Ferill 385. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 823  —  385. mál.
2. umræða.



Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um lýsingu verðbréfa sem boðin eru í almennu útboði eða tekin til viðskipta á skipulegum markaði, nr. 14/2020, og lögum um upplýsingaskyldu útgefenda verðbréfa og flöggunarskyldu, nr. 20/2021 (ESB-endurbótalýsing o.fl.).

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Benedikt Hallgrímsson frá fjármála- og efnahagsráðuneyti.
    Engar umsagnir bárust um málið.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um lýsingu verðbréfa sem boðin eru í almennu útboði eða tekin til viðskipta á skipulegum markaði, nr. 14/2020, sem fela í sér innleiðingu á reglugerð (ESB) 2021/337 frá 16. febrúar um breytingu á reglugerð (ESB) 2017/1129 að því er varðar ESB-endurbótalýsingu og markvissar aðlaganir fyrir fjármálamilliliði og tilskipun 2004/109/EB að því er varðar notkun á sameiginlega rafræna skýrslusniðinu fyrir árleg reikningsskil, til að stuðla að endurbótum í kjölfar COVID-19-hættuástandsins. Að auki eru lagðar til breytingar á lögum um upplýsingaskyldu útgefenda verðbréfa og flöggunarskyldu, nr. 20/2021, sem ætlað er að tryggja að hugtakanotkun og vísanir á milli laga samræmist lögum um markaði fyrir fjármálagerninga, nr. 115/2021.
    Þær breytingar sem lagðar eru til, og leiðir af reglugerðinni, snúa annars vegar að því að gefa lánastofnunum svigrúm til að styðja við fyrirtæki sem þurfa á fjármögnun að halda vegna efnahagsáhrifa heimsfaraldurs kórónuveiru. Hins vegar er kveðið á um nýtt, tímabundið og styttra form lýsingar, svokallaða ESB-endurbótalýsingu, sem er ætlað að auðvelda endurfjármögnun í kjölfar heimsfaraldursins og tryggja að kröfum um samræmda, einfalda og auðskiljanlega upplýsingagjöf sé fullnægt.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

    Jóhann Páll Jóhannsson og Guðbrandur Einarsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins. Steinunn Þóra Árnadóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins en ritar undir álitið með heimild í 2. mgr. 29. gr. laga um þingsköp Alþingis.

Alþingi, 31. mars 2022.

Guðrún Hafsteinsdóttir,
form., frsm.
Kristín Hermannsdóttir. Diljá Mist Einarsdóttir.
Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir. Steinunn Þóra Árnadóttir.