Ferill 625. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 872  —  625. mál.
Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um leikskóla, nr. 90/2008 (innritun í leikskóla).

Flm.: Dagbjört Hákonardóttir, Jóhann Páll Jóhannsson, Kristrún Frostadóttir, Logi Einarsson, Oddný G. Harðardóttir, Þórunn Sveinbjarnardóttir, Andrés Ingi Jónsson, Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, Björn Leví Gunnarsson, Gísli Rafn Ólafsson, Jakob Frímann Magnússon, Tómas A. Tómasson.


1. gr.

    Við 1. mgr. 26. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Sveitarstjórn er heimilt að haga innritun með tilliti til þess að systkini eða börn sem hafa sama lögheimili geti sótt sama leikskóla, sem og með hliðsjón af nálægð leikskóla við lögheimili barna.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Víða um land þekkist það fyrirkomulag að hliðrað er til við innritun á leikskóla í sveitarfélögum í því skyni að gera systkinum kleift að sækja sama leikskóla þegar þau yngri hafa náð leikskólaaldri. Yngri börnin njóta þá forgangs til leikskóladvalar við sama leikskóla og eldri systkini hafa vistun á. Þessi regla, sem í daglegu máli kallast systkinaforgangsregla, var þó afnumin við innritanir í leikskóla Reykjavíkurborgar í október 2008. Rökin fyrir þeirri ákvörðun laut öðru fremur að því að reglan um systkinaforgang gengi í berhögg við jafnræðisreglu stjórnsýsluréttarins, enda gengju yngri börn framar eldri börnum eða börnum í sama árgangi sem ekki ættu eldri systkini í viðkomandi leikskóla. Til þess að taka af allan vafa um lögmæti ákvarðana sveitarfélaga í þágu systkinaforgangs þarf lagaheimildar að njóta við í samræmi við lagaáskilnaðarreglu íslensks stjórnsýsluréttar.
    Í lögum um leikskóla, nr. 90/2008, er skýrt kveðið á um að velferð og hagur barna skuli hafður að leiðarljósi í öllu starfi, m.a. í því hvernig forgangsraðað er við innritun í leikskóla. Mikilvægt er að skýrar og fyrirsjáanlegar reglur gildi þar í einu og öllu og byggt sé í senn á málefnalegum og lögmætum sjónarmiðum. Því hefur verið haldið fram að reglan um systkinaforgang hafi fyrst og fremst verið til þess fallin að mæta hagsmunum foreldra en ekki barna, enda komi systkinaforgangur niður á börnum sem ekki eiga eldra systkini. Reynslan hefur þó sýnt að óbreytt fyrirkomulag kemur óumdeilanlega niður á barnafjölskyldum í Reykjavík þar sem eru fleiri en eitt barn á leikskólaaldri. Samvera systkina á sama leikskóla felur í sér dýrmæta og mikilvæga upplifun barna á fyrsta skólastiginu þegar hún er möguleg, og sveitarfélögum á að vera gert kleift að gera ráðstafanir til að koma af fremsta megni í veg fyrir að fjölskyldur þurfi að fara hverfa á milli til að nálgast dagvistun fyrir börn sín.
    Í því skyni að tryggja börnum, sem ekki eiga eldra systkini á leikskóla, aðgengi að leikskóla innan eigin hverfis er jafnframt lagt til í frumvarpi þessu að heimila sveitarfélögum að móta reglur sem tryggi börnum forgang inn á leikskóla með hliðsjón af nálægð heimilis við leikskóla.
    Lögfesting heimilda sveitarfélaga til að haga innritun á leikskóla með hliðsjón af framangreindu stuðlar að vellíðan barna og hefur í för með sér jákvæð áhrif á umhverfi og félagslega samþættingu innan hverfa. Af þeim sökum telja flutningsmenn mikilvægt að gera sveitarstjórnum kleift að haga innritun í leikskóla með þeim hætti að yngri systkini njóti forgangs og að taka megi tillit til búsetu þeirra að öðru leyti. Þannig má tryggja að sem flest börn geti á tilskildum aldri hafið leikskólagöngu í námunda við heimili sitt.