Ferill 386. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 550  —  386. mál.
Stjórnarfrumvarp.Frumvarp til laga


um breytingu á ýmsum lögum á sviði fiskveiðistjórnar (eftirlit Fiskistofu o.fl.).

Frá matvælaráðherra.I. KAFLI

Breyting á lögum um umgengni um nytjastofna sjávar, nr. 57/1996.

1. gr.

    Við 1. mgr. 8. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Eftirlitsmönnum Fiskistofu er heimill aðgangur að rafrænum vöktunarkerfum í löndunarhöfnum í þeim tilgangi að hafa eftirlit með löndun afla.

2. gr.

    4. mgr. 9. gr. laganna orðast svo:
    Skipstjórnarmenn veiðiskipa, sem hafa veiðileyfi í atvinnuskyni samkvæmt lögum um stjórn fiskveiða, skulu senda aflaupplýsingar rafrænt til Fiskistofu áður en veiðiferð lýkur. Ráðherra skal með reglugerð kveða nánar á um þær upplýsingar sem skal skrá, og form þeirra og skil til Fiskistofu. Þá er skipstjórum skipa sem vinna afla um borð skylt að skrá upplýsingar um vinnslu aflans á því formi sem Fiskistofa samþykkir.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 12. gr. laganna:
     a.      Á eftir orðinu „skila“ í 2. mgr. kemur: Fiskistofu.
     b.      Í stað orðsins „ráðuneytið“ í 2. mgr. kemur: stofnunin.
     c.      Í stað 3. og 4. mgr. koma þrjár nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
                      Fiskistofa skal skora á hvern þann sem vanrækir að veita upplýsingar skv. 2. mgr. að bæta úr. Um leið skal hlutaðeigandi gefinn kostur á að upplýsa um ástæður tafa við upplýsingaskil. Leiðbeina skal um að dagsektir verði lagðar á að sjö dögum liðnum hafi umræddar upplýsingar ekki borist, nema að hlutaðeigandi upplýsi sannanlega um ástæður, sem honum verður ekki um kennt og gerðu honum ókleift að veita upplýsingarnar. Jafn skjótt og slíkum tálmunum lýkur skal veita Fiskistofu upplýsingarnar.
                      Dagsektir skulu nema 30 þús. kr. fyrir hvern byrjaðan dag. Ákvörðun um dagsektir skal tilkynna skriflega þeim sem hún beinist að. Ákvörðun um dagsektir felur í sér að sá aðili sem ákvörðunin beinist að skal greiða sekt fyrir hvern dag frá og með upphafi fyrsta virka dags eftir að honum var tilkynnt um ákvörðunina og er það tímamark jafnframt gjalddagi kröfunnar. Síðasti sektardagur skal vera sá dagur þegar upplýsingum hefur verið skilað. Dagsektir eru aðfararhæfar og greiðast í ríkissjóð að frádregnum kostnaði við innheimtu. Óinnheimtar dagsektir falla ekki niður þótt aðilar veiti um síðir upplýsingar skv. 2. mgr. Dagsektir geta hæstar orðið 1,5 millj. kr. fyrir hver skil.
                      Ákvörðun um dagsektir má kæra til ráðuneytisins innan fjórtán daga frá því að hún er tilkynnt þeim sem hún beinist að. Kæra til ráðuneytisins frestar ekki réttaráhrifum ákvörðunar. Sé mál höfðað til ógildingar ákvörðunar Fiskistofu um dagsektir er ekki heimilt að innheimta þær fyrr en dómur hefur fallið, enda hafi ekki verið haggað við gildi ákvörðunarinnar í honum. Þrátt fyrir kæru eða málshöfðun til ógildingar ákvörðunar um dagsektir leggjast dagsektir áfram á viðkomandi aðila.

II. KAFLI

Breyting á lögum um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006.

4. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 17. gr. laganna:
     a.      1. mgr. fellur brott.
     b.      Við bætast þrjár nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
                      Nú vanrækir aðili skv. 2. mgr. að verða við beiðni ráðuneytis eða Fiskistofu um að veita tilgreindar upplýsingar og skal þá Fiskistofa skora á hann að bæta úr. Um leið skal hlutaðeigandi gefinn kostur á að upplýsa um ástæður tafa við upplýsingaskil. Leiðbeina skal um að dagsektir verði lagðar á að 20 dögum liðnum hafi umræddar upplýsingar ekki borist, nema að hlutaðeigandi upplýsi sannanlega um ástæður, sem honum verður ekki um kennt og gerðu honum ókleift að veita upplýsingarnar. Jafn skjótt og slíkum tálmunum lýkur skal veita upplýsingarnar.
                      Dagsektir skulu nema 30 þús. kr. fyrir hvern byrjaðan dag. Ákvörðun um dagsektir skal tilkynna skriflega þeim sem hún beinist að. Ákvörðun um dagsektir felur í sér að sá aðili sem ákvörðunin beinist að skal greiða sekt fyrir hvern dag frá og með upphafi fyrsta virka dags eftir að honum var tilkynnt um ákvörðunina og er það tímamark jafnframt gjalddagi kröfunnar. Síðasti sektardagur skal vera sá dagur þegar upplýsingum hefur verið skilað. Dagsektir eru aðfararhæfar og renna í ríkissjóð að frádregnum kostnaði við innheimtu. Óinnheimtar dagsektir falla ekki niður þótt aðilar veiti um síðir umbeðnar upplýsingar. Dagsektir geta hæstar orðið 1,5 millj. kr. fyrir hver skil.
                      Ákvörðun um dagsektir má kæra til ráðuneytisins innan fjórtán daga frá því að hún er tilkynnt þeim sem hún beinist að. Kæra frestar ekki réttaráhrifum ákvörðunar. Sé mál höfðað til ógildingar ákvörðunar Fiskistofu um dagsektir er ekki heimilt að innheimta þær fyrr en dómur hefur fallið, enda hafi ekki verið haggað við gildi ákvörðunarinnar í honum. Þrátt fyrir kæru eða málshöfðun til ógildingar ákvörðunar um dagsektir leggjast dagsektir áfram á viðkomandi aðila.

III. KAFLI

Breyting á lögum um veiðar og vinnslu erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi Íslands, nr. 22/1998.

5. gr.

    Við 3. gr. laganna bætast þrjár nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
    Fiskistofa skal skora á hvern þann sem vanrækir að veita stofnuninni upplýsingar skv. 3. mgr. að bæta úr. Um leið skal hlutaðeigandi gefinn kostur á að upplýsa um ástæður tafa við upplýsingaskil. Leiðbeina skal um að dagsektir verði lagðar á að sjö dögum liðnum hafi umræddar upplýsingar ekki borist, nema að hlutaðeigandi upplýsi sannanlega um ástæður, sem honum verður ekki um kennt og gerðu honum ókleift að veita upplýsingarnar. Jafn skjótt og slíkum tálmunum lýkur skal veita Fiskistofu upplýsingarnar.
    Dagsektir skulu nema 30 þús. kr. fyrir hvern byrjaðan dag. Ákvörðun um dagsektir skal tilkynna skriflega þeim sem hún beinist að. Ákvörðun um dagsektir felur það í sér að sá aðili sem ákvörðunin beinist að skal greiða sekt fyrir hvern dag frá og með upphafi fyrsta virka dags eftir að honum var tilkynnt um ákvörðunina og er það tímamark jafnframt gjalddagi kröfunnar. Síðasti sektardagur skal vera sá dagur þegar upplýsingum hefur verið skilað. Dagsektir eru aðfararhæfar og greiðast í ríkissjóð að frádregnum kostnaði við innheimtu. Óinnheimtar dagsektir falla ekki niður þótt aðilar veiti um síðir upplýsingar skv. 2. mgr. Dagsektir geta hæstar orðið 1,5 millj. kr. fyrir hver skil.
    Ákvörðun um dagsektir má kæra til ráðuneytisins innan fjórtán daga frá því að hún er tilkynnt þeim sem hún beinist að. Kæra til ráðuneytisins frestar ekki réttaráhrifum ákvörðunar. Sé mál höfðað til ógildingar ákvörðunar Fiskistofu um dagsektir er ekki heimilt að innheimta þær fyrr en dómur hefur fallið, enda hafi ekki verið haggað við gildi ákvörðunarinnar í honum. Þrátt fyrir kæru eða málshöfðun til ógildingar ákvörðunar um dagsektir leggjast dagsektir áfram á viðkomandi aðila.

6. gr.

    5. gr. laganna orðast svo:
    Um veiðar erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi Íslands skulu, ef ekki er um annað samið í milliríkjasamningum, gilda ákvæði laga og reglugerða sem gilda um veiðar íslenskra skipa í fiskveiðilandhelginni eftir því sem við á. Sama gildir um vigtun og skráningu sjávarafla erlendra skipa sem landað er í íslenskum höfnum, sbr. þó 9. gr.

IV. KAFLI

Breyting á lögum um Fiskistofu, nr. 36/1992.

7. gr.

    Við 2. gr. laganna bætast þrjár nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
    Eftirlitsmönnum Fiskistofu er heimilt að nota fjarstýrð loftför í eftirlitsstörfum sínum sem eru búin myndavélum til upptöku eða annan fjarstýrðan búnað sem getur safnað upplýsingum. Fiskistofu er heimilt að vinna upplýsingar sem þannig er aflað í eftirlitstilgangi eða til söfnunar, úrvinnslu og útgáfu upplýsinga á sviði sjávarútvegsmála í samræmi við hlutverk stofnunarinnar. Skal gæta þess að einungis sé rafræn vöktun á þeim stöðum sem nauðsynlegt er talið vegna almannahagsmuna og til þess að eftirlitsmenn Fiskistofu geti uppfyllt eftirlitsskyldu sína.
    Persónuupplýsingum sem safnast við rafræna vöktun skal eytt þegar ekki er lengur málefnaleg ástæða til að varðveita þær en í síðasta lagi þegar heimild til að beita viðurlögum við háttsemi fellur niður. Verði eftirlitsmenn Fiskistofu áskynja um ætlað brot gegn lögum á sviði fiskveiðistjórnar í upplýsingum sem verða til við rafræna vöktun er stofnuninni heimilt að varðveita upplýsingarnar þar til máli telst lokið. Hafi máli lokið með beitingu stjórnsýsluviðurlaga telst því lokið þegar frestur til að höfða dómsmál er runninn út eða endanlegur dómur hefur fallið um það.
    Fiskistofu er ekki heimilt að láta í té upplýsingar sem verða til við rafræna vöktun nema til lögreglu vegna rannsóknar á ætluðu broti.

8. gr.

    Á eftir 2. gr. laganna kemur ný grein, 2. gr. a, svohljóðandi:
    Fiskistofu er heimil vinnsla persónuupplýsinga, þar á meðal upplýsinga sem verða til við rafrænt eftirlit og um eignarhald útgerðarfélaga og annarra upplýsinga sem hinn skráði leggur í té, í þeim tilgangi að sinna lögbundnu hlutverki sínu samkvæmt lögum á sviði fiskveiðistjórnar að uppfylltum skilyrðum laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.

9. gr.

    12. tölul. 2. mgr. 5. gr. laganna fellur brott.

10. gr.

    Á eftir 8. gr. laganna kemur ný grein, 9. gr., ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Gagnsæi í störfum Fiskistofu.

    Fiskistofa skal birta opinberlega ákvarðanir stofnunarinnar um sviptingu veiðileyfa og afturköllun vigtunarleyfa.

11. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Fiskistofu er heimilt að fara í samstarf við útgerðaraðila um tímabundið verkefni um rafræna vöktun í fiskiskipum árin 2022 og 2023. Tilgangur verkefnisins skal vera prófun á tæknibúnaði við hagnýtingu rafræns eftirlits um borð í fiskveiðiskipum, þ.e. notkunar, eiginleika og gæða myndefnis. Fiskistofa skal láta útgerðaraðila myndavélar í té vegna samstarfsins og skal eftirlitsmönnum Fiskistofu vera heimill aðgangur að þeim upplýsingum sem til verða við rafræna vöktun um borð, til söfnunar og úrvinnslu. Upplýsingar sem til verða við framkvæmd verkefnisins skulu einungis nýttar í samræmi við framangreindan tilgang verkefnisins en ekki í eftirlitsskyni. Fiskistofu er ekki heimilt að afhenda öðrum aðila þær upplýsingar sem safnast við framkvæmd verkefnisins nema það sé í nauðsynlegt í þágu verkefnisins.

12. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Í desember 2018 skilaði Ríkisendurskoðun skýrslu til Alþingis um eftirlit Fiskistofu með fiskveiðum þar sem álitið var að ráðast þyrfti í ýmsar úrbætur hjá stofnuninni til að hún gæti sinnt eftirliti með skilvirkum og árangursríkum hætti. Unnið hefur verið að úrbótum samkvæmt ábendingum í skýrslunni og er frumvarp þetta liður í því starfi.
    Í mars 2019 skipaði sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra verkefnastjórn um bætt eftirlit með fiskveiðiauðlindinni. Um leið var settur á fót samráðshópur með fulltrúum allra þingflokka á Alþingi, stofnana og helstu hagaðila í sjávarútvegi. Í skýrslu verkefnastjórnarinnar frá júní 2020 er m.a. fjallað um rafrænt eftirlit. Skýrslan „Bætt eftirlit með fiskveiðiauðlindinni“ var birt opinberlega.
    Frumvarp þetta er unnið í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu. Frumvarpið var lagt fram á 151. löggjafarþingi (þskj. 1183, 704. mál) en náði þá ekki fram að ganga og er nú lagt fram að nýju með breyttu sniði. Frumvarpið nú hefur að geyma ákvæði sem snúa eingöngu að heimildum Fiskistofu til að sinna eftirliti, svo sem rafrænu eftirliti og myndavélaeftirliti og eftirfylgni með því. Þannig hafa ákvæði úr fyrra frumvarpi er snúa að viðurlögum/stjórnvaldssektum og ákvæði er snúa að tengdum aðilum og raunverulegum yfirráðum við framkvæmd reglna um hámarksaflahlutdeild verið tekin út úr frumvarpinu. Í sáttmála um nýtt ríkisstjórnarsamstarf frá nóvember 2021 segir að skipuð verði nefnd til að m.a. kortleggja áskoranir og tækifæri í sjávarútvegi og tengdum greinum, meta þjóðhagslegan ávinning fiskveiðistjórnunarkerfisins, bera saman stöðuna hér og erlendis og leggja fram tillögur til að hámarka möguleika Íslendinga til frekari árangurs og samfélagslegrar sáttar um umgjörð greinarinnar. Nefndin fjalli einnig um hvernig hægt er að auka gagnsæi í rekstri fyrirtækja í sjávarútvegi og þá sérstaklega meðal stærstu fyrirtækja landsins. Þá meti nefndin árangur af atvinnu- og byggðakvóta og strandveiðum til að styðja við atvinnulíf í landsbyggðunum. Mun sá hluti frumvarpsins sem hefur verið tekin út að þessu sinni verða til skoðunar í nefndinni ásamt öðrum atriðum.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Fyrrnefnd verkefnastjórn tók til umfjöllunar möguleika Fiskistofu til að efla eftirlit með rafrænni vöktun, þ.m.t. notkun svonefndra flygilda (dróna) sem talið er að geti aukið þekju og styrkt framkvæmd eftirlits. Var í framhaldi bent á að nánari þróun og hagnýting slíkra tækja kalli á sérstaka lagaheimild og er með frumvarpinu lagt til að hún verði veitt. Þá er talið nauðsynlegt að styrkja heimildir til rafrænnar aflaskráningar og myndavélaeftirlit.

3. Meginefni frumvarpsins.
3.1. Heimild til að leggja á dagsektir og innheimta uppsafnaðar dagsektir.
    Með frumvarpinu er lagt til að Fiskistofu verði í ákveðnum tilvikum heimilt að leggja dagsektir     á hvern þann sem vanrækir að veita stofnuninni þær upplýsingar sem viðkomandi ber að veita lögum samkvæmt. Þá er gert ráð fyrir sterkari heimildum Fiskistofu til innheimtu dagsekta. Ráðgert að stofnunin skuli fyrst skora á hvern þann sem vanrækir að veita upplýsingar að bæta úr og gefa viðkomandi kost á að upplýsa um ástæður tafa við upplýsingaskil. Þá skuli Fiskistofa leiðbeina viðkomandi um að dagsektir verði lagðar á að liðnum fresti (sjö eða tuttugu dagar) hafi umræddar upplýsingar ekki borist, nema hlutaðeigandi upplýsi sannanlega um ástæður, sem honum verður ekki um kennt og gerðu honum ókleift að veita upplýsingarnar. Lagt er til að kveðið verði á um það að óinnheimtar dagsektir falli ekki niður. Er það gert til að tryggja að úrræðið hafi tilhlýðileg fælingar- og varnaðaráhrif. Lagt er til að dagsektir skuli nema 30 þús. kr. fyrir hvern byrjaðan dag og geti hæstar orðið 1,5 millj. kr.

3.2. Gagnsæi í störfum Fiskistofu.
    Lagt er til að skýrt verði mælt fyrir um heimild Fiskistofu til að birta opinberlega ákvarðanir um sviptingu veiðileyfa og afturköllun vigtunarleyfa. Miðar þetta að því að auka enn frekar gagnsæi í störfum Fiskistofu sem og fyrirsjáanleika fyrir þá sem starfa í greininni og veita bæði þeim og Fiskistofu tilhlýðilegt aðhald.

3.3. Heimildir Fiskistofu til rafræns eftirlits verði efldar.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar sem miða að því að styrkja heimildir Fiskistofu til rafræns eftirlits. Lagt er til að eftirlitsmönnum Fiskistofu verði heimill aðgangur að upplýsingum sem verða til við rafræna vöktun á löndunarhöfnum í þeim tilgangi að hafa eftirlit með löndun afla. Við eftirlitið þarf að huga að lögum um persónuvernd og gæta þess að eftirlit sé í samræmi við tilgang heimildarinnar að teknu tilliti til meðalhófs. Þá eru lagðar til breytingar á lögum um Fiskistofu sem miða að því að veita Fiskistofu heimild til rafræns eftirlits og heimild til vinnslu upplýsinga. Að auki er lagt til að sett verði bráðabirgðaákvæði sem heimilar Fiskistofu að fara í samstarf við útgerðaraðila um notkun myndavéla um borð í fiskiskipum í eftirlitsskyni. Er þetta í samræmi við tillögur verkefnastjórnarinnar um að stofnunin fái skýrar lagaheimildir í þessu efni.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Við samningu ákvæða um heimildir Fiskistofu til að viðhafa rafrænt eftirlit var gætt að 71. gr. stjórnarskrár Íslands um friðhelgi einkalífs og að reglurnar samræmdust lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, nr. 90/2018. Við samningu ákvæða frumvarpsins var litið til 14. gr. laganna en þar er fjallað um rafrænt eftirlit og skilyrði þess. Um rafrænt eftirlit gilda reglur nr. 837/2006, um rafræna vöktun og meðferð persónuupplýsinga sem verða til við rafræna vöktun. Í 5. gr. reglnanna kemur fram að við rafræna vöktun skal þess gætt að ganga ekki lengra en brýna nauðsyn ber til miðað við þann tilgang sem að er stefnt. Ákvæði þessa frumvarps eru lögð fram til að taka af allan vafa um lagaheimild til rafræns eftirlits. Að baki þeim ákvæðum eru skýr ákvæði um eftirlitsskyldu Fiskistofu í lögum nr. 36/1992 um Fiskistofu. Verður Fiskistofa í starfsemi sinni einnig að uppfylla þær skyldur við eftirlit sem leiða af lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga og reglur sem leiða af þeim. Þannig hefur Fiskistofa þegar unnið með ákveðna tilhögun fyrirkomulags um rafrænt eftirlit með myndavélum og gert er ráð fyrir að stofnunin muni viðhafa skýrar verklagsreglur við rafrænt eftirlit.
    Ekki var talið tilefni til að taka til sérstakrar skoðunar hvort efni frumvarpsins færi gegn öðrum ákvæðum stjórnarskrár.

5. Samráð.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á helstu lögum á sviði fiskveiðistjórnunar sem varða eftirlit Fiskistofu. Efni þess mun fyrst og fremst hafa áhrif á þá aðila sem stunda veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands og þá aðila sem hafa vigtunarleyfi samkvæmt lögum um umgengni um nytjastofna sjávar. Frumvarpið byggist á tillögum og athugasemdum sem fram komu í skýrslu verkefnastjórnar um bætt eftirlit með fiskveiðiauðlindinni. Til að styðja við starf verkefnastjórnarinnar var skipaður samráðshópur með fulltrúum helstu haghafa í sjávarútvegi; Félags skipstjórnarmanna, Félags vélstjóra og málmtæknimanna, Fiskistofu, Hafnasambandi Íslands, Hafrannsóknastofnun, Landhelgisgæslu Íslands, Landssambands smábátaeigenda, Matís ohf., Matvælastofnun, Samtökum fiskframleiðenda og útflytjenda, Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtökum smærri útgerða og Sjómannasambandi Íslands. Einnig voru fulltrúar allra þingflokka í samráðshópnum.
    Verkefnastjórnin hélt fjóra fundi með samráðshópnum þar sem vinna verkefnastjórnarinnar var kynnt og óskað eftir sjónarmiðum frá fulltrúum hópsins. Einnig voru haldnir sérstakir fundir með Fiskistofu, Landhelgisgæslu Íslands, Matís, Ríkisendurskoðun, dómsmálaráðuneytinu, Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi og Samtökum fiskvinnslu og fiskútflytjenda.
    Frumvarpið var samið í atvinnuvega og nýsköpunarráðuneytinu í nánu samstarfi við Fiskistofu og Landhelgisgæsluna. Einnig voru haldnir fundir með dómsmálaráðuneytinu varðandi ákvæði er snúa að Landhelgisgæslunni. Drög að frumvarpi voru kynnt á fundum með helstu félagasamtökum útgerðaraðila (Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi, Landssambandi smábátaeigenda og Samtökum smærri útgerða) haustið 2020.
    Drög að frumvarpinu voru birt 26. febrúar 2021 í samráðsgátt stjórnvalda á vefnum Ísland.is (mál nr. S-62/2021). Bárust 14 umsagnir um frumvarpið á umsagnartíma, frá átta einstaklingum, Landhelgisgæslu Íslands, Landssambandi smábátaeigenda, Samkeppniseftirlitinu, Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi, Smábátafélaginu Hrollaugi og Útgerðarfélagi Reykjavíkur hf. Þá bárust einnig umsagnir frá Fiskistofu og Hafnasambandi Íslands. Þær breytingar sem lagðar voru til í kjölfar umsagna eru raktar í 5. kafla þess frumvarps sem lagt var fram á 151. löggjafarþingi, þskj. 1183 – 704. mál, en voru þær einkum um ákvæði um stjórnvaldssektir og tengda aðila. Frumvarpið náði ekki fram að ganga á 151. löggjafarþingi.
    Í september 2021 upplýsti atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið Fiskistofu um að til stæði að leggja frumvarpið að nýju fram efnislega óbreytt á komandi þingi. Í janúar 2022 var svo ákveðið að leggja frumvarpið fram með breyttu sniði þannig að ákvæði um um stjórnvaldssektir og tengda aðila falli brott þar sem ný nefnd á m.a. að fjalla um þau efni á ný. Engin efnislega ný ákvæði eru í drögunum, en 9. gr. er sett inn til samræmis við 2. gr. Eftir standa ákvæði um eftirlit Fiskistofu, rafrænt eftirlit og myndavélaeftirlit o.fl.

6. Mat á áhrifum.
    Fiskistofa er það stjórnvald sem fer með eftirlit með lögum á sviði fiskveiðistjórnunar. Verði frumvarpið óbreytt að lögum er ekki gert ráð fyrir að lögfesting þess muni fela í sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð frá því sem nú er. Áhrifin á afkomu ríkissjóðs ættu að verða óveruleg.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Lagt til að eftirlitsmönnum Fiskistofu verði heimilaður aðgangur að upplýsingum sem fást við rafræna vöktun í löndunarhöfn í því skyni að hafa eftirlit með löndun afla, m.a. að hægt sé að taka afrit af þeim upplýsingum sem þar er að finna sé rökstuddur grunur um að brot hafi verið framið sem fellur undir málefnasvið Fiskistofu, sbr. heimild um söfnun, úrvinnslu og útgáfu upplýsinga í 2. gr. laga um Fiskistofu, nr. 36/1992. Flestar löndunarhafnir eru búnar rafrænu vöktunarkerfi en eftirlitsmönnum Fiskistofu er ekki heimill aðgangur að upplýsingum sem fást við rafræna vöktun í höfnum nema fyrir því sé skýr lagaheimild, sem lagt er til að bætist við 8. gr. laga um umgengni um nytjastofna sjávar.

Um 2. gr.

    Í gildandi lögum er kveðið á um afladagbækur í 17. gr. laga um stjórn fiskveiða og í 9. gr. laga um umgengni um nytjastofna sjávar. Lagt er til að efnisreglur ákvæðanna verði sameinaðar í eitt ákvæði, 4. mgr. 9. gr. laga um umgengni um nytjastofna sjávar. Aflaskráning verður rafræn.
    Þá er felld út heimild Fiskistofu að innheimta gjald fyrir afladagbækur þar sem stofnunin mun ekki lengur láta þær í té. Jafnframt er því breytt að Fiskistofu er ekki gert að láta í té sérstakar vinnsludagbækur fyrir vinnsluskip heldur er vísað til þess að skipstjórar skuli halda utan um vinnslu aflans á því formi sem Fiskistofa samþykkir.

Um 3. gr.

    Lagðar eru til breytingar á 12. gr. laga um umgengni um nytjastofna sjávar. Annars vegar eru lagðar til breytingar á 2. mgr. í því skyni að skerpa á því að vigtar- og ráðstöfunarskýrslum skuli skilað til Fiskistofu og að stofnunin ákveði form þeirra og skilahátt. Hins vegar er lagt til að í stað 3. og 4. mgr., þar sem kveðið er á um að hver sá sem vanrækir að veita Fiskistofu upplýsingar skv. 2. mgr. skuli sæta dagsektum, komi þrjár nýjar málsgreinar um sama efni. Þannig er lagt til að álagðar dagsektir falli ekki niður enda þótt upplýsingum sé skilað um síðir. Finna má mörg dæmi í íslenskum rétti um slíkt úrræði og má þar nefna 3. mgr. 11. gr. laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, nr. 87/1998, en þar segir að óinnheimtar dagsektir falli ekki niður þótt aðilar verði síðar við kröfum Fjármálaeftirlitsins nema Fjármálaeftirlitið ákveði það sérstaklega.
    Lagt er til að Fiskistofa þurfi fyrst að skora á þann sem vanrækt hefur að veita upplýsingar um að sinna lögboðnum skyldum sínum. Um leið gefur stofnunin hlutaðeigandi andmælarétt í tilefni af því að dagsektir verði lagðar á innan sjö daga hafi upplýsingar ekki borist. Ekki skal þó leggja dagsektir á upplýsi hlutaðeigandi sannanlega um ástæður, sem honum verður ekki um kennt og gerðu honum ókleift að skila upplýsingunum. Jafn skjótt og slíkum tálmunum lýkur skal hins vegar veita Fiskistofu upplýsingarnar. Komi ekki fram í andmælum að um slíkar aðstæður sé að ræða skal Fiskistofa leggja á 30 þús. kr. dagsekt sem hæst getur þó orðið 1,5 millj. kr. sem jafngildir 50 dagsektardögum. Dagsektir eru aðfararhæfar og renna í ríkissjóð.

Um 4. gr.

    Lagðar eru til breytingar á 17. gr. laga um stjórn fiskveiða. Í fyrsta lagi er lagt til að 1. mgr. falli brott. Í 2. gr. frumvarpsins er lögð til ný 4. mgr. 8. gr. laga um umgengni um nytjastofna sjávar er varðar skil á aflaupplýsingum og er því óþarft að kveða einnig á um það í lögum um stjórn fiskveiða.
    Í öðru lagi er lagt til að gerð verði sú breyting að vanhöld á upplýsingagjöf skv. 2. mgr. 17. gr. laganna varði dagsektum. Samkvæmt umræddu ákvæði er útgerðarmönnum, skipstjórnarmönnum og kaupendum afla, svo og umboðsmönnum, útflytjendum, flutningsaðilum, bönkum, lánastofnunum og opinberum stofnunum, skylt að láta ráðuneytinu eða Fiskistofu ókeypis í té og á því formi, sem ráðherra ákveður, allar þær upplýsingar sem unnt er að láta í té og nauðsynlegar eru taldar vegna eftirlits með framkvæmd laganna. Engin viðurlög eru við því að veita ekki umbeðnar upplýsingar og því hefur í framkvæmd reynst örðugt að knýja fram upplýsingar ef aðilar verða ekki við beiðni Fiskistofu þar að lútandi. Er því lagt til að á eftir 3. mgr. komi þrjár nýjar málsgreinar sama efnis og lagt er til með 3. gr. frumvarpsins að komi í stað 3. og 4. mgr. 12. gr. laga um umgengni um nytjastofna sjávar. Um skýringar vísast því til skýringa með ákvæði 3. gr. eftir því sem við á.

Um 5. gr.

    Lagðar eru til breytingar á 3. gr. laga um veiðar og vinnslu erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi Íslands. Skv. 3. mgr. 3. gr. er kaupendum afla, svo og umboðsmönnum, útflytjendum, flutningsaðilum, bönkum, lánastofnunum og opinberum stofnunum skylt að láta ráðuneytinu eða Fiskistofu í té, ókeypis og í því formi sem þessi stjórnvöld ákveða, allar þær upplýsingar sem unnt er að láta í té og nauðsynlegar eru taldar vegna eftirlits með framkvæmd ákvæðis 3. gr. Engin viðurlög eru við því að veita ekki umbeðnar upplýsingar og því hefur í framkvæmd reynst örðugt að knýja fram upplýsingar ef aðilar verða ekki við beiðni Fiskistofu þar að lútandi. Er því lagt til að á eftir 6. mgr. 3. gr. laganna komi þrjár nýjar málsgreinar sama efnis og lagt er til með 3. gr. frumvarpsins að komi í stað 3. og 4. mgr. 12. gr. laga um umgengni um nytjastofna sjávar. Um skýringar vísast því til skýringa með ákvæði 3. gr. eftir því sem við á.

Um 6. gr.

    Lagt er til að ákvæði 5. gr. laga um veiðar og vinnslu erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi Íslands verði einfaldað og uppfært. Ákvæðið mælir fyrir um að erlend skip sem stunda veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands skuli fara eftir íslenskum reglum varðandi veiðarnar. Of takmarkandi er að tiltaka hvaða ákvæði gilda um veiðar erlendra skipa líkt og gert er í gildandi lögum auk þess sem einhverjar tilvísanir vísa til eldri laga sem fallin eru brott. Meginreglan er að erlend skip sem stunda veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands lúta íslenskum lögum varðandi veiðarnar nema um annað sé sérstaklega samið í milliríkjasamningum. Sama á við um skip er landa afla sínum í íslenskum höfnum. Sé um að ræða afla sem veiddur hefur verið í fiskveiðilandhelgi Íslands skal fara um vigtun og skráningu eftir þeim lögum og reglum er gilda um vigtun og skráningu afla íslenskra skipa.

Um 7. gr.

    Lagt er til að Fiskistofa fái heimild til að nota fjarstýrð loftför í eftirlitsstörfum sínum sem eru búin myndavélum til upptöku, eða annan fjarstýrðan búnað sem getur safnað upplýsingum. Ljóst er að sú vöktun sem lögð er fram í ákvæðinu er í eðli sínu rafræn vöktun og rafræn vinnsla persónuupplýsinga í skilningi laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, nr. 90/2018, og þarf þar með að uppfylla skilyrði þeirra laga. Við samningu ákvæðisins var litið til laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga en í 14. gr. þeirra laga er fjallað um rafrænt eftirlit og skilyrði þess. Í skýringum við ákvæðið kemur fram að rafrænt eftirlit megi fara fram með leynd ef það styðst við skýra lagaheimild eða dóm. Um rafrænt eftirlit gilda reglur nr. 837/2006, um rafræna vöktun og meðferð persónuupplýsinga sem verða til við rafræna vöktun. Í 5. gr. reglnanna kemur fram að við rafræna vöktun skal þess gætt að ganga ekki lengra en brýna nauðsyn ber til miðað við þann tilgang sem að er stefnt. Skal gæta þess að virða einkalífsrétt þeirra sem sæta vöktun og forðast alla óþarfa íhlutun í einkalíf þeirra. Við ákvörðun um hvort viðhafa skuli rafræna vöktun skal því ávallt gengið úr skugga um hvort markmiðinu með slíkri vöktun sé unnt að ná með öðrum og vægari raunhæfum úrræðum.

Um 8. gr.

    Lagt er til að á eftir 2. gr. laga um Fiskistofu komi nýtt ákvæði um vinnslu persónuupplýsinga sem verði 2. gr. a laganna. Til að sinna eftirlitshlutverki sínu aflar Fiskistofa og vinnur með mikið magn gagna. Sum þessara gagna geta verið persónugreinanleg og því er nauðsynlegt að Fiskistofa hafi heimild til vinnslu persónuupplýsinga. Í lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga eru persónuupplýsingar skilgreindar sem sérhverjar upplýsingar um persónugreindan eða persónugreinanlegan einstakling. Einstaklingur telst persónugreinanlegur ef unnt er að persónugreina hann, beint eða óbeint, svo sem með tilvísun í auðkenni eins og nafn, kennitölu, staðsetningargögn, netauðkenni eða einn eða fleiri þætti sem einkenna hann í líkamlegu, lífeðlisfræðilegu, erfðafræðilegu, andlegu, efnalegu, menningarlegu eða félagslegu tilliti. Telja verður að útgerðaraðili, skip og skipaskrárnúmer geti fallið undir persónugreinanlegar upplýsingar og er því ljóst að Fiskistofa meðhöndlar persónuupplýsingar í störfum sínum. Þá er einnig nauðsynlegt að setja slíkt heimildarákvæði í lög um Fiskistofu svo stofnuninni sé heimilt að framkvæma rafrænt eftirlit eins og lagt er til í frumvarpinu.

Um 9. gr.

    Lagt er til að fella brott heimild Fiskistofu fyrir gjaldtöku fyrir afladagbækur. Sjá einnig skýringu við 2. gr.

Um 10. gr.

    Lagt er til að á eftir 8. gr. laga um Fiskistofu komi nýtt ákvæði sem verði 9. gr. og beri fyrirsögnina gagnsæi í störfum Fiskistofu. Með ákvæðinu er lagt til að kveðið verði á um að Fiskistofa skuli birta opinberlega allar ákvarðanir um sviptingu veiðileyfa og afturköllun vigtunarleyfa. Miðar umrædd tillaga að því að auka gagnsæi í störfum Fiskistofu sem og fyrirsjáanleika fyrir þá sem starfa í greininni og veita bæði þeim og Fiskistofu tilhlýðilegt aðhald.

Um 11. gr.

    Lagt er til að sett verði heimild fyrir Fiskistofu, sem bráðabirgðaákvæði, að fara í tilraunaverkefni um rafrænt eftirlit með myndavélum um borð í fiskveiðiskipum árin 2022 og 2023. Rafrænt eftirlit með myndavélum um borð í fiskveiðiskipum til stuðnings við hefðbundið eftirlit með fiskveiðum er kostnaðarminna auk þess sem slík tæki til eftirlits eru líkleg til að draga úr brottkasti vegna fælingarmáttar slíks eftirlits. Með ákvæðinu er lagt til að Fiskistofu verði heimilt að fara í samstarf við útgerðaraðila um rafræna vöktun í fiskiskipum. Með verkefninu er ætlunin að prófa tækjabúnað og framkvæmd eftirlits með myndavélum um borð í fiskveiðiskipum.

Um 12. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringar.