Ferill 503. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 720  —  503. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um fjárstuðning við Alþjóðlega sakamáladómstólinn vegna ætlaðra stríðsglæpa rússneska innrásarhersins í Úkraínu.


Flm.: Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, Guðbrandur Einarsson, Sigmar Guðmundsson, Þorgerður K. Gunnarsdóttir, Dagbjartur Gunnar Lúðvíksson, Gísli Rafn Ólafsson, Andrés Ingi Jónsson, Björn Leví Gunnarsson, Helga Vala Helgadóttir, Jóhann Páll Jóhannsson, Kristrún Frostadóttir, Logi Einarsson, Viktor Stefán Pálsson, Þórunn Sveinbjarnardóttir, Halldóra Mogensen, Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, Njáll Trausti Friðbertsson, Diljá Mist Einarsdóttir, Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Jakob Frímann Magnússon, Eyjólfur Ármannsson, Kolbrún Baldursdóttir, Jónína Björk Óskarsdóttir, Helga Þórðardóttir, Bergþór Ólason, Ágúst Bjarni Garðarsson, Þórarinn Ingi Pétursson, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Orri Páll Jóhannsson.


    Alþingi ályktar að fela utanríkisráðherra að veita 10 millj. kr. framlag til Alþjóðlega sakamáladómstólsins í Haag vegna innrásar Rússlands í Úkraínu. Með því sýni íslensk stjórnvöld einarða afstöðu sína gegn stríðsglæpum og styðji viðbrögð alþjóðasamfélagsins við þeim.

Greinargerð.

    Innrás Rússlands í Úkraínu og það stríð sem nú stendur yfir hefur kallað fram sterka samstöðu í Evrópu allri og víða um heim. Innrásin hefur verið fordæmd og sú afstaða sýnd í verki með áður óþekktum efnahagsaðgerðum og öðrum þvingunaraðgerðum. Evrópusambandið tilkynnti jafnframt að það myndi hefja vopnaflutninga til Úkraínu en það er í fyrsta sinn í sögu sambandsins sem slík ákvörðun er tekin. Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, sagði þá ákvörðun marka vatnaskil í baráttunni við Rússa.
    Stríðið hefur opnað augu Evrópu á ný fyrir hörmungum stríðsreksturs og stríðsglæpa. Stjórnvöld í Úkraínu hafa kallað eftir því að sprengjuárásir á borgir í Úkraínu verði rannsakaðar sem stríðsglæpir. Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, hefur sagt sannanir fyrir því að klasasprengjum hafi verið beitt af hálfu rússneska innrásarhersins. Notkun slíkra vopna er bönnuð samkvæmt Genfarsamningunum. Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar ESB, hefur sagt að sprengjuárásir á fæðingarspítalann í Maríúpol séu grimmdarverk og kallað eftir því að stríðsglæpir Rússa verði rannsakaðir. Síðast en ekki síst hefur Karim A.A. Khan, saksóknari við Alþjóðlega sakamáladómstólinn, sagt ástæðu til að ætla að stríðsglæpir hafi verið framdir af hálfu rússneska hersins í Úkraínu. Hinn 28. febrúar lýsti saksóknarinn því yfir að hann hefði ákveðið að hefja rannsókn vegna stöðunnar og ætlaðra brota í Úkraínu. Hinn 2. mars höfðu 39 aðildarríki, með því að vísa aðstæðum til saksóknara, lýst yfir vilja til slíkrar rannsóknar og þannig veitt saksóknara við dómstólinn heimild til að hefja rannsókn og gagnaöflun þá þegar. Ísland var þar á meðal. Þessi samstaða er án fordæma af hálfu aðildarríkja dómstólsins.
    Lagt er til að Ísland beiti rödd sinni með því að veita nú sérstakt fjárframlag til dómstólsins í tilefni af þessari rannsókn. Þar með getur Ísland sýnt stuðning við dómstólinn í verki og þau gildi sem hann stendur fyrir. Litháen hefur lýst yfir að ríkið ætli að leggja til sérstakt fjárframlag í þágu þessarar rannsóknar sem nemur um 15 millj. kr. Samhliða hefur Litháen biðlað til annarra ríkja um að gera slíkt hið sama. Hafa ráðamenn í Bretlandi gefið vilyrði fyrir sérstökum fjárframlögum og öðrum stuðningi við rannsókn dómstólsins. Ljóst er að frjáls framlög ríkja í þágu þessa verkefnis eru mikilvægur liður í stuðningi við Úkraínu og til marks um þá afstöðu að stríðsglæpir og glæpir gegn mannúð verði ekki liðnir og að þeir sem fremja slíka glæpi sæti ábyrgð. Saksóknari við dómstólinn hefur biðlað til aðildarríkja að styðja við rannsóknina með fjárframlögum. Saksóknari hefur lagt áherslu á þau augljósu sannindi og reglur að það sé glæpur ef árásum er vísvitandi beint að óbreyttum borgurum.
    Alþjóðlegi sakamáladómstóllinn (e. International Criminal Court, ICC) er sjálfstæð alþjóðastofnun með aðalstöðvar í Haag. Dómstóllinn er fyrsti varanlegi alþjóðlegi sakamáladómstóllinn sem stofnaður var til þess að taka á alvarlegum brotum sem varða alþjóðasamfélagið. Dómstóllinn rekur upphaf sitt til 7. júlí 1998 þegar samkomulag 120 ríkja náðist um Rómarsamþykktina svokölluðu, sem er stofnskjal Alþjóðlega sakamáladómstólsins. Rómarsamþykktin tók gildi 1. júlí 2002 þegar 60 ríki höfðu fullgilt hana. Ísland varð tíunda ríkið til þess að fullgilda samþykktina.
    Af hálfu Íslands hefur verið lögð áhersla á mikilvægi dómstólsins. Eitt meginmarkmið hans er að þeir aðilar sem gerast sekir um alvarlegustu glæpina gegn almennum borgurum sæti ábyrgð. Samkvæmt ákvæðum Rómarsamþykktarinnar falla undir lögsögu dómstólsins stríðsglæpir, hópmorð, glæpir gegn mannúð og glæpir gegn friði. Ísland hefur unnið að því með öðrum ríkjum að styðja dómstólinn og hið mikilvæga starf sem unnið er í hans nafni.
    Skilgreiningar á hópmorði, brotum gegn mannúð og stríðsglæpum urðu til á 20. öld. Nürnberg- og Tókýó-dómstólarnir fjölluðu um þessi brot í kjölfar seinni heimsstyrjaldar. Á 10. áratug síðustu aldar voru stofnaðir alþjóðlegir sakamáladómstólar fyrir fyrrverandi Júgóslavíu (ICTY) og fyrir Rúanda (ICTR) í kjölfar stríða og skelfilegra stríðsglæpa þar. Hinn 17. júlí 1998 náðist, eins og áður segir, samkomulag 120 ríkja um Rómarsamþykktina, stofnskjal Alþjóðlega sakamáladómstólsins.
    Nú er að mati flutningsmanna ríkt tilefni fyrir Ísland til að stíga mikilvægt skref með því að leggja fram sérstakan fjárstuðning til að styðja við rannsókn þá sem hafin er á ætluðum brotum rússneska hersins í Úkraínu. Með því getur fámenn þjóð sýnt sterka afstöðu með grundvallarréttindum hins almenna borgara á alþjóðavísu og um leið sýnt afdráttarlaust í verki hver afstaða íslenska ríkisins er til innrásarinnar. Í 116. gr. Rómarsamþykktarinnar segir að dómstóllinn geti tekið við og notað sem viðbótarsjóði frjáls framlög frá ríkisstjórnum, alþjóðastofnunum, einstaklingum, fyrirtækjum og öðrum aðilum, í samræmi við viðeigandi viðmið sem þing aðildarríkjanna hefur samþykkt. Dómstóllinn er fjármagnaður bæði af aðildarríkjum stofnsamningsins og frjálsum framlögum frá ríkjum, alþjóðastofnunum, einstaklingum, fyrirtækjum og öðrum aðilum. Gert er ráð fyrir að fjárhæðin rúmist innan þess ramma sem ætlaður er ráðuneytinu í fjárlögum.
    Fjárhagslegt framlag til dómstólsins af hálfu Íslands vegna þeirrar rannsóknar sem nú stendur yfir er að mati flutningsmanna mikilvægt í þeim tilgangi að fjármagna slíka rannsókn og um leið mikilvægur stuðningur við þau grundvallargildi sem liggja að baki stofnun dómstólsins. Framlag sýnir jafnframt í verki stuðning við þá hugmyndafræði að glæpir í stríði verði ekki liðnir og að þeir sem fremja slík brot sæti ábyrgð af hálfu alþjóðasamfélagsins. Fámenn þjóð eins og Ísland getur með þessu lagt lóð á vogarskálarnar með það að leiðarljósi að þeir sem brjóta gegn almennum borgurum í stríði sæti refsiábyrgð.