Ferill 272. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 766  —  272. mál.
2. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um stéttarfélög og vinnudeilur, nr. 80/1938 (Félagsdómur).

Frá meiri hluta velferðarnefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Benedikt Baldur Tryggvason og Jón Þór Þorvaldsson frá félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu, Halldór Oddsson frá Alþýðusambandi Íslands og Þyrí Steingrímsdóttur frá Lögmannafélagi Íslands.
    Nefndinni bárust umsagnir um málið frá JS lögmannsstofu ehf., Lögmannafélagi Íslands, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Samtökum atvinnulífsins.
    Frumvarpið er endurflutt, sbr. 159. mál á 151. þingi.

Almennt.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á fyrirkomulagi og tilhögun skipunar dómara í Félagsdóm. Breytingarnar eru m.a. lagðar til í því skyni að bregðast við athugasemdum ríkjahóps Evrópuráðsins gegn spillingu (GRECO). Í frumvarpinu er lagt til að ráðherra skipi fimm dómara í Félagsdóm. Þá er lagt til að Hæstiréttur tilnefni þrjá dómara, þar af forseta og varaforseta dómsins, sem skuli allir vera skipaðir ótímabundið. Hæstiréttur tilnefni svo tvo dómara til vara sem báðir skuli skipaðir ótímabundið. Að lokum er lagt til að tveir dómarar og jafnmargir til vara skuli tilnefndir af Samtökum atvinnulífsins annars vegar og Alþýðusambandi Íslands hins vegar sem skuli skipaðir til þriggja ára í senn.
    Í frumvarpinu eru einnig gerð frekari hæfisskilyrði til dómara við Félagsdóm en eru samkvæmt gildandi lögum. Gert er ráð fyrir að þeir dómarar sem ráðherra skipar í Félagsdóm samkvæmt tilnefningu Hæstaréttar skuli vera skipaðir dómarar við Landsrétt eða héraðsdómstól á meðan þeir gegna embætti dómara við Félagsdóm. Þá er lagt til að þeir dómarar sem ráðherra skipar í Félagsdóm samkvæmt tilnefningum Samtaka atvinnulífsins og Alþýðusambands Íslands skuli uppfylla hæfisskilyrði 2.–6. tölul. 2. mgr. 29. gr. laga um dómstóla, nr. 50/2016.

Umfjöllun nefndarinnar.
    Meiri hlutinn bendir á að frumvarpið var unnið í miklu samráði við aðila vinnumarkaðarins undir yfirumsjón sérfræðinga í ráðuneytinu.
    Umsagnaraðilar gagnrýna það fyrirkomulag að þrír skipaðir dómarar af fimm skuli koma úr röðum embættisdómara. Umsagnaraðilar telja það útiloka aðra hæfa lögfræðinga til setu í dóminum, þ.m.t. lögmenn, prófessora og fræðimenn. Telja umsagnaraðilar vænlegra að gera sömu hæfisskilyrði til dómara við Félagsdóm og til dómara við Landsrétt eða héraðsdóm án þess að gera það að skilyrði að dómarar skuli koma úr þeirra röðum. Meiri hlutinn bendir á að tveir dómarar við Félagsdóm þurfa ekki að koma úr röðum embættisdómara. Þar sé því tækifæri fyrir aðra sérfræðinga til setu í dóminum og telur meiri hlutinn ekki þörf á breytingum á því fyrirkomulagi.
    Þá gagnrýna umsagnaraðilar það fyrirkomulag að dómarar sem tilnefndir verða af Hæstarétti Íslands verði skipaðir ótímabundið en aðrir dómarar einungis til þriggja ára í senn. Telja þeir þetta geta leitt til þess að vægi ótímabundinna dómara verði metið meira en hinna við úrlausn mála. Telja umsagnaraðilar að skipunartími allra dómara skuli vera hinn sami.
    Með vísan til umsagna aðila vinnumarkaðarins ítrekar meiri hlutinn þá miklu samstöðu sem var um frumvarpið í nefnd ráðherra sem skipuð var af aðilum vinnumarkaðarins, þ.e. þeim aðilum sem leggja ágreining fyrir Félagsdóm. Þar var samhljóma niðurstaða að skipan Félagsdóms skyldi vera með framangreindum hætti og var ekki talið tilefni til að leggja til breytingar vegna þessa. Jafnframt hafði meiri hlutinn samráð við dómsmálaráðuneytið sem gerði ekki athugasemdir við fyrirkomulagið.

Breytingartillögur meiri hlutans.
    Meiri hlutinn gerir nokkrar breytingartillögur sem eru tæknilegs eðlis og ekki ætlað að hafa efnisleg áhrif.
    Að framangreindu virtu leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      6. gr. orðist svo:
                 Eftirfarandi breytingar verða á 45. gr. laganna:
                  a.      Í stað „aðiljar“ í 3. málsl. 1. mgr. og „aðilja“ í 1. málsl. 2. mgr. kemur: aðilar; og: aðila.
                  b.      Í stað orðsins „formann“ í 2. málsl. 2. mgr. kemur: forseta.
     2.      Á eftir 8. gr. komi ný grein, svohljóðandi:
                 Í stað orðsins „Formaður“ í 49. og 68. gr. laganna kemur: Forseti.
     3.      9. gr. orðist svo:
                 Eftirfarandi breytingar verða á 50. gr. laganna:
                  a.      Í stað orðsins „Formaður“ í 1. og 4. málsl. kemur: Forseti.
                  b.      Í stað „aðilja“ í 2. málsl. kemur: aðila.
                  c.      Við bætast tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
                      Forseti ákveður stefnufrest, m.a. með hliðsjón af því hvort flýta þurfi rekstri máls.
                      Stefnandi sér um birtingu og skal stefna birt af stefnuvotti á venjulegan hátt.
     4.      Á eftir 16. gr. komi ný grein, svohljóðandi:
                 Í stað „aðilja“ í 1. mgr. 63. gr. og 1. mgr. 65. gr. laganna kemur: aðila.
     5.      17. gr. orðist svo:
                 Eftirfarandi breytingar verða á 64. gr. laganna:
                  a.      Í stað orðsins „formanns“ í 2. málsl. 1. mgr. kemur: forseta.
                  b.      2. mgr. orðast svo:
                      Félagsdómur skal kveða upp dóm svo fljótt sem þörf krefur, að teknu tilliti til þeirra hagsmuna sem eru í húfi hverju sinni. Hafi mál verið höfðað til að fá skorið úr um lögmæti boðaðrar vinnustöðvunar skal dómur kveðinn upp áður en fyrirhuguð vinnustöðvun hefst.

    Óli Björn Kárason ritar undir álit þetta með fyrirvara um að til að tryggja jafnræði og jafna stöðu dómara færi betur á því að skipunartími allra dómara væri jafn, samkvæmt heimild í 2. mgr. 28. gr. starfsreglna fastanefnda Alþingis, sbr. 1. mgr. 29. gr. laga um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991.
    Guðrún Hafsteinsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins en ritar undir álit þetta samkvæmt heimild í 4. mgr. 28. gr. starfsreglna fastanefnda Alþingis, sbr. 2. mgr. 29. gr. laga um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991.

Alþingi, 28. mars 2022.

Líneik Anna Sævarsdóttir,
form.
Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir,
frsm.
Ásmundur Friðriksson.
Guðmundur Ingi Kristinsson. Guðrún Hafsteinsdóttir. Jódís Skúladóttir.
Oddný G. Harðardóttir. Óli Björn Kárason,
með fyrirvara.