Ferill 580. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 821  —  580. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um stjórnmálasamband við Konungsríkið Bútan.


Flm.: Gísli Rafn Ólafsson, Björn Leví Gunnarsson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Lenya Rún Taha Karim, Orri Páll Jóhannsson, Tómas A. Tómasson, Þórunn Sveinbjarnardóttir.


    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að taka upp stjórnmálasamband við Konungsríkið Bútan.

Greinargerð.

    Bútan er lítið landlukt land í Suður-Asíu. Það liggur í austanverðum Himalajafjöllum milli Indlands og Kína. Í vestri skilur indverska héraðið Sikkím landið frá Nepal og í suðri skilja indversku héruðin Assam og Vestur-Bengal það frá Bangladess. Í Bútan búa um 750.000 manns á landsvæði sem er rúmir 38.000 km2.
    Bútan er það Suður-Asíuland sem situr hæst á listum um viðskiptafrelsi, skilvirkni í viðskiptum og um frið. Það var minnst spillta landið í þessum heimshluta árið 2016. Bútan er enn meðal vanþróuðustu landa en búist er við að það komist af þeim lista árið 2022.
    Bútan hefur vakið alþjóðlega athygli fyrir að styðja það að „verg landshamingja“ verði notuð sem mælikvarði á velgengni ríkja í stað þess að einblínt sé á verga landsframleiðslu. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Íslands er hvatt til þess að Ísland verði meðal forysturíkja í þróun og eftirfylgni velsældarmælikvarða sem treysti stöðu landsins sem velsældarhagkerfis. Mikil tækifæri eru fólgin í því að læra af Bútönum og vinna með þeim að þróun slíkra velsældarmælikvarða.
    Bútan er eitt fjögurra aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna sem Ísland hefur ekki stjórnmálasamband við. Vatnsorka er ein helsta útflutningsafurð landsins og miklar gjaldeyristekjur fást af ferðamönnum. Ísland hefur þar snertiflöt við Bútan, þótt viðskipti milli landanna séu lítil. Auk þess munu bæði þessi smáríki verða fyrir áhrifum af örum loftslagsbreytingum og geta því lært hvort af öðru í þeim efnum, en Bútan varð til að mynda fyrst ríkja til að tryggja í stjórnarskrá að tiltekinn hluti landsins yrði skógi vaxinn.