Ferill 597. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 839  —  597. mál.
Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um útlendinga og lögum um atvinnuréttindi útlendinga (dvalar- og atvinnuleyfi).

Frá dómsmálaráðherra.



I. KAFLI

Breyting á lögum um útlendinga, nr. 80/2016.

1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 66. gr. laganna:
     a.      Í stað talnanna „18–26“ í 1. mgr. kemur: 18–31.
     b.      3. mgr. orðast svo:
                      Dvalarleyfi samkvæmt ákvæði þessu skal að jafnaði að hámarki veitt til eins árs. Heimilt er þó að endurnýja leyfið um allt að eitt ár þegar samningur við ríki heimilar lengri dvöl en til eins árs.

II. KAFLI

Breyting á lögum um atvinnuréttindi útlendinga, nr. 97/2002.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. mgr. 18. gr. laganna:
     a.      Í stað tölunnar „26“ í 1. málsl. kemur: 31.
     b.      3. málsl. orðast svo: Skilyrði er að útlendingnum hafi áður verið veitt dvalarleyfi vegna samnings Íslands við erlent ríki samkvæmt lögum um útlendinga.
     c.      4. málsl. orðast svo: Heimilt er að framlengja slík atvinnuleyfi um allt að eitt ár þegar slíkir samningar heimila lengri dvöl en til eins árs.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarp þetta, sem samið er í dómsmálaráðuneytinu, kveður á um breytingar á lögum um útlendinga, nr. 80/2016 og lögum um atvinnuréttindi útlendinga, nr. 97/2002. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um útlendinga var lagt fram á 151. löggjafarþingi (þskj. 1029, 602. mál) en náði ekki fram að ganga. Meðal breytinga í því frumvarpi voru þær breytingar sem frumvarp þetta leggur nú til að nýju.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Talið er nauðsynlegt að breyta ákvæðum laga um útlendinga og laga um atvinnuréttindi útlendinga sem varða dvalar- og atvinnuleyfi ungs fólks vegna gagnkvæmra samninga Íslands við erlend ríki um atvinnudvöl ungs fólks. Breyta þarf gildandi aldursskilyrðum og mögulegri tímalengd slíkra dvalarleyfa. Ákvæðið er sett með það að markmiði að jafna stöðu ungs fólks á við nágrannaþjóðir okkar, veita ungu fólki enn frekari tækifæri til þess að koma til landsins og dvelja hér í þeim tilgangi að kynnast lífsháttum annarra þjóða og víkka menningarlegan sjóndeildarhring sinn.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Frumvarpið felur í sér breytingar sem gera þarf á lögum um útlendinga, nr. 80/2016, og lögum um atvinnuréttindi útlendinga, nr. 97/2002, varðandi rétt ungs fólks til dvalar og atvinnu hér á landi í ljósi samninga Íslands við erlend ríki. Í fyrsta lagi er lagt til að aldursbil ungs fólks sem geta fengið dvalar- og atvinnuleyfi vegna gagnkvæmra samninga Íslands við erlend ríki verði lengt úr 18–26 í 18–31. Í öðru lagi er lagt til að unnt verði að framlengja slík dvalar- og atvinnuleyfi upp í tvö ár ef samningar við erlend ríki gera ráð fyrir því. Með frumvarpinu er brugðist við gildandi samningsskuldbindingum Íslands við Bretland og stjórnvöldum gefið aukið svigrúm varðandi aldur og tímalengd dvalar þegar kemur að samningsviðræðum við önnur ríki um atvinnudvöl ungs fólks.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Frumvarpið gefur ekki tilefni til að skoða sérstaklega samræmi við stjórnarskrá. Ísland hefur gerst aðili að ýmsum þjóðréttarsamningum sem varða málefni útlendinga og réttarstöðu þeirra, þar á meðal Schengen-samstarfið og tvíhliða samningar um dvalar- og atvinnuleyfi ungs fólks. Við samningu frumvarpsins hefur verið tekið tillit til þessara alþjóðlegu skuldbindinga Íslands.

5. Samráð.
    Frumvarp til laga um breytingu á lögum um útlendinga og lögum um atvinnuréttindi útlendinga var lagt fram á 151. löggjafarþingi (þskj. 1029, 602. mál) en náði ekki fram að ganga. Meðal breytinga í því frumvarpi voru þær breytingar sem frumvarp þetta leggur nú til að nýju. Eru ákvæðin tvö í frumvarpi þessu lögð fram í óbreyttri mynd. Í aðdraganda þess að frumvarpið var lagt fram á 151. löggjafarþingi var m.a. leitað til Útlendingastofnunar, kærunefndar útlendingamála, félagsmálaráðuneytisins og utanríkisráðuneytisins um samráð vegna breytinganna. Ákvæðið um breytingu á lögum um atvinnuréttindi útlendinga var samið í félagsmálaráðuneytinu. Sem undanfari framlagningar frumvarpsins til Alþingis var það kynnt fyrir þingmannanefnd um málefni útlendinga og innflytjenda. Frumvarpið fór fyrir ríkisstjórn og til allsherjar- og menntamálanefndar sem kallaði eftir umsögnum ýmissa aðila. Við samningu frumvarpsins nú hefur verið haft samráð við Útlendingastofnun, félags- og vinnumarkaðsráðuneytið og utanríkisráðuneytið. Sökum tímaskorts náðist ekki að kynna drög að frumvarpinu í samráðsgátt stjórnvalda. Ekki hafa verið gerðar athugasemdir við breytingarnar sem gefa tilefni til breytinga á ákvæðunum.

6. Mat á áhrifum.
    Með frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á lögum um útlendinga og lögum um atvinnuréttindi útlendinga varðandi rétt ungs fólks til dvalar og atvinnu hér á landi í ljósi gagnkvæmra samninga Íslands við erlend ríki. Ákvæðin eru sett með það að markmiði að veita ungu fólki tækifæri til þess að koma til landsins og dvelja hér og stunda atvinnu í þeim tilgangi að kynnast lífsháttum annarra þjóða og víkka menningarlegan sjóndeildarhring sinn. Að sama skapi gera samningar Íslands við erlend ríki ungu fólki frá Íslandi kleift að upplifa slíkt hið sama í öðrum ríkjum. Stuðla breytingarnar jafnframt að góðu samstarfi íslenskra stjórnvalda við stjórnvöld erlendra ríkja.
    Ekki er talið að samþykkt frumvarpsins hafi áhrif á stjórnsýslu en stjórnvöld eru nú þegar að afgreiða umsóknir sem þessar en þá einungis innan ramma núgildandi laga. Einhver fjölgun gæti orðið á umsóknum en ekki þannig að það hafi teljandi áhrif á stjórnvöld. Verði frumvarpið óbreytt að lögum er því hvorki gert ráð fyrir að lögfesting þess hafi áhrif á ríkissjóð né sveitarfélögin sem nokkru nemur.
    Samkvæmt upplýsingum frá Útlendingastofnun þann 18. mars 2022 höfðu fjórir einstaklingar sótt um dvalarleyfi á grundvelli samnings Íslands við erlend ríki á árunum 2021–2022. Um var að ræða þrjár konur og einn karlmann. Ómögulegt er að lesa úr svo smáu mengi hvaða kyn muni helst nýta sér að koma til landsins á grundvelli samnings við erlend ríki. Dvalar- og atvinnuleyfi ungs fólks í tilefni gagnkvæmra samninga Íslands við erlend ríki eru veitt óháð kyni. Verði frumvarpið að lögum er ekki gert ráð fyrir að það hafi ólík áhrif á stöðu kynjanna.

Um einstakar greinar frumvarpsins.
Um 1. gr.

    Lagt er til að aldursbilið fyrir þá sem geta fengið dvalarleyfi samkvæmt þessu ákvæði verði hækkað upp í 31 ár úr 26 árum en slík dvalarleyfi eru alltaf veitt á grundvelli gagnkvæms samnings milli íslenskra stjórnvalda og annars ríkis. Þá er veitt heimild til að endurnýja slíkt dvalarleyfi um eitt ár ef samningur við tiltekið ríki gerir ráð fyrir lengri dvöl en til eins árs. Dvöl á grundvelli ákvæðisins gæti því einungis numið allt að tveimur árum ef samningur kveður á um þá tímalengd dvalar. Með þessari breytingu er íslenskum stjórnvöldum veitt aukið svigrúm til þess að gera slíka samninga við erlend ríki.

Um 2. gr.

    Í 2. mgr. 18. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga, nr. 97/2002, er kveðið á um heimild til að veita útlendingum á aldrinum 18–26 ára tímabundið atvinnuleyfi hér á landi, að hámarki til eins árs, á grundvelli samninga íslenskra stjórnvalda við önnur ríki um störf ríkisborgara þeirra hér á landi, í þeim tilgangi að kynna sér landið og menningu þess.
     Um a-lið. Lagt er til að aldursviðmiði ákvæðisins verði breytt þannig að heimilt verði að veita útlendingum á aldrinum 18–31 árs tímabundin atvinnuleyfi á grundvelli samninga íslenskra stjórnvalda við önnur ríki um störf ríkisborgara þeirra hér á landi sem gerðir eru í framangreindum tilgangi. Er þannig lagt til að svigrúm til þess að veita tímabundin atvinnuleyfi á grundvelli slíkra samninga hér á landi verði aukið til samræmis við þær breytingar sem lagðar eru til í 1. gr. frumvarpsins.
     Um b-lið. Lagt er til að skýrt verði kveðið á um að skilyrði fyrir veitingu atvinnuleyfis samkvæmt ákvæðinu sé að viðkomandi útlendingi hafi áður verið veitt dvalarleyfi vegna samnings Íslands við erlent ríki samkvæmt lögum um útlendinga. Skv. 2. mgr. 66. gr. laga um útlendinga, nr. 80/2016, er forsenda fyrir veitingu dvalarleyfis vegna samnings Íslands við erlent ríki meðal annars að útlendingi hafi ekki áður verið veitt dvalarleyfi á grundvelli slíks samnings. Í ljósi þess þykir ekki ástæða til að taka sérstaklega fram í lögum um atvinnuréttindi útlendinga að skilyrði fyrir veitingu atvinnuleyfis sé að útlendingi hafi ekki áður verið veitt atvinnuleyfi á grundvelli slíks samnings. Áfram er gert ráð fyrir að tímabundin atvinnuleyfi á grundvelli slíkra samninga séu ekki skilyrt við störf hjá tilteknum atvinnurekanda.
     Um c-lið. Lagt er til að heimilt verði að framlengja slík leyfi um allt að eitt ár ef samningar íslenskra stjórnvalda við önnur ríki kveða á um heimild til lengri dvalar. Er þannig lagt til að mögulegt verði að framlengja þannig leyfi til samræmis við þær breytingar sem lagðar eru til í 1. gr. frumvarpsins.

Um 3. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringar.