Ferill 465. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 915  —  465. mál.
Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Hafdísi Hrönn Hafsteinsdóttur um björgun og sjúkraflutninga Landhelgisgæslunnar á Suðurlandi.


     1.      Hver er staða verkefnis sem snýr að björgunar- og sjúkraþyrlum Landhelgisgæslunnar á Suðurlandi?
    Sjúkra- og björgunarþyrlur Landhelgisgæslunnar (LHG) lúta stjórn og ábyrgð dómsmálaráðuneytis bæði rekstrarlega og faglega. Breytingar á þjónustu og fjárfesting í mannafla og búnaði Landhelgisgæslunnar er því á ábyrgð dómsmálaráðherra og ber að beina frekari spurningum um framtíðarverkefni LHG þangað.
    Í gildi er samningur milli Landhelgisgæslunnar og Sjúkratrygginga Íslands um sjúkraflutning með þyrlum á flugsvæði sjúkraflugs (Mýflug er nú rekstraraðili sjúkraflugs) á norður- og austursvæði landsins auk Vestmannaeyja og Vestfjarða, vegna erfiðra veðurskilyrða. Aðeins um 10% af öllum sjúkraflutningum með þyrlum Landhelgisgæslunnar falla undir þennan samning.
    Starfshópur á vegum heilbrigðisráðherra skilaði skýrslunni Aukin aðkoma þyrlna að sjúkraflugi í ágúst 2018 þar sem aðkoma Landhelgisgæslunnar var m.a. til skoðunar. Starfshópurinn var sammála um mikilvægi þess að efla sjúkraflutninga með þyrlum en ekki um leiðir að því marki. Meiri hlutinn, eða fimm af sjö meðlimum, vildi ná markmiðinu með þyrlum LHG sem einnig sinna leit og björgun en minni hlutinn vildi starfrækja sérstaka sjúkraþyrlu utan Landhelgisgæslunnar. Tilraunaverkefni um sérhæfða sjúkraþyrlu hefur verið lagt fram í fjármálaáætlun en fjármögnun verkefnisins hefur ekki verið samþykkt.
    Til að bæta verklag, hámarka viðbragðstíma og leggja mat á framhaldið lagði starfshópurinn til að komið yrði á samráðshóp með aðkomu lykilaðila í sjúkraflugi. Stefnt er að því að samráðshópurinn hefji störf innan skamms.

     2.      Hvernig er mönnun á þyrlum Gæslunnar háttað, þ.m.t. með tilliti til bakvakta?
    Samkvæmt svari Landhelgisgæslunnar við fyrirspurn heilbrigðisráðuneytisins er vaktakerfi áhafna Landhelgisgæslunnar með þeim hætti að þrjár til fjórar áhafnir þarf til að manna eina björgunarþyrlu allt árið um kring. Til að manna tvær viðbragðshæfar áhafnir meginhluta ársins hefur Landhelgisgæslan talið nauðsynlegt að hafa sjö fullþjálfaðar áhafnir í sinni þjónustu, en sem stendur eru þær sex. Tvær áhafnir eru á bakvakt hverju sinni um 65% ársins. Í hverri áhöfn eru tveir flugmenn, stýrimaður sem jafnframt er sigmaður, flugvirki sem jafnframt er spilmaður og læknir, þó einungis á annarri af tveimur bakvöktum þyrlunnar hverju sinni. Áhafnirnar eru allar á bakvöktum.

     3.      Hver er meðalviðbragðstími þyrlnanna við útköll?
    Meðalviðbragðstími þyrlna Landhelgisgæslunnar er í kringum 30 mínútur sem er töluvert undir viðmiðum um ásættanlegan viðbragðstíma sem er ein klukkustund samkvæmt upplýsingum frá Landhelgisgæslunni. Flug að Selfossi tekur um u.þ.b. 12 mínútur frá Reykjavík og flug þyrlna til Vestmannaeyja frá Reykjavík tekur um 25 mínútur svo dæmi séu tekin.