Ferill 213. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 643  —  213. mál.




Svar


félags- og vinnumarkaðsráðherra við fyrirspurn frá Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur um áfrýjun dóms Landsréttar um útreikning sérstakrar framfærsluuppbótar.

     1.      Hverjar voru lagalegar og pólitískar forsendur þáverandi félagsmálaráðherra um áfrýjun dóms Landsréttar frá 1. október 2021 í máli nr. 536/2020, sem ríkið hafði tapað á báðum dómstigum, til Hæstaréttar?
    Ákvörðun þáverandi ráðherra félagsmála um að sækja um áfrýjunarleyfi til Hæstaréttar byggði á faglegri ráðgjöf sem fram kom í minnisblaði LEX lögmannsstofu til Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 5. október 2021. Forsendur ráðgjafar um að óska eftir áfrýjunarleyfi voru einkum þær að talið var nauðsynlegt að fá umfjöllun Hæstaréttar um greinarmun á annars vegar heimildarákvæðum til greiðslu, eins og raunin er í lögum um félagslega aðstoð, og hins vegar lagaákvæðum sem kveða á um rétt lífeyrisþega til tiltekinna greiðslna, líkt og kveðið er á um í lögum um almannatryggingar. Heimildarákvæðin hafa hingað til verið talin veita stjórnvöldum meira svigrúm til útfærslu í reglugerðum en ákvæði laga sem kveða á um rétt til tiltekinna greiðslna, sbr. dóm Hæstaréttar frá 8. október 2020 í máli nr. 13/2020.
    Einnig var talið rétt að leita úrlausnar Hæstaréttar um tilvísun Landsréttar til mismununar á grundvelli búsetu í skilningi 65. gr. stjórnarskrárinnar, ekki síst vegna þess að lífeyristryggingakerfið á Íslandi byggir að verulegu leyti á búsetu. Tilvísun í dómi Landsréttar til þess að mismunun á grundvelli búsetu sé óheimil var því talin vera á skjön við grundvöll almannatrygginga og félagslegs kerfis hér á landi og er auk þess ekki í samræmi við dóm Hæstaréttar frá 13. júní 2013 í máli nr. 61/2013, þar sem talið var að skerðing almannatryggingagreiðslna á grundvelli búsetuhlutfalls samrýmdist 65. gr. og 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar.

     2.      Hvaða ráðgjöf lá fyrir um áhrif niðurstöðu dóms Landsréttar, m.a. á réttindi lífeyrisþega?
    Fyrir lá framangreint minnisblað frá LEX lögmannsstofu, auk þess sem lá fyrir greining Tryggingastofnunar ríkisins á áætluðum fjárhagslegum áhrifum ríkissjóðs af dómnum, stæði hann óhaggaður.

     3.      Hversu margir einstaklingar hafa sætt skerðingum á svokallaði sérstakri framfærsluuppbót skv. 2. mgr. 9. gr. laga um félagslega aðstoð, nr. 99/2007, samkvæmt þessari framkvæmd laganna?
    Ekki liggur fyrir um hversu marga einstaklinga er að ræða í heild, en frá árinu 2012 hefur sá fjöldi sem hefur fengið sérstaka framfærsluuppbót greidda á grundvelli búsetuhlutfalls verið sem hér segir:


Ár Fjöldi lífeyrisþega með hlutfallslega framfærsluuppbót
2012 653
2013 754
2014 797
2015 806
2016 905
2017 1.020
2018 1.060
2019 1.379
2020 1.359

     4.      Deilir ráðherra þeirri sýn að forsendur séu fyrir því að ríkið láti reyna á málið á þriðja dómstigi?
    Þegar félags- og vinnumarkaðsráðherra tók við embætti hafði félags- og barnamálaráðherra þegar farið yfir þau sjónarmið sem fram komu í ofangreindu minnisblaði lögmannsstofunnar LEX og hafði fallist á að Tryggingastofnun myndi óska eftir leyfi til að áfrýja málinu til Hæstaréttar. Félags- og barnamálaráðherra hafði kynnt þá afstöðu sína á fundi ríkisstjórnar Íslands 26. október 2021. Félags- og vinnumarkaðsráðherra var kynnt málið og taldi ekki ástæðu til þess að endurskoða fyrri ákvörðun um áfrýjun málsins.

     5.      Mun ráðherra taka málið upp á vettvangi ríkisstjórnar að nýju?
    Eins og áður greinir kynnti félags- og barnamálaráðherra málið og afstöðu sína til þess á fundi ríkisstjórnar Íslands 26. október sl. og telur félags- og vinnumarkaðsráðherra ekki ástæðu til að taka þetta mál upp að nýju á vettvangi ríkisstjórnarinnar fyrr en dómur Hæstaréttar liggur fyrir.