Ferill 398. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 575  —  398. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um verslun með áfengi og tóbak, nr. 86/2011 (staðsetning áfengisverslunar).

Flm.: Bryndís Haraldsdóttir, Ágúst Bjarni Garðarsson.


1. gr.

    Við 2. málsl. 10. gr. laganna bætist: og hafa samráð við sveitarstjórn um staðsetningu verslunar.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Frumvarp þetta er nú lagt fram í þriðja sinn og var áður flutt á 150. löggjafarþingi (53. mál) en hlaut ekki afgreiðslu.
    Með frumvarpi þessu er lagt til að sveitarfélög hafi aðkomu að staðarvali þegar verið er að opna nýjar áfengisverslanir. Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins, ÁTVR, hefur hingað til haft fullt frelsi til að staðsetja verslanir sínar án þess að hafa þurft að hafa um það samráð við handhafa skipulagsvaldsins, sjálf sveitarfélögin. Þekkt er sú staðreynd að sveitarfélögin hafa ekki alltaf verið sátt við staðsetningu verslana ÁTVR og hafa jafnvel talið staðarvalið vinna gegn markmiðum þeirra í skipulags- og umhverfismálum. Sem dæmi má nefna að sveitarfélagið Garðabær hefur ítrekað kvartað yfir því að ÁTVR hafi einhliða lokað verslun sinni í miðbæ Garðabæjar og hafi svo nokkrum árum síðar opnað nýja verslun í Kauptúni en ekki í miðbæ Garðabæjar þrátt fyrir skýrar óskir sveitarfélagsins þar um. Sama gerðist með verslun ÁTVR í Hafnarfirði. Sú staða er óbreytt og nú er fyrirhugað að flytja verslun ÁTVR úr miðborg Reykjavíkur, þ.e. verslunina við Austurstræti, svo dæmi sé tekið.
    Í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga um frumvarp þetta þegar það var lagt fram á 150. þingi kemur fram að sveitarfélög séu í auknum mæli farin að nýta skipulagsvaldið til að efla verslun og þjónustu innan íbúðarhverfa, styðja við umhverfisvænni samgöngur og haga skipulagi þannig að sem minnst þörf sé fyrir akstur um langar vegalengdir til að sækja verslun og þjónustu. Til þess að sameiginlegt markmið ríkis og sveitarfélaga um fjölbreyttari ferðavenjur náist sé lykilatriði að efla verslun og þjónustu í nærumhverfi íbúa með góðu aðgengi að almenningssamgöngum og innviðum fyrir gangandi og hjólandi. Í ljósi þess að ÁTVR hefur einkaleyfi á sölu áfengis getur staðsetning verslana ÁTVR haft mikil áhrif þegar kemur að mótun íbúðahverfa og hvernig uppbygging þjónustu og verslana á svæðinu þróast. Er því eðlilegt að ÁTVR hafi samráð við sveitarfélög um staðsetningu verslana þeirra.
    Í umsögn SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu um sama mál frá 2019 segir að það sé reynsla samtakanna að staðsetning vínbúða ÁTVR geti skipt verulegu máli við þróun verslunar- og þjónustukjarna. Dæmi séu um að slíkir kjarnar hafi verið byggðir upp í samræmi við skipulag en staðsetning vínbúðar utan þeirra hafi hins vegar beinlínis raskað rekstrarforsendum og dregið úr gildi þeirra. Á meðan ÁTVR fari með einkarétt á sölu áfengis í smásöluverslunum hafi viðskiptavinir ÁTVR ekki um neina kosti að velja. Hagkvæm staðsetning vínbúða geti skipt sköpum bæði fyrir sveitarfélög og fyrirtæki sem starfa við verslun og þjónustu. Því leggja samtökin til að við ákvörðun um staðsetningu verslunar skuli þess gætt að hún samræmist markmiðum sveitarstjórnar um staðsetningu verslana.