Ferill 127. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Prentað upp.

Þingskjal 391  —  127. mál.
Ráðherra.
Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Arndísi Önnu Kristínardóttur Gunnarsdóttur um kostnað við flutning umsækjenda um alþjóðlega vernd úr landi.


     1.      Hversu margir umsækjendur um alþjóðlega vernd hafa verið fluttir úr landi með aðstoð lögreglu undanfarin þrjú ár? Óskað er eftir sundurliðun eftir áfangastað, ári flutnings og því hvort um er að ræða flutning samkvæmt Dyflinnarreglugerðinni, á grundvelli a-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, eða flutning til heimaríkis í kjölfar efnismeðferðar umsóknar um vernd.
    Á síðastliðnum þremur árum hefur stoðdeild ríkislögreglustjóra fylgt 457 útlendingum, sem fengið hafa endanlega synjun á umsókn sinni um alþjóðlega vernd, úr landi samkvæmt ákvörðun Útlendingastofnunar um brottvísun eða frávísun.

Tafla 1. Sundurliðun milli ára og grundvöllur flutnings.

Tegund máls 2019 2020 2021
Dyflinnarreglugerðin 74 46 25
Verndarmál (a-liður 1. mgr. 36. gr.) 60 8 48
Efnismeðferð 124 43 29
Alls 258 97 102

    Um tegund mála vísar „Dyflinnarreglugerðin“ til flutnings einstaklinga sem hafa hafið umsóknarferli um alþjóðlega vernd í ríki sem er aðili að Dyflinnarreglugerðinni, „verndarmál“ vísar til einstaklinga sem þegar hafa hlotið alþjóðlega vernd í viðtökuríki og „efnismeðferð“ vísar til þeirra mála þegar einstaklingar hafa hlotið efnislega meðferð á Íslandi.


Tafla 2. Sundurliðun eftir áfangastað og ári flutnings einstaklinga í fylgd á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar; umsókn um vernd hafin í viðkomandi ríki.

Dyflinnarreglugerðin 2019 2020 2021 Alls
Svíþjóð 8 5 9 22
Frakkland 15 4 1 20
Þýskaland 10 7 0 17
Ítalía 8 5 2 15
Holland 0 10 1 11
Spánn 5 3 2 10
Danmörk 4 2 3 9
Belgía 7 1 1 9
Finnland 1 2 3 6
Pólland 4 0 1 5
Bretland 3 0 1 4
Malta 3 1 0 4
Noregur 1 1 1 3
Sviss 1 1 0 2
Tékkland 0 2 0 2
Portúgal 1 1 0 2
Írland 1 0 0 1
Lúxemborg 1 0 0 1
Austurríki 1 0 0 1
Litáen 0 1 0 1
Alls 74 46 25 145

Tafla 3. Sundurliðun eftir áfangastað og ári flutnings einstaklinga í fylgd sem þegar hafa hlotið alþjóðlega vernd í viðkomandi ríki.

Verndarmál 2019 2020 2021 Alls
Grikkland 23 4 34 61
Ítalía 27 1 5 33
Ungverjaland 0 2 6 8
Malta 5 0 1 6
Þýskaland 2 1 1 4
Svíþjóð 1 0 0 1
Frakkland 1 0 0 1
Belgía 1 0 0 1
Kýpur 0 0 1 1
Alls 60 8 48 116

Tafla 4. Sundurliðun eftir áfangastað og ári flutnings einstaklinga í fylgd að undangenginni efnismeðferð á Íslandi.

Efnismeðferð 2019 2020 2021 Alls
Albanía 35 7 8 50
Georgía 31 2 12 45
Norður-Makedónía 12 7 0 19
Moldóva 14 13 1 28
Úkraína 9 4 0 13
Kósóvó 9 0 0 9
Serbía 9 0 0 9
Bandaríkin 2 2 1 5
Tyrkland 1 1 1 3
Pakistan 1 1 0 2
Gana 0 2 0 2
Brasilía 0 2 0 2
Bangladess 0 1 0 1
Kenía 0 0 1 1
Palestína 0 0 1 1
Nígería 0 0 1 1
Sómalía 0 0 1 1
Kólumbía 0 0 1 1
Marokkó 0 1 0 1
Chile 0 0 1 1
Líbanon 1 0 0 1
Alls 124 43 29 196

     2.      Hver var kostnaður íslenska ríkisins við fyrrgreinda flutninga? Auk framangreindrar sundurliðunar óskast svarið sundurliðað eftir því vegna hvers kostnaðurinn var, svo sem beinn kostnaður við flug, launakostnaður lögreglumanna o.þ.h.

Tafla 5. Kostnaður stoðdeildar ríkislögreglustjóra, í íslenskum krónum, vegna framkvæmdar flutninga í fylgd, sundurliðaður eftir árum og tegund kostnaðar.

Tegund kostnaðar 2019 2020 2021
Heildarkostnaður stoðdeildar á ári 161.657.364 165.977.724 177.943.392
Ferðakostnaður 79.767.972 38.948.159 38.420.744
Flugvélaleiga 18.267.458 37.507.337 8.292.700
Endurgreiðsla Frontex -24.921.635 -24.949.893 -33.348.269
Kostnaður alls eftir endurgreiðslu Frontex 234.771.159 217.483.327 191.308.567

    „Heildarkostnaður stoðdeildar á ári“ vísar annars vegar til almenns rekstrarkostnaðar stoðdeildar og hins vegar til launakostnaðar lögreglumanna hjá stoðdeild ríkislögreglustjóra samkvæmt gildandi kjarasamningum og samningi Útlendingstofnunar og ríkislögreglustjóra um verkefni stoðdeildar. Alls starfa 11 starfsmenn í 100% starfi í stoðdeild. Launakostnaður starfsmanna er ekki aðgreindur eftir verkefnum en stoðdeildin sinnir auk flutninga útlendinga, sem fengið hafa endanlega synjun á umsókn sinni um alþjóðlega vernd, flutningum í fylgd vegna framsals sakamanna, flutningi fanga og framkvæmd frávísana samkvæmt ákvörðunum teknum af lögreglu. Síðastliðin tvö ár, sökum COVID-19-heimsfaraldursins, hefur framkvæmd flutninga í fylgd dregist saman. Hluti lögreglumanna stoðdeildar hafa á tímabilinu verið færðir tímabundið í ýmis önnur verkefni, svo sem smitrakningarteymi lögreglunnar. Launakostnaður fyrir árin 2020 og 2021 var því að hluta endurgreiddur af öðrum fjárlagaliðum en sú endurgreiðsla er ekki tilgreind í framangreindri töflu.
    „Ferðakostnaður“ vísar til fargjalda með áætlunarflugi frá Íslandi, dagpeninga lögreglumanna við framkvæmd flutninga í fylgd og kostnaðar vegna aðstoðar annarra sérfræðinga eða eftirlitsaðila sem eftir atvikum fylgja viðkomandi alla ferðina frá Íslandi til viðtökuríkis. Sem dæmi um slíka aðila eru túlkar, eftirlitsaðilar á vegum Mannréttindaskrifstofu Íslands, fulltrúar heilbrigðisyfirvalda – svo sem læknir eða hjúkrunarfræðingur – og fulltrúar félagsmálayfirvalda – svo sem barnaverndarfulltrúi. Til viðbótar vísar ferðakostnaður til útgjalda vegna vottorða frá ýmsum stofnunum, svo sem Þjóðskrá Íslands og heilbrigðisyfirvöldum.
    „Flugvélaleiga“ vísar til þess þegar flugvélar hafa verið leigðar til að taka þátt í sameiginlegum aðgerðum á vegum Landamærastofnunar Evrópu (Frontex), þ.e. sameiginlegum aðgerðum þátttökuríkja Schengen um framkvæmd fylgdar til ríkja utan Schengen-svæðisins. Leigðar hafa verið flugvélar frá íslenskum flugfélögum sem og í gegnum erlenda flugvéla- og flugáhafnaleigu þegar þörf krefur. Frontex endurgreiðir allan kostnað sem hlýst af sameiginlegum aðgerðum, nema launakostnað lögreglumanna, en til þessa vísar „endurgreiðsla frá Frontex“ í töflu 5.
    Framangreindur kostnaður er greiddur af fjárlagalið 06-399 sem er á forræði Útlendingastofnunar. Líkt og fram hefur komið annast stoðdeild, auk flutninga við framkvæmd ákvarðana Útlendingastofnunar um brottvísanir og frávísanir útlendinga, framkvæmd flutninga í fylgd vegna framsals sakamanna, flutninga fanga og framkvæmd ákvarðana um frávísanir teknar af lögreglu. Útlagður kostnaður vegna þeirra verkefna, annar en launakostnaður, greiðist ekki af fjárlagalið 06-399.
    Allar framangreindar tölur í töflum 1–5 vegna ársins 2021 miðast við fyrstu 11 mánuði það ár.

     3.      Hver er lægsti, hæsti og áætlaður meðalkostnaður ríkisins við flutning einstaklings úr landi gegn vilja viðkomandi? Óskað er eftir sundurliðun eftir áfangastað og ári flutnings síðastliðin þrjú ár.
    Eins og að framan greinir hefur stoðdeild ríkislögreglustjóra á síðastliðnum þremur árum framkvæmt flutning á 457 útlendingum, sem fengið hafa endanlega synjun á umsókn sinni um alþjóðlega vernd, í fylgd úr landi til fjölmargra áfangastaða. Kostnaður vegna ferða er mjög breytilegur og hafa fjölmargir þættir áhrif. Þannig getur til dæmis fluggjald verið misjafnt eftir áfangastað, ferðaleið og tegund flugs, þ.e. hvort um áætlunarflug sé að ræða eða leigu á flugvél. Misjafnt er hversu margir lögreglumenn eru í hverri ferð og fer það eftir fjölda þeirra útlendinga sem fylgt er úr landi hverju sinni og hættumati sem framkvæmt er fyrir hverja ferð. Eftir atvikum koma aðrir aðilar að flutningi, svo sem túlkur, læknir eða aðrir sérfræðingar eða eftirlitsaðilar. Þá eru fjárhæðir dagpeninga misjafnar eftir áfangastað og lengd ferðar. Það ber að athuga að með vísan til framangreinds að kostnaður vegna flutnings getur verið afar misjafn þrátt fyrir að um flutning til sama áfangastaðar sé að ræða. Ekki liggja fyrir upplýsingar um sundurliðaðan kostnað vegna hvers og eins flutnings enda er stærstur hluti kostnaðar fólginn í föstum launakostnaði starfsmanna Stoðdeildar sem vinnur að mörgum verkefnum á hverjum tíma. Hins vegar má draga ályktun um kostnað hvers flutnings með meðaltali þeirra upplýsinga sem fram koma í töflu 1 og 5. Það ber þó að ítreka að vegna mismunandi aðstæðna getur kostnaður vegna hvers og eins flutnings verið afar misjafn.

Tafla 6. Meðalkostnaður við flutning útlendinga í fylgd, í íslenskum krónum, sundurliðaður eftir árum.

2019 2020 2021
Meðalkostnaður á hvern einstakling 909.966 2.242.096 1.875.574