Ferill 391. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 560  —  391. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um starfsheiti ráðherra.


Flm.: Guðmundur Andri Thorsson, Oddný G. Harðardóttir, Helga Vala Helgadóttir, Logi Einarsson, Jóhann Páll Jóhannsson, Kristrún Frostadóttir, Lenya Rún Taha Karim, Jakob Frímann Magnússon.


    Alþingi ályktar að fela forsætisráðherra að skipa nefnd um nýtt starfsheiti ráðherra sem endurspegli betur veruleika og hugsunarhátt dagsins í dag. Umfjöllun nefndarinnar skuli lokið eigi síðar en 1. september 2022 og liggi þá fyrir tillögur sem forsætisráðherra hafi til hliðsjónar við endurskoðun stjórnarskrárinnar.

Greinargerð.

    Undanfarin ár hefur átt sér stað vitundarvakning í samfélaginu um það hvernig tungumálið hefur um aldir endurspeglað valdahlutföll kynjanna, þar sem karlkynið er hið ráðandi kyn. Þannig er orðið „maður“ í daglegu tali bæði haft um karlmenn sérstaklega og mannkynið yfirleitt, sem sýnir okkur að einungis virðist hafa verið gert ráð fyrir einu kyni í opinberu rými. Konur hafa um aldir verið sjaldséðar og lítt sýnilegar á vettvangi stjórnmála, þingstarfa, vísinda, lista, fjölmiðla, fræða og annars staðar í opinberu rými. Kvennabarátta síðustu aldar breytti þessu. Konur kröfðust réttinda og rýmis með þeim árangri að þær eru nú áberandi á ótal sviðum samfélagsins ekki síður en karlar.
    Tungumálið endurspeglar hinar fornu hugmyndir að nokkru leyti. Áberandi er að fólk reynir nú að komast svo að orði að tungutakið útiloki ekki aðrar manneskjur en karla. Af þeim sökum á karlkynið sem ráðandi málfræðikyn í vök að verjast. Hér getur Alþingi gengið á undan með góðu fordæmi.
    Ein birtingarmynd þessa gamla ójafnréttis sem tungumálið varðveitir eru starfsheiti þeirra einstaklinga sem gegna í umboði Alþingis og þar með þjóðarinnar þeim störfum að framfylgja lögum og enn eru kennd við ráðherradóm. Starfsheitið inniber fornan virðingartitil karlmanns, sem á réttum stað og með réttri notkun getur verið virðulegur og til þess fallinn að skapa ánægjuleg hughrif: „Hvað má bjóða herranum?“ Og þannig má áfram telja. En orðið „herra“ á sér einnig aðrar aukamerkingar og valdþrungnari því að það setur þann sem svo er ávarpaður á hærri stall en aðra í kringum hann. Segja má að það sé óviðeigandi að tala af slíkri upphafningu um þetta tiltekna starf. Enda þótt það felist vissulega í því að taka ákvarðanir sem varða allt samfélagið er það um leið þjónustustarf við almenning.
    Þegar konum hefur fjölgað í hinum svokölluðu ráð-„herra“-störfum, eins og öðrum störfum sem voru áður einokuð af körlum og herrum, er sérkennilegt að halda þeim sið að í starfsheitinu sé einungis gert ráð fyrir körlum. Nú þegar biskup er kona þykir ekki fara vel á því að hún sé ávörpuð „herra Agnes“, eins og gilti um fyrirrennara hennar í starfi. Engum datt heldur í hug að ávarpa frú Vigdísi forseta sem herra þótt forverar hennar hefðu verið nefndir svo. Að sama skapi er það nokkuð afkáralegt að viðhafa ráð-„herra“-titil um þær konur sem gegna því starfi.
    Orð hafa merkingu sem breytist með tímanum og laga sig að ólíkum samfélagsháttum. Börn á okkar dögum eru allt eins líkleg til þess að sjá fyrir sér konu eins og karl þegar ráðherra ber á góma. Fræg er sagan um ungu stúlkuna sem spurði undrandi þegar frú Vigdís lét af embætti eftir langa þjónustu við land og þjóð: „Geta karlar verið forsetar?“ Tungumálið þvælist enn þá fyrir úthreinsun hinna gömlu viðhorfa með því að starfsheitið sjálft vísar til hins ráðandi herra – karlsins sem ræður – og það er löngu orðið tímaskekkja. Þegar Íslendingar fengu heimastjórn árið 1904 stóð upphaflega til að starfið kallaðist „ráðgjafi“ en því var breytt áður en fyrsti íslenski ráðherrann tók til starfa. Þess má geta að árið 1904 voru konur ekki einu sinni komnar með kosningarrétt og það var því fjarlægur möguleiki að kona gegndi starfi ráðherra þegar starfsheitið varð til. Í erlendum málum eru sambærileg starfsheiti ekki kynbundin á sambærilegan hátt. Í sumum málum er talað um „kanslara“ eða „chancellor“ í þessu sambandi, eða „minister“, sem kallast á við prestþjónustu. Í Færeyjum eru að störfum „landsstýrismenn“ og „løgmaður“, og þannig má áfram telja.
    Það er mat flutningsmanna að auðvelt hljóti að vera að finna gott heiti á þetta mikilvæga starf, heiti sem endurspeglar betur breyttan veruleika og breyttan hugsunarhátt frá árinu 1904.
    Breyting á starfsheitum ráðherra kallar á breytingar á stjórnarskránni og þarf að haldast í hendur við aðrar löngu nauðsynlegar umbætur á henni sem almenn sátt ríkir um og væntanlegar eru. Það er von flutningsmanna að tillögur nefndar, sem tilbúnar verði eigi síðar en 1. september 2022, verði veganesti við slíka breytingu.