Ferill 454. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 880  —  454. mál.
Svar


mennta- og barnamálaráðherra við fyrirspurn frá Helgu Völu Helgadóttur um viðurkenningu á heilbrigðismenntun sem aflað hefur verið í öðru landi.


     1.      Mun mennta- og barnamálaráðuneytið, sem fer með málefni framhalds- og grunnskóla, halda áfram að annast mat á því hvort einstaklingur uppfylli skilyrði til að starfa í starfsgreinum í heilbrigðiskerfinu hér á landi, sem til þarf leyfi, löggildingu eða aðra jafngilda viðurkenningu, á grundvelli faglegrar menntunar og hæfis sem hann hefur aflað sér í öðru landi, sbr. 2. gr. laga nr. 26/2010? Mun hafa áhrif á ákvörðunina að hluti menntunar heilbrigðisstarfa fer fram í háskólum landsins og hluti í framhaldsskólum?
    Viðurkenning á faglegri menntun og hæfi hér á landi og þar með lög nr. 26/2010, um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi til starfa hér á landi, heyra undir málefnasvið mennta- og barnamálaráðuneytis, sbr. q-lið 2. tölul. 10. gr. forsetaúrskurðar um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, nr. 6/2022. Í 2. mgr. 3 gr. laga nr. 26/2010 segir: „Einstaklingur sem ekki fellur undir tilskipunina eða samninga um viðurkenningu starfsréttinda, sbr. 2. gr., skal beina umsókn sinni til ráðuneytisins nema öðru stjórnvaldi sé með lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum falin úrlausn málsins.“
    Hvað varðar mat á námi í heilbrigðisgreinum þá heyrir það undir embætti landlæknis. Samkvæmt 8. tölul. 6. gr. forsetaúrskurðar um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, nr. 6/2022, heyrir embætti landlæknis undir heilbrigðisráðuneytið. Samkvæmt h-lið 1. mgr. 4. gr. laga um landlækni og lýðheilsu, nr. 41/2007, veitir landlæknir starfsleyfi til einstaklinga sem uppfylla skilyrði laga og reglugerða til notkunar starfsheita löggiltra heilbrigðisstétta. Samkvæmt 4. gr. laga um heilbrigðisstarfsmenn, nr. 34/2012, hefur
sá einn rétt til að nota starfsheiti löggiltrar heilbrigðisstéttar og starfa sem heilbrigðisstarfsmaður hér á landi sem fengið hefur til þess leyfi landlæknis. Þá má jafnframt benda á að á grundvelli 3. mgr. 9. gr. laga nr. 26/2010 hefur verið sett reglugerð um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi heilbrigðisstarfsmanna frá öðrum EES-ríkjum eða Sviss til að starfa hér á landi.

     2.      Hversu langan tíma tekur mat á því hvort einstaklingur uppfylli skilyrði til að starfa í starfsgreinum í heilbrigðiskerfinu hér á landi, sem til þarf leyfi, löggildingu eða aðra jafngilda viðurkenningu, á grundvelli faglegrar menntunar og hæfis sem hann hefur aflað sér í öðru landi, sbr. 2. gr. laga nr. 26/2010?
    Í þessu sambandi vísar mennta- og barnamálaráðherra til svars við fyrirspurn nr. 1 hér að ofan og ítrekar að mat á námi í heilbrigðisgreinum heyrir undir embætti landlæknis á grundvelli laga nr. 26/2010, um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi til að starfa hér á landi. Mennta- og barnamálaráðherra hefur því ekki undir höndum upplýsingar um tímalengd er varðar mat á því hvort einstaklingur uppfylli skilyrði til að starfa í starfsgreinum í heilbrigðiskerfinu hér á landi, sem til þarf leyfi, löggildingu eða aðra jafngilda viðurkenningu á grundvelli faglegrar menntunar og hæfis sem hann hefur aflað sér í öðru landi, sbr. 2. gr. laga nr. 26/2010.

     3.      Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að viðurkenning á heilbrigðismenntun einstaklinga frá öðru ríki taki skemmri tíma en nú til þess að draga úr mönnunarvanda í heilbrigðiskerfinu hér á landi?
    Að mati mennta- og barnamálaráðherra er mikilvægt að mat á námi taki eins skamman tíma og kostur er. Að öðru leyti vísar mennta- og barnamálaráðherra til fyrra svars um að mat á námi í heilbrigðisgreinum heyrir undir embætti landlæknis.