Ferill 314. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 530  —  314. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Höllu Signýju Kristjánsdóttur um dvalar- og atvinnuréttindi fyrir ungt fólk.

     1.      Hyggst ráðherra leggja til breytingar á aldursviðmiðum í lögum um útlendinga og lögum um atvinnuréttindi útlendinga þannig að gagnkvæm dvalar- og atvinnuréttindi verði fyrir fólk á aldrinum 18–30 ára í stað 18–26 ára, sbr. Brexit-samkomulagið sem tók gildi 1. janúar sl.?
    Líkt og fram kemur í þingmálaskrá ríkisstjórnar fyrir 152. löggjafarþing hyggst dómsmálaráðherra leggja fram frumvarp til breytinga á lögum um útlendinga, nr. 80/2016, vegna Brexit – Youth Mobility Scheme. Það frumvarp mun einnig ná til breytinga á lögum um atvinnuréttindi útlendinga, nr. 97/2002. Dómsmálaráðherra vinnur nú að undirbúningi frumvarpsins og er stefnt að framlagningu í mars 2022. Samhljóða breytingar voru lagðar fyrir Alþingi á 151. löggjafarþingi, sbr. 602. mál á þskj. 1029, en þá sem hluti af stærra frumvarpi til breytinga á útlendingalögum og náði frumvarpið ekki fram að ganga.

     2.      Hyggst ráðherra leggja til breytingar á lögum til að heimilt verði að fá oftar en einu sinni vegabréfsáritun til dvalar og atvinnu fyrir aldurshópinn 18–30 ára eða 18–35 ára til samræmis við það sem tíðkast hjá öðrum þjóðum?
    Í frumvarpinu eru fyrirhugaðar breytingar á 3. mgr. 66. gr. laga um útlendinga sem fela í sér að heimilt verði fyrir ungmenni á aldrinum 18–31 árs að endurnýja dvalarleyfi, sem útgefið hefur verið til eins árs, um allt að eitt ár þegar samningur við ríki heimilar lengri dvöl en til eins árs. Þá er fyrirhugað að leggja til breytingar á 2. mgr. 18. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga sem fela í sér að heimilt verði að framlengja atvinnuleyfi, sem gefið hefur verið út vegna samnings Íslands við erlent ríki samkvæmt lögum um útlendinga, í allt að eitt ár þegar slíkir samningar heimila lengri dvöl en til eins árs.

     3.      Stendur til hjá ráðuneytinu að jafna stöðu ungs fólks á Íslandi með því að hefja í samvinnu við utanríkisráðuneytið vinnu við gerð samninga um vegabréfsáritun fyrir ungt fólk við þær þjóðir sem nágrannar okkar hafa samið við? Ef svo er, hvenær og hvernig ætlar ráðherra að ná þeim markmiðum?
    Utanríkisþjónustan annast í umboði forseta samningagerðir við önnur ríki, sbr. 2. mgr. 1. gr. laga um utanríkisþjónustu Íslands, nr. 39/1971. Utanríkisráðuneytið fer því með gerð samninga við ríki um atvinnudvöl ungs fólks. Við gerð slíkra samninga hefur utanríkisráðuneytið haft náið og gott samstarf við m.a. dómsmálaráðuneytið.
    Samkvæmt skýrslu utanríkisráðherra til Alþingis um utanríkis- og þróunarmál 2021, sbr. 765. mál á þskj. 1321 á 151. löggjafarþingi, þá hefur utanríkisráðuneytið verið með í skoðun að gera samninga um atvinnudvöl ungs fólks m.a. við Kanada, Ástralíu og Nýja-Sjáland. Samkvæmt upplýsingum frá utanríkisráðuneytinu þá er samningur á lokastigi við Kanada og hefur verið ákveðið að hefja viðræður um samning við Ástralíu ef og þegar framangreindar breytingar hafa verið gerðar á útlendingalögum.