Ferill 377. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 535  —  377. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um frumkvöðlalaun.


Flm.: Friðrik Már Sigurðsson, Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, Stefán Vagn Stefánsson, Halla Signý Kristjánsdóttir, Þórarinn Ingi Pétursson, Gísli Rafn Ólafsson, Halldóra Mogensen, Björn Leví Gunnarsson.


    Alþingi ályktar að fela háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra að koma á starfslaunum fyrir frumkvöðla með það að markmiði að efla enn frekar nýsköpun í landinu.

Greinargerð.

    Í mars 2021 var Klasastefna fyrir Ísland gerð opinber af þáverandi ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. Tillaga þessi er lögð fram í samræmi við efni stefnunnar, sem tilgreinir frumkvöðla sem lykilaðila til árangurs hvað varðar nýsköpun. Með stefnunni er sett fram sú framtíðarsýn að árið 2030 verði Ísland meðal fremstu ríkja heims hvað varðar sjálfbæra atvinnuuppbyggingu, samkeppnishæfni og almenna hagsæld.
    Svo hægt verði að mæta þeim markmiðum sem fram koma í Klasastefnu fyrir Ísland er mikilvægt að skapa aukið svigrúm fyrir frumkvöðla til að starfa að hugðarefnum sínum og verkefnum. Þannig gefst þeim tækifæri til að vinna að lausnum á mörgum af krefjandi viðfangsefnum samtímans, t.d. að skapa nýjar lausnir á grundvelli hringrásarhagkerfis og sjálfbærrar nýtingar auðlinda. Starfslaun frumkvöðla veita færi til að nýta sköpunarkraft grasrótar nýsköpunar og draga fram nýjar lausnir. Þannig er stuðlað að aukinni verðmætasköpun samfélaginu öllu til góðs. Innleiðing hugmyndafræði sjálfræðis í nýsköpun skapar aukið svigrúm fyrir hugmyndaauðgi og getur þannig skilað fleiri og fjölbreyttari lausnum á flóknum viðfangsefnum samtímans. Starfslaun frumkvöðla geta einnig orðið áhrifaríkt tæki hvað varðar byggðaþróun, enda er eitt af markmiðum Klasastefnu fyrir Ísland að ráðstafa fjármunum til atvinnuuppbyggingar og byggðaþróunar með markvissum hætti.
    Markmið þessarar þingsályktunartillögu er að efla enn frekar stuðningsumhverfi frumsköpunar og frumkvöðlastarfs í landinu með nýsköpun, fjölgun fjölbreyttra og verðmætra starfa og aukna verðmætasköpun að leiðarljósi.