Ferill 250. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
2. uppprentun.

Þingskjal 352  —  250. mál.
Fyrirsögn, flutningsmenn. Ráðherra.
Tillaga til þingsályktunar


um fýsileikakönnun á merkingum kolefnisspors matvæla.


Flm.: Eva Dögg Davíðsdóttir, Orri Páll Jóhannsson, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Jódís Skúladóttir, Bjarni Jónsson, Tómas A. Tómasson, Þórarinn Ingi Pétursson, Jakob Frímann Magnússon, Helga Vala Helgadóttir.


    Alþingi ályktar að fela matvælaráðherra að fylgja eftir skýrslu starfshóps um merkingar matvæla með sértækri úttekt á merkingum fyrir kolefnisspor matvæla. Lagt er til að gerð verði fýsileikakönnun á samræmdum merkingum á kolefnisspori matvæla, innlendra sem erlendra.

Greinargerð.

    Tillaga þessi var lögð fram á 151. löggjafarþingi (281. mál) en hlaut ekki afgreiðslu. Markmið tillögunnar er að auðvelda neytendum að meta kolefnisspor matvæla, og er það í takt við matvælastefnu stjórnvalda, sem mæla með aðgerðum sem „tryggja aðgengi neytenda að réttum upplýsingum um uppruna, framleiðsluhætti og umhverfisáhrif matvæla“. Tillagan var fyrst flutt á 150. löggjafarþingi og byggist á fyrirspurn til þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Kristjáns Þórs Júlíussonar, á 149. löggjafarþingi um kolefnismerkingar matvæla (þskj. 1000, 599. mál). Þar var spurt hvort ráðherra hefði áform um að láta fara fram frekari vinnu er varðar merkingar um kolefnisspor matvæla, eða hvort vinna væri þegar hafin á því sviði. Í svarinu (þskj. 1182, 599. mál) kom fram að starfshópur um merkingar matvæla væri að störfum sem ætti m.a. að skoða þennan þátt. Starfshópurinn skilaði ítarlegri skýrslu 9. september 2020. Í níundu tillögu skýrslunnar kemur fram að mikilvægt sé að halda áfram að hvetja til merkinga og að aðilum tengdum stjórnvöldum verði skylt að merkja vörur með þessum hætti. Einnig kemur fram að áfram þurfi að hvetja til merkinga og skapa jákvæða hvata. Þá er einnig bent á samhengið við áform stjórnvalda um kolefnishlutleysi og hvernig slíkar merkingar geti hjálpað neytendum að taka upplýstar ákvarðanir í samræmi við þau markmið. Af skýrslunni er ljóst að þegar eru til staðar aðferðir til að meta kolefnisspor matvæla. Slíkar merkingar eru mikilvægar fyrir neytendur sem vilja leggja sitt á vogarskálarnar þegar kemur að kolefnisspori matvæla.
    Til þess að sporna við loftslagsvánni er nauðsynlegt að stuðla að auknu gagnsæi í losun gróðurhúsalofttegunda frá matvælaframleiðslu og skapa verkfæri sem gefa neytendum möguleikann á að taka upplýstar ákvarðanir um eigin neyslu. Dragi ekki úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda við framleiðslu og neyslu matvæla mun reynast örðugt að ná markmiðum Parísarsáttmálans um að takmarka hlýnun við 1,5–2 °C. Fjölþættra aðgerða er þörf og merking á kolefnisspori matvæla er einn liður í að ná árangri í að minnka kolefnisspor einstaklinga, sem er stórt á Íslandi. Mikilvægt er að hið opinbera stígi inn á þetta svið og stuðli að samræmdum, viðurkenndum, skýrum merkingum matvæla sem byggjast á fyrirliggjandi merkingum í öðrum löndum. Merkingar eins og þessar gætu haft jákvæð áhrif á sölu innlendra afurða sem ættu að standa vel í samkeppni við innfluttar vörur sem fluttar hafa verið um langan veg, þrátt fyrir að flutningur matvæla landa á milli sé ekki lykilþáttur í kolefnisspori matvæla. Mikilvægast er að merkingar á matvælum styðji við val á „kolefnisvænni“ vörum og auðveldi neytendum að taka upplýsta ákvörðun við matarinnkaup.
    Málið er lagt fram sem þingsályktunartillaga þar sem ætla má að nokkra vinnu þurfi til að finna út með hvaða hætti best sé að haga merkingum á kolefnisspori og hvaða regluverk styðji við innleiðingu slíkra merkinga til að tryggja áreiðanleika þeirra. Merkingar á kolefnisspori gætu t.d. verið í formi einkunnagjafar, stigagjafar eða litakóða, en þær þurfa að byggjast á skýrum stöðlum og kröfum svo að neytendur geti í sjónhendingu áttað sig á kolefnisspori vöru.
    Með samþykkt tillögunnar yrði stigið mikilvægt skref í þá átt að styðja við loftslagsmarkmið stjórnvalda sem og matvælastefnu Íslands fram til 2030 og innkaupastefnu ríkisins um sjálfbær innkaup. Um leið fengju íslenskir neytendur, framleiðendur og söluaðilar í hendur tæki til að taka þátt í að ná þeim markmiðum.