Ferill 285. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 399  —  285. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003 (viðbót persónuafsláttar).

Flm.: Björn Leví Gunnarsson, Andrés Ingi Jónsson, Gísli Rafn Ólafsson, Halldóra Mogensen, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir.


1. gr.

    Á eftir 3. málsl. 3. mgr. 66. gr. laganna kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Sé frádráttur ekki fullnýttur á árinu skal sú upphæð sem eftir stendur bætast við upphæð persónuafsláttar næstliðins árs skv. 1. mgr. 67. gr.

2. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2023.

Greinargerð.

    Frumvarp þetta var áður flutt á 151. löggjafarþingi (783. mál) og er nú endurflutt óbreytt. Í lögum um tekjuskatt er tilgreind sú fjárhæð sem einstaklingar fá í skattafslátt af staðgreiðslu tekjuskatts launatekna. Sá afsláttur nefnist persónuafsláttur. Einnig er tilgreindur skattafsláttur af greiðslu fjármagnstekjuskatts í lögum um tekjuskatt, svokallað frítekjumark fjármagnstekna. Þrátt fyrir að bæði þessi úrræði séu til þess að jafna stöðu þeirra sem minnstar tekjur hafa er einstaklingum ekki gert kleift að færa afsláttinn frá frítekjumarki fjármagnstekna yfir í persónuafslátt. Verði frumvarp þetta að lögum verður heimilt að umbreyta ónýttum skattafslætti vegna frítekna fjármagnstekna yfir í persónuafslátt.
    Í 3. mgr. 66. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, er fjallað um tekjuskatt af fjármagnstekjum. Í 3. málsl. segir að til frádráttar 22% fjármagnstekjuskatti komi 300.000 kr. frítekjumark. Samkvæmt frumvarpi þessu kæmi þar á eftir nýr málsliður sem tilgreindur er í 1. gr. frumvarpsins. Mundi þá frítekjumark fjármagnstekna færast yfir á persónuafslátt skv. 67. gr. hjá þeim sem ekki hafa nýtt sér allt frítekjumarkið á árinu.
    Yfirfærsla á ónýttu frítekjumarki fjármagnstekna samkvæmt þessu frumvarpi mundi eiga sér stað samhliða skattalegu uppgjöri einstaklinga. Því mundi ónýtt frítekjumark ekki bætast við mánaðarlega nýtingu persónuafsláttar á árinu heldur raungerast í formi endurgreiðslu frá Skattinum um mitt næsta ár. Ekki þykir ástæða til að tiltaka þetta verklag sérstaklega í frumvarpinu þar sem uppgjörsreglur Skattsins á ofgreiddum sköttum (eða í þessu tilviki vanreiknuðum afslætti) eru vel þekktar.
    Verði frumvarp þetta að lögum mun það hafa nokkur áhrif á tekjur ríkissjóðs. Samkvæmt upplýsingum frá Skattinum frá árunum 2018 og 2019 mundi ríkissjóður verða af u.þ.b. 4,4 milljörðum kr. í skatttekjur. Mundi sú aukning persónuafsláttar aðallega nýtast annarri til sjöundu tekjutíund. Einstaklingar í lægstu tekjutíund mundu hins vegar bera skarðan hlut frá borði því tekjur þeirra duga ekki til að fullnýta núverandi persónuafslátt, hvað þá viðbótina sem hér er boðuð.
    Ef persónuafslætti yrði hins vegar breytt í útgreiðanlegan persónuarð mundi kostnaður ríkissjóðs aukast um 15 milljarða kr. til viðbótar. Af þeirri fjárhæð rynnu rúmlega 12 milljarðar kr. beint til þeirra einstaklinga sem eru í lægstu tekjutíund, eða um 435 þús. kr. á hvern einstakling á ári að meðaltali.