Ferill 356. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 501  —  356. mál.




Beiðni um skýrslu


frá ríkisendurskoðanda um geðheilbrigðisþjónustu í landinu.

Frá Önnu Kolbrúnu Árnadóttur, Bergþóri Ólasyni, Ásthildi Lóu Þórsdóttur, Guðmundi Inga Kristinssyni, Halldóru Mogensen, Helgu Völu Helgadóttur, Oddnýju G. Harðardóttur, Sigmari Guðmundssyni, Tómasi A. Tómassyni og Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur.


    Með vísan til 17. gr. laga um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga, nr. 46/2016, er þess óskað að ríkisendurskoðandi taki saman skýrslu um geðheilbrigðisþjónustu í landinu. Óskað er eftir því að í skýrslunni komi fram stefna, skipulag, kostnaður og árangur í geðheilbrigðismálum.

Greinargerð.

    Með skýrslubeiðni þessari er óskað eftir því að ríkisendurskoðandi taki saman skýrslu um geðheilbrigðisþjónustu í landinu. Skýrsla um geðheilbrigðisþjónustu við börn og unglinga kom síðast út árið 2016 og telja skýrslubeiðendur tilefni til að kalla eftir skýrslu ríkisendurskoðanda um geðheilbrigðisþjónustu almennt. Skýrslubeiðnin var áður lögð fram á 151. löggjafarþingi (318. mál).
    Á undanförnum árum hefur mikið verið fjallað um geðheilbrigði í fjölmiðlum og á Alþingi í sérstökum umræðum, fyrirspurnum og í umræðum um störf þingsins. Árið 2020 rak Geðhjálp herferð undir yfirskriftinni „39“ er táknaði fjölda sjálfsvíga árið 2019 og að meðaltali undanfarin ár. Með herferðinni voru lagðar til níu aðgerðir til að setja geðheilsu í forgang. Fyrsta aðgerðin er sú að gerð verði heildarúttekt á umfangi og framkvæmd geðheilbrigðisþjónustu. Þar segir að úttektin sé nauðsynleg svo að hægt sé að ná utan um málaflokkinn og auka samhæfingu þeirra þriggja stoða sem eru á hendi ríkisins (sjúkrahús, heilsugæsla og sérfræðiþjónusta). Úttektin taki einnig til búsetu- og félagsþjónustu sveitarfélaga þannig að styrking hennar og samhæfing við þjónustu ríkisins verði auðsóttari.
    Í blaði Geðhjálpar sem kom út árið 2020 var leiðari eftir formann samtakanna, Héðin Unnsteinsson, þar sem sagði að í kjölfar kórónuveirufaraldursins yrðu áhrifin á félags- og efnahagslega orsakaþætti geðheilsu mikil og að heildarúttekt á kerfinu væri ágætisbyrjun.
    Í lok árs 2020 var boðað til geðheilbrigðisþings um stefnumótun og framtíðarsýn í geðheilbrigðismálum og afurð þingsins birt ári seinna sem skýrsla í samráðsgátt stjórnvalda. Skýrslan og umsagnir sem bárust eru grunnur að vinnu við heildarstefnu í geðheilbrigðismálum til ársins 2030 í heilbrigðisráðuneytinu.
    Skýrslubeiðendur telja engu síður að skýrsla þessi sé nauðsynleg til þess að fá yfirsýn yfir geðheilbrigðisþjónustu við landsmenn undanfarin ár, yfir umfang hennar, framkvæmd og samhæfingu, og til þess að varpa ljósi á hvað betur mætti fara og hvað þarf að bæta.