Ferill 168. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 867  —  168. mál.
2. umræða.Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna, nr. 85/2018 (fjölgun mismununarþátta).


Frá 1. minni hluta allsherjar- og menntamálanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Steinunni Valdísi Óskarsdóttur og Rán Ingvarsdóttur frá forsætisráðuneytinu, Kristínu Ólafsdóttur frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Unni Helgu Óttarsdóttur og Árna Múla Jónsson frá Landssamtökunum Þroskahjálp, Katrínu Björgu Ríkarðsdóttur og Jón Fannar Kolbeinsson frá Jafnréttisstofu, Eirík Smith, réttindagæslumann fatlaðs fólks, Helga Guðnason frá Hvítasunnukirkjunni Fíladelfíu, Daníel E. Arnarsson frá Samtökunum ´78, Eyju Margréti Brynjarsdóttur, prófessor í heimspeki við Háskóla Íslands, og Rúnar Björn Herrera Þorkelsson frá NPA-miðstöðinni.
    Nefndinni bárust umsagnir frá Hvítasunnukirkjunni Fíladelfíu, Jafnréttisstofu, Landssamtökunum Þroskahjálp, NPA-miðstöðinni, réttindagæslumanni fatlaðs fólks og Sambandi íslenskra sveitarfélaga, auk þess barst minnisblað frá forsætisráðuneytinu.

Efni frumvarpsins.
    Með frumvarpinu er lagt til að bæta fleiri mismununarþáttum við lög nr. 85/2018, um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna. Lögin gilda nú um jafna meðferð einstaklinga óháð kynþætti og þjóðernisuppruna á öllum sviðum samfélagsins, utan vinnumarkaðar, en lagt er til að bæta við lögin mismununarþáttunum trú, lífsskoðun, fötlun, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum og kyntjáningu. Þessi breyting er gerð til samræmis við ákvæði til bráðabirgða í lögum nr. 85/2018 þar sem mælt er fyrir um að víkka skuli út gildissvið laganna svo að þau gildi um fleiri mismununarþætti til samræmis við gildissvið laga um jafna meðferð á vinnumarkaði, sbr. lög nr. 86/2018. Þá er lagt til að breyta heiti laganna í lög um jafna meðferð utan vinnumarkaðar.

Umfjöllun nefndarinnar.
Fjölgun mismununarþátta.
    Það er grundvallarréttur að allir skuli vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti, sbr. 1. mgr. 65. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944. Til viðbótar þessari grundvallarreglu í íslenskri stjórnskipun hefur þótt tilefni til að festa í lög bann við mismunun tiltekinna hópa til að undirstrika jafna meðferð þeirra á öllum sviðum samfélagsins og veita einstaklingum sem telja sig verða fyrir mismunun á grundvelli tilgreindra mismununarþátta möguleika á að leita réttar síns fyrir úrskurðarnefnd.
    Við umfjöllun nefndarinnar komu fram sjónarmið um að það kynni að taka breytingum með tímanum eftir því hvaða hópar kynnu að verða fyrir mismunun í samfélaginu. Þar af leiðandi gæti verið tilefni til að endurskoða eða meta með reglulegu millibili þær mismununarástæður sem tilgreindar eru í frumvarpinu. Með því að tilgreina mismununarástæður sé það þó gert áþreifanlegt hvaða einstaklinga sé verið að vernda og veita aukna réttarvernd. Ójöfn meðferð fólks á grundvelli þeirra mismununarþátta sem frumvarpið tekur til þarf í einstaka tilfellum ekki að vera mismunun. Við mat á mismunun er áherslan lögð á samanburð við aðra einstaklinga við sambærilegar aðstæður og hvort þeir hljóti sambærilega meðferð. Ef svo er ekki þarf að vera unnt að réttlæta ólíka meðferð á málefnalegan hátt með lögmætu markmiði. 1. minni hluti undirstrikar að ávallt þarf að meta hvert tilvik fyrir sig um hvort mismunun sé til staðar.

Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og samráð við hagsmunasamtök.
    Fyrir nefndinni komu fram ábendingar um mikilvægi þess að samráð yrði haft við hagsmunasamtök fatlaðs fólks vegna löggjafar er varðar réttindi þess. Huga þurfi að sértækum aðstæðum fatlaðs fólks en mismunun gegn fötluðu fólki kann að birtast á annan hátt en gagnvart öðrum hópum sem einnig eru skilgreindir í frumvarpinu. Jafnframt kom fram að með frumvarpinu sé stigið mikilvægt skref varðandi að innleiða í íslenska löggjöf ákvæði samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks hvað varðar jafnrétti og bann við mismunun. 1. minni hluti tekur undir þessi sjónarmið og mikilvægi þess að náið samráð og virk þátttaka hagsmunasamtaka fatlaðs fólks sé til staðar við undirbúning löggjafar er varðar hagsmuni þess. Frumvarpið er skref í rétta átt varðandi það að tryggja vernd einstaklinga gegn mismunun en í því samhengi vísar 1. minni hluti einnig til þess að í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er tilgreint að samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks verði lögfestur og að ný Mannréttindastofnun verði sett á laggirnar.

Kostnaðarmat vegna fjármögnunar verkefna hjá sveitarfélögum.
    Í umsögn sinni vakti Samband íslenskra sveitarfélaga athygli nefndarinnar á því að það væri ekki skýrt hvaða áhrif og kostnað samþykkt frumvarpsins kynni að hafa í för með sér fyrir starfsemi sveitarfélaga, m.a. að því er varðar 5. gr. frumvarpsins um viðeigandi aðlögun. Í ákvæði 5. gr. frumvarpsins (7. gr. a) um viðeigandi aðlögun segir að opinberir aðilar skuli gera nauðsynlegar og viðeigandi breytingar og lagfæringar, sé þeirra þörf í sérstöku tilviki, til að gera fötluðum einstaklingi kleift að nýta sér eða fá notið samfélagsins utan vinnumarkaðar til jafns við aðra, enda séu þær ráðstafanir ekki of íþyngjandi eða umfram það sem eðlilegt megi teljast. Við meðferð málsins í nefndinni komu fram sjónarmið um að ákvæðið gæti haft víðtæk áhrif á þjónustu og starfsemi sveitarfélaga gagnvart fötluðum einstaklingum og að ekki hefði farið fram kostnaðarmat á frumvarpinu skv. 129. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011.
    Fyrsti minni hluti leggur áherslu á að mikilvægt sé að fylgjast með áhrifum laganna á sveitarfélög og hvort það hafi í för með sér aukin útgjöld að gera ráðstafanir vegna þeirra, svo sem tengt viðeigandi aðlögun. 1. minni hluti bendir á að í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að þegar metið er hvort ráðstöfun teljist of íþyngjandi beri sérstaklega að líta til fjárhagslegs kostnaðar og umfangs. Það er ljóst að það hvílir þegar rík skylda á sveitarfélögum á grundvelli laga nr. 38/2018, um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, og samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem hefur verið fullgiltur hér á landi. 1. minni hluti telur að með frumvarpinu sé verið að tryggja mikilvæga hagsmuni einstaklinga sem hafa í gegnum tíðina orðið fyrir ýmiss konar mismunun í samfélaginu og það sé ekki hægt að horfa fram hjá mikilvægi þess að jafna stöðu þessara hópa.

    Að framangreindu virtu leggur 1. minni hluti til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.


Alþingi, 1. apríl 2022.

Jódís Skúladóttir,
frsm.
Hilda Jana Gísladóttir. Iða Marsibil Jónsdóttir.
Jóhann Friðrik Friðriksson.