Ferill 244. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 657  —  244. mál.
2. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um evrópska áhættufjármagnssjóði og evrópska félagslega framtakssjóði.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Elísabetu Júlíusdóttur frá fjármála- og efnahagsráðuneyti og Grím Sigurðarson og Gunnar Þór Ásgeirsson frá Seðlabanka Íslands.
    Umsögn barst frá Seðlabanka Íslands auk þess sem nefndinni barst minnisblað frá fjármála- og efnahagsráðuneyti.
    Með frumvarpinu er lagt til að innleidd verði í íslenskan rétt ákvæði reglugerða Evrópuþingsins og ráðsins um evrópska áhættufjármagnssjóði (ESB) nr. 345/2013 frá 17. apríl 2013 og um evrópska félagslega framtakssjóði (ESB) nr. 346/2013 frá 17. apríl 2013.
    Með gerðunum er kveðið á um skilyrði sem rekstraraðilar þurfa að uppfylla vilji þeir við markaðssetningu sérhæfðra sjóða innan EES nota heitið EuVECA yfir viðurkennda áhættufjármagnssjóði og EuSEF yfir viðurkennda félagslega framtakssjóði. Þau skilyrði varða meðal annars samsetningu eignasafns, þ.e. fjárfestingarheimildir sjóðanna, fjárfestingarmarkmið og flokka fjárfesta sem eru hæfir til að fjárfesta í þeim.
    Í umsögn Seðlabanka Íslands eru lagðar til breytingar sem eru tæknilegs eðlis. Nefndin óskaði eftir afstöðu ráðuneytisins til umsagnarinnar. Nefndin leggur til breytingar í samræmi við umsögn Seðlabanka Íslands og tillögur í minnisblaði ráðuneytisins. Auk nokkurra annarra tæknilegra breytinga leggur nefndin til að gildistaka frumvarpsins miðist við 1. maí 2022.
    Með vísan til framangreinds leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      4. mgr. 2. gr. falli brott.
     2.      Við 4. gr. bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                 Seðlabanki Íslands er lögbært yfirvald hér á landi í skilningi reglugerðar (ESB) nr. 345/2013 og reglugerðar (ESB) nr. 346/2013.
     3.      5. tölul. 1. mgr. 5. gr. falli brott.
     4.      Við 8. gr.
                  a.      Í stað orðsins „áhættufjármagnssjóði“ í 1. og 2. tölul. 2. mgr. komi: félagslegum framtakssjóði.
                  b.      6. mgr. falli brott.
     5.      Við 10. gr.
                  a.      Orðin „og eignum“ í c-lið falli brott.
                  b.      Við f-lið bætist: hvort um ítrekað brot er að ræða og.
     6.      Í stað orðanna „þau eru skuldbundin til“ í 3. tölul. 2. mgr. 16. gr. komi: þeir eru skuldbundnir til að ná.
     7.      Í stað orðanna „1.–3. mgr. þessarar greinar“ í 3. mgr. 17. gr. komi: 2. gr.
     8.      Í stað dagsetningarinnar „1. mars 2022“ í 18. gr. komi: 1. maí 2022.

    Þórhildur Sunna Ævarsdóttir og Guðbrandur Einarsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 10. mars 2022.

Guðrún Hafsteinsdóttir,
form., frsm.
Ágúst Bjarni Garðarsson. Ásthildur Lóa Þórsdóttir.
Diljá Mist Einarsdóttir. Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir. Jóhann Páll Jóhannsson.
Eva Dögg Davíðsdóttir.