Ferill 466. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 911  —  466. mál.
Svar


matvælaráðherra við fyrirspurn frá Andrési Inga Jónssyni um velferð dýra.


     1.      Hver er afstaða ráðherra til undanþága frá aðkomu dýralækna að aðgerðum og meðhöndlun dýra, þar á meðal klippingu á hala grísa, skv. 16. gr. laga um velferð dýra?
    4. mgr. 16. gr. laga um velferð dýra, nr. 55/2013, hljóðar svo: „Dýralæknum er einum heimilt að meðhöndla og framkvæma skurð- og læknisaðgerðir á dýrum. Öðrum er þó heimilt að framkvæma eftirfarandi hafi þeir fengið leyfi til þess samkvæmt lögum um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr:
a. læknisaðgerðir samkvæmt tilvísun frá dýralækni,
b. sæðingar sauðfjár, geitfjár, nautgripa, svína, refa, kalkúna, hæna og kanína,
c. fangskoðanir nautgripa,
d. klippingu á hala grísa,
e. örmerkingar.“
    Grein þessi vísar til laga nr. 66/1998, um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr, nánar tiltekið í 6. gr. a þar sem segir: „Rétt til þess að starfa hér á landi sem heilbrigðisstarfsmaður dýra hefur sá einn sem lokið hefur prófi í einhverri grein heilbrigðisfræði dýra eða lokið námskeiði á viðkomandi sviði viðurkenndu af Matvælastofnun og fengið leyfi stofnunarinnar.
    Ráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um nám og menntunarskilyrði fyrir hverja starfsgrein sem hann ákveður að fella undir lög þessi.“
    Fyrrnefnd reglugerð hefur ekki enn verið sett en núverandi ráðherra hefur þegar skipað starfshóp sem hefur það hlutverk að gera tillögu að nýrri reglugerð og er áætlað að hópurinn skili tillögum sínum 1. júní 2022. Ráðherra þykir rétt að bíða með að taka afstöðu til einstakra krafna, svo sem um nám eða menntunarskilyrði, sem gerðar verða fyrir hverja starfsgrein þar til tillögur starfshópsins liggja fyrir.

     2.      Hver er afstaða ráðherra til undanþáguheimilda 21. gr. laganna um aflífun dýra, hvað varðar gildruveiði minka og aflífun loðdýra með útblæstri véla?
    Í 2. mgr. 21. gr. eru svohljóðandi ákvæði „Óheimilt er að aflífa dýr með því að drekkja þeim nema um sé að ræða gildruveiði minka sem hluta af skipulögðum aðgerðum til að halda minkastofninum í skefjum sem heimil er samkvæmt ákvæðum laga um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum. Slík gildruveiði er þó aðeins heimil að hún hafi verið tilkynnt Umhverfisstofnun. Einnig er óheimilt að aflífa dýr með útblæstri véla, nema við aflífun loðdýra ef um er að ræða vélar sem eru sérstaklega hannaðar og framleiddar til aflífunar loðdýra og notkun vélar hefur verið samþykkt af Matvælastofnun.“
    Við þinglega meðferð frumvarpsins árið 2013 voru skiptar skoðanir um undanþágur frá banni við drekkingum og hlaut heimildin til drekkingar minka mikla og víðtæka gagnrýni. Ákvæðið um heimild til aflífunar loðdýra með útblæstri sérstaklega hannaðra véla hlaut ekki viðlíka gagnrýni. Ráðherra telur ekki óeðlilegt að staldra við og kanna hvernig undanþáguákvæðin hafa reynst í þessi átta ár sem liðin eru frá gildistöku laganna og hyggst því leita upplýsinga hjá viðkomandi stofnunum og hlutaðeigandi aðilum um þá reynslu.

     3.      Telur ráðherra ástæðu til að endurskoða framangreind ákvæði laganna?

    Ráðherra telur eðlilegt að bíða með að taka afstöðu til þess hvort rétt sé að endurskoða undanþáguákvæðin þar til upplýsingar um reynslu af þeim liggur fyrir, sbr. svar 2. tölul. fyrirspurnarinnar.