Ferill 632. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 885  —  632. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um byggingu nýs þjóðarsjúkrahúss á Keldum.


Flm.: Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Bergþór Ólason.


    Alþingi ályktar að fela heilbrigðisráðherra að hefja undirbúning að framtíðaruppbyggingu nýs þjóðarsjúkrahúss á Keldum í Reykjavík sem hafi m.a. það hlutverk að vera aðalsjúkrahús landsins. Ráðherra leggi fram þarfa- og kostnaðargreiningu, m.a. með tilliti til gæða-, samgöngu-, umferðar- og öryggismála, og hafi samráð við óháða fagaðila við vinnslu hennar.
    Samhliða þeim undirbúningi verði kannaður fýsileiki þess að nýta byggingar Landspítala við Hringbraut undir umdæmissjúkrahús.
    Niðurstöður greiningarinnar verði gerðar aðgengilegar. Ráðherra flytji Alþingi skýrslu um niðurstöðurnar eigi síðar en á haustþingi 2022.

Greinargerð.


    Tillaga þess efnis að fela heilbrigðisráðherra að framkvæma óháða, faglega staðarvalsgreiningu fyrir nýtt þjóðarsjúkrahús var áður flutt á 148.–151. löggjafarþingi (177. mál) af Önnu Kolbrúnu Árnadóttur og er tillagan nú flutt í nokkuð breyttri mynd þar sem heilbrigðisráðherra er falið að hefja undirbúning að byggingu nýs þjóðarsjúkrahúss á Keldum í Reykjavík.
    Á árunum 2001–2008 skrifuðu íslenskir og erlendir sérfræðingar fjölmargar álitsgerðir og í flestöllum var komist að þeirri niðurstöðu að best væri að byggja nýtt þjóðarsjúkrahús frá grunni á nýjum stað. Sérfræðingarnir sem sömdu álitin töldu hins vegar að ef ekki væri hægt að byggja nýtt sjúkrahús frá grunni á nýjum stað væri best að byggja við sjúkrahúsið í Fossvogi eða gamla Landspítalann við Hringbraut. Niðurstaðan, að byggja við Landspítalann við Hringbraut, var byggð á aðalskipulagi Reykjavíkur 2001–2024 en allar forsendur skipulagsins eru brostnar, ekkert þeirra umferðar- og skipulagsúrræða sem þar er reiknað með er í gildi núna. Núverandi staðarval virðist því byggjast á úreltu skipulagi.
    Í skýrslu, sem unnin var af Háskólanum á Bifröst og Rannsóknastofnun atvinnulífsins fyrir Samtök atvinnulífsins í nóvember 2015, kom m.a. fram að Hringbraut hentaði ekki sem framtíðarstaðsetning þjóðarsjúkrahúss og að fjárhagslegur ávinningur annarrar staðsetningar væri töluverður.
    Í úttekt Samtaka um betri spítala á betri stað, sem gerð var í júní 2015, sagði að kostnaður við byggingu og rekstur nýs þjóðarsjúkrahúss væri mismunandi eftir staðsetningum. Samtökin báru saman þrjá staði: viðbyggingar við gamlar byggingar á Hringbraut, viðbyggingu við spítalann í Fossvogi og byggingu nýs spítala frá grunni á öðrum stað, sem væri nýr staður nær búsetumiðju höfuðborgarsvæðisins og við meginumferðaræðar. KPMG fór yfir útreikningana, skoðaði forsendur og staðfesti útreikningana miðað við gefnar forsendur. Samanburðurinn sýndi að hagkvæmara væri að byggja í Fossvogi en við Hringbraut og enn hagkvæmara væri að reisa nýtt þjóðarsjúkrahús frá grunni á nýjum stað.
    Í desember 2021 kom út skýrsla gefin út af heilbrigðisráðuneytinu sem ber heitið Framtíðarþróun þjónustu Landspítala. Í niðurstöðu skýrslunnar kemur fram að gert er ráð fyrir því að þörfin fyrir rými á Landspítalanum muni aukast um u.þ.b. 80% árið 2040 sem jafngildir um 50% fleiri rýmum en áætlað er að verði í boði þegar spítalinn við Hringbraut opnar árið 2026. Það er því ljóst að huga þarf að byggingu stærra þjóðarsjúkrahúss en þess sem er í byggingu nú.
    Meginmarkmið þessarar tillögu er að undirbúningur verði hafinn að uppbyggingu nýs sjúkrahúss á Keldnalandi í Reykjavík sem hafi m.a. það hlutverk að vera aðalsjúkrahús landsins. Er jafnframt lagt til að kannaður verði fýsileiki þess að það húsnæði Landspítalans sem er í byggingu við Hringbraut verði nýtt sem umdæmissjúkrahús höfuðborgarsvæðisins.
    Mikilvægt er að fyrir liggi þarfa- og kostnaðargreining, m.a. út frá gæða-, samgöngu-, umferðar- og öryggismálum. Gert er ráð fyrir að við þá vinnu muni ráðherra hafa samráð við óháða fagaðila, svo sem skipulagsfræðinga, sjúkraflutningamenn, þyrluflugmenn, verkfræðinga, viðskiptafræðinga, umferðarfræðinga og heilbrigðisstarfsfólk. Niðurstöðurnar þyrfti að gera aðgengilegar fyrir allan almenning og stjórnmálamenn þannig að glögglega megi átta sig á hvernig fyrirhuguð staðsetning þjóðarsjúkrahúss á Keldum kemur út á helstu mælikvörðum sem máli skipta.