Ferill 167. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 354  —  167. mál.
Síðari umræða.Nefndarálit


um tillögu til þingsályktunar um breytta skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

Frá 2. minni hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.


    Annar minni hluti telur að verulega skorti á að þingsályktunartillagan sé nægilega vel undirbúin og rökstudd. Telur 2. minni hluti vafa leika á að breytingarnar sem þar eru lagðar til muni hafa þau jákvæðu áhrif á störf Stjórnarráðsins sem ríkisstjórnin leggur upp með. Að mati 2. minni hluta er alveg ljóst að þótt mikið sé vísað í fagleg sjónarmið við uppskiptingu Stjórnarráðsins snýst tillagan að verulegu leyti um að fjölga ráðuneytum til að bregðast við breyttum hlutföllum í kjölfar úrslita kosninganna. Pólitísk sjónarmið ráða því meira för en fagleg. Þótt játa verði ríkisstjórninni á hverjum tíma sjálfdæmi um svigrúm til þess að skipta upp Stjórnarráðinu í samræmi við pólitíska stefnumótun má ekki líta fram hjá faglega þættinum líkt og glögglega kom fram í skriflegum og munnlegum umsögnum hagsmunaaðila fyrir nefndinni.
    Sá lærdómur sem m.a. fékkst af falli íslensku bankanna árið 2008 var að íslenska stjórnkerfið var illa í stakk búið til að takast á við þau áföll sem þá dundu yfir. Einn af veikleikum þess var hversu fámenn ráðuneytin voru með tilliti til þeirra verkefna sem þau höfðu með höndum. Til að bæta úr þeim veikleikum var ráðuneytum í Stjórnarráði Íslands fækkað og þau sameinuð. Með því urðu þau stærri og öflugri sem gaf þeim möguleika á að takast á við fjölþættari verkefni með betri nýtingu fjármuna en áður með starfsfólki sem gat sérhæft sig í sínum málaflokkum. Þingsályktunartillagan sem hér um ræðir gengur í öfuga átt. Báknið er stækkað án þess að fyrir liggi greining á því hvernig Stjórnarráðið verði betur í stakk búið til að takast á við þau krefjandi verkefni sem fram undan eru í íslensku samfélagi. Það er áhyggjuefni að vikið sé frá þeirri stefnu að hafa ráðuneyti færri og stærri, án eðlilegrar umræðu í samfélaginu.
    Í greinargerð þingsályktunartillögunnar er rætt um mikilvægi þess að stjórnvöld vinni saman og samhæfi aðgerðir þegar málefni og verkefni skarast. Fram kemur að unnið hafi verið markvisst að því að auka samvinnu og samstarf þvert á ráðuneyti. Að mati 2. minni hluta hefur ríkisstjórnin ekki glæsta afrekaskrá um samstarf þvert á ráðuneyti. Engar markvissar áætlanir eða hugmyndir hafa verið kynntar um hvernig ráðuneytin muni vinna saman og hvernig tryggt verði flæði upplýsinga og samvinna milli þeirra sem er forsenda þess að uppskiptingin geti gengið upp. Svo virðist sem ríkisstjórnin sé að lofa því að vinnubrögð muni breytast á einni nóttu með því einu að skrifa um það yfirlýsingar í greinargerð, án undirbúnings, samráðs eða aðkomu sérfræðinga og hagsmunaaðila og þvert á ráðleggingar þeirra sem best þekkja til um fyrirkomulag stjórnsýslukerfa. Ekki verður fram hjá því litið að í umsögnum og hjá gestum sem kallaðir voru fyrir nefndina voru viðraðar verulegar áhyggjur af því að tilfærsla verkefna á milli ráðuneyta gæti í einhverjum tilvikum bitnað á þeirri þjónustu sem stofnunum er skylt að veita samkvæmt lögum. Þessi sjónarmið voru gjarnan byggð á reynslu og að mati 2. minni hluta verður ekki séð að hugað sé nægjanlega vel að þessu í þessum stórfelldu breytingum sem fyrirhugaðar eru á Stjórnarráðinu.
    Annar minni hluti hefur enn fremur áhyggjur af uppskiptingu menntastiga sem ríkisstjórnin hefur boðað. Að mati 2. minni hluta felur hið boðaða fyrirkomulag menntamála í sér afturför í viðhorfi gagnvart menntun almennt. Menntun snýst fyrst og fremst um velferð, þekkingu, framfarir og hamingju þjóðar, en áherslur ríkisstjórnarinnar snúast meira um efnahagsleg markmið og að menntun þjóni atvinnulífinu, án þess að hugað sé nægjanlega vel að fyrrnefndu þáttunum.
    Annar minni hluti tekur undir þær áhyggjur sem viðraðar voru á fundum nefndarinnar um stöðu starfsfólks ráðuneytanna við þessar aðstæður. Löngu eftir að ákvörðun um uppskiptingu var tekin hafði það ekki hugmynd um stöðu sína við þessa miklu uppstokkun og upplýsingagjöf til þeirra var í sumum tilvikum í skötulíki. Þá finnst 2. minni hluta mikilvægt að halda því til haga að við svona breytingar er mikilvægt að nýta þá þekkingu sem til staðar er í ráðuneytunum. Vísa má þar sérstaklega í umsögn BHM þar sem segir að þekking sérfræðinga Stjórnarráðsins hafi ekki verið nýtt sem skyldi í undirbúningi breytinga á skipan ráðuneyta.
    Sú ákvörðun að ráðast í umfangsmiklar breytingar á æðstu stjórnsýslu ríkisins er tekin í þröngum hópi og ljóst að sú ákvörðun byggist fyrst og fremst á pólitískum forsendum fremur en faglegum. Sú ákvörðun og ábyrgð á framkvæmd hennar er á hendi ríkisstjórnarinnar en ekki minni hluta.
    Að mati 2. minni hluta er því mikilvægt að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, sem sú nefnd sem sérstaklega er falið eftirlitshlutverk gagnvart framkvæmdarvaldinu, verði haldið upplýstri um gang mála og tekur því 2. minni hluti undir þá tillögu meiri hlutans að nefndin fái stöðumatsskýrslu um breytingarnar.
    Bergþór Ólason, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykkur áliti þessu.

Alþingi, 21. janúar 2022.

Sigmar Guðmundsson,
frsm.
Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir. Ásthildur Lóa Þórsdóttir.