Ferill 379. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 541  —  379. mál.




Fyrirspurn


til fjármála- og efnahagsráðherra um tekjur af losun gróðurhúsalofttegunda.

Frá Andrési Inga Jónssyni.


     1.      Hverjar hafa árlegar tekjur ríkisins verið af uppboði losunarheimilda gróðurhúsalofttegunda frá því að Ísland átti fyrst rétt á hlutdeild í þeim samkvæmt EES-samningnum? Hversu hátt hlutfall af uppboðstekjunum rann til loftslagsaðgerða á hverju ári?
     2.      Hver eru viðmið Evrópusambandsins um það hversu hátt hlutfall af tekjum vegna uppboðs losunarheimilda skuli renna beint til loftslagsaðgerða? Hver eru sambærileg viðmið íslenskra stjórnvalda?
     3.      Hverjar hafa verið árlegar tekjur ríkisins af kolefnisgjaldi frá því að innheimta þess hófst? Hversu hátt hlutfall af kolefnisgjaldinu rann til loftslagsaðgerða á hverju ári?
     4.      Hverjar hafa tekjur verið annars vegar af uppboði losunarheimilda og hins vegar af kolefnisgjaldi það sem af er þessu ári?
     5.      Hvernig er áætlað að tekjur þróist annars vegar af uppboði losunarheimilda og hins vegar af kolefnisgjaldi á næstu fimm árum?


Skriflegt svar óskast.