Ferill 482. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 695  —  482. mál.
Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um atvinnuréttindi útlendinga, nr. 97/2002 (einstaklingar sem flytjast til innan viðskiptafyrirtækis).

Frá félags- og vinnumarkaðsráðherra.



1. gr.

    Á eftir 3. mgr. 8. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
    Vinnumálastofnun er heimilt að víkja frá skilyrði a-liðar 1. mgr. 7. gr., sbr. a-lið 1. mgr., þegar atvinnurekandi sendir starfsmann sinn tímabundið til starfa við starfsstöð sína hér á landi enda sé um að ræða starfsmann atvinnurekanda með ótímabundna ráðningu sem sérfræðingur við starfsstöð hans erlendis. Ef um er að ræða starfsmann atvinnurekanda með ótímabundna ráðningu sem stjórnandi við starfsstöð atvinnurekanda erlendis er Vinnumálastofnun heimilt að víkja frá skilyrðum a-liðar 1. mgr. 7. gr., sbr. a-lið 1. mgr., sem og b–d-lið 1. mgr. Vinnumálastofnun óskar eftir rökstuðningi atvinnurekanda varðandi nauðsyn þess að viðkomandi útlendingur komi til starfa við starfsstöð hans hér á landi telji stofnunin slíkt nauðsynlegt.

2. gr.

    2. mgr. 9. gr. laganna fellur brott.

3. gr.

    Tilvísunin „2. mgr. 9. gr.“ í 1. málsl. 2. mgr. 19. gr. laganna fellur brott.

4. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarp þetta, sem samið er í félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu, kveður á um breytingar á lögum um atvinnuréttindi útlendinga. Efni frumvarpsins var áður lagt fram með frumvarpi dómsmálaráðherra á 151. löggjafarþingi (þskj. 1029, 602. mál) en Alþingi lauk þó ekki efnislegri afgreiðslu þess frumvarps á því löggjafarþingi.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Hinn 8. júlí 2021 undirritaði utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra fyrir Íslands hönd nýjan fríverslunarsamning við Bretland en formlegar samningaviðræður stóðu yfir frá september 2020 til júní 2021. Í tillögu frá utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra til þingsályktunar um fullgildingu fríverslunarsamnings Íslands, Konungsríkisins Noregs og Furstadæmisins Liechtenstein og Sameinaða konungsríkisins Stóra-Bretlands og Norður-Írlands (152. löggjafarþing, þskj. 259, 206. mál) eru listaðar upp nauðsynlegar lagabreytingar vegna fríverslunarsamnings og annarra samninga við Bretland vegna útgöngu þess úr ESB og EES. Þar kemur meðal annars fram að vegna fríverslunarsamnings og annarra samninga Íslands við Bretland sé nauðsynlegt að gera breytingar á lögum um atvinnuréttindi útlendinga sem kveði á um að nánustu aðstandendum þjónustuveitenda sem starfi tímabundið á Íslandi verði gert kleift að sækja um dvalar- og atvinnuleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar.
    Með frumvarpi þessu eru lagðar til þær breytingar á lögum um atvinnuréttindi útlendinga sem nauðsynlegar þykja vegna framangreinds fríverslunarsamningsins við Bretland og vísað er til í framangreindri þingsályktunartillögu.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar hvað varðar veitingu tímabundinna atvinnuleyfa til einstaklinga sem flytjast til innan viðskiptafyrirtækis með starfsstöð hér á landi. Lagt er til að á grundvelli 8. gr. laganna, þar sem fjallað er um heimild Vinnumálastofnunar til veitingar tímabundinna atvinnuleyfa vegna starfa sem krefjast sérfræðiþekkingar, verði heimilt að veita tímabundin atvinnuleyfi starfsmönnum með ótímabundna ráðningu sem stjórnendur eða sérfræðingar við starfstöð atvinnurekanda erlendis sem atvinnurekandi sendir tímabundið til starfa við starfsstöð sína hér á landi. Samkvæmt gildandi lögum er heimilt að veita slíkum starfsmönnum tímabundin atvinnuleyfi á grundvelli 9. gr. laganna þar sem kveðið er á um heimild Vinnumálastofnunar til að veita tímabundin atvinnuleyfi vegna skorts á starfsfólki, að uppfylltum nánar tilteknum skilyrðum.
    Er þetta lagt til þannig að tryggt verði að framangreindir starfsmenn njóti sömu réttinda og þeir sem fá veitt tímabundin atvinnuleyfi á grundvelli 8. gr. gildandi laga um atvinnuréttindi útlendinga. Með sömu réttindum er meðal annars átt við að heimilt verði að veita nánustu aðstandendum hlutaðeigandi starfsmanna dvalar- og atvinnuleyfi hér á landi á grundvelli fjölskyldusameiningar en slíkt er ekki heimilt hvað varðar aðstandendur þeirra sem fá veitt tímabundin atvinnuleyfi á grundvelli 9. gr. laganna. Þá er jafnframt heimilt að veita tímabundin atvinnuleyfi á grundvelli 8. gr. laganna til lengri tíma en heimilt er á grundvelli 9. gr. laganna.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Með frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar sem nauðsynlegar eru vegna fríverslunarsamnings Íslands, Konungsríkisins Noregs og Furstadæmisins Liechtenstein og Sameinaða konungsríkisins Stóra-Bretlands og Norður-Írlands sem undirritaður var 8. júlí 2021. Markmið frumvarpsins er þannig að uppfylla skuldbindingar sem stjórnvöld hafa undirgengist með þjóðréttarsamningi.
    Efni frumvarpsins gefur ekki sérstakt tilefni til mats á samræmi við ákvæði stjórnarskrár.

5. Samráð.
    Frumvarpið er samið í félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu. Við vinnslu frumvarpsins var haft samráð við utanríkisráðuneyti, dómsmálaráðuneyti og Vinnumálastofnun.
    Þær breytingar sem lagðar eru til voru hluti af frumvarpi dómsmálaráðherra sem lagt var fram á 151. löggjafarþingi (þskj. 1029, 602. mál) en Alþingi lauk þó ekki efnislegri afgreiðslu þess frumvarps á því löggjafarþingi. Drög að framangreindu frumvarpi dómsmálaráðherra voru kynnt í samráðsgátt stjórnvalda á vefnum Ísland.is (mál nr. S-51/2019) og almenningi gefinn kostur á að koma með athugasemdir eða ábendingar. Hvorki bárust athugasemdir né ábendingar í framgreindu samráði í samráðsgátt stjórnvalda sem vörðuðu þær breytingar sem lagðar eru til með frumvarpi þessu.

6. Mat á áhrifum.
    Ekki þykir fyrirséð að efni frumvarpsins muni hafa fjárhagsáhrif fyrir ríkissjóðs, svo sem rekstraráhrif eða áhrif á efnahagsreikning ríkisins, verði frumvarpið óbreytt að lögum.
    Lögfesting frumvarpsins mun fyrst og fremst hafa áhrif á tiltekna starfsmenn sem er óheimilt að ráða sig til starfa hér á landi án þessa að hafa áður fengið veitt atvinnuleyfi hérlendis og sendir eru tímabundið til starfa við starfsstöð atvinnurekanda hérlendis og nánustu aðstandendur þeirra þar sem tímabundið atvinnuleyfi á grundvelli 8. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga veitir meiri réttindi en tímabundið atvinnuleyfi á grundvelli 9. gr. laganna.
    Afar fá tímabundin atvinnuleyfi hafa verið veitt á grundvelli 2. mgr. 9. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga undanfarin ár og þykir því hvorki unnt að draga ályktanir af þeim leyfisveitingum hvað varðar áhrif frumvarpsins á jafnrétti né stöðu kynjanna á vinnumarkaði.

Um einstakar greinar frumvarpsins.
Um 1. gr.

    Í 8. gr. laganna er kveðið á um heimild Vinnumálastofnunar til að veita tímabundið atvinnuleyfi vegna tiltekins starfs hér á landi sem krefst sérfræðiþekkingar.
    Hér er lagt til að í nýrri 4. mgr. 8. gr. laganna verði kveðið á um heimild Vinnumálastofnunar til að víkja frá skilyrði a-liðar 1. mgr. 7. gr. laganna þegar atvinnurekandi sendir starfsmann sinn tímabundið til starfa við starfsstöð sína hér á landi enda sé um að ræða starfsmann atvinnurekanda með ótímabundna ráðningu sem sérfræðingur við starfsstöð hans erlendis. Í framangreindum a-lið 1. mgr. 7. gr. laganna er kveðið á um að það sé skilyrði fyrir veitingu tímabundinna atvinnuleyfa að starfsfólk fáist hvorki á innlendum vinnumarkaði né innan Evrópska efnahagssvæðisins, í EFTA-ríkjum eða í Færeyjum, eða aðrar sérstakar ástæður mæli með leyfisveitingu. Þar er jafnframt kveðið á um að áður en leyfi er veitt beri atvinnurekanda að hafa leitað eftir starfsfólki með aðstoð Vinnumálastofnunar, nema slík leit verði fyrirsjáanlega árangurslaus að mati stofnunarinnar.
    Einnig er lagt til að í þeim tilvikum þar sem um er að ræða starfsmann atvinnurekanda með ótímabundna ráðningu sem stjórnandi við starfsstöð atvinnurekanda erlendis verði Vinnumálastofnun heimilt að víkja frá skilyrðum a-liðar 1. mgr. 7. gr. sem og b–d-lið 1. mgr. 8. gr. laganna. Skv. b–d-lið 1. mgr. 8. gr. laganna er skilyrði fyrir veitingu tímabundins atvinnuleyfis á grundvelli ákvæðisins að útlendingur hafi gert ráðningarsamning við atvinnurekanda um að gegna tilteknu starfi sem samkvæmt lögum eða venju hér á landi er þess eðlis að það krefst þess að sá sem því gegnir búi yfir tiltekinni sérfræðiþekkingu, sem sé nauðsynleg hlutaðeigandi fyrirtæki og feli í sér háskóla-, iðn-, list- eða tæknimenntun sem viðurkennd er hér á landi. Áfram er gert ráð fyrir að Vinnumálastofnun óski eftir rökstuðningi atvinnurekanda varðandi nauðsyn þess að viðkomandi útlendingur komi til starfa við starfsstöð hans hér á landi, telji stofnunin slíkt nauðsynlegt, sbr. 2. mgr. 9. gr. gildandi laga um atvinnuréttindi útlendinga.
    Þetta er lagt til þannig að tryggt verði að framangreindir einstaklingar njóti sömu réttinda og þeir sem fá veitt tímabundin atvinnuleyfi á grundvelli 8. gr. gildandi laga um atvinnuréttindi útlendinga, meðal annars hvað varðar möguleika nánustu aðstandenda hlutaðeigandi starfsmanna til þess að fá veitt dvalar- og atvinnuleyfi hér á landi á grundvelli fjölskyldusameiningar.
    Samkvæmt gildandi lögum er heimilt að veita umræddum starfsmönnum tímabundin atvinnuleyfi á grundvelli 9. gr. laganna, þar sem kveðið er á um heimild Vinnumálastofnunar til að veita tímabundin atvinnuleyfi vegna skorts á starfsfólki, að uppfylltum nánar tilteknum skilyrðum. Í ljósi fríverslunarsamnings Íslands við Bretland vegna útgöngu Bretlands úr ESB og EES þykir hins vegar nauðsynlegt að leggja til umræddar breytingar á lögum um atvinnuréttindi útlendinga.

Um 2. gr.

    Hér er lagt til að 2. mgr. 9. gr. laganna falli brott í samræmi við þær breytingar á lögunum sem lagðar eru til í 1. gr. frumvarpsins.

Um 3. gr.

    Í 19. gr. laganna er kveðið á um meðferð umsóknar um atvinnuleyfi. Hér er lagt til að ekki verði lengur vísað til 2. mgr. 9. gr. í 1. málsl. 2. mgr. ákvæðisins til samræmis við þær breytingar sem lagðar eru til í 1. og 2. gr. frumvarpsins.

Um 4. gr.

    Ákvæðið þarfnast ekki skýringa.