Ferill 493. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 908  —  493. mál.
Svar


matvælaráðherra við fyrirspurn frá Líneik Önnu Sævarsdóttur um nýtingu lífræns úrgangs til áburðar.


     1.      Liggja fyrir upplýsingar um hversu mikið af lífrænum úrgangi fellur til árlega hér á landi og hversu stór hluti af honum er nýttur?
    Í byrjun apríl 2022 kom út skýrslan „Greining á magni lífrænna áburðarefna“ en hún er hluti af verkefni sem ber heitið „Sjálfbær áburðarframleiðsla – heildstæð nálgun á hringrásarhagkerfið“. 1 Skýrslan var unnin af starfsmönnum Matís og Landgræðslunnar. Verkefnið nýtur stuðnings Markáætlunar Rannís en auk framangreindra stofnana taka þátt í verkefninu Hafrannsóknastofnun, nýsköpunarfyrirtækið Atmonia og Landsvirkjun. Skýrslan er fyrsti hluti niðurstaðna þessa tímamótaverkefnis, en það stendur yfir til ársloka 2022.
    Eftirfarandi tafla byggist á upplýsingum sem fram koma í skýrslunni og sýnir magn lífræns úrgangs sem fellur til hér á landi. Að hluta til byggjast tölurnar í skýrslunni á opinberri skráningu lífrænna efna hjá Umhverfisstofnun en að hluta á útreiknuðu mati skýrsluhöfunda. Mat skýrsluhöfunda er að almennt megi gera ráð fyrir að það magn lífrænna efna sem til fellur sé varlega áætlað í skýrslunni.
    Ekki liggja fyrir nákvæmar upplýsingar um nýtingarhlutfall á lífrænum úrgangi þar sem formlegar mælingar á nýtingu hafa ekki farið fram. Umhverfisstofnun birtir upplýsingar um nýtingu fyrir fjóra neðstu flokkana 2 í töflunni en samkvæmt Umhverfisstofnun er um 19% af sláturúrgangi og 52% af leifum frá brennslu endurnýtt. Búfjáráburður úr hefðbundnum búskap er að mestu leyti nýttur sem áburður á tún bænda og til landgræðslu. Kjötmjöl er nýtt að mestu til landgræðslu og skógræktar. Mikill vilji er hjá stjórnvöldum til að nýta lífrænan úrgang mun betur en gert hefur verið hingað til og er það eitt af markmiðum ráðherra matvæla að gera enn betur í þessum efnum. Hér eru tækifæri sem þarf að nýta í þágu hringrásarhagkerfis og loftslagsmarkmiða.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


     2.      Hvar og hvernig er lífrænn úrgangur nýttur til áburðargjafar, við matvælaframleiðslu, landgræðslu eða skógrækt hér á landi?
    
Lífræn efni sem falla til í hefðbundnum landbúnaði eru að miklu leyti nýtt sem áburður á tún bænda og til landgræðslu. Fyrir hendi eru tækifæri til að bæta nýtingu búfjáráburðar og má geta þess að matvælaráðuneytið hefur gert samning við Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins, m.a. um ráðgjöf til bænda á því sviði. Þar er þá horft til þess að nýta lífræn efni sem best með tilliti til dreifingartíma, jarðvegsgerðar, næringarefnainnihalds og annarra þátta sem geta aukið uppskeru og dregið úr þörf fyrir tilbúinn áburð.
    Notkun lífrænna efna til landgræðslu hefur aukist hratt undanfarin ár og var um að ræða sexföldun á milli áranna 2015 og 2021. Samkvæmt upplýsingum frá Landgræðslunni var heildarmagn af lífrænum áburði sem notaður var til landgræðslu um 8.000 tonn árið 2021. Stærstur hluti hans var hænsna- og kjúklingaskítur, eða tæp 4.000 tonn. Að auki voru notaðar 3.450 heyrúllur í ýmis verkefni, svo sem til að græða upp rofabörð. Þá hefur nýting seyru aukist hröðum skrefum en árið 2021 voru um 870 tonn nýtt til landgræðslu.

     3.      Hvað verður um þann lífræna úrgang sem er ekki nýttur til áburðargjafar?
    Lífrænn úrgangur sem ekki nýtist annaðhvort til landgræðslu eða ræktunar hefur farið til urðunar. Aðeins lítill hluti af lífrænum úrgangi úr skolpi er nýttur, en afgangurinn fer um fráveitukerfin og endar í hafinu. Eitthvað hefur þó farið til eldsneytisframleiðslu, en magntölur vegna þess liggja ekki fyrir.

1    Sjá nánar: matis.is/wp-content/uploads/Matis-skyrsla-sjalfbaer-aburdur-2022.pdf
2    Dýrahræ, sláturúrgangur, fiskúrgangur og leifar frá brennslu.