Ferill 408. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 587  —  408. mál.
Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um listamannalaun, nr. 57/2009 (tímabundin fjölgun starfslauna og styrkja).

Frá menningar- og viðskiptaráðherra.



1. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir ákvæði 5. gr. skulu samanlögð starfslaun árið 2022 miðast við 1.800 mánaðarlaun.
    Þrátt fyrir ákvæði 9. og 10. gr. skulu starfslaun og styrkir til listamanna árið 2022 vera sem hér segir:
     a.      Starfslaun og styrkir sviðslistafólks árið 2022 skulu svara til 240 mánaðarlauna, af þeim skulu 50 mánaðarlaun ætluð sviðslistafólki undir 35 ára aldri.
     b.      Starfslaun og styrkir tónlistarflytjenda árið 2022 skulu svara til 330 mánaðarlauna, af þeim skulu 50 mánaðarlaun ætluð tónlistarflytjendum undir 35 ára aldri.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

1. Inngangur.
    Frumvarp þetta er unnið í menningar- og viðskiptaráðuneyti. Með frumvarpinu er lagt til að samanlögðum starfslaunum listamanna fyrir árið 2022 verði fjölgað tímabundið úr 1.600 í 1.800. Frumvarpið er liður í stuðningsaðgerðum ríkisstjórnar í þágu atvinnulífsins vegna neikvæðra áhrifa heimsfaraldurs kórónuveirunnar sem hefur nú geisað í hátt í tvö ár. Ríkisstjórnin ákvað á fundi sínum hinn 25. janúar sl. að veita í heild 450 millj. kr. framlag til efnahagsaðgerða í þágu menningargreina. Með frumvarpi þessu er kveðið á um ráðstöfun á 100 millj. kr. af framangreindu framlagi í formi tímabundinnar fjölgunar starfslauna listamanna fyrir sviðslistafólk og tónlistarflytjendur.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Heimsfaraldur kórónuveiru hefur fækkað atvinnutækifærum sjálfstætt starfandi listamanna. Umsóknum um starfslaun hefur fjölgað umtalsvert á síðastliðnum áratug eða frá því að lög um listamannalaun, nr. 57/2009, tóku gildi. Aukið framboð af námi í listgreinum, þá ekki síst með tilkomu Listaháskóla Íslands, gerir það að verkum að fleiri sækja sér menntun í listum og gera að atvinnu sinni. Misjafnt er hvaða möguleika listamenn hafa til að afla sér tekna með listsköpun sinni. Við þær aðstæður sem nú eru í íslensku samfélagi kemur í ljós, samkvæmt könnun sem Bandalag háskólamanna stóð fyrir innan aðildarfélaga BHM haustið 2020 í list- og menningargreinum, að mikil aukning hefur orðið á atvinnuleysi innan þeirra raða. Þessar þrengingar á vinnumarkaði og minni möguleikar á stuðningi frá atvinnulífinu draga verulega úr möguleikum listamanna til að afla sér lífsviðurværis með listsköpun sinni. Í ljósi þessa er brýnt að fjölga listamönnum á starfslaunum þannig að fleirum verði gefinn kostur á að starfa að listsköpun sinni á næsta ári.
    Undir lok síðasta árs kom upp ómíkron-afbrigði kórónuveirunnar sem reynist mun meira smitandi en fyrri afbrigði. Þótt ómíkron-afbrigði veirunnar valdi almennt minni veikindum hefur reynst nauðsynlegt að grípa til víðtækra sóttvarnaraðgerða til að verja heilbrigðiskerfið. Þó svo öllum sóttvarnaraðgerðum hafi nú verið aflétt er ljóst að neikvæðra efnahagsáhrifa fyrir listafólk mun gæta um nokkurn tíma. Er því mikilvægt að hið opinbera styðji sérstaklega við þennan hóp á þessum tíma.
    Líkt og komið hefur fram hefur heimsfaraldur kórónuveiru haft mikil neikvæð áhrif á einstaka atvinnugreinar, en samkvæmt tölum Hagstofunnar dróst landsframleiðsla saman um 6,5% á árinu 2020. Samdráttur í verðmætasköpun í menningargeiranum, sérstaklega þeim greinum hans sem byggja tekjuöflun sína að mestu á viðburðarhaldi, var gríðarlegur. Þannig voru greiðslur til rétthafa í tónlist vegna tónleikahalds á árinu 2021 87,5% lægri en samsvarandi tekjur árið 2019. Þessum samdrætti í tekjum einstakra atvinnugreina hefur verið mætt með almennum aðgerðum sem hafa gefið góða raun, sbr. skýrslu fjármála- og efnahagsráðherra um mat á árangri aðgerða til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru. Síðustu vikur hafa strangar samkomutakmarkanir verið í gildi sem hefur haft veruleg neikvæð áhrif á rekstrargrundvöll menningargeirans. Samkvæmt tölum Hagstofu Íslands frá 14. desember 2021 fækkaði þeim sem starfa við menningu um 4,5% á meðan í öðrum atvinnugreinum var hlutfallið 2,8%. Þar kemur einnig fram að „[s]jálfstætt starfandi í menningu fækkaði um tæp 19% á árinu 2020. Þá var mest fækkun á milli 2019 og 2020 í hljóðupptöku og tónlistarútgáfu.“ Ljóst er því að stuðningur hins opinbera er afar mikilvægur á þessum tíma enda hefur áhrifa faraldursins gætt mun lengur en búist var við.
    Með auknu framlagi verður hægt að tryggja listamönnum starfslaun sem samsvara 200 mánaðarlaunum, til viðbótar við þau 1.600 sem er úthlutað vegna ársins 2022.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Lagt er til að við lög um listamannalaun, nr. 57/2009, bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða þess efnis að samanlögðum starfslaunum árið 2022 verði fjölgað tímabundið úr 1.600 mánaðarlaunum í 1.800 . Í könnun sem Bandalag íslenskra listamanna stóð að haustið 2020 kom í ljós að allar listgreinar hafa orðið fyrir tjóni, en tónlistarflytjendur og sviðslistafólk sýnu mest. Lagt er til að sviðslistafólk og tónlistarflytjendur njóti hækkunar. Sérstök áhersla er lögð á þá hópa listafólks sem kannanir hafa sýnt að heimsfaraldur kórónuveiru hefur komið hvað verst niður á. Þá er einnig lögð sérstök áhersla á að styðja við unga listamenn innan þessara hópa. Samhliða verður viðbótarfjármagni beint í Sviðslistasjóð sem nemur 50 millj. kr. sem kemur til viðbótar því fjármagni sem nemur fjölgun listamannalauna.
    Framkvæmd verður sérstök úthlutun starfslauna á grundvelli þessa frumvarps. Um úthlutun starfslauna og málsmeðferð úthlutana gilda ákvæði reglugerðar um listamannalaun, nr. 834/2009. Í ljósi þess að um aukaúthlutun starfslauna er að ræða fyrir árið 2022 og að skammt er frá síðustu úthlutun verða gerðar nokkrar tímabundnar breytingar á reglugerðinni verði frumvarp þetta að lögum sem munu m.a. fela í sér skemmri umsóknarfrest en almennt gildir. Með því móti má koma stuðningnum í framkvæmd með skjótum hætti.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Efni frumvarpsins gefur ekki tilefni til sérstaks mats á samræmi þess við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar Íslands.

5. Samráð.
    Í frumvarpinu er að finna tillögu að breytingu á lögum um listamannalaun í tengslum við efnahagsaðgerðir ríkisstjórnarinnar í þágu atvinnulífsins með áherslu á menningargeirann. Í ljósi tilurðar frumvarpsins og efnis þess, sem er að bregðast með skjótum hætti við neikvæðum áhrifum kórónuveirufaraldursins og samkomutakmarkana á starfsemi menningargeirans, vannst ekki tími til hefðbundins innra og ytra samráðs fyrir framlagningu frumvarpsins á Alþingi. Við útfærslu efnahagsaðgerða í þágu menningargeirans var haft óformlegt samráð við einstaklinga og félagasamtök í menningargeiranum.

6. Mat á áhrifum.
    Gert er ráð fyrir að veita 100 millj. kr. tímabundið á árinu 2022 í launasjóð listamanna á málefnasviði 18 í ljósi áhrifa heimsfaraldurs kórónuveiru á sjálfstætt starfandi listamenn. Framlagið skiptist þannig að hækkun í launasjóð tónlistarflytjenda nemur 75 millj. kr. og hækkun í launasjóð sviðslistafólks nemur 25 millj. kr. Gert verður ráð fyrir þessum fjárhagsáhrifum á útgjaldaramma málaflokks 18.30 í fjáraukalögum 2022.
    Hvað varðar áhrif á jafnrétti kynjanna er listamannalaunum úthlutað af faglegum úthlutunarnefndum. Tölur og upplýsingar um fjölda karla og kvenna sem fá úthlutun liggja fyrir á vef Rannís. Viðbótarfjármagni samkvæmt frumvarpinu verður úthlutað eins og öðrum listamannalaunum með jafnréttissjónarmið að leiðarljósi. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að skilyrða að 50 mánaðarlaun séu ætluð ungu sviðslistafólki undir 35 ára aldri og 50 mánaðarlaun séu ætluð ungum tónlistarflytjendum undir 35 ára aldri. Megintilgangur framangreinds skilyrðis er að efla unga listamenn sem oft eru að stíga sín fyrstu skref eftir nám eða að hefja feril sinn. Með þessu er gagnrýni um að lítil nýliðun sé innan listamannalaunakerfisins mætt.
    Varðandi áhrif á lýðheilsu, stöðu tiltekinna þjóðfélagshópa og samfélagslegan ávinning má gera ráð fyrir að fjölgun mánaðarlauna til listamanna muni bæta afkomu þeirra sem fá úthlutun og samfélagið njóti afrakstursins.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Ákvæðinu er ætlað að breyta samanlögðum starfslaunum árið 2022 og miða þau við 1.800 mánaðarlaun.
    Lagt er til að starfslaun og styrkir til sviðslistafólks verði 240 mánaðarlaun í stað 190 og starfslaun og styrkir tónlistarflytjenda verði 330 mánaðarlaun í stað 180.
    Starfslaun listamanna eru veitt úr sex sjóðum, þar á meðal launasjóði tónlistarflytjenda og launasjóði sviðslistafólks. Samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2022 er gert ráð fyrir að 180 mánaðarlaun falli til tónlistarflytjenda og 190 mánaðarlaun til sviðslistafólks. Með hækkun framlaga í sjóðina um annars vegar 75 millj. kr. og hins vegar 25 millj. kr. er hægt að fjölga mánaðarlaunum þannig að þau verði í nokkurri líkingu við það sem var árið 2021. Þannig er lagt til að 150 mánaðarlaun til viðbótar fari til tónlistarflytjenda og 50 mánaðarlaun til viðbótar til sviðslistafólks árið 2022. Þar af verði úthlutun 50 mánaðarlauna í hvorum sjóðnum fyrir sig bundin því skilyrði að ungt listafólk undir 35 ára aldri njóti góðs af þeim.
    Tillagan byggist á því að hlutfallsskipting starfslauna árið 2022 taki mið af þeim listgreinum sem harðast hafa orðið úti í heimsfaraldri kórónuveiru á síðustu mánuðum. Þannig verði hækkun á starfslaunum og styrkjum til sviðslistafólks og tónlistarflytjenda á þessu ári.

Um 2. gr.

    Ákvæðið þarfnast ekki skýringa.