Ferill 442. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 635  —  442. mál.




Skýrsla


Íslandsdeildar Norðurlandaráðs um norrænt samstarf árið 2021.

1. Inngangur.
    COVID-19 faraldurinn mótaði mjög formennskuár Íslendinga í Norðurlandaráði árið 2020 og svo var einnig um formennskuár Dana árið 2021. Faraldurinn hafði bein áhrif á starfsemina með þeim hætti að flestir fundir Norðurlandaráðs voru færðir í stafrænt form en jafnframt varð COVID-19 og ýmis tengd málefni meginviðfangsefni þingmannanna á þessum fundum og í samskiptum við Norrænu ráðherranefndina og aðra samstarfsaðila.
    Flestir þingmanna í Norðurlandaráði gagnrýndu skort á samráði og samvinnu milli norrænu landanna í aðgerðum þeirra til að stemma stigu við útbreiðslu faraldursins. Lokun landamæra og aðrar ráðstafanir höfðu mikil áhrif á einstaklinga sem sækja vinnu og nám milli landanna og á starfsemi fyrirtækja sem háð eru því frelsi í ferðum og flutningum milli landanna sem lengi hefur verið við lýði á Norðurlöndum og mun lengur en í öðrum hlutum Evrópu. Þingmenn óttuðust að aðgerðirnar gætu dregið úr innbyrðis trausti milli íbúa landanna og stuðningi við norrænt samstarf. Ýmsir bentu á að landamæri ríkjanna hefðu um áratuga skeið verið opin en nú hefðu á fáum árum komið upp tvö tilvik þar sem þeim hefði fyrirvaralítið verið lokað, fyrst í tengslum við flóttamannavandann 2015 og nú aftur vegna COVID-19 faraldursins. Túlkuðu margir það sem merki um undirliggjandi veikleika í norrænu samstarfi.
    Ástandið varð þingmönnum einnig tilefni til að hvetja ríkisstjórnir Norðurlanda til að efla almennt samstarf um samfélagsöryggi í breiðum skilningi þannig að löndin geti framvegis verið samtaka í því að takast á við ógnir af ýmsu tagi. Vísað var í stefnu um samfélagsöryggi sem Norðurlandaráð samþykkti árið 2019 fyrir upphaf faraldursins og sendi ríkisstjórnum landanna. Í henni eru ýmsar tillögur um hvernig efla megi skipulag, stjórnun og laga- og reglugerðaumhverfi samvinnu landanna á sviði samfélagsöryggis og almannavarna. Árið 2019 fólu utanríkisráðherrar Norðurlanda Birni Bjarnasyni, fyrrverandi ráðherra, að semja skýrslu og tillögur um aukið norrænt samstarf á sviði utanríkis- og öryggismála. Skýrslan kom út sumarið 2020. Rúmu ári síðar voru birtar niðurstöður stefnumótandi úttektar sem samstarfsráðherrar Norðurlanda fólu Finnanum Jan-Erik Enestam, fyrrverandi ráðherra og framkvæmdastjóra Norðurlandaráðs, að gera í því skyni að draga lærdóma af kórónuveirufaraldrinum sem nýta mætti í norrænu samstarfi á erfiðleikatímum framvegis. Báðar þessar skýrslur urðu þingmönnum Norðurlandaráðs tilefni til að flytja tillögur og hvetja ríkisstjórnir landanna til dáða í samstarfi um samfélagsöryggi en einnig í því að efla samstarf Norðurlanda almennt þannig að það reynist betur á álagstímum en raunin hefur orðið á síðustu árum. Norðurlandaráð vildi í flestum efnum ganga töluvert lengra en ráðherrarnir í breytingum og eflingu samvinnunnar og urðu á köflum hörð skoðanaskipti á fundum af þessum sökum.
    Annað helsta úrlausnarefnið í samskiptum Norðurlandaráðs og Norrænu ráðherranefndarinnar á árinu var fjárhagsáætlun norræns samstarfs fyrir árið 2022 og fyrirhugaður niðurskurður á framlögum til samstarfs í mennta- og menningarmálum. Þær fyrirætlanir tengdust framtíðarsýn fyrir norrænt samstarf til ársins 2030 sem Norræna ráðherranefndin setti sér árið 2019. Í framtíðarsýninni eru þrjár stefnumarkandi áherslur um græn, samkeppnishæf og félagslega sjálfbær Norðurlönd. Útfærslan á þessari framtíðarsýn mótaði mjög drög Norrænu ráðherranefndarinnar að fjárhagsáætlunum fyrir árin 2021 og 2022 sem lagðar voru fyrir Norðurlandaráð og leiddi til þess að tilfærslur milli málefnasviða voru meiri en oftast áður. Fjármagn var veitt til verkefna sem miðuðu beint að því að gera framtíðarsýnina að veruleika og skorið var niður á öðrum sviðum. Menningar- og menntamál hafa löngum verið fyrirferðarmikil í fjárhagsáætlunum norræns samstarfs og framlög til þeirra áttu að dragast verulega saman samkvæmt tillögum Norrænu ráðherranefndarinnar.
    Þingmenn í Norðurlandaráði gagnrýndu þennan niðurskurð og töldu hann of harkalegan. Sú gagnrýni harðnaði enn eftir að áhrifa COVID-19-faraldursins tók að gæta í menningargeiranum á Norðurlöndum. Töldu margir þingmenn að taka þyrfti tillit til þessara sérstöku aðstæðna og endurskoða fjárhagsáætlunina til samræmis og jafnframt vöruðu þeir við því að með niðurskurðinum væri verið að veikja sjálfan grundvöll norræns samstarfs. Flestir flokkahópar í Norðurlandaráði lýstu því yfir að þeir myndu greiða atkvæði gegn fjárhagsáætluninni á Norðurlandaráðsþingi ef ekki fengjust verulegar úrbætur. Sú niðurstaða sem náðist að lokum var farsælli en menn höfðu þorað að vona í upphafi árs því að samkomulag varð milli Norðurlandaráðs og Norrænu ráðherranefndarinnar um að hætta við allan niðurskurð í mennta- og menningarmálum á árinu 2022. Þar hjálpaði til að töluverður afgangur var frá fyrri árum vegna verkefna á ýmsum sviðum sem höfðu tafist vegna áhrifa COVID-19-faraldursins.

2. Almennt um Norðurlandaráð.
    Rætur norræns þingmannasamstarfs má rekja aftur til ársins 1907 þegar Norræna þingmannasambandið var stofnað. Alþingi tók þátt í störfum þess frá árinu 1926. Með stofnun Norðurlandaráðs árið 1952 varð samstarfið formfastara. Stofnríki ráðsins voru Danmörk, Ísland, Noregur og Svíþjóð en Finnland bættist í hópinn árið 1955.
    Norðurlandaráð er samstarfsvettvangur þjóðþinga á Norðurlöndum. Álandseyjar, Færeyjar og Grænland taka þátt í samstarfinu. Það kemur að jafnaði saman til þingfundar tvisvar á ári og ræðir og ályktar um norræn málefni, á stuttum þingfundi að vori á einum degi og á hefðbundnu þriggja daga þingi að hausti. Auk þess kemur Norðurlandaráð saman til nefndafunda þrisvar á ári. Á vegum Norðurlandaráðs er unnið að margvíslegum norrænum verkefnum sem þingmenn, nefndir, flokkahópar eða landsdeildir ráðsins hafa átt frumkvæði að. Norðurlandaráð hefur tillögu- og umsagnarrétt um fjármagn sem er veitt til norrænnar samvinnu árlega. Norræna ráðherranefndin tekur verulegt tillit til þeirra ábendinga.
    Fulltrúar í Norðurlandaráði eru þingmenn sem eru valdir af norrænu þjóðþingunum í samræmi við tillögur þingflokka. Í ráðinu eiga sæti 87 fulltrúar. Þing Noregs og Svíþjóðar eiga tuttugu fulltrúa, Finnlands átján fulltrúa, Danmerkur sextán fulltrúa, Íslands sjö fulltrúa, Færeyja tvo fulltrúa, Grænlands tvo fulltrúa og Álandseyja tvo fulltrúa. Skipan í sendinefndir þinganna, einnig nefndar landsdeildir, skal endurspegla styrk stjórnmálaflokka á þjóðþingunum. Danmörk, Finnland, Ísland, Noregur og Svíþjóð skiptast á um að fara með formennsku í ráðinu. Forseti og varaforseti hvers árs eru frá formennskulandinu.
    Þingfundir eru að jafnaði haldnir tvisvar á ári. Á þingfundunum er fjallað um fram komnar tillögur og beinir þingið tilmælum til ríkisstjórna landanna eða Norrænu ráðherranefndarinnar. Vorþing er að jafnaði haldið í mars eða apríl og haustþing um mánaðamótin október/nóvember. Vorfundurinn er einnig nefndur þemaþing og er þar lögð áhersla á ákveðið málefni. Haustþingið er haldið í formennskulandi ársins. Þar gefa forsætisráðherrar, utanríkisráðherrar og varnarmálaráðherrar Norðurlanda Norðurlandaráðsþingi skýrslu og sam-starfsráðherrar eða fagráðherrar svara fyrirspurnum í sérstökum fyrirspurnatíma. Fjárhagsáætlun norræns samstarfs fyrir komandi ár er að jafnaði samþykkt á haustþinginu en Norðurlandaráð og Norræna ráðherranefndin móta fjárhagsáætlunina í sameiningu í viðræðum sem hefjast allt að ári fyrr. Á þinginu er jafnframt forseti og varaforseti komandi árs kjörinn og skipað í nefndir og aðrar trúnaðarstöður.
    Í Norðurlandaráði starfa fimm flokkahópar: jafnaðarmenn, miðjumenn, hægrimenn, norrænt frelsi og norræn vinstri græn. Flokkahóparnir móta sameiginlega afstöðu til einstakra mála og velja þingmenn í nefndir. Flestar tillögur sem lagðar eru fram í Norðurlandaráði koma frá flokkahópunum.
    Málefnastarf Norðurlandaráðs fór árið 2021 að mestu fram í fjórum fagnefndum auk forsætisnefndar. Á milli þinga stýrir forsætisnefnd starfi ráðsins, vísar tillögum til nefnda eða afgreiðir þær. Forsætisnefnd fer jafnframt með utanríkis- og öryggismál svo og samskipti Norðurlandaráðs við aðrar alþjóðastofnanir. Þá fer eftirlitsnefnd yfir ársreikninga ráðsins og stofnana sem starfa innan Norðurlandasamstarfsins. Loks kemur kjörnefnd saman til að gera tillögu að skipan í nefndir og trúnaðarstöður á vegum Norðurlandaráðs.

Forsætisnefnd.
    Forsætisnefnd Norðurlandaráðs er æðsta ákvörðunarvald milli þingfunda ráðsins og getur tekið ákvarðanir fyrir hönd þess. Hún stýrir og samræmir starf nefnda Norðurlandaráðs, ber ábyrgð á heildrænum pólitískum og stjórnsýslulegum áherslum, utanríkis- og varnarmálum, og gerir framkvæmda- og fjárhagsáætlanir ráðsins. Forsætisnefnd er skipuð forseta, varaforseta og allt að fimmtán fulltrúum sem kosnir eru á þingi Norðurlandaráðs. Öll ríki á Norðurlöndum og allir flokkahópar eiga fulltrúa í forsætisnefnd.
    Forsætisnefndin getur skipað undirnefndir eða vinnuhópa, áheyrnarfulltrúa og eftirlitsaðila um sérstök málefni í afmarkaðan tíma, svo sem fjárlagahóp sem ræðir við Norrænu ráðherranefndina um fjárhagsáætlun hennar. Forsætisnefndin sér einnig um samskipti við þjóðþing utan Norðurlanda og aðrar svæðisbundnar og alþjóðlegar stofnanir. Norðurlandaráð á meðal annars í nánu samstarfi við Eystrasaltsþingið, samstarfssamtök þinga Eistlands, Lettlands og Litháens.

Þekkingar- og menningarnefnd.
    Þekkingar- og menningarnefnd Norðurlandaráðs fer með málefni sem snerta menningu, rannsóknir og menntun, grunn- og framhaldsskóla, fullorðinsfræðslu og alþýðufræðslu, þar á meðal mál sem snerta tungumálasamstarf, nýmiðla, færniþróun og nýsköpun á sviði menntamála. Nefndin vinnur einnig að málum sem snerta borgaralegt samfélag og afl og störf sjálfboðaliða. Íþróttir, tungumál, kvikmyndir og fjölmiðlar, almenn og fjölbreytileg list, og menning barna og ungmenna er jafnframt á starfssviði norrænu þekkingar- og menningarnefndarinnar.

Hagvaxtar- og þróunarnefnd.
    Norræna hagvaxtar- og þróunarnefndin vinnur að málefnum og viðfangsefnum sem snerta vinnumarkað og vinnuumhverfi, atvinnulíf, viðskipti, iðnað, orku, baráttu gegn stjórnsýsluhindrunum, samgöngumál og öryggi í samgöngumálum. Nefndin fjallar einnig um mál sem tengjast fjármála- og atvinnustefnu — þar á meðal rammaskilyrði rannsókna, framleiðslu og viðskipta og í framhaldi af því frjálsa för á mörkuðum og vinnumörkuðum á Norðurlöndum. Byggða- og uppbyggingarstefna, fjarskipti og upplýsingatækni eru einnig á starfssviði norrænu hagvaxtar- og þróunarnefndarinnar.

Sjálfbærninefnd.
    Norræna sjálfbærninefndin vinnur að viðfangsefnum og málum sem snerta umhverfis- og náttúruvernd og náttúruauðlindir — þar á meðal nýtingu náttúruauðlinda í landbúnaði, sjávarútvegi og skógrækt. Loftslagsmál eru jafnframt mikilvægur hluti af starfi nefndarinnar — þar á meðal afleiðingar loftslagsbreytinga sem einkum má merkja á nyrstu svæðum Norðurlanda. Meðal annarra viðfangsefna nefndarinnar má nefna réttindi neytenda, fiskveiðistjórn, stefnumótun í landbúnaði, matvæli, kjarnorkuöryggi, líffræðilegan fjölbreytileika og sjálfbærni.

Velferðarnefnd.
    Norræna velferðarnefndin leggur áherslu á norræna velferðarlíkanið. Nefndin fæst meðal annars við mál sem snerta umönnun barna, ungmenna og aldraðra, fötlun, áfengi, fíkniefni og misnotkun. Einnig er unnið með viðfangsefni sem tengjast jafnrétti, borgaralegum réttindum, lýðræði, mannréttindum og baráttu gegn afbrotum. Samþætting innflytjenda, fólksflutningar og flóttamenn heyra jafnframt undir nefndina og sama er að segja um húsnæðismál og málefni frumbyggja Norðurlanda.

Eftirlitsnefnd.
    Eftirlitsnefnd Norðurlandaráðs fylgist fyrir hönd þingsins með starfsemi sem fjármögnuð er úr sameiginlegum sjóðum Norðurlandanna. Nefndin hefur einnig umsjón með málefnum sem snerta túlkun samninga um norræna samvinnu, vinnutilhögun Norðurlandaráðs og önnur innri málefni.

Kjörnefnd.
    Kjörnefnd Norðurlandaráðs undirbýr og gerir tillögur að kjöri sem fram fer á þingfundum og aukakosningum í forsætisnefnd.

3. Íslandsdeild Norðurlandaráðs.
Skipan Íslandsdeildar Norðurlandaráðs.
    Aðalmenn í Íslandsdeild Norðurlandaráðs í upphafi árs 2021 voru: Silja Dögg Gunnarsdóttir formaður, þingflokki Framsóknarflokksins, Oddný G. Harðardóttir varaformaður, þingflokki Samfylkingarinnar, Kolbeinn Óttarsson Proppé og Steinunn Þóra Árnadóttir, þingflokki Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, Vilhjálmur Árnason, þingflokki Sjálfstæðisflokksins, Inga Sæland, þingflokki Flokks fólksins, og Anna Kolbrún Árnadóttir, þingflokki Miðflokksins. Varamenn voru Ólafur Þór Gunnarsson og Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingflokki Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, Brynjar Níelsson, þingflokki Sjálfstæðisflokksins, Guðmundur Ingi Kristinsson, þingflokki Flokks fólksins, Logi Einarsson, þingflokki Samfylkingarinnar, Willum Þór Þórsson, þingflokki Framsóknarflokksins, og Þorsteinn Sæmundsson, þingflokki Miðflokksins.
    Ný Íslandsdeild Norðurlandaráðs var kosin 1. desember. Í henni sitja Bryndís Haraldsdóttir, þingflokki Sjálfstæðisflokks, sem er formaður, Oddný G. Harðardóttir úr þingflokki Samfylkingarinnar, sem er varaformaður, Ásmundur Friðriksson úr þingflokki Sjálfstæðisflokks, Guðmundur Ingi Kristinsson úr þingflokki Flokks fólksins, Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir úr þingflokki Framsóknarflokksins, Hanna Katrín Friðriksson úr þingflokki Viðreisnar og Orri Páll Jóhannsson úr þingflokki Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs.
    Helgi Þorsteinsson gegndi stöðu ritara Íslandsdeildar Norðurlandaráðs árið 2021.

Nefndaskipan Íslandsdeildar Norðurlandaráðs.
    Í upphafi árs sátu Silja Dögg Gunnarsdóttir, Oddný G. Harðardóttir og Steinunn Þóra Árnadóttir í forsætisnefnd Norðurlandaráðs, Vilhjálmur Árnason og Kolbeinn Óttarsson Proppé í sjálfbærninefnd, Anna Kolbrún Árnadóttir í þekkingar- og menningarnefnd og Inga Sæland í velferðarnefnd. Inga sat einnig í eftirlitsnefnd Norðurlandaráðs en Kolbeinn tók við því hlutverki snemma árs. Steinunn Þóra færðist úr forsætisnefnd í velferðarnefnd í september en fór aftur í forsætisnefnd fyrir Norðurlandaráðsþing í nóvember.
    Eftir að ný landsdeild tók við í desember skipuðust þingmenn í nefndir sem hér segir: Oddný G. Harðardóttir og Hanna Katrín Friðriksson tóku sæti í forsætisnefnd, Bryndís Haraldsdóttir og Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir í sjálfbærninefnd, Guðmundur Ingi Kristinsson og Ásmundur Friðriksson í velferðarnefnd og Orri Páll Jóhannsson í hagvaxtar- og þróunarnefnd. Bryndís Haraldsdóttir tók sæti sem aðalmaður í eftirlitsnefnd og Guðmundur Ingi Kristinsson sem varamaður.
    Vilhjálmur Árnason var fulltrúi Íslandsdeildar Norðurlandaráðs í eftirlitsnefnd Norræna fjárfestingarbankans (NIB), Norræna umhverfisfjármögnunarfélagsins (NEFCO) og Norræna þróunarsjóðsins (NDF). Steinunn Þóra Árnadóttir sat fyrir hönd landsdeildarinnar í stjórn Norræna menningarsjóðsins. Anna Kolbrún Árnadóttir var varamaður hennar. Kolbeinn Óttarsson Proppé var fulltrúi landsdeildarinnar gagnvart Þingmannaráðstefnu Eystrasaltssvæðisins (BSPC).

Starfsemi Íslandsdeildar Norðurlandaráðs.
    Íslandsdeild Norðurlandaráðs fundaði fimm sinnum á árinu. Fundað var í janúar, mars, apríl, október og desember. Fyrstu þrír fundir ársins fóru fram með fjarfundafyrirkomulagi en síðustu tveir voru staðfundir. Sigurður Ingi Jóhannsson, samstarfsráðherra Norðurlanda, fundaði tvisvar með Íslandsdeild Norðurlandaráðs á árinu.

4. Fundir Norðurlandaráðs 2021.
    Fundir sem þingmenn Íslandsdeildar sóttu sem fulltrúar Norðurlandaráðs eða Íslandsdeildar Norðurlandaráðs:
Janúar
          25. janúar: Sameiginlegur fjarfundur þingmanna Norðurlandaráðs: Samfélagsöryggi og norrænt friðarsamstarf í breyttum heimi — leiðin fram á við.
          26. janúar: Fjarfundur forsætisnefndar Norðurlandaráðs (Silja Dögg Gunnarsdóttir, Oddný G. Harðardóttir, Steinunn Þóra Árnadóttir).
          26. janúar: Fjarfundur þekkingar- og menningarnefndar Norðurlandaráðs (Anna Kolbrún Árnadóttir).
          26. janúar: Fjarfundur sjálfbærninefndar Norðurlandaráðs (Vilhjálmur Árnason, Kolbeinn Óttarsson Proppé).
          26. janúar: Fjarfundur velferðarnefndar Norðurlandaráðs (Inga Sæland).
          26. janúar: Fjarfundur eftirlitsnefndar Norðurlandaráðs (Kolbeinn Óttarsson Proppé).
Febrúar
          1. febrúar: Fundur stjórnsýsluhindranahóps Norðurlandaráðs (Steinunn Þóra Árnadóttir, Anna Kolbrún Árnadóttir, Vilhjálmur Árnason, Kolbeinn Óttarsson Proppé).
          8. febrúar: Námsstefna Norðurlandaráðs (með fjarfundafyrirkomulagi) um skýrslu Björns Bjarnasonar um norræn utanríkis- og öryggismál (Silja Dögg Gunnarsdóttir, Oddný G. Harðardóttir, Steinunn Þóra Árnadóttir).
          26. febrúar: Fjarfundur fulltrúa forsætisnefndar Norðurlandaráðs, Eystrasaltsþingsins og Benelúxþingsins (Oddný G. Harðardóttir).
Mars
          2. mars: Vefmálstofa Norðurlandaráðs um græn orkuskipti og raforkumarkaði (Oddný G. Harðardóttir).
          3. mars: Vefmálstofa Norðurlandaráðs um sýklalyfjaónæmi (Silja Dögg Gunnarsdóttir).
          3. mars: Vefmálstofa Norðurlandaráðs um stafræna þróun (Oddný G. Harðardóttir).
          8. mars: Aukafjarfundur forsætisnefndar Norðurlandaráðs (Silja Dögg Gunnarsdóttir, Oddný G. Harðardóttir, Steinunn Þóra Árnadóttir).
          9. mars: Fjarfundur fulltrúa forsætisnefndar Norðurlandaráðs með skoskum þingmönnum (Silja Dögg Gunnarsdóttir, Oddný G. Harðardóttir).
          15. mars: Fjarfundur vinnuhóps Þingmannaráðstefnu Eystrasaltssvæðisins um loftslagsmál og líffræðilega fjölbreytni (Kolbeinn Óttarsson Proppé).
          19. mars: Þing þingmannasamtaka Benelúxlandanna (Oddný G. Harðardóttir).
Apríl
          13. apríl: Fjarfundur eftirlitsnefndar Norðurlandaráðs (Kolbeinn Óttarsson Proppé).
          13. apríl: Fjarfundur þekkingar- og menningarnefndar Norðurlandaráðs (Anna Kolbrún Árnadóttir).
          13. apríl: Fjarfundur forsætisnefndar Norðurlandaráðs (Silja Dögg Gunnarsdóttir, Oddný G. Harðardóttir, Steinunn Þóra Árnadóttir).
          13. apríl: Fjarfundur sjálfbærninefndar Norðurlandaráðs (Kolbeinn Óttarsson Proppé, Vilhjálmur Árnason).
          13. apríl: Fjarfundur velferðarnefndar Norðurlandaráðs (Inga Sæland).
          14. apríl: Fjarfundur stjórnsýsluhindranahóps Norðurlandaráðs (Steinunn Þóra Árnadóttir, Anna Kolbrún Árnadóttir, Vilhjálmur Árnason, Kolbeinn Óttarsson Proppé).
          26. apríl: Fundur forsætisnefndar Norðurlandaráðs með fulltrúum Evrópunefnda norrænu þinganna (Oddný G. Harðardóttir, Silja Dögg Gunnarsdóttir).
Maí
          20. maí: Fjarfundur stjórnsýsluhindranahóps Norðurlandaráðs með stjórnsýsluhindranaráði Norrænu ráðherranefndarinnar (Steinunn Þóra Árnadóttir).
Júní
          28. og 29. júní: Fjarfundur forsætisnefndar Norðurlandaráðs (Silja Dögg Gunnarsdóttir, Oddný G. Harðardóttir, Steinunn Þóra Árnadóttir).
          28. og 29. júní: Fjarfundur sjálfbærninefndar Norðurlandaráðs (Vilhjálmur Árnason, Kolbeinn Óttarsson Proppé).
          28. og 29. júní: Fjarfundur velferðarnefndar Norðurlandaráðs (Inga Sæland).
          28. og 29. júní: Fjarfundur þekkingar- og menningarnefndar Norðurlandaráðs (Anna Kolbrún Árnadóttir).
          29. og 30. júní: Þemaþing Norðurlandaráðs með fjarfundafyrirkomulagi.
          30. júní: Sameiginlegur fjarfundur þingmanna Norðurlandaráðs: Vinnumál framtíðar — í kjölfar faraldursins.
Júlí
          1. júlí: Aukafjarfundur forsætisnefndar Norðurlandaráðs (Silja Dögg Gunnarsdóttir, Oddný G. Harðardóttir, Steinunn Þóra Árnadóttir).
          1. júlí: Fjarfundur eftirlitsnefndar Norðurlandaráðs (Kolbeinn Óttarsson Proppé).
          1. júlí: Fjarfundur velferðarnefndar og hagvaxtar- og þróunarnefndar Norðurlandaráðs með NordForsk (Inga Sæland).
Ágúst
          16. ágúst: Stjórnarfundur vinnuhóps Þingmannaráðstefnu Eystrasaltssvæðisins um loftslagsmál og líffræðilega fjölbreytni.
          26. ágúst: Fjarfundur undirbúningsnefndar vegna Þingmannaráðstefnu Eystrasaltssvæðisins (Kolbeinn Óttarsson Proppé).
          30. ágúst: Ársfundur Þingmannaráðstefnu Eystrasaltssvæðisins með fjarfundafyrirkomulagi (Kolbeinn Óttarsson Proppé).
September
          6. september: Sameiginlegur fjarfundur þingmanna Norðurlandaráðs: Andleg vanlíðan ungs fólks á Norðurlöndum — afleiðingar farsóttarinnar.
          7. september: Fjarfundur sjálfbærninefndar Norðurlandaráðs (Vilhjálmur Árnason, Kolbeinn Óttarsson Proppé).
          7. september: Fjarfundur forsætisnefndar Norðurlandaráðs (Silja Dögg Gunnarsdóttir, Oddný G. Harðardóttir, Steinunn Þóra Árnadóttir).
          7. september: Fjarfundur velferðarnefndar Norðurlandaráðs (Inga Sæland).
          7. september: Fjarfundur eftirlitsnefndar Norðurlandaráðs (Kolbeinn Óttarsson Proppé).
          7. september: Fjarfundur þekkingar- og menningarnefndar Norðurlandaráðs (Anna Kolbrún Árnadóttir).
          9. september: Fjarfundur stjórnsýsluhindranahóps Norðurlandaráðs (Steinunn Þóra Árnadóttir, Anna Kolbrún Árnadóttir, Vilhjálmur Árnason, Kolbeinn Óttarsson Proppé).
Nóvember
          1.-4. nóvember: Norðurlandaráðsþing í Kaupmannahöfn (Guðmundur Ingi Kristinsson, Oddný G. Harðardóttir, Steinunn Þóra Árnadóttir).
Desember
          14. desember: Fjarfundur forsætisnefndar Norðurlandaráðs (Oddný G. Harðardóttir, Hanna Katrín Friðriksson).


5. Starfsemi Norðurlandaráðs.
Áhrif COVID-19-faraldursins á starf Norðurlandaráðs.
    COVID-19-faraldurinn hafði margvísleg áhrif á störf Norðurlandaráðs 2021 eins og árið á undan. Fundir ráðsins voru haldnir með fjarfundafyrirkomulagi að undanskildu Norðurlandaráðsþingi sem fram fór í Kaupmannahöfn. Forsætisnefnd Norðurlandaráðs hefur heimild til að taka sér hlutverk þingfundar til að afgreiða mál ef þörf krefur en við venjulegar kringumstæður er það tiltölulega sjaldan gert og aðeins þegar verið er að afgreiða mál sem eru óumdeild. Vegna þess að ekki voru haldnir þingfundir var oftar gripið til þessa ráðs 2021 en í venjulegu ári. Forsætisnefnd fundaði jafnframt tíðar en venjulega. Var það gert bæði til að sinna fyrrnefndum verkefnum og einnig vegna þess að fjarfundirnir voru að jafnaði styttri og afgreiðsla mála gekk hægar en á hefðbundnum fundum.
    Vorþing Norðurlandaráðs hefði við venjulegar kringumstæður verið haldið í Osló í mars eða apríl. Vegna stöðu COVID-19-faraldursins í upphafi árs var ákveðið að fresta þinginu þangað til í júní og slá því saman við sumarfundi nefnda Norðurlandaráðs sem að jafnaði eru haldnir í lok júní. Þegar leið að þinginu varð ljóst að ekki yrði hægt að halda það með hefðbundnum hætti og var þess vegna ákveðið að færa alla dagskrá í fjarfundafyrirkomulag. Þingfundur var í fyrsta sinn haldinn sem fjarfundur og gekk það vel.
    Samkvæmt fundaáætlun átti forsætisnefnd Norðurlandaráðs að koma saman á Íslandi í desember. Vegna þróunar COVID-19-faraldursins á Norðurlöndum næstu vikurnar á undan varð að hætta við fundinn með aðeins nokkurra daga fyrirvara. Einnig varð að aflýsa sérstakri dagskrá fyrir danska forsætisnefndarmenn sem landsdeild Íslands í Norðurlandaráði hafði undirbúið í samstarfi við Háskóla Íslands og sem helguð var stöðu dönskunnar á Íslandi.
    Vegna alþingiskosninganna í september var óvissa um þátttöku íslenskra þingmanna í starfi Norðurlandaráðs fyrst eftir kosningar. Forsætisnefnd Alþingis samþykkti þá að á tímabilinu frá kjördegi 25. september 2021 og fram til þess tíma að kjörið yrði til alþjóðanefnda skyldi þingmönnum sem sæti ættu í alþjóðanefndum sem aðalmenn eða varamenn og hlytu endurkjör heimilt að sækja fundi viðkomandi alþjóðasamtaka. Íslenskum þingmönnum var þar með gert kleift að sækja Norðurlandaráðsþing í Kaupmannahöfn sem fram fór dagana 1.-4. nóvember. Oddný G. Harðardóttir, Steinunn Þóra Árnadóttir og Guðmundur Ingi Kristinsson fóru á þingið.

Samfélagsöryggi og varnarmál.
    Málefni tengd samfélagsöryggi hafa lengi verið til umræðu á vettvangi Norðurlandaráðs og ýmsar tillögur um eflingu norræns samstarfs á þessu sviði hafa verið lagðar fram. Á árunum 2018-2019 var mótuð og samþykkt sérstök stefna Norðurlandaráðs um samfélagsöryggi. Þegar COVID-19-faraldurinn hófst hvöttu þingmenn Norðurlandaráðs ríkisstjórnir landanna ítrekað til að fylgja eftir tillögunum í stefnunni og jafnframt til að efla samráð sitt og samstarf um viðbrögð við faraldrinum. Þetta varð eitt meginstefið í starfi Norðurlandaráðs í formennskutíð Íslands 2020 og svo var einnig í formennskutíð Dana 2021. Á Norðurlandaráðsþingi í nóvember var samþykkt tillaga frá flokkahópi miðjumanna um að óska eftir árlegri skýrslu frá ráðherrum sem fara með samfélagsöryggi og almannavarnir á Norðurlöndum. Nánar segir frá umræðu um þessi málefni í köflum um skýrslur Björns Bjarnasonar og Jan-Eriks Enestams.
    Frá varnarmálum í hefðbundnum skilningi segir í köflum um ráðstefnu um varnarmál í október og í frásögn af þátttöku Jens Stoltenbergs, framkvæmdastjóra NATO, á Norðurlandaráðsþingi.

Skýrsla Björns Bjarnasonar um norræn utanríkis- og öryggismál.
    Í október árið 2019 ákváðu utanríkisráðherrar Norðurlanda, að tillögu Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, þáverandi utanríkisráðherra, að fela Birni Bjarnasyni, fyrrverandi ráðherra, að semja skýrslu og tillögur um aukið norrænt samstarf á sviði utanríkis- og öryggismála. Skýrslan kom út sumarið 2020 og hefur síðan ítrekað verið rædd á vettvangi Norðurlandaráðs. Í febrúar 2021 stóð forsætisnefnd Norðurlandaráðs fyrir rafrænu málþingi um skýrsluna með þátttöku Björns. Hann tók einnig þátt í umræðu þingmanna og ráðherra á þemaþinginu í júní um blandaðar og stafrænar ógnir þar sem tillögur um þetta efni úr skýrslunni voru til umfjöllunar. Á Norðurlandaráðsþingi í Kaupmannahöfn var samþykkt tillaga frá flokkahópi hægrimanna um að hvetja Norrænu ráðherranefndina til að hrinda í framkvæmd tillögum Björns á þessu sviði. Jafnframt var hvatt til þess að öll norrænu þjóðþingin gæfu út samstöðuyfirlýsingu þess efnis að litið yrði á netárás á eitt þeirra sem árás á þau öll og jafnframt á lýðræðið á Norðurlöndum.

Enestam-skýrslan.
    Samstarfsráðherrar Norðurlanda ákváðu í apríl 2021 að láta gera stefnumótandi úttekt á norrænu samstarfi á erfiðleikatímum. Tilgangurinn var að draga lærdóma af kórónuveirufaraldrinum. Ráðherrarnir fólu Finnanum Jan-Erik Enestam að vinna úttektina. Enestam er fyrrverandi ráðherra og hefur jafnframt gegnt stöðu framkvæmdastjóra Norðurlandaráðs. Enestam ræddi við ýmsa þingmenn, ráðherra og embættismenn á Norðurlöndum til undirbúnings fyrir skýrslugerðina.
    Enestam lagði í skýrslu sinni meðal annars til að samstarfsráðherrum Norðurlanda yrði falin ábyrgð á norrænu samstarfi um almannavarnir og að þeir fengju til þess skýrt umboð, einnig að stofnuð yrði norræn almannavarnasveit skipuð embættismönnum frá öllum löndunum undir stjórn samstarfsráðherranna. Mælt var með því að gerður yrði sérstakur samningur landanna um störf þessarar sveitar með NORDEFCO-varnarmálasamstarfið sem fyrirmynd.
    Tillögur Enestams voru kynntar á Norðurlandaráðsþingi í Kaupmannahöfn í nóvember og hann kom jafnframt á fjarfund forsætisnefndar í desember. Á síðastnefnda fundinum tók Enestam fram varðandi tillögurnar í skýrslunni að þær sneru ekki bara að viðbrögðum við COVID-19-faraldrinum heldur væri þeim einnig ætlað að efla samstarf um samfélagsöryggi almennt. Oddný G. Harðardóttir rifjaði í því sambandi upp að áður en faraldurinn hófst og áður en Norðurlandaráð hóf að móta stefnu sína um samfélagsöryggi hefði forsætisnefnd fengið á sinn fund sérfræðinga á þessu sviði. Þeir hefðu sagt að í norrænu löndunum væri til mikil þekking og ýmis tæki og tól sem gott væri að samnýta en að það vantaði pólitískan vilja og ferla sem hægt væri að fara fumlaust eftir. Hún sagði að ýmsar af tillögunum í skýrslunni væru til þess fallnar að fá stjórnmálamenn til að taka þessi mál fastari tökum. Oddný og fleiri þingmenn kölluðu á fundinum eftir upplýsingum frá samstarfsráðherrunum um hvernig þeir hefðu hugsað sér að fylgja tillögunum eftir. Enestam sagðist þá enn ekki hafa fengið svör frá ráðherrunum um það.
    Ein af tillögunum í skýrslunni er að ef einhver norrænu landanna vilja ganga lengra í samstarfinu um samfélagsöryggi en önnur verði þeim það heimilt. Þannig verði komið í veg fyrir að efasemdir eða hindranir í einu landi komi í veg fyrir framþróun samstarfsins. Enestam sagði á fundinum að þörf væri á endurskoðun á ákvæðum Helsingforssamningsins um samhljóða samþykki. Skiptar skoðanir voru þó í forsætisnefnd um hvort þetta væri heppileg leið.
    Töluverðar umræður urðu í forsætisnefnd um það hvort aðgerðir stjórnvalda í einstökum löndum í tengslum við COVID-19-faraldurinn hafi orðið til þess að draga úr trausti íbúanna á norrænu samstarfi. Í úttektinni er því slegið föstu að vegna þessara aðgerða hafi menn nú minni trú en áður á vilja stjórnvalda til að tryggja frjálsa för á Norðurlöndum og að það hafi áhrif á áhuga íbúanna á því að sækja vinnu og nám yfir landamæri og á vilja fyrirtækja til að fjárfesta utan heimalanda sinna. Jafnframt hafi traust milli íbúa á Norðurlöndum minnkað, dregið hafi úr áhuga á sameiginlegum innviðafjárfestingum þvert á landamæri, til dæmis í orku- og samgöngumannvirkjum, vatnsveitum og fráveitum. Ennfremur hafi trúverðugleiki Norðurlanda sem fyrirmyndarsvæðis með opin landamæri og síaukna samþættingu beðið hnekki.
    Sumir þingmanna töldu að í skýrslunni væri um of einblínt á neikvæða þætti og bent var á að á alþjóðavettvangi hefði traust á Norðurlöndum aukist vegna skilvirkra viðbragða landanna við COVID-19-faraldrinum. Enestam tók undir það og sagði að Norðurlöndin hefðu verið mörgum öðrum löndum fyrirmynd. Á landamærasvæðum hefði traustið aftur á móti minnkað mjög vegna þess að stjórnvöld hefðu ekki haft samráð um aðgerðir. Bertel Haarder, forseti Norðurlandaráðs, sagði að sem fulltrúi í stjórnsýsluhindranaráði Norrænu ráðherranefndarinnar hefði hann mjög orðið var við minnkandi traust á norrænu samstarfi. Hann benti á að nú væri atvinnuleysi Svíþjóðarmegin Eyrarsunds en skortur á vinnuafli í Kaupmannahöfn. Samt færi þeim fækkandi sem sæktu vinnu yfir sundið og það væri vegna þess að menn treystu ekki lengur stjórnvöldum til að standa vörð um þann hóp sem þyrfti að fara yfir landamæri til vinnu. Bertel Haarder lagði jafnframt til að stofnaðar yrðu ráðherranefndir í ríkisstjórnum hvers lands til að sinna norrænum málefnum. Hann sagði að í Danmörku væri meginkosturinn við myndun ráðherranefndar sá að þá væri jafnframt skipuð nefnd háttsettra embættismanna úr mismunandi ráðuneytum til að samræma starf að viðkomandi málefni. Enestam tók undir þessa hugmynd. Þeir Haarder eru báðir fyrrverandi samstarfsráðherrar.

Ráðstefna um varnarmál í október.
    Fimmtudaginn 16. október sl. stóð danska formennskan í Norðurlandaráði í samstarfi við Forsvarsakademiet í Danmörku fyrir ráðstefnu um samstarf Norðurlanda í öryggis- og varnarmálum. Sigríður Á. Andersen tók þátt í ráðstefnunni fyrir hönd Alþingis. Slíkar varnarmálaráðstefnur hafa verið haldnar árlega um allnokkurt skeið á vegum forsætisnefndar Norðurlandaráðs og yfirleitt í tengslum við sumarfundi nefndarinnar. Að þessu sinni ákvað danska formennskan að gera meira úr ráðstefnunni en venjulega og vegna þess að sumarfundurinn féll niður var niðurstaðan að halda hana um haustið í staðinn.
    Dagskrá dagsins hófst með heimsókn um borð í freigátuna Esbern Snare við Löngulínu í Kaupmannahöfn. Verið var að undirbúa skipið undir leiðangur til að vinna gegn sjóránum við vesturströnd Afríku. Sú ferð komst síðar í fréttir eftir að freigátan lenti í átökum við sjóræningja. Ráðstefnan fór fram í og við Friðriksborgarhöll sem Friðrik IV Danakonungur lét reisa í byrjun 18. aldar. Hún hýsir nú liðsforingjaskóla danska hersins. Hér á eftir segir frá nokkrum þeirra fyrirlestra sem haldnir voru á ráðstefnunni.
    Bertel Haarder, forseti Norðurlandaráðs, sagði í inngangsávarpi að sú staðreynd að tengsl norrænu landanna við ESB og NATO væri með ólíkum hætti þyrfti ekki að standa í vegi fyrir nánu samstarfi þeirra í öryggis- og varnarmálum. Hann benti á að NATO og Bandaríkjamenn væru mjög hlynntir slíku samstarfi. Hann sagði jafnframt að norrænu ríkin væru hvert um sig lítil og hefðu takmarkað vægi en saman gætu þau haft veruleg áhrif.
    Kristian Søby Kristensen, aðstoðarforstöðumaður miðstöðvar um varnarmálarannsóknir við Kaupmannahafnarháskóla, fór ítarlega yfir forsendur samstarfs Norðurlanda á þessu sviði. Hann sagði að margir þættir toguðust á, sumir ýttu löndunum sundur en aðrir sameinuðu. Norðurlönd væru vel afmarkað svæði með sterk efnahagsleg, menningarleg, söguleg og pólitísk tengsl og jafnframt væru gildi þeirra og hagsmunir að mörgu leyti sameiginlegir. Á móti kæmi að í alþjóðlegu samhengi væru löndin ekki nógu sterk til að standa á eigin fótum, þau þyrftu að styðjast við utanaðkomandi aðila. Þau hefðu þó ekki getað sameinast um að tengjast einhverju einu stórveldi heldur hefðu ríkin valið mismunandi leiðir, til dæmis varðandi böndin við NATO og ESB en jafnframt með tvíhliða samstarfi í ýmsum myndum við Bandaríkin, Bretland, Þýskaland og Frakkland. Hann tók undir þau orð Haarders að Bandaríkin og NATO væru hlynnt því að Norðurlönd störfuðu nánar saman en að aukin umsvif ESB á þessu sviði gætu orðið til þess að ýta norrænu ríkjunum í sundur. Kristensen sagði að á síðustu árum hefði ýmislegt verið gert til að auðvelda samstarf Norðurlanda í öryggis- og varnarmálum. Innlimun Krímskaga í Rússland árið 2014 hefði breytt áhættumatinu og það hefði ýtt undir aukið samstarf. Jafnframt hefðu nánari tengsl Svíþjóðar og Finnlands við NATO auðveldað Noregi og Danmörku að vinna með þessum nágrannalöndum sínum.
    Håkon Lundby Saxi, sagnfræðingur við Varnarmálaháskólann í Noregi (Forsvarets høgskole), sagði frá sögulegri þróun norræns samstarfs í varnarmálum. Hann sagði að lengi hefði verið tabú að ræða norrænt varnarmálasamstarf, meðal annars á vettvangi Norðurlandaráðs, en löndin hefðu þó starfað saman leynilega. Undantekning frá þessu hefði verið samstarf um friðargæslu á alþjóðavettvangi sem hefði verið umtalsvert. Staðan breyttist við lok kalda stríðsins og frá um 1990 hefði verið opnað á opinbera umræðu um norræn öryggis- og varnarmál. Hann benti á skýrslu Thorvalds Stoltenbergs, fyrrverandi utanríkis- og varnarmálaráðherra, sem einn lykilþátt í þessari þróun. Jafnframt hefðu Finnar og Svíar tengst NATO sterkari böndum. Samhliða þessu hefði þó einnig orðið sú þróun að löndin hefðu lagt sífellt minni áherslu á varnarmál, framlög til málaflokksins hefðu minnkað og hermönnum fækkað. Aukið samstarf Norðurlanda um til dæmis innkaup á hergögnum, þjálfun og menntun hefði að hluta til verið viðbrögð við þessum niðurskurði. Einkum hefðu Svíar, Norðmenn og Finnar starfað saman, Danir hefðu á hinn bóginn talið litla þörf á að halda uppi vörnum og aðeins miðað starfsemi sína á þessu sviði við þátttöku í alþjóðaverkefnum. Saxi sagði að fyrstu árin hefði öll starfsemi miðast við samstarf á friðartímum. Eftir innlimun Krímskaga í Rússland árið 2014 hefðu menn einnig farið að ræða og vinna að áætlunum um samstarf á erfiðleika- og stríðstímum. Hann nefndi umfangsmiklar heræfingar í Svíþjóð árið 2107 með þátttöku vestrænna landa og NATO-heræfingar í Noregi 2018 með þátttöku Svíþjóðar, Finnlands og Danmerkur sem dæmi um þessa þróun.
    Richard Bengtson, lektor við háskólann í Lundi í Svíþjóð, og Martin la Cour-Andersen, yfirmaður danska sjóhersins á norðurslóðum (Arktisk kommando) sögðu frá helstu áskorunum Norðurlanda í norðurslóðamálum og samstarfi landanna á þessu svæði. Bengtson sagði að aukinn áhugi ýmissa utanaðkomandi aðila, einkum Kínverja, á málefnum norðurslóða gæti valdið Norðurlöndum verulegum vandkvæðum. Það stjórnkerfi sem þróast hefði á síðustu áratugum til að halda utan um samskipti landa við norðurskaut væri ekki gert til að taka á áhuga og umsvifum annarra aðila. Bengtson sagði að vegna aukinnar spennu á norðurslóðum væri mikilvægt að aðgreina öryggismál frá öðrum málefnum sem auðveldara væri að starfa saman að. Hann sagði að eitt vandamálið í samskiptum ríkjanna við norðurskaut væri skortur á trausti, einkum gagnvart Rússlandi, en Norðurlönd gætu hjálpað til við að byggja það upp. Bengtson fjallaði nokkuð um mismunandi viðhorf og hagsmuni Kínverja annars vegar og Rússa hins vegar á norðurslóðum. Hinir fyrrnefndu vildu skilgreina það sem alþjóðasvæði en hinir síðarnefndu litu á málefni norðurslóða sem þjóðarhagsmuni.
    La Cour-Andersen lýsti verkefnum danska sjóhersins á gríðarstóru athafnasvæði Arktisk Kommando í og við Grænland og Færeyjar. Hernaðarleg og borgaraleg starfsemi, meðal annars björgunarstarf, tvinnast þar saman. Skortur á innviðum, miklar fjarlægðir, veðurfar og fjarskiptaerfiðleikar gera starfið við Grænland ákaflega erfitt viðureignar. Danir starfa náið með Norðmönnum, Íslendingum, Kanadamönnum og ekki síst Bandaríkjamönnum á þessum slóðum.
    Rússar voru einnig mjög til umræðu í næsta hluta ráðstefnunnar sem helgaður var málefnum Eystrasaltsins. Jørgen Staun, lektor við danska Varnarmálaháskólann (Forsvarsakademiet), lýsti viðhorfum Rússa til umheimsins. Staun sagði að hugmyndir um Rússland sem stórveldi hefðu lifað af fall Sovétríkjanna og þannig hefði Boris Jeltsín haldið þeim á lofti og enn frekar Vladímír Pútín. Sá síðarnefndi og bandamenn hans væru mjög andsnúnir ofurvaldi Bandaríkjanna og vildu hverfa aftur til margpóla kerfis þar sem stórveldin skiptu heiminum upp í áhrifasvæði. Samkvæmt þeirri hugmyndafræði mættu minni nágrannaríki ekki taka upp neina utanríkisstefnu sem gengi gegn hagsmunum Rússa. Rússar teldu meðal annars Kákasus og Hvíta-Rússland til áhrifasvæðis síns.
    Það fylgir hugmyndunum um stórveldisstöðu Rússlands að valdamenn þar telja að landið sé í stöðugri hættu í ógnvænlegum heimi. Helstu ógnirnar frá sjónarhóli þeirra eru Atlantshafsbandalagið og hugmyndir um stækkun þess, kjarnavopn sem Bandaríkin og bandalagsríki þess í NATO ráða yfir, tæknilegir yfirburðir sömu landa og „litabyltingarnar“ svonefndu í nágrannaríkjum Rússlands sem þeir telja að vestræn ríki hafi staðið á bak við. Rússar hafa brugðist við þessum meinta háska meðal annars með hernaðarlegri uppbyggingu og með því að reyna að búa til varðbelti í kringum sig. Staun segir að þróun mála á Eystrasaltssvæðinu hafi verið mjög óhagstæð síðustu ár og áratugi frá sjónarhóli valdhafa í Moskvu. Eystrasaltið hafi farið frá því að vera „Varsjárbandalags-haf“ fyrir fall Sovétríkjanna í það að vera „NATO-haf“ því að ríkin á svæðinu tilheyra nú flest síðarnefnda bandalaginu eða eru í nánu samstarfi við það. Staun telur að Rússar myndu taka því mjög illa ef Svíar og sérstaklega Finnar gengju til liðs við NATO og að það myndi kalla á harkaleg viðbrögð Rússlands. Á hinn bóginn virðist stjórnvöld í landinu hafa sætt sig nokkurn veginn við sjálfstæði Eystrasaltsríkjanna. Í máli Stauns kom einnig fram að Rússar hefðu einkum illan bifur á starfsemi NATO á Eystrasaltssvæðinu. Hernaðaruppbygging einstakra landa, til dæmis Svía eða Eystrasaltsríkjanna, kallaði yfirleitt ekki á viðbrögð þeirra, en þegar fréttir bærust af auknum umsvifum á vegum Atlantshafsbandalagsins mætti búast við kvörtunum frá Rússum.
    Í þriðja og síðasta hluta ráðstefnunnar var fjallað um varnir gegn netárásum á Norðurlöndum. Eistlendingurinn Eneken Tikk, sem starfar við Miðstöð um stefnumótun í stafrænum málefnum (Cyber Policy Institute) í Jyväskylä í Finnlandi, sagði frá helstu stafrænum ógnum sem steðja að Norðurlöndum. Hún sagði að samkvæmt greiningu sinni og fleiri aðila á þessu sviði teldist hætta af stafrænni glæpastarfsemi og njósnum vera mikil á Norðurlöndum en aftur á móti væri lítil hætta á netárásum sem miðuðu beinlínis að því að skaða yfirvöld eða einkafyrirtæki. Sömuleiðis teldist hætta af völdum árása aðgerðasinna lítil og ógn af völdum stafrænna hryðjuverkaárása væri vart til staðar. Tikk sagði að vegna þess hversu mikilvægu hlutverki stafræn tækni væri farin að gegna í norrænum velferðarsamfélögum væri sérlega mikilvægt að huga að vörnum gegn netárásum. Unnið væri á þeim á ýmsum vettvangi, meðal annars á vegum Sameinuðu þjóðanna, Evrópusambandsins, Atlantshafsbandalagsins og í einstökum ríkjum og svæðum en þó væri langt í frá að nóg væri að gert.
    Peter Knøster frá dönsku Netöryggismiðstöðinni (Center for Cybersikkerhed) lýsti samstarfi Norðurlanda á sviði netöryggismála innan ramma NORDEFCO. Hann sagði að samvinnan væri óformleg en mjög náin og góð og byggðist á trausti.

Framkvæmdastjóri NATO á Norðurlandaráðsþingi.
    Að tillögu dönsku formennskunnar í Norðurlandaráði var Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins, boðið á Norðurlandaráðsþing. Í ávarpi til þingmanna sagði Stoltenberg að Norðurlönd gegndu mikilvægu hlutverki í NATO af ýmsum ástæðum. Það hefði í sjálfu sér gildi að ríkin ættu ýmist aðild að bandalaginu eða störfuðu náið með því en jafnframt væri landfræðileg staða þeirra nálægt Eystrasaltsríkjunum mikilvæg því að þar hefði spenna og hervæðing farið vaxandi á undanförum árum. Hann sagði að Norðurlönd gegndu líka mikilvægu hlutverki varðandi tenginguna yfir Atlantshafið til Norður-Ameríku. Í máli Stoltenbergs á þinginu kom einnig fram að dyr Atlantshafsbandalagsins stæðu Svíum og Finnum opnar en að hann ætlaði ekki að skipta sér af ákvörðunum þeirra um þessi mál. Hann sagði jafnframt að NATO liti aukið varnarmálasamstarf Norðurlanda mjög jákvæðum augum. Það hefði gildi í sjálfu sér en einnig sem leið til að styrkja samband Atlantshafsbandalagsins við þau ríki Norðurlanda sem standa utan bandalagsins.

Stjórnsýsluhindranir.
    Bertel Haarder, forseti Norðurlandaráðs 2021, hefur lengi starfað í stjórnsýsluhindranaráði Norrænu ráðherranefndarinnar og í forsetatíð sinni lagði hann mikla áherslu á að vekja athygli á þeim áhrifum sem lokun landamæra milli norrænu ríkjanna hafði á íbúa landamærasvæða. Þingmenn úr öllum flokkahópum Norðurlandaráðs tóku undir áhyggjur hans og beittu sér í samtölum við ráðherra og með öðrum hætti fyrir því að gripið yrði til ráðstafana til að milda áhrif sóttvarnaaðgerða á þennan hóp og fyrir því að aukið samráð yrði haft milli landa framvegis um slíkar aðgerðir til að draga úr neikvæðum afleiðingum þeirra. Vegna þess að stjórnsýsluhindranastarfið á árinu beindist einkum að þeim vanda sem tengdist landamærahéruðum hinna landanna voru íslenskir þingmenn minna áberandi í umræðunni en oft áður.

Fjárhagsáætlun norræns samstarfs 2022.
    Að venju leiddu forseti og varaforseti viðræður Norðurlandaráðs við Norrænu ráðherranefndina um fjárhagsáætlun norræns samstarfs fyrir árið 2022. Fjárhagsáætlunarhópur Norðurlandaráðs er skipaður forseta, varaforseta og fulltrúum flokkahópa. Fjárhagsáætlunarferlið hefst með því að Norðurlandaráð samþykkir lista yfir forgangsmál sem sendur er Norrænu ráðherranefndinni. Ráðherranefndin gerir því næst drög að fjárhagsáætlun þar sem að einhverju leyti er tekið tillit til áherslna Norðurlandaráðs. Fulltrúar Norðurlandaráðs funda síðan nokkrum sinnum með samstarfsráðherra þess lands sem er í formennsku í Norrænu ráðherranefndinni til að komast að samkomulagi um einstök atriði áætlunarinnar. Í formennskutíð Íslendinga árið 2020 urðu fundirnir fleiri en venjulega enda voru breytingar á fjárhagsáætluninni meiri en oftast áður og forseti og varaforseti Norðurlandaráðs sóttu það fast að hlustað væri á sjónarmið ráðsins. Þessa gætti ekki síður árið 2021.
    Fundir fjárhagsáætlunarhópsins fóru flestir fram með fjarfundafyrirkomulag. Hópurinn kom fyrst saman í mars og síðan í júní og ágúst. Í lok ágúst átti danska formennskan staðfund með samstarfsráðherra Finnlands í Kaupmannahöfn, en Finnar fóru með formennsku í Norrænu ráðherranefndinni á árinu. Forseti og varaforseti hittu ráðherrann aftur á fjarfundi í október. Á þessum síðasta fundi var gengið frá samkomulagi um fjárhagsáætlun ársins 2022. Það var síðan samþykkt á Norðurlandaráðsþingi í Kaupmannahöfn 2. nóvember. Auk fundahalda skiptust danska formennskan og finnski samstarfsráðherrann á bréfum meðan á ferlinu stóð.
    Í formennskutíð Íslands í Norrænu ráðherranefndinni árið 2019 var mótuð framtíðarsýn fyrir norrænt samstarf til ársins 2030. Í framtíðarsýninni eru þrjár stefnumarkandi áherslur um græn, samkeppnishæf og félagslega sjálfbær Norðurlönd. Í kjölfarið voru samdar þverlægar framkvæmdaáætlanir fyrir tímabilið 2021–2024 sem byggjast á áherslunum þremur. Framtíðarsýnin og framkvæmdaáætlanirnar eru nýmæli í norrænu samstarfi. Þessir þættir mótuðu mjög drög Norrænu ráðherranefndarinnar að fjárhagsáætlun fyrir árin 2021 og 2022 og leiddu til þess að tilfærslur milli málefnasviða voru meiri en oftast áður. Fjármagn var veitt til verkefna sem miðuðu beint að því að gera framtíðarsýnina að veruleika og skorið var niður á öðrum sviðum. Menningar- og menntamál hafa löngum verið fyrirferðarmikil í fjárhagsáætlunum norræns samstarfs og framlög til þeirra áttu að dragast verulega saman samkvæmt tillögum Norrænu ráðherranefndarinnar.
    Þingmenn í Norðurlandaráði gagnrýndu þennan niðurskurð og töldu hann of harkalegan. Sú gagnrýni harðnaði enn eftir að áhrifa COVID-19-faraldursins tók að gæta í menningargeiranum á Norðurlöndum. Töldu margir þingmenn, þar á meðal fulltrúar Íslands í forsætisnefnd Norðurlandaráðs, að taka þyrfti tillit til þessara sérstöku aðstæðna og endurskoða fjárhagsáætlunina til samræmis. Mikil samstaða var milli flokkahópa í málinu. Flestir flokkahópanna boðuðu að þeir myndu greiða atkvæði gegn fjárhagsáætluninni á Norðurlandaráðsþingi ef ekki yrði komið til móts við sjónarmið Norðurlandaráðs.
    Í formennskutíð Íslendinga í Norðurlandaráði 2020 tókst í viðræðum við danska samstarfsráðherrann að fá frestað niðurskurði framlaga til ýmissa menningarverkefna. Í formennskutíð Dana 2021 var haldið áfram á sömu braut og tókst þá að koma því til leiðar að enginn niðurskurður verður á heildarframlögum til menningar- og menntaverkefna. Þar hjálpaði til að töluverður afgangur var af fjárhagsáætlun ársins á undan vegna verkefna á ýmsum sviðum sem höfðu tafist vegna áhrifa COVID-19-faraldursins. Samið hefur verið um að Norræna ráðherranefndin hafi samráð við þekkingar- og menningarnefnd Norðurlandaráðs um það hvernig verja skuli þeim fjármunum sem verða til ráðstöfunar í menningar- og menntageiranum í samræmi við samkomulagið.
    Það gildir um niðurskurðinn bæði þessi ár að samkomulag Norðurlandaráðs og Norrænu ráðherranefndarinnar nær aðeins til eins árs og gera má ráð fyrir að fjárhagsáætlunardrög ráðherranna fyrir árið 2023 mótist enn af áformum um tilfærslu fjármuna frá menningar- og menntageiranum í samræmi við framtíðarsýnina til ársins 2030 og framkvæmdaáætlunina 2021–2024.
    Það varð einnig að samkomulagi í viðræðum Norðurlandaráðs og Norrænu ráðherranefndarinnar að endurskoða skyldi fjárhagsáætlunarferlið. Fulltrúar Norðurlandaráðs hafa óskað eftir því að Norðurlandaráð komi fyrr að ferlinu, fái betri upplýsingar og hafi meiri áhrif. Í viðræðunum við finnska samstarfsráðherrann kom danska formennskan einnig á framfæri þeirri ósk að framlög til ríkjanna verði framvegis látin fylgja þróun þjóðarframleiðslu þeirra. Þingmenn Norðurlandaráðs og fleiri hafa ítrekað bent á það að framlögin hafi minnkað um helming sem hlutfall af þjóðarframleiðslu á síðustu 25 árum.

Ráðherranefnd í samgöngumálum.
    Í tengslum við umræður um fjárhagsáætlun norræns samstarfs hélt Norðurlandaráð á lofti kröfu um stofnun ráðherranefndar í samgöngumálum. Slík ráðherranefnd var áður starfandi en var lögð niður í tengslum við skipulagsbreytingar árið 2005. Þrátt fyrir mikinn þrýsting af hálfu Norðurlandaráðs fékkst þessi krafa ekki í gegn á árinu.

Bókhaldserfiðleikar Norrænu ráðherranefndarinnar.
    Innleiðing nýs bókhaldskerfis Norrænu ráðherranefndarinnar árið 2019 var upphafið að atburðarás sem hefur haft töluverð áhrif á norrænt samstarf á árunum 2020 og 2021. Innleiðingin sjálf gekk illa og varð mun tímafrekari og erfiðari en gert hafði verið ráð fyrir. Við skoðun dönsku ríkisendurskoðunarinnar komu jafnframt í ljós ýmsir vankantar á fjármálastjórn Norrænu ráðherranefndarinnar sem teygja sig lengra aftur í tímann. Skrifstofa Norrænu ráðherranefndarinnar sér einnig um bókhald Norðurlandaráðs og Norræna menningarsjóðsins og erfiðleikarnir höfðu því einnig áhrif á þær stofnanir. Norræna ráðherranefndin þurfti að leggja í verulegan kostnað til að ráða bót á vandanum. Áhrifin á starfsemi Norðurlandaráðs voru mun minni.
    Eftirlitsnefnd og forsætisnefnd Norðurlandaráðs hafa fylgst vel með málum og hafa ítrekað kallað embættismenn og ráðherra á fundi til að gera grein fyrir stöðunni. Paula Lehtomäki, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar, og Gerner Oddershede fjármálastjóri sátu fyrir svörum á blaðamannafundi sem boðað var til um bókhaldsvandræði stofnunarinnar 23. júní. Lehtomäki sagði þar að verulegir annmarkar hefðu verið á bókhaldinu en þau Oddershede lögðu áherslu á að engar vísbendingar væru um fjárhagslegt misferli. Síðar sama dag átti Paula Lehtomäki fund með forsætisnefnd Norðurlandaráðs. Oddný G. Harðardóttir og Steinunn Þóra Árnadóttir voru meðal þátttakenda. Oddný sagði við það tækifæri að staðan væri mjög alvarleg og miklu máli skipti að framkvæmdastjórinn og starfsfólk gæfi skýrar upplýsingar um hana og um hvernig ætlunin væri að bregðast við. Hún lagði áherslu á að gagnsæi yrði ríkjandi í öllu ferlinu. Hún lýsti áhyggjum af því að málið myndi skaða norrænt samstarf í heild, ekki aðeins Norrænu ráðherranefndina, og grafa undan málflutningi þeirra sem að undanförnu hefðu talað fyrir eflingu norræns samstarf. Sannfæra þyrfti norræna skattgreiðendur um að vert væri að halda samstarfinu áfram.

Alþjóðasamstarf.
    Norðurlandaráð á í samstarfi við ýmis önnur alþjóðasamtök, lönd og svæði í nágrenni Norðurlanda. Áherslurnar í alþjóðasamstarfinu og helstu samstarfsaðilar eru nefndir í stefnu Norðurlandaráðs í alþjóðamálum fyrir tímabilið 2018–2022. Fulltrúar þessara aðila koma að jafnaði á Norðurlandaráðsþing og ýmsa fundi Norðurlandaráðs og jafnframt fara fulltrúar Norðurlandaráðs á fundi og í heimsóknir utan Norðurlanda. Hefðbundnir staðfundir féllu að mestu niður á árinu vegna COVID-19-faraldursins eða færðust í fjarfundaform. Frá samstarfinu við einstök samtök og svæði segir nánar í næstu köflum.
    Á forsætisnefndarfundi í desember var ákveðið að skipa starfshóp undir forystu Erkki Tuomioja, forseta Norðurlandaráðs 2022, til að móta nýja stefnu fyrir alþjóðastarfið fyrir tímabilið frá 2023. Hanna Katrín Friðriksson var skipuð í hópinn sem fulltrúi miðflokkahópsins.

Samskipti við Eystrasaltsþingið og Benelúxþingið.
    Norðurlandaráð hefur um árabil átt í nánu samstarfi við Eystrasaltsþingið sem eru samstarfssamtök þinga Eistlands, Lettlands og Litháen og svipar um margt til Norðurlandaráðs. Eystrasaltssvæðið og sérstaklega Eystrasaltsríkin þrjú eru eitt þriggja áherslusvæða í alþjóðastefnu Norðurlandaráðs. Benelúxþingið er samstarfsvettvangur þinga Belgíu, Hollands og Lúxemborgar og hefur það einnig átt í töluverðum samskiptum við Norðurlandaráð síðustu árin. Forsætisnefnd Norðurlandaráðs ákvað á fundi í desember að Hanna Katrín Friðriksson yrði talsmaður hennar gagnvart Benelúxþinginu á árinu 2022.
    Fundir Norðurlandaráðs með þessum tveimur alþjóðasamtökum færðust nær allir í fjarfundaform. Í febrúar héldu samtökin þrjú sameiginlegan rafrænan fund um viðbrögð við COVID-19-faraldrinum í löndunum og um baráttuna gegn falsfréttum. Kom þá meðal annars fram í máli þingmanna frá Eystrasaltsríkjunum að falsfréttir frá Rússlandi gerðu baráttuna gegn COVID-19-faraldrinum erfiðari í heimalöndum þeirra, meðal annars hefðu sumir úr rússneskumælandi minni hlutanum hafnað því að vera bólusettir með vestrænum bóluefnum og vildu frekar bíða eftir Spútnik-bóluefninu rússneska. Annar fjarfundur var haldinn í maí og voru þá varnar- og öryggismál til umræðu. Þar var meðal annars rætt um hvernig aðildarlönd þeirra væru búin undir að takast á við netógnir og ótrygga stöðu öryggismála.
    Fulltrúar Eystrasaltsþingsins sóttu einnig rafrænt þemaþing Norðurlandaráðs í júní. Norðurlandaráðsþing var haldið sem staðfundur og þangað komu að vanda gestir frá ýmsum öðrum alþjóðasamtökum, löndum og landsvæðum, þar á meðal frá Eystrasaltsþinginu. Að venju var ráðgert að fulltrúar forsætisnefndar Eystrasaltsþingsins kæmu á fund forsætisnefndar Norðurlandaráðs í desember. Þann fund átti að halda í Reykjavík en vegna COVID-19-faraldursins varð að fresta honum til næsta árs. Jafnframt er gert ráð fyrir að halda aukafund með Eystrasaltsþinginu í tengslum við septemberfundi Norðurlandaráðs í Reykjavík 2022.
    
Hvíta-Rússland.
    Norðurlandaráð og Norræna ráðherranefndin hafa löngum stutt lýðræðisöfl í Hvíta-Rússlandi. Um árabil tók Norræna ráðherranefndin þátt í fjármögnun og öðrum stuðningi við háskólann European Humanities University (EHU) sem starfræktur var í Minsk í Hvíta-Rússlandi 1992–2004 og eftir það í Vilníus í Litháen. Norræna ráðherranefndin hefur einnig styrkt fjölmiðla í Hvíta-Rússlandi.
    Áður en COVID-19-faraldurinn skall á hélt Norðurlandaráð árlega fundi með stjórnmálamönnum og fulltrúum frjálsra félagasamtaka í Hvíta-Rússlandi. Í formennskutíð Íslands í Norðurlandaráði 2020 héldu Silja Dögg Gunnarsdóttir, Oddný G. Harðardóttir og fleiri forsætisnefndarmenn fjarfund með Svetlönu Tíkhanovskaju, leiðtoga stjórnarandstöðunnar í Hvíta-Rússlandi, og samstarfsmönnum hennar. Á fundi forsætisnefndar í desember 2021 var samþykkt tillaga frá finnsku landsdeildinni um að hvetja ríkisstjórnir Norðurlanda til að koma á fót námsleið fyrir hvítrússnesk ungmenni til að gera þeim kleift að stunda nám á Norðurlöndum á tímabilinu 2023–2025.

Samskipti við rússneska þingmenn.
    Á forsætisnefndarfundi í desember var ákveðið að Oddný G. Harðardóttir yrði talsmaður nefndarinnar í málefnum sem varða Rússland. Heimsóknir á vegum Norðurlandaráðs og Norrænu ráðherranefndarinnar eru árlegur viðburður og norrænu löndin skiptast á að vera gestgjafar. Árið 2021 áttu Finnar að taka á móti rússnesku þingmönnunum en heimsóknin féll niður vegna COVID-19-faraldursins. Fulltrúar Norðurlandaráðs og landsdeildar Íslands í Norðurlandaráði eiga einnig samskipti við rússneska þingmenn á vettvangi Þingmannaráðstefnu Eystrasaltssvæðisins.

Evrópusambandið.
    Haustið 2017 kom Norðurlandaráð á fót skrifstofu með einum starfsmanni í Brussel til að sinna samskiptum við Evrópusambandið, einkum þó Evrópuþingið. Skiptar skoðanir hafa verið í Norðurlandaráði um hvort halda eigi áfram rekstri skrifstofunnar en á Norðurlandaráðsþingi í Kaupmannahöfn í nóvember var tekin ákvörðun um að framlengja umboð hennar til loka árs 2023.
    Árið 2020 samþykkti Evrópuþingið beiðni Norðurlandaráðs um að taka upp formlegt þingmannasamstarf sambærilegt því sem Evrópuþingið á við Noreg, Ísland og Vestnorræna ráðið. Fyrstu skrefin í samstarfinu voru stigin árið 2021 með óformlegum fundum. Ráðgert var að halda formlegan fund í september í Þórshöfn í Færeyjum en honum var frestað til næsta árs. Þemu fundarins í Færeyjum áttu að vera Græn áætlun ESB, ráðstefnan um framtíð Evrópu, norðurslóðir, evrópsk lágmarkslaun og norræna vinnumarkaðslíkanið og er líklegt að sömu viðfangsefni verði tekin fyrir á fyrirhuguðum fundi 2022.
    Í mars hélt Norðurlandaráð þrjár vefnámsstefnur í samstarfi við Evrópuþingið um stafræna þróun, orkumál og sýklalyfjaónæmi. Ráðgert hafði verið að halda námsstefnurnar sem staðfundi á formennskuári Íslands í Norðurlandaráði 2020 en þeim var ítrekað frestað og að lokum var ákveðið að færa þær yfir í fjarfundafyrirkomulag. Þingmenn úr íslensku landsdeildinni tóku þátt í námsstefnunum.

Norðurslóðamál.
    Norðurslóðir eru eitt þriggja áherslusviða í alþjóðastefnu Norðurlandaráðs fyrir tímabilið 2018–2022. Oddný G. Harðardóttir var einn tveggja varatalsmanna forsætisnefndar í norðurslóðamálum árið 2021. Norðurlandaráð á áheyrnaraðild að Þingmannaráðstefnunni um norðurskautsmál (CPAR) sem fundar annað hvert ár. Fulltrúi Norðurlandaráðs sótti rafrænan fund CPAR 13.–14. apríl. Í september samþykkti forsætisnefnd Norðurlandaráðs nýja norðurslóðaáætlun Norrænu ráðherranefndarinnar fyrir tímabilið 2022–2024.

Samstarf við Vestnorræna ráðið.
    Í mars var haldinn fjarfundur fulltrúa samtakanna tveggja og var þar ákveðið að taka samstarfssamning þeirra frá 2006 til endurskoðunar. Nýr samningur um öflugra og breiðara samstarf var undirritaður á staðfundi fulltrúa Norðurlandaráðs og Vestnorræna ráðsins á Norðurlandaráðsþingi í nóvember.

Nýr framkvæmdastjóri tók til starfa.
    Britt Bohlin, framkvæmdastjóri Norðurlandaráðs, lét af störfum 2021 eftir sjö ára starf og við tók Færeyingurinn Kristina Háfoss. Hún er þingmaður og fyrrverandi ráðherra og menntuð í lögfræði og hagfræði. Hún er fyrst Færeyinga til að gegna stöðu framkvæmdastjóra Norðurlandaráðs.

Skipti á formennskuárum.
    Aðildarlönd Norðurlandaráðs skiptast á að fara með formennsku í Norðurlandaráði samkvæmt eftirfarandi röð: Danmörk 2021, Finnland 2022, Noregur 2023, Svíþjóð 2024 og Ísland 2025. Sömu röð er fylgt í Norrænu ráðherranefndinni en þó þannig að löndin fara með formennsku í þeirri stofnun árið áður en þau taka við í Norðurlandaráði. Þannig ætti Ísland samkvæmt þessu fyrirkomulagi að fara með formennsku í Norrænu ráðherranefndinni árið 2024. Svíar verða í forsæti í ráðherraráði ESB seinni hluta árs 2023 og óskuðu þess vegna eftir því að skipta við Íslendinga á formennskuárum í Norrænu ráðherranefndinni. Sú beiðni var samþykkt árið 2020 og Ísland verður því í formennsku árið 2023, einu ári fyrr en gert hafði verið ráð fyrir. Samráð var haft við Íslandsdeild Norðurlandaráðs um þá breytingu. Í apríl 2021 barst Íslandsdeild Norðurlandaráðs beiðni frá sænsku landsdeildinni um samsvarandi skipti í Norðurlandaráði þannig að Ísland fari með formennsku árið 2024 og Svíþjóð árið 2025. Íslandsdeild Norðurlandaráðs samþykkti fyrir sitt leyti breytinguna. Forsætisnefnd Alþings fjallaði jafnframt um beiðnina á fundi í maí og tók vel í hana. Breytingin var síðan endanlega samþykkt á fundi forsætisnefndar Norðurlandaráðs.

Þingmannaráðstefna Eystrasaltssvæðisins.
    Svíar fóru með formennsku í BSPC á árinu og þingmaðurinn Pyry Niemi var forseti. Ráðgert var að Litháar myndu taka við formennskunni á ársfundi samtakanna í ágúst en þeir hættu við það með skömmum fyrirvara. Svíar buðust þá til að framlengja formennsku sína þangað til í júní á næsta ári og var það samþykkt. Þjóðverjar taka við svo formennskunni af Svíum.
    Kolbeinn Óttarsson Proppé sótti fundi Þingmannaráðstefnu Eystrasaltssvæðisins (BSPC) sem fulltrúi landsdeildar Norðurlandaráðs. Í lok árs 2020 tók hann sæti í nýjum vinnuhópi BSPC um loftslagsmál. Hann starfaði sem annar tveggja varaformanna þess hóps á árinu 2021 og sótti nokkra fjarfundi í því hlutverki. Kolbeinn sat ársfund BSPC sem haldinn var með fjarfundafyrirkomulagi 30. ágúst. Á fundinum var meðal annars rætt um stöðu lýðræðisins í nýju fjölmiðlalandslagi, uppbyggingu í kjölfar COVID-19, loftslagsmál og líffræðilega fjölbreytni. Ýmsir fyrrverandi forsetar samtakanna tóku til máls til að minnast 30 ára afmælis samtakanna á þessu ári. BSPC hefur einnig gefið úr rafbók í tilefni af afmælinu þar sem meðal annars eru stuttar greinar frá aðildarþingum og samtökum BSPC. Kolbeinn Óttarsson Proppé, Silja Dögg Gunnarsdóttir og Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, áttu sameiginlega grein í ritinu. Á ársfundinum töluðu ýmsir gestir, meðal annars Andreas Norlén, forseti sænska þingsins, Ann Linde, utanríkisráðherra Svíþjóðar, Ine Eriksen Søreide, utanríkisráðherra Noregs, og Svenja Schulze, umhverfisráðherra Þýskalands. Í ályktun ársfundarins var fjallað um lýðræði, réttarríkið, mannréttindi, frjálsa fjölmiðlun, borgaralegt samfélag, frjáls félagasamtök, upplýsingaóreiðu, fjölmiðlalæsi, líffræðilega fjölbreytni, loftslags- og umhverfismál og margt fleira. Sérstakri hvatningu var beint til stjórnvalda í Hvíta-Rússlandi um að tryggja mannréttindi, frið og lýðræði.
    Kolbeinn tók einnig þátt í fundi ungmenna frá aðildarríkjum BSPC sem komu saman laugardaginn 28. ágúst. Kolbeinn var þar meðal annars sem fulltrúi starfshóps BSPC um loftslagsmál og líffræðilega fjölbreytni. Hann stýrði umræðum um málefni hafsins og tók þátt í pallborðsumræðum um uppbyggingu í kjölfar COVID-19. Niðurstöður ungmennafundarins voru svo kynntar á ársfundi BSPC.

Starf innan lands.
    Á degi Norðurlanda 23. mars fór fram pallborðsumræða í Norræna húsinu um norrænt menningarsamstarf. Steinunn Þóra Árnadóttir var meðal þátttakenda en einnig töluðu Sabina Westerholm, forstjóri Norræna hússins, Gísli Örn Garðarsson, leikari og leikstjóri, Tue West, tónlistarmaður, og Björn Rafnar Ólafsson, nemi í Nord-Atlantisk gymnasiumklasse (NGK).
    Hópur norrænna blaðamanna kom til Íslands í ágúst í tengslum við námskeið Norrænu blaðamannamiðstöðvarinnar (NJC). Að beiðni NJC stóð Íslandsdeild Norðurlandaráð þá fyrir fundi í Norræna húsinu þar sem Steinunn Þóra Árnadóttir, Ari Trausti Guðmundsson, formaður Íslandsdeildar þingmannaráðstefnunnar um norðurskautsmál, Hrannar Björn Arnarsson, formaður Norræna félagsins, og Sabina Westerholm, forstjóri Norræna hússins, sátu fyrir svörum um norrænt samstarf og umhverfis- og loftslagsmál. Blaðamennirnir spurðust fyrir um loftslagsstefnu íslenskra stjórnvalda, niðurskurð á framlögum til menningarmála í norrænu samstarfi og ýmislegt fleira.

6. Verðlaun Norðurlandaráðs.
    Verðlaun Norðurlandaráðs eru fimm, þ.e. bókmenntaverðlaun, tónlistarverðlaun, náttúru- og umhverfisverðlaun, kvikmyndaverðlaun og barna- og unglingabókmenntaverðlaun. Þau eru að upphæð 300.000 danskra króna.
    Verðlaunin voru að þessu sinni afhent 2. nóvember við hátíðlega athöfn í Skuespilhuset í Kaupmannahöfn í tengslum við Norðurlandaráðsþing.
    Á vef Norðurlandaráðs, www.norden.org, eru nánari upplýsingar um verðlaunin.

7. Starfsáætlun og áherslur Norðurlandaráðs árið 2022.
    Finnar fara með formennsku í Norðurlandaráði 2022. Erkki Tuomioja er forseti ráðsins 2022 og Lulu Ranne varaforseti. Norðurlandaráðsþing verður haldið í Helsinki. Helstu áhersluatriði í formennskuáætlun Finna árið 2020 eru sjálfbær, örugg og landamæralaus Norðurlönd.



Alþingi, 17. febrúar 2022.

Bryndís Haraldsdóttir form. Oddný G. Harðardóttir varaform. Ásmundur Friðriksson.
Guðmundur Ingi Kristinsson. Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir. Hanna Katrín Friðriksson.
Orri Páll Jóhannsson.


Fylgiskjal I.

Tilmæli Norðurlandaráðs árið 2021.

Tilmæli.
          Tilmæli 1/2021 – Samstarfsáætlun ráðherranefndar um fiskveiðar og fiskeldi, landbúnað, matvæli og skógrækt 2021–2024.
          Tilmæli 2/2021– Norrænt samstarf um nýtingu kolefnisviðtaka í því skyni að auka skilvirkni í starfi að loftslagsmálum.
          Tilmæli 3/2021 – Norræn stefnumótun um vetni.
          Tilmæli 4/2021 – Notkun vetnis.
          Tilmæli 5/2021 – Um að auka færni norrænna fjölmiðla í rannsóknarblaðamennsku.
          Tilmæli 6/2021 – Um að draga úr koldíoxíði í nýbyggingum.
          Tilmæli 7/2021 – Samstarf um stjórnun úlfastofnsins.
          Tilmæli 8/2021– Um að draga úr aðgangi barna og ungmenna að klámi í samfélaginu.
          Tilmæli 9/2021– Global Gag Rule.
          Tilmæli 10/2021 – Upplýsingaskipti, þróun og samræming aðgerða til að hamla á móti brotastarfsemi í byggingariðnaði.
          Tilmæli 11/2021 – Aðgerðir til að hamla gegn brotastarfsemi í byggingariðnaði.
          Tilmæli 12/2021 – Rafvæðing Norðurlanda.
          Tilmæli 13/2021– Sameiginleg norræn stefna í öryggismálum varðandi fimmtu kynslóðar farsímanet.
          Tilmæli 14/2021 – Norrænar aðgerðir gegn hægriöfgum.
          Tilmæli 15/2021 – Samantekt á viðbrögðum við kórónukreppunni frá norrænum sjónarhóli.

Ákvarðanir um innri málefni.
          IB 1/202 – Starfsemi Norðurlandaráðs verði kolefnishlutlaus.
          IB 2/2021– Skýra norrænt notagildi þingmannatillagna í Norðurlandaráði.


Fylgiskjal II.


Formennskuáætlun Danmerkur í Norðurlandaráði 2021.

Í fótspor heimsfaraldursins: hvaða lærdóm getum við dregið.
    Sameiginlegt markmið okkar er að Norðurlöndin verði „sjálfbærasta og samþættasta svæði í heimi“. En faraldurinn fékk lönd okkar til að bregðast við á ólíkan hátt og skapa hindranir og takmarkanir fyrir íbúa Norðurlandanna, sem vinna, stunda nám, ferðast og eiga eignir í öðru norrænu ríki. Baráttan við stjórnsýsluhindranir verður enn mikilvægari fyrir vikið. Um leið ríkir upplausnarástand í Evrópu og hinum vestræna heimi, sem kallar eftir norrænni samstöðu og forystu að því er varðar loftslagskreppuna, græn umskipti og samkeppni stórveldanna. Lýðræði, mannréttindi og grundvallarreglur réttarríkisins eru undir miklum þrýstingi í Evrópu — einnig meðal næstu nágranna Norðurlanda. Þessi mál varða grundvallarreglur í norrænu samstarfi, auk þess sem heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna ættu að vera skýrt leiðarljós í okkar starfi. Heimsfaraldurinn hefur sýnt fram á þörfina á eftirfylgni tillagnanna í skýrslu Könbergs varðandi meðal annars sýklalyfjaónæmi. Hvert í sínu lagi erum við lítil. Saman erum við sterk og mikils megnug. Það á jafnt við pólitískt og efnahagslega sem menningarlega.

Norrænt samstarf á sviði varnar- og almannavarnamála.
    Verkefnið að þessu sinni er að læra af kreppunni svo að Norðurlöndin megi einnig verða samþættasta svæði í heimi þegar vá og neyð steðjar að. Auka ber samskipti embættismanna og ráðherra áður en ákvarðanir eru teknar, sem setja ríkisborgara annarra ríkja í vanda, þar á meðal varðandi lokanir landamæra, sóttkví, kröfur um skimun, leyfi og heimavinnu. Við þurfum að berjast gegn og koma í veg fyrir stjórnsýsluhindranir, þar á meðal þær sem komið hafa upp í kórónukreppunni — og um leið nýta okkur reynsluna af stafrænum lausnum í stað mætingar á vinnustað, sem geta aukið ánægju starfsmanna og framleiðni. Marka verður skýrari stefnu um sameiginlegan viðbúnað þannig að löndin séu betur búin undir kreppur, heimsfaraldra og náttúruhamfarir af völdum loftslagsbreytinga, svo sem flóð, þurrka og skógarelda, sbr. stefnu Norðurlandaráðs um samfélagsöryggi og samþykkt norrænna yfirmanna almannavarna í Kaupmannahöfn í febrúar 2020, og ekki síst netárásir, sbr. skýrslur Thorvalds Stoltenberg og Björns Bjarnasonar. Bresk og bandarísk einangrunarhyggja hefur skapað stjórnarástand í Evrópu, sem kallar eftir norrænni framtíðarsýn og norrænni forystu upp að vissu marki, ekki einungis á sviði loftslags- og umhverfismála, heldur einnig þegar kemur að öryggismálum í víðasta skilningi. Gjörólík aðild Norðurlandanna að hinum ýmsu bandalögum kemur ekki í veg fyrir að þau auki áhrif sín innan raða NORDEFCO með mun nánara samstarfi í varnar- og öryggismálum. Stórveldin eru byrjuð að keppast sín á milli á norðurskautssvæðinu og Norðurlöndin ættu að bregðast við því með samstarfi til að tryggja að norðurskautssvæðið verði áfram lágspennusvæði. Málið verðskuldar aukna athygli Norðurlandaráðs.

Norrænar loftslagsaðgerðir.
    Norðurlöndin eru þekkt fyrir öfluga forystu sína á sviði loftslagsmála og um grænar lausnir. Áskoranir í loftslagsmálum kalla eftir rannsóknarsamstarfi og fjárfestingum í grænum umskiptum og nýsköpun, en þar standa Norðurlöndin vel að vígi — með áherslu á áhrif og afleiðingar loftslagsbreytinga fyrir fólk sem breytingarnar bitna á og fyrir atvinnulíf, samgöngur, sjávarútveg, byggingastarfsemi, skógrækt, dýralíf o.s.frv. Loftslagskreppan er ekki eingöngu efnahagsleg áskorun, heldur einnig tækifæri til að miðla norrænum lausnum út um heim. Norrænar loftslagsaðgerðir ættu að leiða til mörkunar sameiginlegrar norrænnar stefnu í loftslagsmálum. Almennt séð hafa íbúar Norðurlanda áhyggjur af loftslagsbreytingum og óska í vaxandi mæli eftir auknu norrænu samstarfi á þessu sviði. Af þeim sökum styður Norðurlandaráð áform Norrænu ráðherranefndarinnar um að auka verulega fjárveitingar til loftslagsmála.

Norrænt átak ungs fólks um menningu og tungumál.
    Þrátt fyrir ólík tungumál á Norðurlöndum er norrænt tungumála- og menningarsamfélag mjög sýnilegt og mikilvægt heimavígi þeirra 27 milljóna manna sem búa á Norðurlöndum. Öll löndin einkennast af menningu sem byggist á trausti, gagnsæi, efnahagslegri nýsköpun, jafnrétti, velferð og öflugu félagastarfi sem undirstöðu öflugra samfélaga. En tungumálaskilningur á Norðurlöndum er því miður á hraðri niðurleið. Á Norðurlöndum leggjum við mikla áherslu á að mennta ungt fólk til að verða heimsborgarar. En einnig er mikilvægt að upplifa og mennta sig í öðru norrænu landi og kynnast norrænum tungumálum og samfélagsaðstæðum af eigin raun, auk þess sem mikilvægt er að hafa frjálsan aðgang að fjölmiðlum annarra norrænna landa. Með samnorrænni rafrænni auðkenningu getum við lágmarkað óþarfa stjórnsýsluhindranir fyrir þá sem vinna, stunda nám, ferðast og eiga eignir í öðru norrænu landi. Aðgerða er þörf til lengri tíma á sviði menningar og tungumálaskilnings, ekki síst fyrir námsfólk og kennara í kennaramenntun. Tryggja þarf ungu fólki aukin tækifæri til að fá starfsnámsstöður og stunda skiptinám í öðru norrænu landi. Auðveldara þarf að vera að bera saman nám og finna nauðsynleg viðbótarnámskeið, í þeim tilvikum þar sem ekki er hægt að samhæfa námið.

Samstarf um ferðaþjónustu.
    Kórónukreppan hefur bitnað illa á ferðaþjónustugreinum. Norðurlönd eru 11. stærsti áfangastaður ferðamanna í heimi mælt í fjölda erlendra gesta, sem heimsækja mörg lönd í tengslum við ferðalag sitt, sbr. skýrsluna um norrænt samstarf í ferðaþjónustu sem var gefin út á vegum síðustu formennskuáætlunar Danmerkur í Norðurlandaráði. Verkefnið snýst um að koma rækilega á framfæri öllu því sem Norðurlöndin hafa upp á að bjóða á sviði náttúru, matargerðarlistar, menningar, lýðræðis, velferðar, sjálfbærni, jafnréttis, lífshátta m.m., sem margir kannast við úr þekktum norrænum kvikmyndum og þáttaröðum.