óneitanlega þungt þá eru eigi að síður önnur atriði sem huga þarf að þegar reglur sem fela í sér miklar langtímafrelsisskerðingar eru settar. Slíkar skerðingar hafa óhjákvæmilega í för með sér margvíslegar félags- og efnahagslegar afleiðingar sem nauðsynlegt er að líta til þegar ákvarðanir um sóttvarnaráðstafanir eru teknar.
    Með vísan til framangreinds verður að teljast eðlilegt og í samræmi við lýðræðisleg sjónarmið að ákvarðanir um setningu sóttvarnareglna séu kynntar Alþingi á einhvern hátt. Jafnframt er mikilvægt að framkvæmdarvaldinu sé veitt aðhald við jafn veigamiklar ákvarðanir og sóttvarnaráðstafanir. Eins og að framan er rakið takmarka sóttvarnaráðstafanir oft stjórnarskrárvarin réttindi borgaranna og því rétt að þeir sem sitja á Alþingi í umboði almennings séu upplýstir með ítarlegum hætti um sóttvarnaráðstafanir, sérstaklega þegar þær gilda yfir lengri tíma.
    Aðkoma þjóðþinga að ákvörðunum um sóttvarnaráðstafanir er almennt við lýði í nágrannalöndum okkar, til að mynda í Noregi þar sem 1/3 hluti þingmanna getur fellt reglugerðarákvæði um sóttvarnaráðstafanir og í Danmörku þar sem sóttvarnaráðstafanir þurfa að vera samþykktar af meiri hluta sérstakrar þingnefndar. Í Bretlandi er málum þannig háttað að upplýsingagjöf um sóttvarnaráðstafanir samkvæmt kórónuveirulögum landsins er tíð og ítarleg, auk þess sem lögin eru tímabundin og hefur því þingið bæði tilefni og tækifæri til að endurmeta þau og framkvæmd þeirra reglulega.
    Í hinu nýja ákvæði er eðli máls samkvæmt ekki gerð krafa um að velferðarnefnd samþykki þær sóttvarnaráðstafanir sem lagðar eru til af ráðherra og sóttvarnalækni og bindur afstaða nefndarinnar því ekki hendur ráðherra. Umrædd breyting yrði þó eigi að síður til hagsbóta þar sem ráðherra yrði gert skylt að kynna sóttvarnaráðstafanir fyrir velferðarnefnd og færa þar knýjandi rök fyrir nauðsyn þeirra.