Ferill 389. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 888  —  389. mál.
2. umræða.Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940 (barnaníðsefni, hatursorðræða, mismunun o.fl.).

Frá allsherjar- og menntamálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Bryndísi Helgadóttur, Hákon Þorsteinsson og Þorvald Heiðar Þorsteinsson frá dómsmálaráðuneytinu, Þorbjörgu I. Jónsdóttur frá Mannréttindaskrifstofu Íslands, Steinunni Bergmann frá Félagsráðgjafafélagi Íslands, Þórunni Pálínu Jónsdóttur og Önnu Lúðvíksdóttur frá Íslandsdeild Amnesty International, Dagmar Ösp Vésteinsdóttur frá Ákærendafélagi Íslands, Árna Múla Jónasson frá Landssamtökunum Þroskahjálp, Bergþór Heimi Þórðarson frá Öryrkjabandalagi Íslands, Maríu Rún Bjarnadóttur frá embætti ríkislögreglustjóra og Sigríði Friðjónsdóttur ríkissaksóknara.
    Nefndinni bárust umsagnir frá Ákærendafélagi Íslands, Félagsráðgjafafélagi Íslands, Íslandsdeild Amnesty International, Landssamtökunum Þroskahjálp, Mannréttindaskrifstofu Íslands, Öryrkjabandalagi Íslands, ríkislögreglustjóra, ríkissaksóknara og umboðsmanni barna.

Efni frumvarpsins.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á nokkrum ákvæðum almennra hegningarlaga, nr. 19/1940. Í fyrsta lagi er lagt til að við ákvörðun hegningar, sbr. 70. gr. laganna, beri að taka til greina hvort brot megi rekja til nánar tilgreindra atriða er varða brotaþola persónulega og brot sé þannig af meiði hatursglæpa, auk þess sem lagt er til að að jafnaði skuli taka það til greina til þyngingar refsingu ef brot er framið í nærveru barns yngra en 15 ára. Í öðru lagi er lagt til að hatursorðræðuákvæði 233. gr. a laganna verði rýmkað þannig að þjóðlegur uppruni falli þar undir sem og að ákvæðið veiti fólki með fötlun og fólki með ódæmigerð kyneinkenni refsivernd til samræmis við aðra hópa sem eru taldir þurfa á sérstakri vernd að halda. Þá er lögð til hliðstæð breyting á 1. mgr. 180. gr. almennra hegningarlaga um bann við mismunun vegna kaupa á vöru og þjónustu. Í fjórða lagi eru lagðar til breytingar á barnaníðsákvæði 210. gr. a laganna að því er varðar framsetningu, hámarksrefsingu og gildissvið ákvæðisins. Loks er lagt til að við lögin bætist nýtt ákvæði, 210. gr. c, um innbyrðis ítrekunartengsl barnaníðsákvæðanna, þ.e. 210. gr. a og 210. gr. b. laganna.

Umfjöllun nefndarinnar.
    Nefndin telur að þær breytingar sem lagðar eru til með frumvarpinu séu mikilvægar og tímabærar þar sem þær fela í sér aukna réttarvernd barna og sporna gegn hatursorðræðu og mismunun við afhendingu á vöru og þjónustu. Með frumvarpinu er m.a. brugðist við athugasemdum eftirlitsaðila vegna alþjóðlegra mannréttindaskuldbindinga Íslands og breyttum samfélagslegum viðhorfum til þeirra brota og þeirrar háttsemi sem það tekur til. Umsagnaraðilar voru almennt jákvæðir um efni frumvarpsins.

Barnaníðsákvæði 210. gr. a laganna (3. gr.).
    Við meðferð málsins í nefndinni var einkum rætt um þær breytingar sem lúta að barnaníðsákvæði 210. gr. a almennra hegningarlaga. Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. frumvarpsins skal hver sem framleiðir, flytur inn, aflar sér eða öðrum, dreifir eða hefur í vörslum sínum myndefni sem sýnir kynferðislega misnotkun á barni eða sýnir barn á kynferðislegan hátt sæta sektum eða fangelsi allt að 6 árum. Samkvæmt 2. mgr. frumvarpsgreinarinnar skal hver sem skoðar myndefni á netinu eða með annarri upplýsinga- eða fjarskiptatækni sem sýnir kynferðislega misnotkun á barni eða sýnir barn á kynferðislegan hátt sæta sömu refsingu.
    Fyrir nefndinni var sérstaklega rætt um 3. mgr. 3. gr. frumvarpsins þar sem kveðið er á um að 1. og 2. mgr. gildi ekki um þann sem býr til, skoðar eða hefur í vörslum sínum efni sem sýnir barn 15, 16 eða 17 ára, ef barnið hefur veitt samþykki sitt og báðir aðilar eru á svipuðum aldri og þroskastigi. Þá gilda ákvæði 1. og 2. mgr. ekki heldur um barn 15, 16 eða 17 ára sem miðlar efni sem sýnir það sjálft. Rökin að baki ákvæðinu eru m.a. þau að stafræn samskipti og dreifing myndefnis á meðal ungmenna verður sífellt algengari og ekki þykir rétt að gera slíka háttsemi refsiverða í öllum tilvikum.
    Við meðferð málsins var rætt um áskilnað 3. mgr. um samþykki og mögulega sönnunarbyrði vegna þessa. Í greinargerð frumvarpsins kemur fram að miða verður við að ótvírætt samþykki liggi fyrir og að allur vafi þar um verði túlkaður þeim sem myndefnið er af í hag og þá er honum að sama skapi í lófa lagið að afturkalla slíkt samþykki hvenær sem er. Fyrir nefndinni var bent á að í mörgum ákvæðum almennra hegningarlaga er gerður áskilnaður um samþykki, m.a. í nauðgunarákvæði 194. gr. laganna. Sönnunarstaða um samþykki getur verið erfið en ekki á að vera um að ræða öfuga sönnunarbyrði. Í því sambandi undirstrikar nefndin það sem fram kemur í greinargerð frumvarpsins um að vafi um samþykki verði túlkaður þeim sem myndefnið er af í hag og bendir á að í 108. gr. laga um meðferð sakamála, nr. 88/2008, hvílir sönnunarbyrði um sekt ákærða og atvik, sem telja má honum í óhag, á ákæruvaldinu.
    Fyrir nefndinni var jafnframt rætt um ráðgjöf og stuðning við þá sem brjóta gegn börnum og mikilvægi þess að fagleg sálfræðimeðferð standi þeim til boða auk annarra stuðningsúrræða að lokinni afplánun. Fyrir nefndinni var lögð áhersla á að þetta skipti máli til að draga úr ítrekunartíðni barnaníðsbrota. Nefndin tekur undir mikilvægi þess að stjórnvöld hugi að endurkomu einstaklinga sem brotið hafa gegn börnum út í samfélagið, m.a. með því að veita þeim aðgengi að sálfræðimeðferð og félagsráðgjöf meðan á afplánun stendur og eftir að henni lýkur.

Hatursorðræða (5. gr.).
    Við meðferð málsins í nefndinni var rætt um rýmkun hatursorðræðuákvæðis 233. gr. a almennra hegningarlaga. Fyrir nefndinni kom fram að enda þótt brot gegn 233. gr. a sæti opinberri ákæru berist lögreglu ekki margar tilkynningar um brot gegn ákvæðinu. Bent var á að ástæða þess geti m.a. verið sú að almenningur þekki ekki ákvæðið nægilega vel eða að þeir einstaklingar sem ákvæðinu er ætlað að vernda séu berskjaldaðir, oft í viðkvæmri stöðu og þurfi stuðning við að tilkynna um hatursorðræðu og fylgja máli eftir. Jafnframt skiptir máli að lögregla fái nauðsynlega fræðslu um hatursorðræðu. Nefndin telur af því tilefni mikilvægt að fylgst verði með framkvæmd 233. gr. a almennra hegningarlaga og hvort frekari kynningar á hatursorðræðu og afleiðingum hennar sé þörf.
    Að öllu framangreindu virtu leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Bergþór Ólason og Eyjólfur Ármannsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins. Sigmar Guðmundsson, áheyrnarfulltrúi, er samþykkur áliti þessu.

Alþingi, 7. apríl 2022.

Bryndís Haraldsdóttir,
form., frsm.
Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir. Birgir Þórarinsson.
Jódís Skúladóttir. Jóhann Friðrik Friðriksson. Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir.
Logi Einarsson.