Ferill 156. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 883  —  156. mál.
Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Ásthildi Lóu Þórsdóttur um ógildingarmál og stefnubirtingu.


     1.      Hversu margir héraðsdómar hafa verið kveðnir upp í svokölluðum ógildingarmálum vegna glataðra eða horfinna skuldabréfa skv. XVIII. kafla laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991, frá og með árinu 2008? Svar óskast sundurliðað eftir árum og eftir fjölda slíkra mála þar sem:
                  a.      ekki hefur verið mætt af hálfu annars en stefnanda og dómur kveðinn upp í samræmi við kröfu hans,
                  b.      einhver annar hefur mætt og gert tilkall til viðkomandi skuldabréfs,
                  c.      útgefandi skuldabréfs hefur mætt og tekið til varna gegn kröfu stefnanda og í hversu mörgum tilfellum slíkar varnir hafi verið teknar til greina þannig að kröfu stefnanda væri hafnað.

    Samkvæmt upplýsingum frá dómstólasýslunni er að takmörkuðu leyti unnt að kalla fram þær upplýsingar sem óskað er eftir úr upplýsingakerfi héraðsdómstólanna. Unnt er að kalla fram eftirfarandi upplýsingar yfir heildarfjölda ógildingarmála hjá héraðsdómstólum landsins á hinu tilgreinda árabili.

Ógildingarmál, fjöldi

Ár

Héraðsdómur 2008 2009 2010 2011 2012 2013 2014 2015 2016 2017 2018 2019 2020 2021 Samtals
Austurland 1 3 1 2 1 1 9
Norðurland eystra 2 2 4 2 2 3 6 2 4 4 5 1 2 2 41
Norðurland vestra 1 1 1 1 1 2 5 1 13
Reykjanes 1 2 2 2 2 1 1 3 2 16
Reykjavík 1 2 2 4 8 16 23 30 14 7 14 20 35 176
Suðurland 5 3 9 1 3 4 2 4 4 9 4 10 3 3 64
Vestfirðir 1 3 2 1 2 2 1 2 1 2 1 18
Vesturland 4 8 1 5 2 5 4 2 7 7 3 3 9 4 64
Samtals 14 20 20 12 15 24 30 36 48 36 23 35 40 48 401

     2.      Hversu mörgum ógildingardómum hefur verið áfrýjað til æðri dómstóla? Í hversu mörgum þeirra tilvika hefur dómur héraðsdóms verið staðfestur? Í hversu mörgum þeirra hefur dómi héraðsdóms verið snúið við? Hversu mörgum þeirra mála hefur lyktað með ómerkingu, frávísun eða niðurfellingu?
    Samkvæmt upplýsingum frá Hæstarétti kom ekkert slíkt mál til úrlausnar réttarins á umræddu tímabili. Samkvæmt upplýsingum frá Landsrétti féll einn dómur árið 2018 (mál nr. 95/2018) og var niðurstaða héraðsdóms staðfest. Hæstiréttur vísaði málinu síðar frá Landsrétti þar sem ekki hafði verið aflað leyfis Landsréttar til að áfrýja dómi héraðsdóms til Landsréttar. Dómi héraðsdóms var í kjölfarið áfrýjað að nýju til Landsréttar, að fengnu áfrýjunarleyfi, og árið 2020 féll dómur í því máli (mál nr. 431/2019) þar sem niðurstaða héraðsdóms var staðfest. Árið 2021 gengu tveir dómar Landsréttar er vörðuðu ógildingu skuldabréfs (mál nr. 52/2021 og nr. 53/2021) en um var að ræða ágreining milli sömu málsaðila.

     3.      Hvernig stendur á því að fjármálastofnanir geta höfðað ógildingarmál til að öðlast réttindi samkvæmt skuldabréfi sem er glatað eða horfið, án þess að birta stefnu fyrir útgefanda viðkomandi skuldabréfs eða gera honum með öðrum hætti viðvart um málshöfðunina svo að hann geti gætt lögvarinna hagsmuna sinna?
    Mál til ógildingar á skuldabréfi getur meðal annarra sá höfðað sem telur sig eiga kröfuréttindi samkvæmt slíku bréfi en hefur glatað frumriti þess. Þess háttar mál er höfðað skv. XVIII. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála (120.–122. gr.), nema ákvæði um ógildingu skuldabréfa sé að finna í öðrum lögum.
    Í 1. mgr. 121. gr. laganna er mælt fyrir um að sá sem vill fá skuldabréf ógilt skuli afhenda dómara stefnu til útgáfu og endurrit af skjalinu eða nákvæma lýsingu á efni þess. Í stefnunni skal greint frá því sem er vitað um afdrif skjalsins og rökstutt hvernig hlutaðeigandi telji til réttar samkvæmt því. Þannig getur sá einn höfðað mál til ógildingar á skuldabréfi sem getur sýnt fram á líkindi fyrir að hann eigi að njóta umráðaréttar yfir því. Eftir því sem mælt er fyrir um í 2. mgr. sama ákvæðis synjar dómari um útgáfu stefnunnar ef hann telur skilyrði fyrir ógildingardómi ekki vera fyrir hendi.
    Í stefnu um ógildingu skal skorað á hvern þann sem kann að hafa það skjal sem krafist er ógildingar á undir höndum að koma með það fyrir dóm við þingfestingu málsins, því að ella megi þess vænta að það verði ógilt með dómi. Til að ganga úr skugga um að sá sem vill fá ógildingardóm hafi týnt skjalinu en aðrir hafi það ekki undir höndum skal stefnan birt í Lögbirtingablaði svo að hún megi vera öllum kunnug. Með þessu móti er stefnunni beint að ókunnum einstaklingi eða lögaðila. Slíkri stefnu um ógildingu á skuldabréfi er á hinn bóginn ekki beint gegn skuldara sérstaklega umfram aðra enda er tilgangur stefnunnar að ganga úr skugga um að enginn annar en sá sem beiðist ógildingar hafi skuldabréfið undir höndum og eigi réttindi samkvæmt því.
    Í 4. mgr. sama ákvæðis er svo mælt fyrir um að ef enginn kemur fram með skjalið við þingfestingu máls og enginn mótmælir annars ógildingu þess skuli ógildingardómur kveðinn upp, nema gallar á málatilbúnaði leiði til frávísunar máls. Sé vörnum haldið uppi skal mælt fyrir í dómi um ógildingu skjals eða synjun um ógildingardóm.
    Skv. 1. mgr. 120. gr. laganna fellir dómur um ógildingu skuldabréfið úr gildi og heimilar dómhafa að ráðstafa því sem skjalið hljóðaði upp á eins og hann hefði það undir höndum. Ógilding breytir aftur á móti ekki efni kröfu sem býr að baki skuldabréfi í neinu og því verður hvorki kröfuhafi né skuldari betur settur en áður. Ógildingardómur verður því eftirleiðis það heimildarskjal sem frumrit skuldabréfs áður var en lýtur ekki að kröfuréttarsambandi útgefanda skuldabréfs og kröfuhafa. Af þeim sökum gera lög um meðferð einkamála ekki kröfu til þess að útgefanda skuldabréfsins sé sérstaklega tilkynnt um að bréfið sé glatað.

     4.      Telur ráðherra það samræmast ákvæðum 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu um réttláta málsmeðferð að málsmeðferð um réttindi og skyldur útgefanda skuldabréfs í ógildingarmáli fari fram án vitundar hans og honum gefist því ekki kostur á að gæta réttar síns við málsmeðferðina?
    Líkt og rakið var í svari við 3. tölul. fyrirspurnar vinnur kröfuhafi ekki rétt á hendur skuldara með málsókn í ógildingarmáli. Því verður ekki talið að sú málsmeðferð sem viðhöfð er í þess háttar dómsmálum fari í bága við mannréttindaákvæði stjórnarskrár eða mannréttindasáttmála Evrópu. Þá gefst skuldara skuldabréfsins færi til að gæta réttar síns líkt og öðrum hafi hann frumrit skuldabréfsins undir höndum, til að mynda í þeim tilvikum sem hann hefur fengið það afhent vegna þess að hann hefur greitt upp kröfu samkvæmt því.

     5.      Telur ráðherra það samræmast heilbrigðum viðskipta- og innheimtuháttum, eða eftir atvikum 248. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, ef fjármálastofnun hagnýtir sér þann möguleika að geta höfðað ógildingarmál til að öðlast réttindi samkvæmt skuldabréfi, án vitundar útgefanda þess, í því skyni að innheimta kröfu samkvæmt viðkomandi skuldabréfi hjá honum?
    Hér er aftur vísað til svars við 3. tölul. fyrirspurnar, einkum þess að stefna um ógildingu skuldabréfs varðar ekki kröfuréttarsamband skuldara og kröfuhafa. Enn fremur bendir ráðuneytið á að lög um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu eiga ekki undir dómsmálaráðherra og að það er annarra en ráðherra að ákvarða hvort ákvæði almennra hegningarlaga séu brotin. Á hinn bóginn fær ráðuneytið ekki séð að sú málsmeðferð sem viðhöfð er í ógildingarmálum sé brot á tilvitnuðu ákvæði laganna.

     6.      Hvernig er gætt að reglum um framsal viðskiptabréfa og ákvæðum tilskipunar um áritun afborgana á skuldabréf frá 9. febrúar 1798 við meðferð ógildingarmála?
    Sem fyrr segir miðar málsókn í ógildingarmáli um skuldabréf að því að ógilda slíkt skjal ef frumrit þess er glatað eða horfið. Tilvitnuð tilskipun kveður á hinn bóginn á um afborganir af skuldabréfum og kvittanir fyrir þeim. Ef fallist er á kröfu um ógildingu skuldabréfs heimilar dómur þar um dómhafa að neyta þeirra réttinda sem kveðið var á um í skuldabréfi en í slíku máli er, líkt og áður er komið fram, ekki ráðið endanlega til lykta mögulegum ágreiningi um fjárhæð kröfu samkvæmt kröfuréttarsambandi aðila. Af því leiðir að skuldari getur að gengnum slíkum dómi sem fyrr komið að sömu mótbárum og ef krafist hefði verið greiðslu samkvæmt því skuldabréfi sem ógilt var með dómi.

     7.      Telur ráðherra koma til greina að gera breytingar á lögum til að tryggja að höfðun ógildingarmáls komist til vitundar útgefanda viðkomandi skuldabréfs svo að honum gefist kostur á að gæta lögvarinna hagsmuna sinna við málsmeðferðina?
    Rétt er að ítreka það sem fram hefur komið í svari við 3. tölul. fyrirspurnar, einkum það að ákvæði laga um meðferð einkamála gilda eingöngu ef ekki er kveðið á um aðra meðferð samkvæmt öðrum lögum. Slík löggjöf á hins vegar ekki undir ábyrgðarsvið dómsmálaráðherra.