Ferill 414. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 853  —  414. mál.
2. umræða.



Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um landlækni og lýðheilsu, nr. 41/2007 (skimunarskrá).

Frá meiri hluta velferðarnefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Guðlín Steinsdóttur, Maríu Sæm Bjarkardóttur og Sigríði Jakobínudóttur frá heilbrigðisráðuneytinu.
    Nefndinni bárust umsagnir um málið frá embætti landlæknis og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.
    Með frumvarpinu er lagt til að skimunarskrá verði ein af þeim heilbrigðisskrám sem embætti landlæknis ber ábyrgð á og rekur, sbr. lög um landlækni og lýðheilsu, en skimunarskrá er gagnagrunnur og upplýsingakerfi sem inniheldur persónugreinanleg gögn um boð í skimun, mætingu og niðurstöður skimana. Í dag er skimunarskrá á ábyrgð Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Til að embætti landlæknis geti rekið og borið ábyrgð á skimunarskrá þarf skýra lagastoð í áðurnefndum lögum og er frumvarpinu ætlað að útfæra nánar hlutverk embættis landlæknis um rekstur skrárinnar.
    Nefndinni bárust engar athugasemdir við frumvarpið, en bent var á að rangt væri farið með upplýsingar í greinargerð varðandi tölur um fjölda kvenna sem voru boðaðar í leghálsskimun og um hversu margar konur mættu. Að framangreindu virtu leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Guðmundur Ingi Kristinsson og Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins en rita undir álit þetta samkvæmt heimild í 4. mgr. 28. gr. starfsreglna fastanefnda Alþingis, sbr. 2. mgr. 29. gr. laga um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991.


Alþingi, 1. apríl 2022.

Líneik Anna Sævarsdóttir,
form., frsm.
Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir. Ásmundur Friðriksson.
Guðmundur Ingi Kristinsson. Guðrún Hafsteinsdóttir. Jódís Skúladóttir.
Oddný G. Harðardóttir. Óli Björn Kárason.