Ferill 410. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 878  —  410. mál.
Svar


utanríkisráðherra við fyrirspurn frá Ingu Sæland um innleiðingu tilskipunar um aðgengi vefsetra opinberra aðila og smáforrita þeirra fyrir fartæki.


     1.      Hvenær stendur til að leggja fram tillögu til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 59/2021 um að fella inn í EES-samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2016/2102 um aðgengi vefsetra opinberra aðila og smáforrita þeirra fyrir fartæki?
    Gert er ráð fyrir að tillaga til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 59/2021 um að fella inn í EES-samninginn tilskipun (ESB) 2016/2021 um aðgengi vefsetra opinberra aðila og smáforrita þeirra fyrir fartæki verði lögð fram á komandi haustþingi samhliða frumvarpi til innleiðingar.

     2.      Hvernig miðar vinnu við innleiðingu tilskipunarinnar? Eru stjórnvöld að vinna að innleiðingunni í samráði við Blindrafélagið, Öryrkjabandalag Íslands eða önnur hagsmunasamtök?
    Innleiðing tilskipunarinnar í íslenskan rétt er á forræði fjármála- og efnahagsráðuneytis og byggist eftirfarandi á upplýsingum frá því ráðuneyti.
    Vinna við innleiðingu tilskipunarinnar tengist mörgum þáttum stafrænnar umbreytingar hjá hinu opinbera. Undirbúningur innleiðingarinnar nú snýr aðallega að frummati á áhrifum mögulegrar lagasetningar. Fyrirhugað er að birta áform um lagasetningu í samráðsgátt síðari hluta árs 2022. Í samráðsgátt gefst hagsmunaaðilum og öðrum er láta sig málið varða kostur á að koma ábendingum á framfæri. Þegar unnið hefur verið úr athugasemdum vegna áforma og útbúin hafa verið drög að lagafrumvarpi vegna þeirra atriða tilskipunarinnar sem leiða þarf í lög verða þau einnig birt í samráðsgátt stjórnvalda.
    Árið 2012 samþykkti þáverandi ríkisstjórn aðgengisstefnu fyrir opinbera vefi. Viðmiðin í stefnunni fylgja staðli alþjóðlegra samtaka um veraldarvefinn (e. World Wide Web Consortium, W3C). Í tilskipun Evrópusambandsins er vísað til sama staðals, Evrópustaðals EN 301 549, þó í útgáfu 2.1, en í þeirri útgáfu hefur verið tekið tillit til framþróunar í tækni. Margar opinberar vefsíður fylgja staðlinum, þ.m.t. vefurinn Ísland.is sem er miðlæg þjónustugátt opinberra aðila á Íslandi. Þannig er verið að vinna eftir viðmiðunum hjá hinu opinbera þrátt fyrir að tilskipunin hafi ekki formlega verið tekin í íslensk lög. Því til stuðnings má benda á að Mínar síður á Ísland.is fengu viðurkenningu fyrir aðgengismál við afhendingu Íslensku vefverðlaunanna, sem Samtök vefiðnaðarins (SVEF) veita, 11. mars 2022. Í rökstuðningi SVEF segir: „Dómnefnd veitir viðurkenningu fyrir framúrskarandi aðgengi á vef. Krafa um gott aðgengi er að sjálfsögðu krafa um uppfyllingu sjálfsagðra mannréttinda. Aðgengi að opinberum upplýsingum í heimi þar sem slíkar upplýsingar færast í auknum mæli yfir á stafræn form. Það skiptir höfuðmáli. Stórt og flókið verkefni sem er hvergi nærri lokið en hvert skref er stigið í rétta átt, án mismunar. Það er frábært að hugsa til þess að hægt sé að nálgast mikilvæg gögn og framkvæma algengar aðgerðir þvert á stofnanir innan eins vefsvæðis. Sú hugsun er samstíga almennri hugsun um aðgengi og einfaldleika. Megi þessi viðurkenning verða til þess að hugmyndir um jafnt aðgengi allra haldi áfram og vera að leiðarljósi í þróun komandi ára.“
    Önnur mikilvæg þjónusta sem er í þróun hjá Stafrænu Íslandi og nokkrum ráðuneytum, sem skiptir máli fyrir einstaklinga með takmarkað aðgengi eða færni til að sinna stafrænum samskiptum, er svokallað umboðskerfi. Enda þótt umboðskerfið tengist ekki innleiðingu tilskipunarinnar beint hefur það bein og jákvæð áhrif á einstaklinga sem tilheyra ofangreindum hópi. Umboðskerfið mun til að mynda veita persónulegum talsmönnum einstaklinga með fötlun kleift að sækja stafræna opinbera þjónustu fyrir hönd skjólstæðinga sinna með öruggum og rekjanlegum hætti. Umboðskerfið er byggt með beinum hætti á samningum í talsmannagrunni réttindagæslumanna og þeim málaflokkum sem persónulegir talsmenn mega hlutast til um í þeirra umboði.

     3.      Hvenær er áætlað að ljúka við innleiðinguna vegna nýrra opinberra vefsetra í fyrsta lagi, vegna eldri opinberra vefsetra í öðru lagi og vegna smáforrita opinberra aðila fyrir fartæki í þriðja lagi í ljósi þess að samkvæmt ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar þarf að ljúka innleiðingu fyrir febrúar 2022 vegna nýrra opinberra vefsetra, fyrir febrúar 2023 vegna eldri opinberra vefsetra og fyrir ágúst 2023 vegna smáforrita opinberra aðila fyrir fartæki?
    Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um upptöku tilskipunarinnar í EES-samninginn hefur ekki enn tekið gildi. Ákvörðunin var tekin með stjórnskipulegum fyrirvara af öllum EFTA-ríkjunum innan EES og mun ekki öðlast gildi fyrr en öll ríkin hafa aflétt fyrirvaranum. Tímafrestir sem getið er í aðlögunartexta í ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar byrja að telja eftir gildistöku ákvörðunarinnar en miðast ekki við þá dagsetningu er ákvörðunin var tekin í EES-samninginn.
    Samkvæmt upplýsingum frá fjármála- og efnahagsráðuneyti er frummati á áhrifum fyrirhugaðrar lagasetningar m.a. ætlað að meta umfang innleiðingar. Í því felst t.d. að meta fjölda vefsvæða sem lögin munu taka til og mögulegan kostnað við innleiðingu til samræmis við staðal alþjóðlegu samtakanna um veraldarvefinn sem áður var lýst.
    Margar vefsíður ríkisstofnana fylgja nú þegar staðlinum, t.d. þær stofnanir sem nýta sér umgjörð Ísland.is. Má þar nefna sýslumenn, Sjúkratryggingar Íslands og Útlendingastofnun. Verkefnastofa um Stafrænt Ísland vinnur að auki með fleiri stofnunum að uppsetningu og viðhaldi vefsvæða sinna á Ísland.is. Það felur í sér að vefsvæði stofnana sem nýta sér þjónustu Stafræns Íslands eru samhæfð og einsleit í uppsetningu og viðmóti. Þau hafa auk þess svokallað skalanlegt viðmót sem þýðir að vefsvæðin eru aðgengileg og auðlesin á mismunandi gerðum tækja, svo sem tölvum, snjallsímum og spjaldtölvum.

    Alls fóru 5 vinnustundir í að taka þetta svar saman.