Ferill 322. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 708  —  322. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Njáli Trausta Friðbertssyni um kostnað ríkisins vegna sýnatöku vegna heimsfaraldurs COVID-19.


    Heilbrigðisráðuneytið sendi fyrirspurn til eftirtalinna stofnana um kostnað ríkisins vegna sýnatöku vegna heimsfaraldurs COVID-19: Landspítala, Sjúkrahússins á Akureyri, Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, Heilbrigðisstofnunar Vesturlands, Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða, Heilbrigðisstofnunar Norðurlands, Heilbrigðisstofnunar Austurlands, Heilbrigðisstofnunar Suðurlands, Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja, embættis landlæknis og Sjúkratrygginga Íslands. Svör bárust frá öllum framangreindum stofnunum.

     1.      Hver er kostnaður ríkisins vegna sýnatökupinna að meðaltali frá því að faraldurinn hófst, fyrir PCR-próf annars vegar og hraðpróf hins vegar?
    Heilbrigðisstofnanir sendu ráðuneytinu upplýsingar um meðaltalskostnað við hvert PCR-próf annars vegar og hraðpróf hins vegar. Samantekið hefur kostnaður ríkisins vegna sýnatökupinna frá því að faraldurinn hófst verið 369 krónur fyrir hvert PCR-próf að meðaltali. Kostnaður fyrir hvert hraðpróf hefur verið 1.685 kr. að meðaltali fyrir hvert próf.

     2.      Hver er heildarkostnaður ríkisins vegna sýnatökupinna frá því að faraldurinn hófst, fyrir PCR-próf annars vegar og hraðpróf hins vegar?
    Samkvæmt upplýsingum sem bárust frá heilbrigðisstofnunum hefur heildarkostnaður ríkisins vegna sýnatökupinna frá því að faraldurinn hófst verið 615.005.440 kr. fyrir PCR-próf annars vegar og 389.413.072 fyrir hraðpróf hins vegar.

     3.      Hver er heildarkostnaður ríkisins vegna sýnatöku vegna COVID-19 frá því að faraldurinn hófst?
    Samkvæmt upplýsingum sem bárust frá stofnunum hefur heildarkostnaður ríkisins vegna sýnatöku vegna COVID-19 frá því að faraldurinn hófst verið 11.402.028.951 kr.