Ferill 130. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 368  —  130. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Helgu Völu Helgadóttur um kostnað við fjölgun ráðherra og breytingu á skipulagi ráðuneyta.


    Upplýsingar um kostnað vegna fjölgunar ráðherra og breytinga á skipan ráðuneyta hafa að mestu leyti þegar komið fram í tengslum við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 2022. Í nefndaráliti frá meiri hluta fjárlaganefndar sem lagt var fram við aðra umræðu fjárlagafrumvarpsins kemur fram að útgjöld hækki um 56 millj. kr. á fjárlagalið ríkisstjórnar vegna fjölgunar ráðherra um einn og aðstoðarmanna um tvo. Þar var einnig gerð grein fyrir tillögu um 450 millj. kr. framlag til aðalskrifstofa tveggja nýrra ráðuneyta vegna breyttrar skipunar Stjórnarráðsins samkvæmt þeirri áætlun sem lá fyrir á því stigi, en í henni eru nokkrir óvissir þættir, svo sem varðandi húsnæðismál. Með þeim fyrirvörum hefur að samanlögðu verið áætlað að heildarkostnaður við stofnun tveggja nýrra ráðuneyta gæti numið um 506 millj. kr. fyrsta árið þegar litið er til helstu grunnþátta í rekstri.

     1.      Hver er áætlaður árlegur viðbótarkostnaður ríkissjóðs við að fjölga ráðherrum í ríkisstjórn Íslands? Svar óskast sundurliðað eftir:
                  a.      heildarlaunakostnaði nýrra ráðherra,
                  b.      heildarlaunakostnaði aðstoðarmanna nýrra ráðherra,
                  c.      heildarlaunakostnaði ritara nýrra ráðherra,
                  d.      heildarlaunakostnaði bílstjóra nýrra ráðherra,
                  e.      heildarkostnaði vegna nýrra ráðuneyta, m.a. vegna húsnæðis og skrifstofuaðstöðu,
                  f.      öðrum mögulegum viðbótarkostnaði, ótilgreindum.

    Þegar núverandi ríkisstjórn var mynduð fjölgaði embættum ráðherra um eitt frá fyrri ríkisstjórn. Svör við a–d-lið miðast því við viðbótarstarfsmenn sem leiða af því. Í e-lið er hins vegar miðað við heildarútgjöld tveggja nýrra ráðuneyta sem taka til starfa í samræmi við fyrirætlanir sem koma fram í tillögu til þingsályktunar um breytta skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands og í kjölfarið í nýjum forsetaúrskurði um skiptingu í ráðuneyti sem gert hefur verið ráð fyrir að taki gildi 1. febrúar nk.
    a. Áætlaður heildarlaunakostnaður nýrra ráðherra er 13 millj. kr. umfram þingfararkaup, en eins og áður segir fjölgar ráðherrum um einn.
    b. Heildarlaunakostnaður aðstoðarmanna nýrra ráðherra er áætlaður 43 millj. kr. vegna tveggja aðstoðarmanna sem gert er ráð fyrir að bætist við vegna fjölgunar um einn ráðherra.
    c. Heildarlaunakostnaður ritara nýrra ráðherra er áætlaður um 11 millj. kr. vegna ritara eins nýs ráðherra.
    d. Heildarlaunakostnaður bílstjóra nýrra ráðherra er áætlaður 14 millj. kr. vegna bílstjóra eins nýs ráðherra.
    e. Viðbótarkostnaður sem leiðir af stofnun tveggja nýrra ráðuneyta, að meðtöldum launum skv. c- og d-lið, launum ráðuneytisstjóra og þriggja almennra starfsmanna, annars rekstrarkostnaðar og húsaleigu vegna annars ráðuneytisins er áætlaður um 380 millj. kr. á ársgrundvelli Ekki liggur endanlega fyrir hvar nýtt ráðuneyti verður til húsa og því er húsaleiga lauslega áætluð. Því til viðbótar er gert ráð fyrir einskiptiskostnaði við kaup á búnaði og tækjum fyrir bæði ráðuneytin sem gæti numið um 30 millj. kr. á fyrsta árinu.
    f. Þar sem ekki liggur fyrir á þessu stigi endanlegt innra skipulag nýrra ráðuneyta, tilfærsla núverandi starfsmanna og breyttar starfsáherslur er nokkur óvissa um að hvaða marki ráða þurfi til starfa aukið starfslið. Í áætluninni er gert ráð fyrir 40 millj. kr. fjárheimild til að nokkurt svigrúm verði til þess og til að mæta annarri óvissu um rekstrarforsendur nýrra ráðuneyta. Að þessu meðtöldu nemur heildarfjárheimildin 450 millj. kr. en óvíst er að nýta þurfi hana að fullu.

     2.      Hver er áætlaður kostnaður ríkissjóðs við breytingu á skipan ráðuneyta:
                  a.      vegna fjölgunar starfa,
                  b.      vegna breytinga á skrifstofuhúsnæði?

    a. Vegna fjölgunar starfa er árlegur kostnaður, laun og annar rekstrarkostnaður, áætlaður 380 millj. kr., sbr. framangreint. Því til viðbótar koma um 30 millj. kr. einskiptisútgjöld vegna kaupa á búnaði en auk þess er óvíst um hversu mikil þörf verður fyrir óvissusvigrúmið í áætluninni.
    b. Áætlaður viðbótarkostnaður vegna breytinga á húsnæði og skrifstofuaðstöðu í eigu ríkisins er talinn vera takmarkaður, einkum í ljósi þess að þegar var hafin vinna við að færa starfsemi Stjórnarráðsins yfir í sveigjanlegt og nútímalegt húsnæði á Stjórnarráðsreitnum sem auðvelt verður að aðlaga að breytilegri ráðuneytaskipan. Þó er gert ráð fyrir að einhver kostnaður falli til vegna tímabundinnar leigu á húsnæði fyrir ráðuneyti, sbr. e-lið 1. tölul., meðan á endurbótum á skrifstofuhúsnæði ríkisins stendur.

     3.      Hver er þar með áætlaður viðbótarkostnaður á kjörtímabilinu í heild haldist skipan óbreytt?
    Miðað við framangreint má áætla að verði kjörtímabilið heil fjögur ár verði uppsafnaður viðbótarkostnaður af breyttri skipan ráðuneyta alls um 1.770 millj. kr. að meðtöldum einskiptisútgjöldum. Eins og áður segir gæti kostnaðurinn orðið nokkru hærri ef nýta þarf svigrúm fyrir óvissu í áætluninni. Á móti vegur að samhliða þessum breytingum á Stjórnarráðinu hefur verið ákveðið að endurskoða fyrirkomulag stoðþjónustu ráðuneyta með það að markmiði að auka samrekstur og samnýtingu húsnæðis, t.d. fundaraðstöðu. Gert er ráð fyrir að slík breyting leiði til aukins hagræðis í rekstri. Ekki er gert ráð fyrir þeim ávinningi í framangreindum forsendum.