Ferill 525. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Prentað upp.

Þingskjal 753  —  525. mál.
Flutningsmenn.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um mannanöfn (kynhlutlaus foreldrisnöfn).

Flm.: Andrés Ingi Jónsson, Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, Björn Leví Gunnarsson, Gísli Rafn Ólafsson, Hanna Katrín Friðriksson, Helga Vala Helgadóttir, Jakob Frímann Magnússon, Jóhann Páll Jóhannsson, Lenya Rún Taha Karim, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir.


1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 8. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „föður- eða móðurnöfn“ í 1. mgr. kemur: foreldrisnöfn.
     b.      Í stað orðanna „föður- eða móður“ í 1. og 2. málsl. 2. mgr. kemur: foreldris.
     c.      Í stað orðsins „föður“ í 3. málsl. 2. mgr. kemur: foreldris.
     d.      Í stað orðanna „afa síns“ í 4. málsl. 2. mgr. kemur: foreldris foreldris síns.
     e.      3. mgr. orðast svo:
                  Foreldrisnöfn eru mynduð þannig að á eftir eiginnafni eða eiginnöfnum og millinafni, ef því er að skipta, kemur nafn foreldris í eignarfalli með eða án viðbótarinnar son, dóttir eða bur.
     f.      Orðin „hvort heldur er í karllegg eða kvenlegg“ í 5. mgr. falla brott.
     g.      Í stað orðanna „föður eða móður“ í 6. mgr. kemur: foreldris.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Með frumvarpi þessu er lagt til að kynskráning einstaklings hafi ekki áhrif á það hvers konar kenninöfn hann má velja sér.
    Með lögum um kynrænt sjálfræði voru gerðar tvær hliðstæðar grundvallarbreytingar á lögum um mannanöfn.
    Annars vegar var fellt brott ákvæði 5. gr. sem kvað á um að stúlku skyldi gefa kvenmannsnafn og dreng karlmannsnafn. Samkvæmt greinargerð þótti eðlilegt í ljósi breyttra viðhorfa og efnis frumvarps um kynrænt sjálfræði að fella brott ákvæði sem byggðist alfarið á tvíhyggju um kyn.
    Hins vegar bættist nýr málsliður við 8. gr. sem heimilar einstaklingum með hlutlausa kynskráningu í þjóðskrá að nota föður- eða móðurnafn, þ.e. nafn föður eða móður í eignarfalli án viðbótarinnar -son eða -dóttir eða með viðbótinni -bur.
    Það orkar tvímælis að á sama tíma og krafa um kynjaskipt eiginnöfn var fjarlægð úr mannanafnalögum hafi slíkt hið sama ekki verið gert gagnvart kenninöfnum – heldur hafi þar tvíhyggju um kyn einungis verið skipt út fyrir eitthvað sem kalla mætti þríhyggju. Núverandi fyrirkomulag stendur í vegi fyrir því að hluti kynsegin fólks geti nýtt rétt sinn til að breyta eftirnafni, ef það t.d. velur að breyta ekki opinberri kynskráningu til að lenda síður í áreitni á ferðalögum. Því er hér lagt til að allar útgáfur kenninafna sem gildandi lög heimila standi einstaklingum til boða óháð kynskráningu viðkomandi.