Ferill 419. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 598  —  419. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um eignarhald í laxeldi.


Flm.: Halla Signý Kristjánsdóttir, Þórarinn Ingi Pétursson, Ágúst Bjarni Garðarsson, Líneik Anna Sævarsdóttir, Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, Ingibjörg Isaksen, Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir.


    Alþingi ályktar að fela matvælaráðherra að skipa starfshóp sem hafi það að markmiði að:
     a.      koma fram með tillögur um hvernig takmarka megi samþjöppun eignarhalds á laxeldisleyfum,
     b.      skoða hvort takmarka eigi eignarhald erlendra aðila á laxeldisleyfum.
    Ráðherra leggi niðurstöður starfshópsins fyrir Alþingi eigi síðar en 30. september 2022.

Greinargerð.

    Fiskeldi á Íslandi er ung atvinnugrein í örum vexti en mikill uppgangur hefur verið í fiskeldi á heimsvísu undanfarna áratugi. Gríðarleg framþróun hefur einnig orðið í laxeldi í nágrannalöndum okkar í Norður-Atlantshafi; laxeldi er til að mynda umfangsmeira í hagkerfi Noregs en hefðbundinn sjávarútvegur. Mikilvægt er að við horfum til þróunar í nágrannalöndum og nýtum okkur þá reynslu sem þar hefur orðið til svo að hægt verði að byggja upp heilbrigða starfsemi hér á landi.
    Eignarhald laxeldisfyrirtækja á Íslandi hefur þróast þannig að mikil samþjöppun hefur orðið, sem getur leitt til þess að fáein fyrirtæki verði allsráðandi. Í þessum rekstri sem öðrum er stærðarhagkvæmni mikilsverð en við ákveðna stærð verða til óæskileg áhrif, m.a. á atvinnuöryggi þeirra sem starfa í greininni. Lög um fiskeldi, nr. 71/2008, setja ekki skorður við framsali á rekstrarleyfum í laxeldi, en framsal, leiga og veðsetning á rekstrarleyfum er þó háð samþykki Matvælastofnunar. Hugsanlegt er að einn aðili eignist öll gild rekstrarleyfi og stýri þannig allri framleiðslu á eldisfiski og seiðaeldi í sjó og á landi. Við það skapast sú hætta að einn aðili stjórni stórum landsvæðum með þeim afleiðingum að samfélög, sveitarstjórnir og stjórnvöld eigi meira undir honum en góðu hófi gegnir. Þá ná samkeppnislög, nr. 44/2005, illa utan um samþjöppun í laxeldi á Íslandi þar sem laxeldisfyrirtæki selja meginþorra framleiðslu sinnar úr landi. Flutningsmenn benda á að í fiskeldislögum í Færeyjum er að finna ákvæði sem banna það að lögaðili eignist meira en helming útgefinna laxeldisleyfa. Þar er einnig að finna ákvæði um að enginn lögaðili, sem er ekki búsettur í Færeyjum, geti átt meira en 20% af atkvæðisbærum hlutum í fyrirtækjum sem hafa laxeldisleyfi. Rætt er um það í Noregi að leiða sambærileg ákvæði í lög.
    Laxeldisfyrirtæki á Íslandi eru í meirihlutaeigu útlendinga og útlit fyrir verulega samþjöppun á því eignarhaldi. Í íslenskum lögum er ekki að finna takmarkanir á eignarhaldi erlendra aðila í fiskeldi. Flutningsmenn telja brýnt að athugað verði hvort takmarka beri slíkt eignarhald erlendra aðila. Líta má til þess að í lögum um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri, nr. 34/1991, er ákvæði um að fiskveiðar í íslenskri efnahagslögsögu séu eingöngu heimilar fyrirtækjum sem eru ekki í eigu erlendra aðila að meira leyti en 25% sé miðað við hlutafé eða stofnfé. Flutningsmenn telja mikilvægt að kannað verði hvort setja þurfi sambærilegar reglur að því er snertir laxeldi.
    Flutningsmönnum þykir áríðandi að tryggt verði með lagasetningu að laxeldi á Íslandi verði ekki í eigu örfárra aðila, að fjölbreytni ríki í greininni og að eignarhald verði staðbundið. Miklu varðar að samhliða uppbyggingu laxeldis á Íslandi verði gengið úr skugga um að atvinnulíf og mannlíf á viðkomandi svæðum blómstri. Vissulega er ekki unnt að tryggja með dreifðu eignarhaldi að slátrun eða vinnsla eldisfisks verði á tilteknum stað. Með betri tengingu við byggðina sem í hlut á aukast þó líkur á að ákvarðanir séu teknar með tilliti til hennar. Við framþróun laxeldisfyrirtækja á Íslandi þarf að horfa til byggðasjónarmiða og sjá til þess að eldið skili tekjum til þess samfélags þar sem fyrirtækin eru staðsett. Flutningsmenn eru hlynntir laxeldi á Íslandi en telja þýðingarmikið að greinin verði ekki í eigu örfárra aðila. Laxeldi á Íslandi verður að vaxa og dafna í sátt við umhverfi og samfélag.