Ferill 382. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 904  —  382. mál.
Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Andrési Inga Jónssyni um aðgerðir á ábyrgð ráðuneytisins gegn ofbeldi og afleiðingum þess.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hvað hefur verið gert til að hrinda í framkvæmd þeim aðgerðum sem eru á ábyrgð ráðuneytisins í þingsályktun nr. 35/149, um áætlun fyrir árin 2019–2022 um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess? Svar óskast sundurliðað eftir aðgerðum og árum.
     2.      Hvaða fjármunum hefur verið varið til þeirra aðgerða? Svar óskast sundurliðað eftir aðgerðum og árum.

    Í þingsályktun nr. 35/149 heyra tvær aðgerðir undir heilbrigðisráðuneytið. Það er annars vegar aðgerð A.7. Samræmd heilsuvernd skólabarna á landsvísu og hins vegar aðgerð B.5. Bætt áverkaskráning í Slysaskrá Íslands. Hér er báðum spurningum fyrirspyrjanda svarað við hvora aðgerð um sig.

A.7. Samræmd heilsuvernd skólabarna á landsvísu.
    Samkvæmt aðgerðinni á að halda áfram að styrkja heilsuvernd skólabarna á landsvísu þannig að nemendur fái samræmda skipulagða heilbrigðisfræðslu með áherslu á hvatningu til heilbrigðra lífshátta. Fjalla á um líkamann, líkamsímynd, kynþroska, kynheilbrigði, samskipti, kvíða, tilfinningar, hópþrýsting og geðheilbrigði. Fræðslan á meðal annars að stuðla að því að einstaklingar taki ábyrga afstöðu til kynlífs, kláms og kynbundins ofbeldis.
    Markmið aðgerðarinnar er að nemendur fái samræmda skipulagða og árangursmetna fræðslu um kynþroska og kynheilbrigði og mælikvarðinn er að nemendur í 9. bekk fái fræðslu um kynþroska og kynheilbrigði fyrir árslok 2022.
    Samkvæmt reglugerð nr. 1111/2020 leiðir Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu (ÞÍH) faglega þróun innan heilsugæslu á landsvísu, vinnur að samræmingu verklags og samhæfingar milli starfsfólks á heilsugæslustöðvum, gæðaþróun og framförum í heilsugæslu í samráði við heilbrigðisstofnanir sem reka heilsugæslustöðvar og sjálfstætt starfandi heilsugæslustöðvar. ÞÍH er ábyrgðaraðili fyrir aðgerðina en heilsuvernd skólabarna er þjónusta sem sinnt er af heilsugæslunni í landinu. Um árabil hefur verið unnið að því að samræma þjónustuna um land allt til að stuðla að því að öll grunnskólabörn hafi aðgengi að svipaðri þjónustu óháð búsetu. Með það fyrir augum hafa verið gerðar samræmdar leiðbeiningar fyrir heilsuvernd skólabarna og fræðsluefni til notkunar fyrir skólahjúkrunarfræðinga. Leiðbeiningarnar voru endurskoðaðar árið 2019 og eru nú gefnar út og hýstar á vef ÞÍH.
    Í fræðslu um kynheilbrigði fyrir 9. bekk er áhersla lögð á samskipti, virðingu og ofbeldisforvarnir og ákveðin markmið varðandi þá þætti sett. Árangursviðmiðið er að 80% nemenda hafi fengið viðkomandi fræðslu og ár hvert er það hlutfall mælt. Undanfarin ár hefur árangursviðmiðunum nær alltaf verið náð en skólaárið 2019 2020 sker sig úr. Þar gætir áhrifa af Covid-19 sem torvelduðu möguleika á að veita fræðsluna, svo sem vegna fjöldatakmarkana, hólfaskiptinga og að nauðsynlegt reyndist að kalla skólahjúkrunarfræðinga í ýmis Covid-tengd störf innan heilsugæslunnar. Hlutfall skólabarna sem fékk fræðslu um kynheilbrigði á árabilinu 2016 2021 var eftirfarandi:

Tímabil 201617 201718 201819 201920 202021
Hlutfall 88% 89% 89% 63% 84%

    Þess má geta að fræðsla um kynheilbrigði, sjálfsmynd og samskipti fer ekki einungis fram í 9. bekk heldur líka í 1., 5., 6., 8. og 10. bekk og er líka fylgst með árangursviðmiði allra þeirra aldurshópa. Einnig má geta þess að embætti landlæknis hefur gefið út námsefni um andlegt, líkamlegt og kynferðislegt ofbeldi í samböndum unglinga sem ætlað er til kennslu í 9. og/eða 10. bekk grunnskóla. Námsefnið heitir Örugg saman og er aðgengilegt á vefslóð embættis landlæknis. 1 Gagnvirk kennsla af þessu tagi fyrir unglinga er ein þeirra leiða sem Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin mælir með sem forvörn gegn ofbeldi.
    Með samræmdu verklagi, fræðslu og skráningu er starfsemi heilsuverndar skólabarna vel skipulögð og virk á landsvísu. Hún er í stöðugri þróun, verklag og fræðsluefni hefur verið uppfært reglulega og unnið hefur verið með markmið og mælikvarða sem settir voru fram í aðgerð A.7. Kostnaður við framkvæmd aðgerðarinnar er innan fjárhagsramma stofnunarinnar.

B.5. Bætt áverkaskráning í Slysaskrá Íslands.
    Samkvæmt aðgerðinni á að safna ítarlegri upplýsingum um slys og áverka í Slysaskrá Íslands til að kortleggja betur umfang og áhættuþætti.
    Markmið aðgerðarinnar er að ítarlegri upplýsingar um slys og áverka liggi fyrir og umfang og áhættuþættir verði kortlagðir og mælikvarðinn að í lok árs 2022 skrái allar viðeigandi stofnanir í endurbætta Slysaskrá Íslands.
    Embætti landlæknis er vinnslu- og ábyrgðaraðili Slysaskrárinnar. Tilgangur skrárinnar hefur verið að fá yfirlit yfir öll slys á Íslandi eftir tegundum, aldri, kyni, staðsetningu o.fl. Skránni er ætlað að nýtast til forvarnastarfs og stefnumótunar auk þess sem hún veitir möguleika á ítarlegri rannsóknum á slysum. Formleg skráning hófst í október 2001. Um nokkurt skeið hefur verið ljóst að þörf væri að endurskoða núgildandi fyrirmæli og fyrirkomulag við skráningu slysa og áverka í heilbrigðiskerfinu.
    Í dag er um tvenns konar skráningu að ræða. Heilsugæslan og flestar heilbrigðisstofnanir nota ICD-10 sjúkdómaflokkunarkerfið, Alþjóðlega tölfræðiflokkun sjúkdóma og skyldra heilbrigðisvandamála þar sem 19. kafli tekur til áverka en 20. kafli til kringumstæðna (ytri orsaka). Á bráðamóttöku Landspítala (LSH) hefur aftur á móti verið í notkun mun ítarlegri skráning sem byggist á flokkunarkerfinu NCECI (e. Nordic Classification of External Causes of Injuries) sem gefið var út af NOMESCO á sínum tíma. Þetta flokkunarkerfi hefur hins vegar ekki verið uppfært og ekki útlit fyrir að svo muni verða af hendi NOMESCO. Útgáfa kerfisins sem er í notkun á LSH er frá árinu 2007. Af hendi bráðamóttöku er mikið kallað eftir því að fá nýtt skráningarkerfi/-viðmót.
    Fyrir nokkrum misserum setti landlæknir á fót vinnuhóp í þeim tilgangi að kortleggja núverandi stöðu og setja fram þarfagreiningu hvað varðar skráningu slysa í heilbrigðiskerfinu og framsetningu tölfræði þar að lútandi. Afurð vinnunnar var ætluð sem grunnur sem hægt væri að nota við töku ákvarðana um innleiðingu breytinga. Vinnuhópurinn skilað tillögum sínum til landlæknis í júlí 2021 og féllst landlæknir á tillögurnar. Þær tillögur gera m.a. ráð fyrir því að hætt verði að nota NCECI en ICD-flokkunarkerfið notað alfarið, en gerðar verði mismunandi kröfur um nákvæmni skráningar eftir tegund þjónustu (bráðamóttaka/heilsugæslustöðvar). Til þess þarf að hanna nýtt skráningarviðmót undir forystu Miðstöðvar rafrænna heilbrigðislausna hjá embætti landlæknis. Þá er jafnframt lagt til að Slysaskrá Íslands verði breytt.
    Því miður hefur ekki náðst að koma í gang nauðsynlegri vinnu við nánari útfærslu og hönnun nýs skráningarviðmóts en ný skráningarfyrirmæli fyrir þjónustu heilsugæslustöðva, sjálfstætt starfandi sérfræðilækna og sjúkrahúsa eru í vinnslu hjá embætti landlæknis.
    Í þingsályktuninni er kostnaðaráætlun aðgerðar B.5. 10 millj. kr. árið 2021 og 10 millj. kr. árið 2022. Ekki hefur þó verið unnt að fjármagna aðgerðina sérstaklega. Það sem hefur því unnist við bætta áverkaskráningu í Slysaskrá Íslands hefur verið fjármagnað innan fjárhagsramma viðkomandi stofnana.

1    Örugg saman: www.landlaeknir.is/um-embaettid/greinar/grein/item35578/orugg-saman