Ferill 159. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 348  —  159. mál.
Svar


forsætisráðherra við fyrirspurn frá Ásthildi Lóu Þórsdóttur um valfrjálsa bókun við alþjóðasamninginn um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hver tók ákvörðun, og í hvaða umboði, um að fullgilda ekki, „að svo stöddu“ valfrjálsa bókun við alþjóðasamninginn um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi sem var samþykkt á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 10. desember 2008, eins og greint er frá í 7. mgr. fimmtu skýrslu um framkvæmd samningsins, sem var birt á vef stjórnarráðsins 14. október síðastliðinn?
     2.      Hvers vegna var fyrrnefnd ákvörðun tekin, hvernig var staðið að undirbúningi hennar og við hverja var haft samráð um þá ákvarðanatöku?
     3.      Hvaða kringumstæður eða hindranir eru „að svo stöddu“ fyrir hendi sem leiddu til þess að fyrrnefnd ákvörðun var tekin og hvenær má búast við að þeim muni verða rutt úr vegi svo hægt verði að fullgilda valfrjálsu bókunina?
     4.      Telur ráðherra það samræmast þeirri megináherslu sem er lögð á mannréttindi í utanríkisstefnu íslenskra stjórnvalda að fullgilda valfrjálsu bókunina ekki „að svo stöddu“, meira en áratug eftir að hún var samþykkt á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna?


    Þegar fimmtu skýrslu Íslands um framkvæmd alþjóðasamningsins um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi var skilað bar dómsmálaráðherra ábyrgð á mannréttindamálum samkvæmt forsetaúrskurði um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands. Það var mat þáverandi dómsmálaráðherra að ekki væri rétt að fullgilda valfrjálsu bókunina við samninginn um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi að svo stöddu.
    Árið 2018 óskaði þáverandi dómsmálaráðherra eftir minnisblaði frá stýrihópi Stjórnarráðsins um mannréttindi um þrjár valfrjálsar bókanir sem veita einstaklingum heimild til þess að kvarta til eftirlitsnefnda Sameinuðu þjóðanna að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, þar á meðal umrædda bókun við alþjóðasamninginn um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi. Í minnisblaðinu voru sett fram rök með og á móti því að fullgilda þessar bókanir og byggði sú greining að miklu leyti á úttektum sem gerðar höfðu verið á öðrum Norðurlöndum. Í samantekt stýrihópsins var einnig tekið tillit til þeirra sjónarmiða sem fram höfðu komið í samráði hópsins við hagsmunaaðila. Samkvæmt samantektinni voru helstu rökin gegn því að fullgilda bókanirnar, ekki síst bókunina við alþjóðasamning um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi, að samningarnir fælu í sér matskennd réttindi sem gætu jafnvel í einhverjum tilvikum frekar talist stefnuyfirlýsingar. Þá var talin hætta á að umræddar bókanir myndu skapa óraunhæfar væntingar meðal almennings, þar sem einungis er hægt að fara fram á óbindandi álit á grundvelli þeirra. Þannig var talið að almennt væri áhrifaríkara fyrir einstaklinga að leita til Mannréttindadómstóls Evrópu.
    Í munnlegu svari þáverandi dómsmálaráðherra á Alþingi við fyrirspurn um fullgildingu bókunar við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sbr. þingskjal 453, 367. mál á 149. löggjafarþingi, kom m.a. fram að ráðherrann teldi framangreind rök gegn því að fullgilda bókanirnar vega þyngra en rökin með því.
    Með forsetaúrskurði um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, nr. 125/2021, sem birtur var 28. nóvember sl., voru málefni mannréttinda og mannréttindasáttmála færð frá dómsmálaráðuneytinu til forsætisráðuneytisins. Sú ákvörðun að fullgilda ekki valfrjálsu bókunina við alþjóðasamninginn um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi byggði því sem fyrr segir á mati þáverandi dómsmálaráðherra og getur forsætisráðherra ekki svarað fyrir forsendur að baki þeirri ákvörðun að öðru leyti en að framan er rakið.
    Tilvísuð bókun felur í sér að aðildarríki samþykki lögbærni eftirlitsnefndar til þess að taka við kærum frá einstaklingum sem telja að aðildarríki hafi brotið gegn réttindum samkvæmt samningnum um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi. Bókunin er eins og áður greinir valkvæð og hafa 26 ríki fullgilt hana, þar á meðal Finnland eitt Norðurlandanna. Ráðgert er að forsætisráðuneytið taki umrædda bókun, sem og aðrar sambærilegar bókanir við mannréttindasamninga Sameinuðu þjóðanna, til frekari skoðunar og meti hvort rétt sé að vinna að fullgildingu þeirra.