Ferill 291. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 405  —  291. mál.
Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um viðspyrnustyrki, nr. 160/2020 (framhald viðspyrnustyrkja).

Frá fjármála- og efnahagsráðherra.



1. gr.

    Í stað orðanna „1. október 2020“ í 1. gr. laganna kemur: 1. desember 2021.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 4. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „nóvember 2021“ í inngangsmálslið kemur: mars 2022.
     b.      Við 2. málsl. 1. tölul. bætist: eða til loka nóvember 2021 vegna umsókna fyrir tímabilið desember 2021 til og með mars 2022.
     c.      Á eftir orðinu „tekjufallsstyrkur“ í 5. málsl. 1. tölul. kemur: eða styrkur til rekstraraðila veitingastaða sem hafa sætt takmörkunum á opnunartíma.
     d.      Í stað orðanna „október 2020“ í 2. málsl. 2. tölul. kemur: nóvember 2021.
     e.      Á eftir orðunum „fyrir lok árs 2019“ í 1. málsl. 3. tölul. kemur: og 1. ágúst 2021 vegna umsókna fyrir tímabilið frá 1. desember 2021 til 31. mars 2022.
     f.      4. tölul. orðast svo: Bú hans hefur ekki verið tekið til gjaldþrotaskipta. Jafnframt skal hann ekki hafa verið tekinn til slita, nema ef slitin eru liður í samruna, skiptingu eða breytingu á rekstrarformi rekstraraðilans, og fyrirhugað er að lögaðili sem við tekur haldi rekstri sem umsókn varðar áfram.

3. gr.

    Á eftir orðinu „kórónuveiru“ í 6. mgr. 5. gr. laganna kemur: eða styrkur samkvæmt lögum um styrki til rekstraraðila veitingastaða sem hafa sætt takmörkunum á opnunartíma.

4. gr.

    Á eftir 2. málsl. 1. mgr. 6. gr. laganna kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Umsókn um viðspyrnustyrk vegna tímabilsins desember 2021 til mars 2022 skal skilað eigi síðar en 30. júní 2022.

5. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 10. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „260 millj. kr.“ kemur: 330 millj. kr.
     b.      Í stað orðanna „og tekjufallsstyrkjum samkvæmt lögum um tekjufallsstyrki“ kemur: tekjufallsstyrkjum samkvæmt lögum um tekjufallsstyrki og styrkjum samkvæmt lögum um styrki til rekstraraðila veitingastaða sem hafa sætt takmörkunum á opnunartíma.

6. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarpið er samið í fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Það er liður í aðgerðum ríkisstjórnarinnar til að draga úr tjóni vegna heimsfaraldurs kórónuveiru og skapa öfluga viðspyrnu í kjölfar hans.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Umsvif í íslenska hagkerfinu drógust saman í kjölfar fjölgunar smita, víðtækra sóttkvía og einangrunar og hertra samkomutakmarkana í lok ársins 2021. Frá og með september og út desembermánuð 2021 hafði heildarkortavelta verið hærri en árið 2019 að raunvirði þrátt fyrir að erlendir ferðamenn væru aðeins 60% af fjölda þeirra árið 2019. Vöxtur í kortaveltu erlendra og innlendra korta hafði haldist nokkuð sterkur í kjölfar þess að smitum fjölgaði í nóvember og desember 2021 en veltan dróst hratt saman í upphafi árs 2022, að teknu tilliti til hefðbundinnar árstíðasveiflu. Það sem af er janúar hefur heildarkortavelta á Íslandi verið ríflega 11% minni en á sama tíma árið 2019. Auk þess hefur flugfarþegum fækkað ört í mánuðinum og eru þeir nú rétt ríflega 40% af fjöldanum á sama tíma árið 2019. Ekki liggja fyrir gögn um veltu í einstökum greinum en líklegt er talið að velta hafi dregist mest saman í ferðaþjónustu, menningu og persónulegri þjónustu.
    Á móti þessari neikvæðu þróun vega vísbendingar um ágætan undirliggjandi þrótt í hagkerfinu. Væntingavísitala Gallup hækkaði milli mánaða í desember þrátt fyrir fjölgun smita. Atvinnuleysi hélst óbreytt í desember eða rétt undir 5%. Gangi spá VMST um 5,1–5,3% atvinnuleysi í janúar eftir helst árstíðaleiðrétt atvinnuleysi óbreytt fjóra mánuði í röð. Eftirspurn eftir vinnuafli er með mesta móti og gæti bent til þess að atvinnuleysi haldi áfram að minnka með vorinu. Bókunarstaða hótela hefur ekki versnað á næstkomandi mánuðum og hefur bókunum fjölgað fyrir næsta sumar. Þá er þróttur efnahagsbatans einfaldlega slíkur að ólíklegt er að tímabundin áhrif yfirstandandi smitbylgju stefni honum í hættu þó hann geti tafist nokkuð. Enn fremur veitir sterk staða flestra heimila og fyrirtækja fyrirheit um að samdráttur umsvifa gangi að fullu til baka þegar faraldurinn rénar á ný.
    Samhliða öflugum viðsnúningi í hagkerfinu og ekki síst fjölgun erlendra ferðamanna um mitt ár 2021, minnkaði aðsókn í úrræði stjórnvalda vegna kórónuveirufaraldursins og flest þeirra runnu sitt skeið á árinu 2021. Viðspyrnustyrkirnir höfðu komið í beinu framhaldi af tekjufallsstyrkjum og áttu að aðstoða smærri aðila við að standa undir rekstrarkostnaði í hverjum almanaksmánuði frá nóvember 2020 og út nóvember 2021. Greiddir voru viðspyrnustyrkir að fjárhæð 1.250 millj. kr. til 1.330 rekstraraðila í nóvember 2020 en viðtakendum fækkaði hratt sl. sumar. Viðspyrnustyrkir námu tæplega 300 millj. kr. til 300 rekstraraðila í október og nóvember 2021.
    Í ljósi nýlegrar þróunar faraldursins og áhrifa hans á efnahagslífið er nú lagt til að viðspyrnustyrkir verði framlengdir um fjóra mánuði, frá desember 2021 til og með mars 2022. Markmið framlengingarinnar er líkt og áður að tryggja að fyrirtæki sem verða fyrir miklu tekjufalli vegna fjölgunar smita og sóttvarnaaðgerða hérlendis geti viðhaldið nauðsynlegri lágmarksstarfsemi á meðan áhrifa faraldursins gætir og verið þannig í stakk búin til að veita viðspyrnu þegar efnahagslífið tekur við sér.
    Ríkisstjórnin hefur þegar gripið til ráðstafana til að draga úr tjóni vegna smitbylgju ómíkron-afbrigðisins og skapað öfluga viðspyrnu í kjölfar hennar. Meðal aðgerða sem þegar hefur verið gripið til er framhald á greiðslu launa í sóttkví. Þá hefur veitingaaðilum sem hafa þurft að sæta takmörkunum á opnunartíma verið gefinn kostur á að fresta skattgreiðslum. Lagt hefur verið fram frumvarp til laga um styrki til aðila í veitingarekstri sem hafa þurft að sæta takmörkunum á opnunartíma frá og með desember 2021 (þskj. 332, 232. mál). Einnig hefur verið ákveðið að framlengja umsóknarfrest vegna viðspyrnustyrkja fyrir nóvember 2021 og var það gert í kjölfar ábendinga frá rekstraraðilum sem ekki náðu að sækja um styrkinn áður en fresturinn rann út. Loks hefur verið lagt fram frumvarp um framhald lokunarstyrkja (þskj. 357, 253. mál).

3. Meginefni frumvarpsins.
    Í frumvarpinu er lagt til að viðspyrnustyrkjaúrræðið sem lögfest var vegna kórónuveirufaraldursins verði framlengt um fjóra mánuði frá desember 2021 til og með mars 2022.
    Lagt er til að úrræðið verði í öllum meginatriðum óbreytt frá því sem verið hefur. Þannig er lagt til að fjárhæðir styrkjanna og útreikningur á þeim verði óbreyttur og að öll umgjörð um framkvæmdina verði sú sama. Þær breytingar sem lagðar eru til leiðir af þeim tíma sem liðið hefur frá því að úrræðið var fyrst kynnt til sögunnar. Þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu eru eftirfarandi:
     a.      Að umsækjandi hafi hafið starfsemi sína ekki síðar en 1. desember 2021. Í gildandi lögum er viðmiðið 1. október 2020. Með breytingunni verður rekstraraðilum sem hófu starfsemi á tímabilinu frá 1. október 2020 til 1. desember 2021 gert kleift að nýta úrræðið.
     b.      Að umsækjandi sé í skilum með opinber gjöld, skatta og skattsektir sem komnar voru á eindaga fyrir 1. ágúst 2021. Það er sama viðmiðunardagsetning og í lögum nr. 2/2022, um breytingu á lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda, lögum um tryggingagjald og lögum um viðspyrnustyrki, í frumvarpi til laga um styrki til rekstraraðila veitingastaða sem hafa sætt takmörkunum á opnunartíma og í frumvarpi til laga um framhald á lokunarstyrkjum. Í gildandi lögum um viðspyrnustyrki er miðað við lok ársins 2019.
     c.      Að skilyrðið um rekstrarhæfi umsækjanda verði rýmkað á þann veg að ekki falli undir slit rekstraraðila ef slitin eru liður í samruna, skiptingu eða breytingu á rekstrarformi rekstraraðilans, og fyrirhugað er að lögaðili sem við tekur haldi rekstri sem umsókn varðar áfram.
     d.      Að fengnir styrkir til rekstraraðila í veitingarekstri sem hafa þurft að sæta takmörkunum á opnunartíma dragist frá viðspyrnustyrkjum fyrir sömu mánuði. Gengið er út frá því að aðilar í veitingarekstri sem hafa þurft að sæta takmörkunum á opnunartíma muni sækja um styrki samkvæmt sérstöku úrræði sem ætlað er að mæta vanda þeirra enda eru styrkfjárhæðir samkvæmt því ívið hærri en viðspyrnustyrkir. Frádráttarreglan er þó lögð til vegna þess að ekki er ætlunin að sömu aðilar geti nýtt bæði það úrræði og viðspyrnustyrkina fyrir sömu mánuði og ekki verður hægt að útiloka að takmarkanir á opnunartíma heyri sögunni til fyrir lok mars.
     e.      Að hámarksfjárhæð viðspyrnustyrkja verði hækkuð úr 260 millj. kr. í 330 millj. kr. Þessi hækkun á rætur að rekja til tímabundins ramma Evrópusambandsins um ríkisaðstoð til stuðnings hagkerfinu vegna yfirstandandi COVID-19-heimsfaraldurs frá 19. mars 2020. Þetta hámark á styrkfjárhæðum gildir ekki bara fyrir einstakar tegundir styrkja eða einstaka rekstraraðila heldur ber eins og áður að leggja saman lokunarstyrki frá miðjum september 2020, tekjufallsstyrki, viðspyrnustyrki og ferðagjafir og er lagt til að styrkir til rekstraraðila veitingastaða sem hafa sætt takmörkunum á opnunartíma vegna kórónuveirufaraldurs falli einnig þar undir. Öll framangreind úrræði falla í sama flokk ríkisaðstoðarrammans og því undir sama viðmið um hámarksfjárhæð. Þá gildir einnig sama hámark fyrir tengda aðila í rekstri þ.e. þeir deila einni hámarksfjárhæð óháð því um hve marga tengda aðila (kennitölur) er að ræða. Við skilgreiningu fyrirtækis í framangreindum skilningi er horft til eigna- og stjórnunartengsla og teljast tengdir aðilar því eitt fyrirtæki þegar kemur að hámarkinu.
     f.      Þá er lagt til að heimilt verði að sækja um styrkina til 30. júní 2022.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Frumvarpið er ekki talið gefa tilefni til að kanna samræmi við stjórnarskrá.
    Samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið bannar að meginreglu til ríkisaðstoð sem raskar eða er til þess fallin að raska samkeppni með því að ívilna ákveðnum fyrirtækjum eða framleiðslu ákveðinnar vöru að því leyti sem hún hefur áhrif á viðskipti milli samningsaðila. Sú aðstoð sem lög um viðspyrnustyrki heimila fellur undir tímabundnar heimildir til að veita fyrirtækjum sem lenda í ófyrirséðum lausafjárskorti sökum kórónuveirufaraldursins fjárstuðning, samkvæmt kafla 3.1 í orðsendingu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um tímabundinn ramma um ríkisaðstoð til stuðnings hagkerfinu vegna yfirstandandi COVID-19-heimsfaraldurs, frá 19. mars 2020.
    Eftirlitsstofnun EFTA hefur þegar samþykkt að úrræði um viðspyrnustyrki samræmist fyrrgreindum heimildum með ákvörðun nr. 160/20/COL frá 14. desember 2020, sbr. einnig ákvarðanir nr. 037/21/COL frá 10. maí 2021 og 022/22/COL frá 25. janúar 2022. Þessar ákvarðanir stofnunarinnar eru birtar opinberlega á vef hennar. Með orðsendingu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins frá 18. nóvember 2021 var gildistími rammans framlengdur til 30. júní 2022 og þak stuðnings til hvers rekstraraðila hækkað í 2,3 millj. evra, sem eru rúmlega 330 millj. kr. miðað við gengið eins og það var skráð um miðjan janúar 2022. Fyrirhugaðar breytingar á viðspyrnustyrkjum eru háðar samþykki Eftirlitsstofnunar EFTA og hefur fjármála- og efnahagsráðuneytið þegar upplýst stofnunina um þau áform sem felast í frumvarpinu.

5. Samráð.
    Við vinnslu frumvarpsins var haft samráð við forsætisráðuneytið, samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið og Skattinn. Sökum þess hversu áríðandi þótti að leggja frumvarpið fram á Alþingi sem fyrst gafst ekki kostur á að hafa samráð um drög að frumvarpi í samráðsgátt stjórnvalda.

6. Mat á áhrifum.
6.1. Áhrif á rekstraraðila.
    Viðspyrnustyrkjum er eins og áður ætlað að koma til móts við tekjutap sem ýmsir rekstraraðilar, með starfsemi sem útheimtir vinnuframlag launamanna, verða fyrir vegna faraldursins og takmarkana stjórnvalda. Þeim er ætlað að draga úr lausafjárvanda rekstraraðila í rekstrarerfiðleikum en ekki bæta allt tekjutap þeirra. Styrkjunum er þannig ætlað að styðja rekstraraðila sem verða fyrir miklu tekjufalli vegna faraldursins við að viðhalda nauðsynlegri lágmarksstarfsemi og varðveita viðskiptasambönd svo að mögulegt verði að svara eftirspurn þegar áhrifin af faraldrinum dvína.

6.2. Áhrif á efnahagslífið.
    Eftir kröftugan viðsnúning frá miðju ári 2021 hófu umsvif í íslenska hagkerfinu að dragast nokkuð ört saman í kjölfar fjölgunar smita, víðtækra sóttkvía og einangrunar og hertra samkomutakmarkana í lok árs 2021. Ljóst má vera að fjöldi rekstraraðila hefur orðið fyrir tímabundnu og óvæntu tekjutapi vegna þessa. Með framlengingu viðspyrnustyrkja er vonast til að draga megi úr rekstrarerfiðleikum lífvænlegra rekstraraðila sem verða fyrir miklu tekjutapi vegna faraldursins og sóttvarnaaðgerða hérlendis. Styrkjunum er ætlað að draga úr líkum á því að rekstraraðilar leggi upp laupana og þannig styrkja viðspyrnu í hagkerfinu þegar sóttvarnaráðstöfunum verður aflétt innanlands og ferðavilji eykst að nýju.
    Rétt er að geta þess að staða hagkerfisins er nú um margt ólík því sem var í lok apríl 2021 þegar viðspyrnustyrkjaúrræðið var útvíkkað og framlengt. Flestar greinar hagkerfisins utan ferðaþjónustu hafa starfað á nærri fullum afköstum. Verðbólga hefur haldist viðvarandi yfir markmiði seðlabanka hér sem erlendis og mikil eftirspurn hefur verið eftir vinnuafli. Efnahagslegur kostnaður af lausafjárstuðningi til rekstraraðila fer undir þessum kringumstæðum vaxandi. Sá kostnaður felst í því að stuðningurinn getur aftrað tilfærslu framleiðsluþátta milli fyrirtækja og greina og þannig haldið aftur af framleiðni í hagkerfinu. Auk þess getur of víðtækur og almennur stuðningur sem er ekki fjármagnaður með skattheimtu á sama tíma leitt til aukinnar verðbólgu og hærri vaxta.
    Framlenging viðspyrnustyrkjaúrræðisins um fjóra mánuði er talin réttlætanleg í ljósi þess að umsvif hafa dregist hratt saman síðastliðnar vikur ef marka má greiðslukortaveltu innan lands og er þannig liður í því að bregðast hratt við tímabundnu og óvæntu tekjutapi rekstraraðila vegna faraldursins og sóttvarnaaðgerða hérlendis. Mikilvægt er að úrræðið komist sem fyrst til framkvæmda til þess að greiðslurnar verði ekki inntar af hendi þegar efnahagsbatinn hefur þegar náð fyrri styrk.

6.3. Áhrif á stjórnsýslu.
    Með frumvarpinu er lagt til að Skattinum verði falið að afgreiða umsóknir um viðspyrnustyrki eins og verið hefur. Afgreiðslan mun fela í sér aukin umsvif og kostnað hjá Skattinum og áætlað er að kostnaður við forritun tölvukerfa og framkvæmd að öðru leyti geti numið um 40 millj. kr. Þá er í frumvarpinu gert ráð fyrir að ákvarðanir Skattsins um styrkina verði áfram kæranlegar til yfirskattanefndar. Áhrifin á nefndina munu ráðast af fjölda kærumála en ekki er gert ráð fyrir að þau áhrif verði veruleg og málin ekki af þeim toga að þau krefjist mannauðs sem nefndin býr ekki yfir nú þegar.

6.4. Áhrif á ríkissjóð.
    Nýting viðspyrnustyrkja á tímabilinu nóvember 2020 til og með nóvember 2021 liggur fyrir. Greiðsla viðspyrnustyrkja fyrir hvern almanaksmánuð á tímabili úrræðisins var á bilinu 300–1.250 millj. kr. Flest fyrirtæki urðu fyrir mestum búsifjum í upphafi úrræðisins og áttu því rétt á styrk. Efnahagsleg áhrif faraldursins minnkuðu þegar á leið og viðtakendum styrkja fækkaði þegar leið á árið 2021.
    Við gerð matsins er horft til rekstraraðila sem hafa fengið viðspyrnustyrk en munu ekki eiga rétt á styrk vegna takmarkana á opnunartíma, þ.e. matið horfir ekki til veitingahúsa og gististaða með vínveitingaleyfi. Aðilar sem hafa sætt takmörkunum á opnunartíma geta þó sótt um viðspyrnustyrki en til frádráttar kæmi styrkur vegna takmarkana á opnunartíma. Líklegt er að viðtakendur viðspyrnustyrkja verði nokkuð fleiri en undir lok úrræðisins í nóvember 2021 en þó ekki jafn margir og í árslok 2020 eða ársbyrjun 2021.
    Heildarkortavelta á Íslandi í janúar 2022 er sambærileg og í júní sl. en þá voru greiddir út styrkir fyrir um 500 millj. kr. til aðila sem ekki hafa heimild til vínveitinga. Þannig má reikna með því að kostnaður vegna framlengingar viðspyrnustyrkja um fjóra mánuði, frá desember 2021 til og með mars 2021, gæti numið allt að 2 milljörðum kr. Þó er líklegt að greiddir viðspyrnustyrkir í desember verði lægri enda var greiðslukortavelta sterk í mánuðinum þrátt fyrir fjölgun smita og hertar sóttvarnatakmarkanir. Enn fremur má ætla að í febrúar eða mars komi til frekari tilslakana á sóttvarnarreglum sem gæti örvað eftirspurn og dregið úr tekjutapi fyrirtækja. Heildarkostnaður ríkissjóð af framlengingunni gæti því orðið nokkuð minni en fjallað er um að framan. Ekki er gert ráð fyrir þessum útgjöldum í fjárlögum yfirstandandi árs og mun því afkoma ríkissjóðs, miðað við forsendur fjárlaga 2022, versna sem þeim nemur að öðru óbreyttu. Fjárveiting síðastliðins árs var ekki fullnýtt og kemur til álita að fjármála- og efnahagsráðherra heimili flutning óráðstafaðra fjárveitinga frá árinu 2021 til að mæta þessum kostnaði.

Um einstakar greinar frumvarpsins.
Um 1. gr.

    Lagt er til að miðað verði við að umsækjandi um viðspyrnustyrk hafi hafið starfsemi sína ekki síðar en 1. desember 2021. Í gildandi lögum er viðmiðið 1. október 2020. Með breytingunni verður rekstraraðilum sem hófu starfsemi á tímabilinu frá 1. október 2020 til 1. desember 2021 gert kleift að nýta úrræðið.

Um 2. gr.

     Um a-lið. Lagt er til að tímabilið sem rekstraraðili getur fengið viðspyrnustyrk úr ríkissjóði vegna verði framlengt til og með mars 2022. Breytingin tekur mið af framgangi kórónuveirufaraldursins og samræmist gildistíma kafla 3.1 í tímabundnum ramma um ríkisaðstoð til stuðnings hagkerfinu vegna yfirstandandi COVID-19-heimsfaraldurs, eins og honum var breytt með orðsendingu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins frá 18. nóvember 2021.
     Um b-lið. Lagt er til að vegna umsókna fyrir tímabilið desember 2021 til og með mars 2022 verði þeim aðilum, sem hófu starfsemi síðar en á árinu 2019, heimilt að miða við meðaltekjur á jafn mörgum dögum og eru í þeim almanaksmánuði sem umsókn varðar frá því þeir hófu starfsemi til loka nóvember 2021.
     Um c-lið. Lagt er til að styrkur til rekstraraðila veitingastaða sem hafa sætt takmörkunum á opnunartíma skuli ekki talinn til tekna við ákvörðun á tekjufalli rekstraraðila, rétt eins og í þeim tilvikum þegar rekstraraðili hefur hlotið tekjufallsstyrk.
     Um d-lið. Lagt er til að tekjur rekstraraðila sem hófu starfsemi eftir 1. janúar 2020 skuli umreiknaðar þann tíma sem hann starfaði til loka nóvember 2021 í árstekjur, í stað loka október 2020 líkt og er í gildandi lögum í samræmi við breytingar á gildissviði laganna.
     Um e-lið. Í stað þess að miða vanskil með opinber gjöld o.fl. sem komin voru á eindaga við lok árs 2019 vegna tímabila frá desember 2021, líkt og er kveðið á um í gildandi lögum, er lagt til að miðað verði við vanskil með opinber gjöld o.fl. sem komin voru á eindaga 1. ágúst 2021.
     Um f-lið. Lagt er til að skilyrði varðandi gjaldþrot rekstraraðila eða slit hans verði breytt þannig að gert sé ráð fyrir undantekningu ef slit rekstraraðila eru liður í samruna, skiptingu eða breytingu á rekstrarformi rekstraraðila, og fyrirhugað er að lögaðili sem við tekur haldi rekstri sem umsókn varðar áfram. Tekur breytingin mið af ábendingu þar um í áliti meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar um frumvarp til laga um viðspyrnustyrki frá 151. löggjafarþingi (þskj. 390, 334. mál).

Um 3. gr.

    Lagt er til að við ákvæðið bætist að frá viðspyrnustyrk dragist styrkur til rekstraraðila veitingastaða samkvæmt lögum um styrk til rekstraraðila veitingastaða sem hafa sætt takmörkunum á opnunartíma, hafi rekstraraðila verið ákvarðaður slíkur styrkur vegna sama tímabils og umsókn um viðspyrnustyrk varðar. Frádrátturinn byggist á sömu sjónarmiðum og gilt hafa um frádrátt lokunarstyrkja frá viðspyrnustyrkjum til þessa.

Um 4. gr.

    Í greininni er lagt til að Skattinum verði heimilað að afgreiða umsóknir um viðspyrnustyrki vegna tímabilsins desember 2021 til mars 2022 til og með 30. júní 2022. Dagsetningin tekur mið af gildistíma tímabundins ramma Evrópusambandsins um ríkisaðstoð til stuðnings hagkerfinu vegna yfirstandandi COVID-19-heimsfaraldurs frá 19. mars 2020.

Um 5. gr.

     Um a-lið. Í greininni er lagt til að hámark heildarfjárhæðar viðspyrnustyrkja til tengdra rekstraraðila verði hækkað úr 260 millj. kr. í 330 millj. kr. Breytingin er til samræmis við kafla 3.1 í tímabundnum ramma um ríkisaðstoð til stuðnings hagkerfinu vegna yfirstandandi COVID-19-heimsfaraldurs, eins og honum var breytt með orðsendingu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins frá 18. nóvember 2021.
     Um b-lið. Lagt er til að bætt verði við ákvæðið að við mat á heildarfjárhæð sem tengdir rekstraraðilar hafa fengið beri einnig að horfa til stuðnings sem þeir hafa fengið á grundvelli laga um styrki til rekstraraðila veitingastaða sem hafa sætt takmörkunum á opnunartíma og byggjast á sama tímabundna rammanum og önnur þau úrræði sem þegar eru tiltekin í ákvæðinu.

Um 6. gr.

    Ákvæðið þarfnast ekki skýringa.