Ferill 630. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 882  —  630. mál.
Fyrirspurn


til heilbrigðisráðherra um fjölda aðgerða vegna ódæmigerðra kyneinkenna.

Frá Daníel E. Arnarssyni.


     1.      Hversu margar aðgerðir vegna ódæmigerðra kyneinkenna voru framkvæmdar á börnum sem fæddust með slík einkenni fyrir gildistöku laga um kynrænt sjálfræði, nr. 80/2019? Svar óskast sundurliðað eftir árum.
     2.      Hafa slíkar aðgerðir verið framkvæmdar eftir að lög um kynrænt sjálfræði tóku gildi? Ef svo er, hversu margar?
     3.      Hversu mörg mál hafa ratað á borð teymis um börn sem fæðast með ódæmigerð kyneinkenni, sbr. 13. gr. a laga um kynrænt sjálfræði?


Skriflegt svar óskast.


Greinargerð.

    Fólk sem fæðist með ódæmigerð kyneinkenni (intersex fólk) hefur margt þurft að þola skerðingu á lífsgæðum vegna óafturkræfra og ónauðsynlegra aðgerða sem framkvæmdar voru á árum áður og þekkt er að hafi valdið heilsufarsörðugleikum. Samkvæmt lögum um kynrænt sjálfræði eru slíkar aðgerðir óheimilar. Lögin hafa aðeins gilt frá því um mitt ár 2019 og það er því mikilvægt að varpa ljósi á umfang aðgerða fyrir lagasetninguna.