Ferill 253. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 357  —  253. mál.
Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um fjárstuðning til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru, nr. 38/2020 (framhald lokunarstyrkja).

Frá fjármála- og efnahagsráðherra.


1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 4. gr. laganna:
     a.      Á eftir orðunum „fyrir lok árs 2019“ í 1. málsl. 4. tölul. kemur: eða 1. ágúst 2021 vegna lokunartímabila frá 15. janúar 2022.
     b.      5. tölul. orðast svo: Bú hans hefur ekki verið tekið til gjaldþrotaskipta. Jafnframt skal hann ekki hafa verið tekinn til slita, nema ef slitin eru liður í samruna, skiptingu eða breytingu á rekstrarformi rekstraraðilans, og fyrirhugað er að lögaðili sem við tekur haldi rekstri sem umsókn varðar áfram.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 5. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „260 millj.“ í 5. mgr. kemur: 330 millj.
     b.      Á eftir orðunum „samkvæmt lögum um tekjufallsstyrki“ í 1. málsl. 5. mgr. kemur: og styrkjum til rekstraraðila veitingastaða samkvæmt lögum um styrki til rekstraraðila veitingastaða sem hafa sætt takmörkunum á opnunartíma.
     c.      Á eftir 7. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi: Hafi rekstraraðila verið ákvarðaður styrkur til rekstraraðila veitingastaða samkvæmt lögum um styrki til rekstraraðila veitingastaða sem hafa sætt takmörkunum á opnunartíma fyrir sama tímabil og lokunartímabil nær til dregst hann frá lokunarstyrk.

3. gr.

    5. málsl. 1. mgr. 6. gr. laganna orðast svo: Umsóknir vegna lokunartímabila frá og með 15. janúar 2022 skulu hafa borist eigi síðar en 30. júní 2022.

4. gr.

    Í stað orðanna „30. september 2021“ í 2. málsl. 26. gr. laganna kemur: 30. júní 2022.

5. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarpið er samið í fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Í því er fjallað um framhald lokunarstyrkja vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Hinn 14. janúar 2022 kynnti ríkisstjórnin að með hliðsjón af fyrirliggjandi spám um fjölgun smita af völdum kórónuveirufaraldursins og fjölgun innlagna á sjúkrahús á næstu vikum og mikils og vaxandi álags á heilbrigðiskerfið hefði verið ákveðið að grípa til hertra ráðstafana innanlands. Sama dag birti heilbrigðisráðherra reglugerð nr. 16/2022, um takmörkun á samkomum vegna farsóttar, og tók hún gildi 15. janúar 2022. Almennar fjöldatakmarkanir voru lækkaðar í 10 manns og skemmtistöðum og krám, spilasölum og aðilum sem reka spilakassa gert að loka auk ýmissa annarra takmarkana á starfsemi bæði rekstraraðila og annarra vegna smithættu. Umræddar takmarkanir voru enn í gildi þegar frumvarpið var lagt fram.
    Umsóknarfrestur til að sækja um lokunarstyrki samkvæmt gildandi lögum rann út 30. september 2021 en rekstraraðilum var síðast gert að loka eða stöðva starfsemi sína í mars 2021 og því tímabili lauk um miðjan apríl 2021. Með hliðsjón af því að gripið hefur verið til þess að nýju að skylda ákveðna rekstraraðila til að loka eða stöðva sína starfsemi vegna kórónuveirufaraldursins er lagt til að gildistími lokunarstyrkja verði framlengdur fram á sumar 2022. Með því móti ætti að vera tryggt að nægur tími gefist til að sækja um lokunarstyrki fyrir umrætt lokunartímabil.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Ákvæði II. kafla laganna, sem fjallar um lokunarstyrki, eru enn í gildi en lögbundinn frestur til að sækja um styrkina er þó runninn út. Í frumvarpinu er lagt til að umsóknarfresturinn verði framlengdur til 30. júní 2022 og að til viðbótar verði gerðar nokkrar minni háttar breytingar sem skýrast af ólíkum þáttum en allar stafa af því að nú er lengra liðið á faraldurinn en síðast þegar lögunum um styrkina var breytt. Í öllum meginatriðum er lagt til að um verði að ræða sambærilegt lokunarstyrkjaúrræði og gilt hefur um fyrri lokunartímabil í faraldrinum.
    Lagt er til að hámarksfjárhæð lokunarstyrkja verði hækkuð úr 260 millj. kr. í 330 millj. kr. Þessi hækkun á rætur að rekja til tímabundins ramma Evrópusambandsins um ríkisaðstoð til stuðnings hagkerfinu vegna yfirstandandi COVID-19-heimsfaraldurs frá 19. mars 2020. Upphaflega gilti tímabundni ramminn til 31. desember 2020 en hann hefur verið framlengdur og gildir nú út júní 2022. Þetta hámark á styrkfjárhæðum gildir ekki bara fyrir einstakar tegundir styrkja eða einstaka rekstraraðila heldur ber eins og áður að leggja saman lokunarstyrki frá miðjum september 2020, tekjufallsstyrki, viðspyrnustyrki og ferðagjafir og er lagt til að styrkir til rekstraraðila veitingastaða sem hafa sætt takmörkunum á opnunartíma vegna kórónuveirufaraldurs, sem til stendur að leiða í lög á yfirstandandi þingi, sbr. frumvarp fjármála- og efnahagsráðherra (þskj. 332, mál 232), falli einnig þar undir. Öll framangreind úrræði falla í sama flokk ríkisaðstoðarrammans og því undir sama viðmið um hámarksfjárhæð. Þá gildir einnig sama hámark fyrir tengda aðila í rekstri þ.e. þeir deila einni hámarksfjárhæð óháð því um hve marga tengda aðila (kennitölur) er að ræða. Við skilgreiningu fyrirtækis í framangreindum skilningi er horft til eigna- og stjórnunartengsla og teljast tengdir aðilar því eitt fyrirtæki þegar kemur að hámarkinu.
    Loks eru lagðar til tvær breytingar á skilyrðum lokunarstyrkja. Lagt er til að skilyrðið um rekstrarhæfi umsækjanda verði rýmkað á þann veg að bú rekstraraðila megi ekki hafa verið tekið til gjaldþrotaskipta eða slita, en þar er lagt til að ekki falli undir slit rekstraraðila ef þau eru liður í samruna, skiptingu eða breytingu á rekstrarformi rekstraraðilans sem fyrirhugað er að haldi áfram í rekstri þess lögaðila sem við tekur. Þá er lagt til að viðmiðunartímamark um skilvísi á opinberum gjöldum, sköttum og skattsektum verði fært fram, þ.e. verði 1. ágúst 2021 í stað loka árs 2019 vegna lokunartímabila frá 15. janúar 2022.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Frumvarpið er ekki talið gefa tilefni til að kanna samræmi við stjórnarskrá.
    Samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið bannar að meginreglu til ríkisaðstoð sem raskar eða er til þess fallin að raska samkeppni með því að ívilna ákveðnum fyrirtækjum eða framleiðslu ákveðinnar vöru að því leyti sem hún hefur áhrif á viðskipti milli samningsaðila. Sú aðstoð sem lög um lokunarstyrki heimila fellur undir tímabundnar heimildir til að veita fyrirtækjum sem lenda í ófyrirséðum lausafjárskorti sökum kórónuveirufaraldursins fjárstuðning, samkvæmt kafla 3.1 í orðsendingu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um tímabundinn ramma um ríkisaðstoð til stuðnings hagkerfinu vegna yfirstandandi COVID-19-heimsfaraldurs, frá 19. mars 2020.
    Eftirlitsstofnun EFTA hefur þegar samþykkt að úrræði um lokunarstyrki samræmist fyrrgreindum heimildum með ákvörðun nr. 128/20/COL frá 6. nóvember 2020, sbr. einnig ákvörðun nr. 037/21/COL frá 10. maí 2021. Þessar ákvarðanir stofnunarinnar eru birtar opinberlega á vef hennar. Með orðsendingu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins frá 18. nóvember 2021 var gildistími rammans framlengdur til 30. júní 2022 og þak stuðnings til hvers rekstraraðila hækkað í 2,3 millj. evra, sem eru rúmlega 330 millj. kr. miðað við gengið eins og það var skráð um miðjan janúar 2022. Fyrirhugaðar breytingar á lokunarstyrkjum eru háðar samþykki Eftirlitsstofnunar EFTA og hefur fjármála- og efnahagsráðuneytið þegar upplýst stofnunina um þau áform sem felast í frumvarpinu.

5. Samráð.
    Við vinnslu frumvarpsins var haft samráð við forsætisráðuneytið, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið, Skattinn og yfirskattanefnd.
    Sökum þess hversu áríðandi þótti að leggja frumvarpið fram á Alþingi sem fyrst gafst ekki kostur á að hafa samráð um drög að frumvarpi í samráðsgátt stjórnvalda.

6. Mat á áhrifum.
    Lokunarstyrkur skal vera jafnhár rekstrarkostnaði á tímabili lokunar en getur þó ekki orðið hærri en 600 þús. kr. á hvern launamann sem starfaði hjá rekstraraðila á lokunartímabilinu fyrir hverja 30 daga lokun og hlutfallslega lægri fyrir styttra tímabil. Ekkert hámark er á fjölda launamanna en hámark styrks miðast við þak stuðnings til rekstraraðila vegna yfirstandandi COVID-19-heimsfaraldurs sem tilgreint er í tímabundnum ramma Evrópusambandsins um ríkisaðstoð til stuðnings hagkerfinu vegna yfirstandandi COVID-19-heimsfaraldurs.
    Í 5 gr. reglugerðar um takmörkun á samkomum vegna farsóttar frá 14. janúar 2022 er skemmtistöðum og krám, spilasölum og spilakössum gert skylt að loka frá og með 15. janúar til og með 2. febrúar 2022. Frá miðjum apríl 2021 hafa ákvarðanir stjórnvalda ekki leitt til rekstrarstöðvunar og því hafa ekki verið greiddir lokunarstyrkir vegna lokana frá apríl 2021. Síðasta lokunartímabil á árinu 2021 varði í 20 daga eða frá 26. mars til og með 14. apríl 2021 og náði til skemmtistaða, kráa, spilasala og aðila sem reka spilakassa, auk líkamsræktarstöðva á landinu öllu. Greiddar voru nær 150 millj. kr. í lokunarstyrki vegna lokana á tímabilinu. Hæstar fjárhæðir fóru til líkamsræktarstöðva en nær 55 millj. kr. voru greiddar í lokunarstyrki til 21 aðila í rekstri skemmtistaða, kráa, spilakassa og spilasala. Hver aðili fékk því að meðaltali ríflega 2,5 millj. kr. í lokunarstyrk á tímabilinu. Rekstraraðilum í greinunum sem fengu lokunarstyrki vegna lokana í apríl 2021 hafði þá fækkað nokkuð frá fyrri lokunartímabilum. Það gæti t.d. skýrst af því að færri sækja um þegar lokunartímabil er styttra, vegna þess að einhverjir aðilar hættu starfsemi eða breyttu starfsemi sinni svo þeir féllu ekki undir takmarkanirnar.
    Líklegt er að sömu aðilar í rekstri skemmtistaða, kráa, spilakassa og spilasala sæki um lokunarstyrk vegna þess lokunartímabils sem nú liggur fyrir á árinu 2022. Óljóst er hvort rekstraraðilum í greinunum hafi fjölgað eða fækkað fram til janúar 2022. Þó er líklegt að rekstraraðilarnir hafi ráðið til sín fleira starfsfólk þar sem frá apríl og fram á haust 2021 fjölgaði þeim sem störfuðu í veitingarekstri um nær 2.500 manns. Fjölgun launafólks felur í sér hækkun á mögulegu hámarki lokunarstyrks og hækkun rekstrarkostnaðar og gæti þannig hækkað styrkfjárhæð hvers rekstraraðila. Auk þess standa nú ýmis önnur úrræði rekstraraðilunum ekki lengur til boða sem voru til þess fallin að lækka rekstrarkostnað og komu því til frádráttar við ákvörðunar lokunarstyrks, svo sem hlutabætur. Miðað við framangreint má gera ráð fyrir að áhrif yfirstandandi lokunartímabils á ríkissjóð, sem varir til og með 2. febrúar 2022, verði líklega ekki meiri en 100 millj. kr. Afkoma ríkissjóðs mun versna sem því nemur en ekki er gert ráð fyrir lokunarstyrkjum í fjárlögum 2022. Aftur á móti var fjárheimild ársins 2021 til lokunarstyrkja ekki nýtt til fulls og kæmi til álita að fjármála- og efnahagsráðherra heimilaði flutning óráðstafaðra fjárveitinga frá árinu 2021 til að mæta þessum vænta kostnaði vegna lokunarstyrkja á árinu 2022.
    Með frumvarpinu er lagt til að Skattinum verði falið að afgreiða umsóknir um styrki eins og verið hefur. Afgreiðslan mun fela í sér aukin umsvif og kostnað hjá Skattinum og áætlað er að kostnaður við forritun tölvukerfa geti numið um 1 millj. kr. en kostnaður við framkvæmd að öðru leyti allt að 3 millj. kr. Þá er í frumvarpinu gert ráð fyrir að ákvarðanir Skattsins um styrkina verði áfram kæranlegar til yfirskattanefndar. Áhrifin á nefndina munu ráðast af fjölda kærumála en ekki er gert ráð fyrir að þau áhrif verði veruleg og málin ekki af þeim toga að þau krefjist mannauðs sem nefndin býr ekki yfir nú þegar.
    Þar sem ekki er vitað hvort beita þurfi frekari lokunum á næstu mánuðum liggja ekki fyrir upplýsingar um heildaráhrif á ríkissjóð af því að framlengja lokunarstyrki. Lagt er til að gildistími á framlengingu úrræðisins verði fram á mitt ár 2022. Heildaráhrif á ríkissjóð af úrræðinu fram að þeim tíma ráðast af því hve mikið verður um lokanir og hve mikið fyrirtæki koma til með að nýta sér úrræðið sem er valfrjálst og sækja þarf um sérstaklega.

Um einstakar greinar frumvarpsins.
Um 1. gr.

     Um a-lið. Í stað þess að miða vanskil með opinber gjöld sem komin voru á eindaga við lok árs 2019 vegna lokunartímabila frá 15. janúar 2022, líkt og er kveðið á um í gildandi lögum, er lagt til að miðað verði við vanskil með opinber gjöld sem komin voru á eindaga 1. ágúst 2021.
     Um b-lið. Lagt er til að skilyrði varðandi gjaldþrot rekstraraðila eða slit hans verði breytt þannig að gert sé ráð fyrir undantekningu ef slit rekstraraðila eru liður í samruna, skiptingu eða breytingu á rekstrarformi rekstraraðila, og fyrirhugað er að lögaðili sem við tekur haldi rekstri sem umsókn varðar áfram. Tekur breytingin mið af ábendingu þar um í áliti meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar um frumvarp til laga um viðspyrnustyrki frá 151. löggjafarþingi (þskj. 390, 334. mál).

Um 2. gr.

     Um a-lið. Í greininni er lagt til að hámark heildarfjárhæðar lokunarstyrkja til tengdra rekstraraðila verði hækkað úr 260 millj. kr. í 330 millj. kr. Breytingin er til samræmis við kafla 3.1 í tímabundnum ramma um ríkisaðstoð til stuðnings hagkerfinu vegna yfirstandandi COVID-19-heimsfaraldurs, eins og honum var breytt með orðsendingu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins frá 18. nóvember 2021.
     Um b-lið. Lagt er til að bætt verði við ákvæðið að við mat á heildarfjárhæð sem tengdir rekstraraðilar hafa fengið beri einnig að horfa til stuðnings sem þeir hafa fengið á grundvelli laga um styrki til rekstraraðila veitingastaða sem hafa sætt takmörkunum á opnunartíma samkvæmt lögum sem til stendur að verði sett til stuðnings umræddum rekstraraðilum veitingastaða, verði áðurnefnt frumvarp að lögum, og byggjast á sama tímabundna rammanum og önnur þau úrræði sem þegar eru tiltekin í ákvæðinu.
     Um c-lið. Lagt er til að ákvæði verði bætt við lögin þess efnis að frá lokunarstyrk dragist styrkur til rekstraraðila veitingastaða samkvæmt lögum um styrk til rekstraraðila veitingastaða sem hafa sætt takmörkunum á opnunartíma, hafi rekstraraðila verið ákvarðaður slíkur styrkur vegna sama tímabils og lokunartímabil nær til. Frádrátturinn byggist á sömu sjónarmiðum og gilt hafa frádrátt tekjufalls- og viðspyrnustyrkja frá lokunarstyrkjum til þessa.

Um 3. gr.

    Í greininni er lagt til að Skattinum verði heimilað að afgreiða umsóknir um lokunarstyrk vegna lokunartímabila frá og með 15. janúar 2022 til og með 30. júní 2022, sem tekur mið af gildistíma tímabundins ramma Evrópusambandsins um ríkisaðstoð til stuðnings hagkerfinu vegna yfirstandandi COVID-19-heimsfaraldurs frá 19. mars 2020.

Um 4. gr.

    Í greininni er lagt til að réttur til lokunarstyrks skv. II. kafla laganna verði framlengdur til 30. júní 2022, með sömu rökum og í 3. gr. frumvarpsins.

Um 5. gr.

    Ákvæðið þarfnast ekki skýringar.